Neyðarkall barst frá UN Women í Írak á dögunum og hefur landsnefndin á Íslandi brugðist við með því að hrinda af stað söfnun fyrir konur á flótta. 62.000 manns flúðu frá Mósúl í Írak í síðasta mánuði og þar af er rúmlega helmingur konur. „Það má segja að þær konur í Mósúl séu að fara úr öskunni í eldinn vegna þess að borgin er búin að vera undir Íslamska ríkinu síðustu tvö ár og eru þær búnar að lifa við skelfilegar aðstæður,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, um ástandið sem samtökin eru að bregðast við.
Söfnun hefur því verið sett af stað en hægt er að senda sms-ið KONUR í 1900 og gefa 1.490.- kr. Mikið hefur verið um að vera þessa vikuna hjá samtökunum en þau frumsýndu myndband vegna söfnunarinnar síðastliðið þriðjudagskvöld. „Við erum í ham, miklum ham,“ segir Inga en einnig byrjar 16 daga átak föstudaginn 25. nóvember. Þá mun UN Women standa fyrir hinni árlegu Ljósagöngu. Kjarninn fjallaði nýlega um 16 daga átakið sem UN Women á heimsvísu tekur þátt í til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi.
Gleymist að hugsa fyrir einföldum hlutum
UN Women sér nú um að dreifa svokölluðum Sæmdarsettum til kvenna á flótta en með því að senda sms og styrkja átakið mun eitt slíkt sett rata til konu á flótta. Grunnpakkinn er kvenmiðaður en hann inniheldur vasaljós, dömubindi og sápu. „Það gleymist svo oft að hugsa fyrir einföldum hlutum eins og dömubindum,“ segir Inga. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem UN Women hefur safnað fyrir konur á flótta. „Við höfum verið að safna fyrir Sæmdarsettum og kvenmiðaðri aðstoð fyrir konur á flótta frá Sýrlandi sem hafa verið að koma til Evrópu,“ bætir hún við.
Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að atburðir síðustu missera í Mósúl séu beinlínis glæpur gegn mannkyni. „Konurnar hafa verið innilokaðar, það hefur ekkert mátt sjást í þær og raddir kvenna hafa ekki mátt heyrast opinberlega. 3.500 konum hefur verið haldið sem kynlífsþrælum vígamanna og ef þær hafa neitað kynlífi þá hafa þær verið drepnar á staðnum. Þetta hefur því verið algjört hörmungarástand,“ segir Inga. Hún bendir á að öryggissveitir Íraks og Kúrda séu búnar að ráðast inn í borgina, það sé stríðsástand á svæðinu og fólk sé því á flótta.
Fyrirséð ástand
Margar milljónir manna eru á vergangi innan Íraks og straumurinn frá Mósúl liggur suðaustur af borginni. Enginn veit nákvæmlega hvert fólkið er að fara, að sögn Ingu. Hún segir að landamæri Evrópu séu til að mynda alveg lokuð og að fólk stoppi í Grikklandi og Tyrklandi og komist hvergi. Ástandið sé því mjög slæmt á þessum slóðum.
Inga segir að UN Women hafi séð þetta ástand fyrir og að það hafi verið vitað að íraskar hersveitir hafi verið að undirbúa að fara inn í Mósúl, því að borgin hefur verið höfuðdjásn Íslamska ríkisins. Það hafi því verið vitað að neyðarástand myndi skapast þegar fólk myndi flýja borgina. Hún segir að búið sé að undirbúa ákveðnar dreifingaráætlanir og ákveða hvar hægt sé að setja upp svokallaðar bráðabirgðabúðir og hvað þurfi að vera í neyðarpökkum. „Síðan berst kall út til svæðisskrifstofa út um allan heim og til fólks sem styrkir UN Women um að nú vanti peninga til þess að gefa þessi sett,“ segir Inga.
Skírskotun í gamla dömubindaauglýsingu
UN Women á Íslandi framleiddi myndband eins og fyrr segir í samstarfi við TM en það var frumsýnt á dögunum. Hér fyrir neðan má sjá myndbandið.
Inga segir að þau séu að leika með klassíska dömubindaauglýsingu sem margir muna eftir frá níunda áratugnum. Nema eins og sést í myndbandinu þá láta þau hana ekki enda í gleði heldur í stríðsástandi og á flótta. Myllumerkið sem notað er með herferðinni er #konumblæðir og vísar það meðal annars til Sæmdarpakkans þar sem dömubindi eru í pakkanum.
„Konum blæðir bókstaflega í átökum og þegar kona þarf að flýja heimili sitt án hreinlætisvöru eins og dömubindis. Þær eru ekki með aðgang að rennandi vatni og hvað gera þær þá?“ spyr Inga. Hún segir að þetta snúist líka um hvernig hægt sé að halda í reisn og sæmd. Þess vegna ber pakkinn nafnið Sæmdarsett.
Íslendingar gjafmildir í ár
Ljósagangan 2016 er einnig tileinkuð konum á flótta og mun hún vera farin föstudaginn 25. nóvember kl. 17 frá Arnarhóli. Maryam Raísi leiðir gönguna í ár og flytur viðstöddum hugvekju. Maryam og móðir hennar, Torpikey Farrash, hafa verið á flótta undanfarin 15 ár. Eftir þriggja ára dvöl í Svíþjóð var þeim neitað um hæli og eftir það ákváðu þær að koma til Íslands. Þeim var neitað um hæli eftir þriggja mánaða dvöl og í fjóra mánuði hafa þær beðið eftir símtali hér á landi. Nú hefur kærunefnd útlendingamála ákveðið að taka mál Maryam og Torpikey fyrir. Á síðu viðburðarins á Facebook segir að þátttaka Maryam í ár sé táknræn fyrir þá hörmulegu stöðu sem milljónir flóttakvenna um allan heim búa við.
„Íslendingar hafa verið ofsalega gjafmildir og rausnarlegir í ár í að styrkja og bæta aðstæður fyrir konur á flótta. Og þess vegna er gangan tileinkuð konum á flótta,“ segir Inga. Hún segir að þessi viðburður hafi alltaf gengið mjög vel en hann er alltaf haldinn á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi þann 25. nóvember. „Það er alltaf ömurlegt veður,“ segir Inga og hlær en bætir við að þátttakan sé alltaf góð og stemningin líka.
Nýr verndari samtakanna verður kynntur á ljósagöngunni en hlutverk hans er að leggja sitt af mörkum til að auka sýnileika UN Women, vekja almenning til vitundar um starfsemi samtakanna og stuðla að viðhorfsbreytingum hvað málefni kvenna varðar.
Að lokum bendir Inga á að hægt verði að kaupa í jólapakkann veglegra Sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu, tannbursta, tannkrem, teppi, hlý föt og vasaljós.