Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mest stuðnings í Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar með stuðning 25,3 prósent kjósenda. Píratar hafa tapað nokkru fylgi undanfarið og mælast nú með aðeins 21,9 prósent fylgi í Kosningaspánni sem gerð var 28. september.
Til samanburðar má geta þess að fyrir um hálfum mánuði mældust Píratar með 25,8 prósent. Stuðningur við framboð Pírata nú er jafnframt minni en hann hefur nokkru sinni verið á þessu ári í Kosningaspánni.
Síðan kosningaspáin var birt síðast á vef Kjarnans, laugardaginn 24. september hefur mest breyting verið á fylgi stærstu framboðanna; Sjálfstæðisflokks og Pírata. Stuðningur við önnur framboð er nánast óbreyttur frá frá því síðast, en tvær nýjar kannanir liggja nýjustu spánni til grundvallar síðan hún var gerð síðast.
Vinstri græn mælast nú með 12,7 prósent stuðning, Framsókn með 11,2 prósent og Viðreisn með 11,1 prósent. Samfylkingin mælist með 8,2 prósent fylgi og Björt framtíð með 3,9 prósent. Tveir nýir listabókstafir fá sína eigin súlu í Kosningaspánni í þetta sinn, það er E fyrir Íslensku þjóðfylkinguna og T fyrir Dögun. Til þess að framboð fái sér súlu þurfa þau að hafa meira en eitt prósent fylgi í Kosningaspánni. Önnur framboð eru dregin saman undir „Aðrir“.
Upplýsingar settar í samhengi
Kosningaspáin er birt vikulega hér á vef Kjarnans og á vefnum kosningaspa.is. Hún byggir á reiknilíkani Baldurs Héðinssonar þar sem nýjustu kannanir á fylgi framboða til Alþingis eru teknar saman og settar í samhengi við þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um fylgi framboða. Aðeins kannanir sem standast grunnskilyrði faglegrar aðferðafræði eru teknar gildar.
Kosningaspá Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins munu birtast fjöldinn allur af skoðanakönnunum sem byggja þó ekki allar á sömu aðferðafræði. Sumar kannanir eru gerðar yfir lengra tímabil en aðrar, og einhvers staðar eru niðurstöður í könnunum byggðar á svörum fleiri en annars staðar. Það getur þess vegna verið ruglingslegt fyrir hinn almenna neytanda frétta af stjórnmálum að átta sig á landslaginu.
Í reiknilíkaninu eru kannanirnar sem gerðar eru opinberar settar í samhengi við hvor aðra á hlutlægan hátt. Stærri könnun mun hafa meira vægi en minni könnun vegna þess að fleiri svör búa að baki. Eldri könnun mun hafa minna vægi en sú sem er nýrri enda lýsir ný könnun stjórnmálalandslaginu eflaust betur. Einnig mun sú könnun sem gerð er yfir lengra tímabil hafa meira vægi en sú sem gerð er á styttri tíma.
Fjórar mismunandi kannanir
Kosningaspáin sem er til umfjöllunar í dag (gerð 28. september 2016) byggir á niðurstöðum fjögurra nýjustu kannananna sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í alþingiskosningunum. Allar fá þær mismunandi vægi eftir þeim breytum sem taldar voru upp hér að ofan. Kannanirnar eru:
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 26. september (vægi 20,8%)
- Skoðanakönnun MMR 20. september – 26. september (vægi 30,4%)
- Skoðanakönnun MMR 12. september – 19. september (vægi 21,0%)
- Þjóðarpúls Gallup 31. ágúst – 14. september (vægi 27,8%)
Kannanirnar fjórar eru gerðar af þremur könnunaraðilum; Fréttablaðinu, MMR og Gallup. Þessir aðilar styðjast við mismunandi aðferðafræði við gagnaöflun og birtast ákveðnir þættir þessara ólíku hátta í kosningaspánni.
Einfaldast er að sjá hvernig lengd könnunartímabilsins hefur áhrif á vægi kannanna í kosningaspánni. Könnunin sem gerð er á einum degi (Fréttablaðið 26. september) fær minnst vægi í hópi þessara fjögurra kannanna, jafnvel þó hún sé nýjasta könnunin.
Næst kemur næst nýjasta könnunin (MMR 20.-26. september) var gerð á sjö dögum og er með mest vægi í hópi þessara fjögurra kannana. Elsta könnunin (Gallup 31. ágúst - 14. september) vegur næst þyngst, en sú könnun var gerð yfir tveggja vikna tímabil og í henni var fleiri svörum safnað en í hinum könnunum. Aðrar aðferðir við gagnaöflun, ss. úthringingar, netkannanir eða spurningalistar, eru ekki vegnar í Kosningaspánni.
Samanlagt eru kannanirnar tvær frá MMR gerðar á svipað löngu tímabili og Gallup-könnunin. Samanlagt hafa kannanir MMR meira en helmings vægi í Kosningaspánni eða 51,4 prósent. Þegar þessar kannanir eldast minnkar vægi þeirra og að lokum verða þær ekki teknar með, því nýjar kannanir liggja til grundvallar nýjum Kosningaspám.
Fyrst í sveitarstjórnarkosningum 2014
Kosningaspárlíkanið sem stuðst er við hér var fyrst keyrt fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin. Í ár var kosningaspáin svo gerð í aðdraganda forsetakosninga og nú í aðdraganda alþingiskosninganna. Lesa má um kosningaspána og hverja kosningaspá hér.
Spálíkanið sem Baldur hefur útbúið byggir að verulegu leyti á aðferðum Nate Silver. Um það má lesa hér. Vefurinn FiveThirtyEight.com fjallar nú um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og dregur saman, á sama hátt og Kosningaspáin gerir hér á landi, allar marktækar kannanir stuðningi frambjóðenda. Í Bandaríkjunum eru kannanirnar vitanlega æðimargar og mismunandi þannig að hægt er að varpa ítarlegri mynd af stuðningi frambjóðendanna.