Í Washington-ríki í norðvesturhluta Bandaríkjanna er mikill efnahagslegur uppgangur. Einkum og sér í lagi á Seattle-stórsvæðinu. Í borginni sjálfri búa 652 þúsund manns en á stórsvæði borgarinnar, með nærsveitarfélögum meðtöldum, eru 3,7 milljónir. Í ríkinu sjálfu eru íbúar rúmlega sjö milljónir.
Ástæðurnar fyrir efnahagslegum uppgangi eru einkum þær að fjölbreyttar stoðir hagkerfisins á svæðinu eru nú flestar hverjar á miklu vaxtarskeiði. Stærstu fyrirtækin á svæðinu, einkum tækni- og smásölu fyrirtæki, hafa stækkað ört og sé mið tekið af áformum þeirra þá hefur aðeins sést í toppinn á ísjakanum. Þá hefur hafnarsvæðið blómstrað og útflutningur aukist mikið, einkum til Kína. Það má með sanni segja að hér sé hin bjarta hlið alþjóðavæðingarinnar sjáanleg.
Tenging við Ísland
Ísland hefur töluverða möguleika á svæðinu, af ýmsum ástæðum. Frá því að Icelandair hóf að fljúga í beinu flugi milli Seattle og Keflavíkur, árið 2009, hefur efnahagslegt samband þessa ríkis við Ísland styrkst. Þegar mest er, eru flug á milli Seattle og Keflavíkur sextán á viku. Óhætt er að fullyrða að þessi flugleið hafi opnað nýja möguleika fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi, en allt útlit er fyrir að bandarískir ferðamenn á Íslandi verði um 350 þúsund talsins á þessu ári.
En að öðru leyti eru viðskiptaleg tengsl ekki svo mikil. Marel og Hampiðjan eru með starfsemi á svæðinu, og tæknifyrirtæki hafa í gegnum tíðina einnig myndað hingað tengsl, ekki síst við risann Microsoft sem tengir sínar stóru og sterku tekjupípur um allan heim. Sé horft til talna Hagstofunnar þegar kemur að utanríkisverslun Íslands, þá liggja augljós tækifæri í því að efla viðskiptaleg tengsl við hávaxtarsvæðin í Bandaríkjunum.
Eitt augljósasta svæðið í þeim efnum er Seattle-svæðið. Árið 2015 nam utanríkisverslun Íslands við EES-markaðssvæðið í Evrópu um 489 milljörðum króna en sambærileg tala fyrir Bandaríkin var aðeins 35 milljarðar. Viðskiptin hafa þó farið vaxandi við Bandaríkin. Árið 2014 námu þau um 29 milljörðum, og voru 4,9 prósent af heildinni, en í fyrra var sama hlutfall komið í 5,7 prósent. Innflutningur hefur aukist mikið og má meðal annars rekja það til verslunar í gegnum netið.
Helsti efnahaglegi styrkur Seattle svæðisins er fjölbreytileiki. Sum fyrirtækjanna á svæðinu eru alþjóðlegir risar en önnur lítil og meðalstór, en þau hafa styrkt verulega útflutningshlið hagkerfisins á undanförnum árum.
Styrkleikum og einkennum hagkerfisins má skipta í tíu hluta.
1. Náttúrulegar undirstöður hagkerfisins eru ekki aðall svæðisins, en þær eru samt sterkar. Vöruflutningar á landi, í gegnum Washington ríki - til Kanada í norðri, Oregon í suðri og Idaho í austri - hafa farið vaxandi. Fátt bendir til annars en að sú þróun haldi áfram. Vöxturinn í því sem kalla má náttúruleg stoð liggur þó í hafnarsvæðinu. Seattle-Tacoma-Hampton svæðið er þriðja stærsta og mikilvægasta hafnarsvæði Bandaríkjanna, og í seinni tíð hefur svæðið verið eins konar miðpunktur mikilla vöruflutninga á Asíu markað. Þetta hafa fyrirtækin á svæðinu nýtt sér og það sama má segja um mörg alþjóðleg fyrirtæki sem hafa komið sér fyrir á svæðinu gagngert til að styrkja tengsl við vöxtinn í Asíu. Skemmtiferðaskip hafa einnig verið að fjölga stoppum sínum á svæðinu en í fyrra komu yfir milljón ferðamenn til svæðisins með skemmtiferðaskipum. Áður fyrr var þetta ekki vinsæl stoppistöð skemmtiferðaskipa.
2. Evrópa, Seattle, Asía. Þegar borgaryfirvöld hér á svæðinu eru að reyna að laða til sín fyrirtæki þá beina þau oft athyglinni að því, að Seattle sé brúin mikla - fyrir vörur, þjónustu, fólk og þekkingu af ýmsu tagi - bæði til Asíu og inn á Evrópumarkað, og til baka sömu leið. Í flæðinu þarna á milli er Seattle í miðjunni og nýtur góðs af því.
3. Þessi viðskiptaleið hefur sprungið út á undanförnum árum, ekki síst eftir fjármálakreppuna á árunum 2007 til 2009. Útflutningur hefur vaxið um 82 prósent frá Seattle svæðinu frá árinu 2009, og má einkum þakka það vaxandi viðskiptum fyrirtækja við Asíumarkað. Af um 67,2 milljarða Bandaríkjadala útflutningi (7.700 milljarðar) frá svæðinu í fyrra, voru viðskipti upp á 14,5 milljarða Bandaríkjadala til Kína. Af heildinni er útflutningur frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum umsvifamikill, en hann stendur undir 89 prósent af heildarupphæðinni. Stærsta viðskiptaland svæðisins í Evrópu er Bretland, en heildarútflutningur þangað nam í fyrra 2,4 milljörðum Bandaríkjadala eða sem nemur um 270 milljörðum. Til samanburðar þá nam heildarútflutningur Íslands til Bretlands 120 milljörðum í fyrra, og er Seattle-svæðið því meira en tvöfalt stærri útflytjandi til Bretlands en Ísland.
4. Maður er nefndur Bill Gates. Hann er næst auðugasti maður heims, en heildareignir hans eru nú metnar á 90 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 10 þúsund milljörðum króna. Ýmislegt má gera fyrir þann pening, en Bill Gates og kona hans Melinda, hafa ákveðið að gefa hann allan frá sér í góðgerðarstarf. Eignirnar eru bundnar í alls konar eignum, en grunnurinn að veldi hans má rekja til Microsoft, sem hann stofnaði ásamt Paul Allen og stýrði um árabil. En hvers vegna skiptir þessi maður svona miklu máli fyrir Seattle? Ákvörðun hans - og Allens - um að byggja Microsoft upp á Seattle svæðinu - þeirra heimasvæði - hefur haft gríðarlega mikil áhrif á hagkerfi svæðsins. Ekki nóg með að 44 þúsund starfi hjá Microsoft, með öllum margfeldisáhrifunum sem fylgja, heldur hefur Gates einnig byggt upp góðgerðastofnun hans og eiginkonu hans á svæðinu. Bill and Melinda Gates Foundation er með höfuðstöðvar í Seattle. Starf stofnunarinnar er umfangsmikið og fjölbreytt, og vex stöðugt.
5. Paul Allen hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja en hann er þekktur fyrir ríkulegan stuðning sinn við sprota á Seattle-svæðinu og einnig menningar- og íþróttastarf. Hann er helsti bakhjarl NFL-liðsins Seattle Seahawks, og hefur gefið borginni samtals tólf söfn - þar á meðal hið magnaða The Experience tónlistarsafn. Á síðustu árum hefur hann lagt áherslu á fasteignaviðskipti, og á meðal annars landið þar sem Amazon hefur byggt upp nýjar höfuðstöðvar sínar.
6. Mestu vaxtaráformin á svæðinu eru hjá Amazon. Jeff Bezos, stofnandi þess og forstjóri og langsamlega auðugasti maður heimsins, er með svo stórar hugmyndir um starfsemi Amazon í framtíðinni, að hluthafar fyrirtækisins hafa átt í erfiðleikum með að trúa því sem hann hefur borið á borð á undanförnum árum. Eignir Bezos eru nú metnar á 135 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 13.500 milljörðum króna.
Þrátt fyrir ótrúlega stórhuga áform hefur fyrirtækinu tekist að skila betri rekstrartölum en reiknað var með, og vöxturinn er ógnarhraður. Í ítarlegu bréfi til hluthafa, árið 2015, sagði hann að miklir kraftar væru að leysast úr læðingi í tækniheiminum sem margir áttuðu sig ekki á hversu magnaðir væru. Í dag eru um 40 þúsund starfsmenn hjá Amazon á Seattle-svæðinu, en í lok árs 2020 er því spáð að 70 þúsund manns - mest starfsmenn með tæknimenntun af ýmsu tagi - muni starfa hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið er nú að setja upp höfuðstöðvar númer 2, og stendur fyrir samkeppni meðal borga um staðsetningu þeirra. Markaðsvirðið er komið nærri 800 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 80 þúsund milljörðum króna.
7. Í dag er áætlað að tæplega 200 þúsund tölvu- og tæknimenntaðir einstaklingar séu við störf á svæðinu, og er vöxtur þar meira en 10 prósent á ári. Amazon, sem í grunninn er smásölurisi á netinu, er með áform um að feta sig inn á nýjar brautir þegar kemur að verslun, póstþjónustu, afþreyingu og margvíslegum öðrum þáttum.
Meðal annars eru uppi stór áform um að efla sölu á ferskvöru beint til heimila og stærri viðskiptavina (veitingastaða og stórmarkaða). Íslensk fyrirtæki ættu að gefa þessum áformum gaum, því eins og áformin líta út hjá Amazon þá mun skipta miklu fyrir matvælaframleiðendur í heiminum - meðal annars í sjávarútvegi - að átta sig á þeim miklu breytingum sem framundan eru í verslunargeiranum. Kaup fyrirtækisins á Whole Foods, og um 500 verslunum þess víðs vegar, eru liður í að efla þessa starfsemi og styrkja þjónustuna.
Amazon Go búðin, við höfuðstöðvarnar í Seattle, er síðan alveg sér kapítuli. Ótrúlega mögnuð tækni sem leyfir viðskiptavinum að ganga inn, ná í vörur og fara út, án þess að stoppa. Þegar út er komið kemur síðan strimillinn beint í símann.
8. Seattle hefur lengi verið hjartað í flugiðnaði í heiminum, þar sem risinn Boeing er með höfuðstöðvar sínar. Fyrirtækið er stærsti vinnuveitandi svæðisins, með um 80 þúsund fasta starfsmenn en með margfeldisáhrifum er talið að Boeing-hagkerfið taki til um 213 þúsund starfa.
Til samanburðar þá er vinnumarkaðurinn íslenski samtals 197 þúsund störf. Oft hefur verið nefnt, að Boeing sé mikilvægt mótvægi við sveiflurnar í öðrum geirum atvinnulífsins á svæðinu, því í niðursveiflum í gegnum síðustu áratugi hefur Boeing náð vopnum sínum með stórum samningum við Bandaríkjaher. Skammt frá höfuðstöðvum Boeing er herstöð Bandaríkjahers, þar sem starfa að jafnaði 56 þúsund manns. Þetta styrkir efnahag svæðisins.
Viðskiptsamband Boeing og Icelandair er með umfangsmestu viðskiptasamböndum íslensks fyrirtækis við alþjóðlegt fyrirtæki. Flugvélakaup eru risavaxin viðskipti, og umfang endurnýjunar flugflota Icelandair tekur til meira en 100 milljarða króna.
9. Háskólinn, University of Washington, hefur í áratugi verið einn af virtustu háskólum Bandaríkjanna, einkum og sér í lagi á sviði raunvísinda og verkfræði. Borgaryfirvöld, háskólinn og fyrirtæki á svæðinu hafa unnið skipulega að því að þróa háskólastarfið í takt við þarfirnar í atvinnulífinu á svæðinu. Skólinn hefur á sér einstaklega gott orð og hafa auðmenn á svæðinu styrkt hann veglega. Paul Allen, Jeff Bezos og Bill Gates hafa allir fjármagnað endurbætur á stórkostlegu háskólasvæði skólans. Þó fleiri háskólar á svæðinu hafi á sér gott orð, þá er UW stærstur þeirra og mikilvægastur þegar kemur að tengslunum við hagkerfið.
10. Sköpunarkraftur í menningarlífi hefur í seinni tíð verið eitt af helstu einkennum Seattle, ekki síst í Evrópu. Grunge-rokkbylgjan, sem varð til í vesturhluta Seattle fyrir um aldarfjórðungi, hafði mikil áhrif á tísku- og tónlistarstrauma, og gætir þessara áhrifa enn. Þetta tímabil fær ríkulegan sess á fyrrnefndu tónlistarsafni sem Paul Allen gaf borginni.
Einn af áhrifamestu mönnum í Seattle-hagkerfinu, að mati ritstjórnar Seattle-tímaritsins, er Jonathan Poneman, sem var annar stofnenda Sub Pop Records, sem hagnaðist vel á útgáfu hljómsveita frá svæðinu, meðal annars Soundgarden, Nirvana, Pearl Jam og Alice in Chains, og hefur í seinni tíð einbeitt sér að fyrstu skrefum tónlistarmanna þegar kemur að útgáfu.
Borgaryfirvöld leggja mikið upp úr því að tengja þessa ímynd borgarinnar við ferðaþjónustu á svæðinu, og viðhalda þannig „spennu“ fyrir því að koma á staðinn og upplifa það sem hún hefur að bjóða. Borgin er svo til einstök þegar kemur að afþreyingu, þar sem nær allt sem hugurinn girnist er innan stuttrar fjarlægðar. Auk borgarlífs og suðupotts nýsköpunar, þá eru skíðasvæði, fluguveiðiár, vínekrur, kaffiræktun og blómstrandi brugghúsamenning í mikilli nálægð við borgarsvæðið.
11. Þetta er innflytjendasamfélag, alveg inn að beini, og í því hefur falist mikill efnahagslegur styrkur, ekki síst á undanförnum árum. Í miklum uppgangi tæknifyrirtækja á svæðinu hafa þau ekki síst leitað til Asíu eftir tæknimenntuðu fólki. Á svæðinu eru stór samfélög Indverja og Suður-Kóreu búa, og Kínverja sömuleiðis. Þeir eru fjölmennir hjá öllum helstu tæknifyrirtækjum svæðsins. Fyrir utan Amazon og Microsoft eru það meðal annars Alphabet (Google), sem er með stóra starfsstöð í Kirkland á Seattle-svæðinu, Facebook og Oracle. Borgaryfirvöld hafa brugðist við áformum stjórnvalda í Hvíta húsinu um að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi af ákveðni, og hafa talað fyrir því að innflytjendur geti andað rólega í Seattle og nágrenni. Þar séu þeir velkomnir og verði áfram. Fyrir svæði eins og Seattle er þetta einn af lykilþáttum þess, að efnahagurinn blómstri og vaxi í rétta átt. Það er að samfélagið sé opið og móttækilegt fyrir fólki með þekkingu á hinum ýmsu sviðum.
12. Viltu kaffibolla? Seattle-hagkerfið er með svarið við þessu, og það er jákvætt. Hér fæddist Starbucks kaffihúsakeðjan og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins ennþá á svæðinu. Vöxtur þess hefur verið ævintýri líkastur. Árið 2003 voru sjö þúsund Starbucks kaffihús í heiminum en á þessu ári eru þau orðin 24 þúsund. Vörumerkið er orðið eitt það verðmætasta í veröldinni, og hefur vöruþróun þess á undanförnum árum orðið fjölbreyttari en í fyrstu. Margar vörur fyrirtækisins eru seldar í búðum um allan heim, og er gert ráð fyrir að helsti vöxturinn verði á því sviði á undanförnum árum.
13. Líkt með Microsoft og Amazon, þá eru margfeldisáhrifin mikil af því að vera með stór alþjóðleg fyrirtæki á svæðinu. Í kringum þau hafa sprottið upp sérhæfð ráðgjafafyrirtæki og tæknifyrirtæki af ýmsu tagi sem hjálpa þeim að viðhalda samkeppnishæfni sinni í alþjóðlegu umhverfi. Þau áhrif hjálpa hagkerfinu á svæðinu. Stoðirnar verða fjölbreyttari og um leið sveigjanlegri.
14. Vinnumarkaðurinn á Seattle-svæðinu er um 2,4 milljónir manna, en 3,7 milljónir í ríkinu öllu. Til samanburðar er vinnumarkaðurinn á Íslandi um 197 þúsund manns, eða innan við 1/10 af því sem hann er á Seattle-svæðinu. Árið 2014 var Seattle útnefnd sjálfbærasta borg Bandaríkjanna, og er þar ekki aðeins litið til umhverfismála heldur ekki síður efnahagsmála.
15. Framundan er svo mesta vaxtarskeið sem svæðið hefur staðið frammi fyrir. Enn fremur verður spennandi að fylgjast með því hvernig tækninýjungar muni breyta starfseminni á svæðinu.
Vöruþróun Microsoft er umfangsmikil þegar kemur að gervigreind og öðrum tengdum þáttum, en fyrirtækið er með fulla vasa fjár og má búast við því að framþróun á hinum ýmsu hliðum tölvutækninnar verði hröð þegar hún á annað borð lítur dagsins ljós.
Í byrjun þessa árs átti Microsoft 135 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri, eða sem nemur tæplega 14 þúsund milljörðum króna. Aðeins Apple á meira í tæknigeiranum, en fyrirtækið situr nú á rúmlega 260 milljörðum Bandaríkjadala.
Það sem helst einkennir svæðið, í seinni tíð, er einlægur vilji borgaryfirvalda og einnig sveitarfélaga og sýslna í nágrenni, að vinna með fyrirtækjunum á svæðinu svo það geti styrkt sig efnahagslega inn í framtíðina. Fá svæði í veröldinni búa nú við viðlíka vöxt alþjóðlegra fyrirtækja.