Íslandsbanki kynnti í gær nýja ítarlega skýrslu um íbúðamarkaðinn. Í henni er farið yfir horfur á markaðnum, hvernig hann hefur þróast á undanförnum árum og hvaða þættir það eru helst sem eru að hafa áhrif á hann.
1. Í spá sem birtist í skýrslunni er gert ráð fyrir að fasteignaverð muni halda áfram að hækka. Á þessu ári verði raunverðshækkunin 7,8 prósent á næsta ári 9,4 prósent og árið 2018 verði hækkunin 3,4 prósent.
2. Ástæðan fyrir áframhaldandi hækkunum er vaxandi kaupgeta á markaðnum, meðal annars vegna batandi stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar, mikil og vaxandi eftirspurn á meðan framboð hefur ekki fylgt henni eftir, og síðan mikil áhrif af vexti í ferðaþjónustunni.
3. Í spánni er gert ráð fyrir að kaupmáttur launa muni aukast um tíu prósent á þessu ári, 5,2 prósent á því næsta og 2,3 prósent á árinu 2018. Aukinn kaupmáttur launa mun því áfram skapa þrýsting til hækkunar á verði íbúða.
4. Eftir hrun fjármálakerfisins, haustið 2008, má segja að fasteignamarkaðurinn hafi frosið. Húsbyggingar stöðvuðust einnig. Segja má að markaðurinn sé nú að súpa seyðið af þessu. Árleg endurnýjunarþörf á markaðnum er talin vera um 1.800 íbúðir, en byggingar voru töluvert undir því á árunum eftir hrun. Þrýstingur á nýbyggingar varð því meiri fyrir vikið, með þeim áhrifum að fasteignaverð hækkaði.
5. Í mars 2016 voru 2.278 íbúðir í eigu fjármálastofnana, en tæp 60 prósent af þeim voru í útleigu. Meira en helmingur íbúða er í eigu Íbúðalánasjóðs (56 prósent) en sjóðurinn átti 1.287 íbúðir í mars 2016. Fjöldi íbúða í eigu fjármálastofnana hefur minnkað síðustu ár, en árið 2013 áttu fjármálastofnanir að meðaltali 3.500 íbúðir. Í júlí 2016 átti Íbúðalánasjóður 809 eignir og um 41 prósent þeirra voru í söluferli en sala á íbúðum sjóðsins hefur gengið vel á árinu en seldar hafa verið um 698 íbúðir. Íbúðalánasjóður stefnir á að vera búinn að ljúka sölu á flestöllum sínum íbúðum undir árslok 2016.
6. Þrátt fyrir að hlutfall smærri íbúða (íbúðir undir 110 fermetrum) sé hæst á höfuðborgarsvæðinu (55 prósent) af öllum landshlutum bendir verðþróun á slíkum íbúðum til þess að um sé að ræða skort á þeim og að hlutfall smærri íbúða þurfi því að vera enn hærra. „Hefur verð smærri íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað umfram þeirra sem stærri eru. Þannig hefur verð íbúða í stærðarflokkunum 0-70m2 hækkað um 42 prósent og 70-110m2 um 32 prósent frá árinu 2010. Til samanburðar hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í heild hækkað um 29% yfir sama tímabil,“ segir í skýrslunni.
7. Í skýrslunni er vitnað til rannsóknar sem gerðar hafa verið á viðhorfi fólks til leigu og kaups. Flestir myndu vilja búa í eigin húsnæði, samkvæmt þeim. „Tvær viðamiklar kannanir á húsnæðismálum voru framkvæmdar á meðal eigenda og leigjenda á húsnæðismarkaðinum af Gallup fyrir velferðarráðuneytið á tímabilinu 19. nóvember til 9. desember 2015. Kom þar m.a. í ljós að um 90% leigjenda töldu að óhagstætt væri að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi um þessar mundir. Ef nægilegt framboð væri á bæði öruggu leiguhúsnæði og húsnæði til kaups myndu 77% leigjenda og 95% eigenda frekar vilja eiga húsnæði sitt.“
8. Útlit er fyrir að á höfuðborgarsvæðinu verði flestar íbúðir byggðar í Reykjavík, eða 3.305 talsins, og fæstar á Seltjarnarnesi, eða 104. Þetta kemur fram í skýrslunni. Sérstaklega er þó tekið fram að hlutfallsleg aukning íbúða verði mest í Mosfellsbæ (25,1%) og minnst í Reykjavík (6,5%) og á Seltjarnarnesi (6,2%) yfir tímabilið.
9. Hlutfall leigjenda á Ísland er 22,2 prósent. Það er fremur lágt í alþjóðlegum samanburði en þó hærra en í Noregi, þar sem hlutfallið er 17,2 prósent. Í Danmörku er hlutfallið 37,3 prósent.
10. Íbúðaverð á landinu hóf að taka við sér eftir árið 2010 og síðan þá hefur meðalverð á hvern fermetra hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 29 prósent. Þar á eftir koma Norðurland eystra (22 prósent), Suðurland (14 prósent) og Vesturland (9 prósent). Minnsta hækkunin hefur svo átt sér stað á Vestfjörðum (6 prósent).