Aldrei hafa fleiri uppljóstrarar verið ákærðir í Bandaríkjunum en í forsetatíð Barack Obama. Stjórnvöld þar í landi hafa notast við gömul njósnalög (e. the Espionage Act) til að ákæra uppljóstrara og fjölmargir þeirra sitja nú í fangelsi eða hafa flúið til annarra landa. Upplýsingarnar sem lekið hefur verið eru margs konar en þær geta verið leynileg eða viðkvæm gögn á vegum ríkja eða fyrirtækja. Uppljóstrarar koma þessum gögnum síðan til lögfræðinga, fjölmiðla eða annarra stofnanna sem koma fyrir augu almennings með einum eða öðrum hætti.
Á tímum rafrænna upplýsinga er hugsanlega ennþá auðveldara að safna gögnum, afrita og deila en nokkurn tímann áður. Það gæti skýrt fjölgun uppljóstrana og viðbrögðin við þeim. Internetið hefur líka átt sinn þátt í að auðvelda aðgengi almennings að lekagögnum og aldrei hefur verið eins auðvelt að fara í gegnum ógrynni skjala á tölvutæku formi. Fjölmörg nýleg dæmi eru um gagnaleka af ýmsum toga.
Dagblað krefst ákæru á hendur heimildarmanni
Dagblaðið Washington Post komst á spjöld sögunnar á dögunum fyrir að gefa út yfirlýsingu þar sem hvatt er til að heimildarmaður þeirra sé sóttur til saka. Blaðið gengur jafnvel svo langt að hvetja hann að koma aftur til Bandaríkjanna til að horfast í augu við eigin afbrot og taka afleiðingunum. Hann eigi að vera tilbúinn að standa fyrir framan jafningja sína í kviðdómi og verja sig. Í greininni segir að það væri vissulega í anda þeirra sem stunda borgaralega óhlýðni, að þeir hafi alltaf verið reiðubúnir að fara í fangelsi.
Í öllu falli leggur ritstjórn blaðsins til að stjórnvöld og Snowden komist að einhvers konar niðurstöðu eða málamiðlun um refsingu fyrir brot hans. Segja má með sanni að þessi afstaða sé sérstök í ljósi þess að blaðið birti og notaðist við upplýsingar sem lekið var.
Þessi afstaða Washington Post hlýtur að vekja upp margar spurningar innan fjölmiðlageirans og hjá blaðamönnum. Þetta er sérstaklega áhugavert fyrir þær sakir að blaðið vann til Pulizer-verðlauna í apríl 2014 fyrir umfjöllun byggða á upplýsingum frá Snowden.
Ritstjórn gegn blaðamönnum
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ritstjórn blaðsins lýsir yfir áhyggjum sínum vegna upplýsingaleka Snowdens. Í júlí 2013, mánuði eftir lekann, birtist ritstjórnargrein þar sem hugleitt var hvernig hægt væri að stöðva upplýsingalekann til þess að hagsmunum Bandaríkjanna yrði ekki ógnað frekar. Og þrátt fyrir að viðurkenna að sumar upplýsinganna varði almannahagsmuni, eins og njósnir yfirvalda á almennum borgurum, þá virtust áhyggjurnar beinast að hinum gögnum sem Snowden tók.
Hin þrjú blöðin sem birt hafa mikið af þeim gögnum sem Snowden lak hafa komið fram og stutt hann opinberlega. Þetta eru blöðin Intercept, New York Times og Guardian en þau hafa beðið bandarísk yfirvöld að leyfa honum að snúa aftur án þess að eiga yfir höfði sér ákæru.
Ný bíómynd um Snowden
Edward Snowden er sá sem um ræðir en hann er einn frægasti uppljóstrari nútímans. Hann lak gögnum um viðamikið eftirlit bandarískra yfirvalda með þegnum sínum í júní 2013 en hann vann á þeim tíma hjá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, sem hafði eftirlit með síma- og netnotkun í tæplega tvöhundruð löndum. Ekki er vitað nákvæmlega hversu yfirgripsmiklar upplýsingarnar voru sem Snowden lak en skjölin hlaupa á tugum þúsunda og hafa að geyma upplýsingar um bresku, bandarísku og áströlsku leyniþjónustuna.
Eftir frumsýningu kvikmyndar Oliver Stone um Edward Snowden, sem nefnist einfaldlega Snowden, hafa mannréttindasamtökin, Amnesty International, efnt til netákalls. Þau krefjast þess að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, veiti Edward Snowden sakaruppgjöf en hann heldur nú til í Rússlandi.
Mega ekki verja sig
Njósnalögin (e. the Espionage Act) eru lög frá árinu 1917 sem notuð eru í dag til að ákæra uppljóstrara fyrir að deila óopinberum gögnum. Vandinn sem uppljóstrarar standa frammi fyrir þegar þeir eru ákærðir er að þeir geta ekki borið fyrir sig þeirri vörn að uppljóstrunin hafi verið í almannaþágu.
Jeffrey Alexander Sterling er einn þessara uppljóstrara. Hann er bandarískur lögfræðingur og fyrirverandi starfsmaður CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna. Hann var dæmdur fyrir að brjóta títtnefnd njósnalög með því að leka upplýsingum um aðgerðir stjórnvalda þar í landi til að grafa undan kjarnorkustefnu annarra landa.
Thomas Drake, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA), var ákærður fyrir að brjóta njósnalögin. Hann hélt því aftur á móti fram að hann væri ofsóttur fyrir að efast um gagnsemi svokallaðar Trailblazer-aðgerðar NSA. Hann var þó aðeins dæmdur fyrir smávægileg brot og hefur hann æ síðan verið aðgerðarsinni sem mótmælir eftirlitsstefnu stjórnvalda.
Chelsea Manning er fyrrverandi hermaður sem heimsbyggðin hefur fylgst með síðan hún lak leynilegum gögnum um stíðið í Íran og Afganistan á síðuna WikiLeaks. Hún var dæmd í júlí 2013 fyrir meðal annars að brjóta njósnalögin og situr nú 35 ára dóminn af sér. Hún komst nýverið í fréttirnar fyrir að fara í hungurverkfall til að mótmæla slæmri meðferð í fangelsi.
Julian Paul Assange er ástralskur forritari og blaðamaður sem er frægastur fyrir að stofna lekasíðuna WikiLeaks. Hann er einnig eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir margs konar brot, meðal annars fyrir að aðstoða Chelsea Manning, og rannsókn yfir Assange stendur enn yfir. Hann dvelur nú í sendiráði Ekvador í London en hann á yfir höfði sér ákæru fyrir nauðgun í Svíþjóð. Yfirvöld í Svíþjóð hafa ekki séð sér fært að lofa að framselja hann ekki til Bandaríkjanna.