Miðað við nýjustu kosningaspá verður flókið mál að mynda ríkisstjórn án aðkomu fleiri flokka en tveggja. Í kosningaspánni sem gerð var í gær, 23. september, er Sjálfstæðisflokkurinn enn stærstur en með 25,1 prósent fylgi. Píratar eru næst stærsti flokkurinn en hafa ekki mælst minni allt þetta ár og eru með 24,1 prósent fylgi.
Fylgið heldu áfram að jafnast út meðal framboðanna því Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist nú með 13,3 prósent á landsvísu, Viðreisn mælist með 11,0 prósent, Framsóknarflokkurinn með 10,1 prósent og Samfylkingin með 8,4 prósent. Björt framtíð mælist með 3,2 prósent og önnur framboð samanlagt með 4,8 prósent.
Samanlagt munu tveir stærstu flokkarnir fá minna en helming atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Samanlagt eru þeir með 49,2 prósent atkvæða. Í grófum útreikningum Kjarnans kemur hins vegar í ljós að flokkarnir muni hafa samanlagðan meirihluta þingmanna eða 34. Sjálfstæðisflokkurinn mun, samkvæmt útreikningunum, fá 17 þingmenn og Píratar 17.
Þeir fyrirvarar eru þó gerðir á útreikningunum að hér er um beina hlutfallstölu af heildarfjölda þingmanna að ræða. Til þess að fá hlutfallslegan fjölda þingmanna á hvert framboð þurfa framboðin að njóta minnst fimm prósent fylgis í nýjustu kosningaspánni til þess að „ná kjöri“. Þeir flokkar sem eftir standa deila þá með sér 63 þingsætum í réttu hlutfalli við fylgi sitt í kosningaspánni.
Þær skekkjur sem augljóslega eru á útreikningunum eru til dæmis að fjöldi þingmanna úr hverju kjördæmi er mismunandi og það er fylgi flokkanna líka eins og sést ef rýnt er í kosningaúrslit síðustu ára. Þá eiga jöfnunarþingmenn eftir að koma til en það er aðferð sem notuð er til þess að vega upp á móti misvægi atkvæða milli kjördæma. Kjarninn treystir sér ekki til þess að spá fyrir um fjölda þingmanna eftir fylgi í hverju kjördæmi enda liggja ekki fyrir nógu ítarlegar og margar kannanir á sundurliðuðu fylgi framboða eftir kjördæmum.
Möguleg stjórnarmynstur
Ef eitthvað er að marka þessar niðurstöður munu Sjálfstæðismenn verða 17 á komandi kjörtímabili og þingmenn Pírata 17. Samanlagt gætu engir aðrir tveir flokkar myndað tveggja flokka meirihluta á þinginu. Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Píratar gætu tekið annan með sér í meirihlutastjórn. Vilji þeir ekki vinna saman mun þurfa þrjá eða fleiri flokka í samsteypustjórn.
Fylgi í kosningaspá, hlutfall þingsæta og fjöldi þingmanna
Framboð | Fylgi | % Alþingi | Þingmenn | |
---|---|---|---|---|
Sjálfstæðisflokkurinn (D) | 25.1% | 25.1 | 27.3% | 17 |
Píratar (P) | 24.1% | 24.1 | 26.2% | 17 |
Vinstri hreyfingin - grænt framboð (V) | 13.3% | 13.3 | 14.5% | 9 |
Viðreisn (C) | 11.0% | 11 | 12.0% | 8 |
Framsóknarflokkurinn (B) | 10.1% | 10.1 | 11.0% | 7 |
Samfylkingin (S) | 8.4% | 8.4 | 9.1% | 6 |
Björt framtíð (A) | 3.2% | 3.2 | 0.0% | 0 |
Aðrir* | 4.8% | 4.8 | 0.0% | 0 |
Samtals | 100.0% | 100 | 100.0% | 63 |
Sex minnihlutastjórnir hafa verið myndaðar hér á landi, þar af fjórar á lýðveldistímanum. Þær hafa yfirleitt verið myndaðar til bráðabirgða og hafa þá ekki verið langlífar. Þessar minnihlutastjórnir eiga það allar sameiginlegt að hafa verið myndaðar eftir að ósætti milli stjórnarflokka sprengdi meirihlutasamstarf. Alltaf hefur það verið einn af flokkum fráfarandi stjórnar sem myndað hefur minnihlutastjórnina. Síðasta minnihlutastjórnin var fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur sem varð til í janúar 2009 og brúaði bilið á milli ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og kosninganna í apríl 2009. Sú stjórn var varin falli af Framsóknarflokknum. Verði til minnihlutastjórn eftir kosningarnar í haust verður sú minnihlutastjórn merkileg í þessu tilliti.
Hér verður hins vegar reynt að púsla saman meirihlutasamstarfi og koma nokkur mynstur til greina. Þetta er allt gert án þess að taka til greina hugsanleg ágreiningsmál sem hamlað gætu samstarfi.
Samanlagður fjöldi þingsæta miðað við kosningaspá 23. september *
Til að ráða meirihluta þingsæta þá þarf 32 þingsæti. Í samsteypustjórn tveggja flokka myndi aðeins samstarf Sjálfstæðisflokks og Pírata duga.
+ | D | P | V | C | B | S |
---|---|---|---|---|---|---|
D | 34 | 26 | 25 | 24 | 23 | |
P | 34 | 26 | 24 | 23 | 22 | |
V | 26 | 26 | 17 | 16 | 15 | |
C | 25 | 24 | 17 | 14 | 13 | |
B | 24 | 23 | 16 | 14 | 13 | |
S | 23 | 22 | 15 | 13 | 13 |
* Reiknað út frá fylgi framboða á landsvísu. Framboð með minna en fimm prósent fylgi fengu ekkert vægi, enda er miðað við að framboð nái kjöri sé hann með meira en fimm prósent fylgi á landsvísu.
Búið er að nefna möguleikann á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Pírata sem hefði 34 þingmanna meirihluta. Það verður hins vegar að teljast nokkuð tæpur meirihluti á þinginu, sérstaklega með Pírata innanborðs, í samanburði við sterkan meirihluta ríkisstjórnarinnar sem nú situr með 38 þingmenn gegn 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Innan beggja flokka (Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks) er mikil hefð fyrir því að ganga eftir flokkslínum og styðja mál ríkisstjórnarinnar. Píratar verða að teljast ólíklegir til þess að styðja mál jafn skilyrðislaust.
Ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er nokkuð örugglega fallið. Samanlagt njóta þessir flokkar aðeins 35,2 prósent fylgis í kosningaspánni. Eftir grófa útreikningana verður samanlagður þingmannafjöldi þeirra aðeins 24 (D + B); minni en minnihlutinn á þinginu ræður yfir nú. Ef stjórnarflokkarnir kippa Viðreisn með sér um borð verður til eins tæpur meirihluti og hægt er með akkúrat 32 þingmenn (D + B + C).
Píratar gætu ekki myndað meirihluta með vinstriflokkunum Vinstri grænum og Samfylkingunni (P + V + S) en ef Viðreisn er skipt út fyrir Samfylkinguna verður til eins manns meirihluti (P + V + C).
Sé vilji til þess að meirihlutasamstarf verið myndað yfir miðjuna og til vinstri í hinu pólitíska litrófi er hægt að mynda sterkan 39 þingmanna meirihluta með samstarfi Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Viðreisnar (P + V + S + C). Samanlagt njóta þessir fjórir flokkar 56,8 prósent fylgis á landsvísu samkvæmt kosningaspánni.
Samstarfsmöguleikar, fylgi og þingsætafjöldi
Samstarf | Samanlagt fylgi | 31 < 32 | Til að ná meirihluta |
---|---|---|---|
P + V + S | 45.8% | 31 | -1 |
P + V + C | 48.4% | 33 | 1 |
P + C + S | 43.5% | 30 | -2 |
D + B | 35.2% | 24 | -8 |
D + B + C | 46.2% | 32 | 0 |
P + V + S + C | 56.8% | 39 | 7 |
D + P | 49.2% | 34 | 2 |
Hvar lendir „stjórnarmyndunarumboðið“?
Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands í sumar og mun þess vegna takast á við stjórnarmyndun í fyrsta sinn eftir kosningarnar í haust. Spennandi verður að sjá hvaða hlutverk Guðni vill taka sér í stjórnarmyndunarviðræðunum. Forveri hans í embætti sá forsetaembættið sem mikilvægan hlekk milli leiðtoga stjórnmálaflokkanna og taldi sig þurfa að veita flokkum „stjórnarmyndunarumboð“.
Það eru hins vegar ekki allir sammála um að forsetinn þurfi að leiða stjórnmálaleiðtoga í gegnum stjórnarmyndanir eins og leiksskólabörn; sérstaklega ef það liggur beint fyrir hvaða flokkar eru að fara að ræða saman um hugsanlegt samstarf. Þannig var það eftir kosningarnar 2013, þegar Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddu saman um stjórnarmyndun.
Þá fór Sigmundur Davíð á Bessastaði og þáði stjórnarmyndunarumboð af Ólafi Ragnari. Þá þótti Framsóknarflokkurinn hafa unnið kosningasigur og var þess vegna réttmætur handhafi þessa umboðs. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hins vegar fleiri atkvæði í kosningunum.
Guðni Th. Jóhannesson, nýr forseti, á þess vegna vandasamt verkefni fyrir höndum ef niðurstöður kosninganna verða eins og kosningaspáin sýnir. Munu Píratar fá stjórnarmyndunarumboð í krafti „kosningasigurs“ eða munu Sjálfstæðismenn fá að ráða ferðinni? Hvað með nýja flokka á borð við Viðreisn sem mælast með töluvert fylgi á landsvísu?
Sem sagnfræðingur rannsakaði Guðni forsetaembættið. Hann hefur því nokkra innsýn í hvaða fordæmi eru til staðar ef stjórnarkreppa verður eftir kosningarnar.
Um kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af þremur nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrirfram ákveðnum atrðinum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd k-nnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Í kosningaspánni 16. september er það næst nýjasta könnunin sem hefur mest vægi. Helgast það aðallega af lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda í könnuninni, miðað við hinar tvær sem vegnar eru. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
- Skoðanakönnun MMR 12. september – 19. september (vægi 31,8%)
- Þjóðarpúls Gallup 31. ágúst – 14. september (vægi 50,3%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 6.-7. september (vægi 17,9%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.