Um heim allan er fólki rænt og tekið sem gísl af skæruliða- eða hryðjuverkasamtökum í ýmiss konar tilgangi. Þeir sem lifa það af eru til frásagnar um þá skelfilegu upplifun sem þeir hafa orðið fyrir. En margar spurningar vakna hjá hinum sem horfa á úr fjarlægð og ekki er síst merkilegt að heyra frásagnir kvenna sem vígamenn hafa haldið nauðugum.
Tvær konur með óvenjulega reynslu hittust á dögunum en þær Ingrid Betancourt og Amanda Lindhout spjölluðu saman í hlaðvarpsþætti BBC The Conversation. Samtalið er mjög hjartnæmt því að þarna hittast þessar tvær konur í fyrsta skipti og deila reynslu sem fáir hafa lent í. Hvernig takast konur, sem misst hafa frelsi sitt, á við þær skelfilegu aðstæður sem þær standa frammi fyrir? Hvað gerðu þær til dæmis þegar þær fóru á blæðingar? Ingrid og Amanda ræða saman og tengjast þannig strax sterkum böndum eins og heyra má í viðtalinu.
Haldið í yfir 6 ár
Fransk-kólumbíska stjórnmálakonan Ingrid Betancourt er einn frægasti gísl síðustu ára en henni var haldið í rúmlega sex ár í dimmum skógi Kólumbíu. Hún var fædd í Kólumbíu árið 1961 en ferðaðist og bjó á hinum ýmsu stöðum út um allan heim vegna vinnu foreldra sinna og síðar vegna starfa fyrrverandi eiginmanns sem var franskur. Hún flutti aftur til heimalandsins til að taka þátt í stjórnmálum árið 1990 og vann við ýmis stjórnsýslustörf þangað til hún bauð sig fram til forseta árið 2002. Í febrúar sama ár var henni rænt af skæruliðasamtökunum FARC og var henni haldið sem gísl í yfir sex ár. Á þessu tímabili birtust þrjú myndbönd af henni til sönnunar um að hún væri á lífi.
Kólumbíski herinn bjargaði Ingrid í júlí 2008 en hún var orðin veik á þessum tíma og ekki mátti tæpara standa. Hermenn höfðu leikið tveimur skjöldum og þóst vera skæruliðar til að komast að fangabúðunum þar sem Ingrid var haldið.
Svelt og ítrekað beitt ofbeldi
Kanadíska blaðakonan og rithöfundurinn Amanda Lindhout var fædd í Kanada árið 1981 og vann sem lausráðin blaðakona í Afganistan, Írak og síðast í Sómalíu. Í ágúst 2008 var henni rænt ásamt ljósmyndaranum Nigel Brennan aðeins tveimur dögum eftir komu þeirra til borgarinnar Mogadishu í Sómalíu. Þeim var rænt af íslömskum öfgahóp sem krafðist lausnargjalds, alls 2,5 milljónir dollara. Amanda og Nigel voru aðskilin og komið fyrir í sitt hvorum klefanum en gíslatökumennirnir beittu Amöndu miklu ofbeldi á meðan þessu stóð og nauðguðu henni ítrekað. Hún var svelt og aðstæðurnar voru hryllilegar, að sögn þeirra beggja.
Fjölskylda hennar náði að lokum að safna saman 1 milljón dollara til að borga lausnargjald en gíslatökumenn höfðu lækkað kröfur sínar á þessum tíma. Eftir 460 daga í haldi var Amöndu og Nigel sleppt lausum og fengu þau að halda til sinna heima og til fjölskyldna sinna. Forsprakki gíslatökunnar var handtekinn sex árum seinna fyrir aðild sína. Amanda gaf út bók um reynslu sína sem nefnist A House in the Sky en hún lýsir þar ástæðum sínum fyrir að fara til Sómalíu og upplifun sinni sem gísl.
Afneitun í fyrstu
Amanda lýsir því í spjallinu hvernig upplifun hennar hafi verið. Hún segir að hún hafi viljað trúa því að einungis væri verið að ræna þau. Eftir nokkra daga, þegar forsprakkinn bað þau um upplýsingar um fjölskyldumeðlimi, hafi hún gert sér grein fyrir því sem væri að gerast. Að líklega yrði hún föst þarna í langan tíma þar sem hún vissi að kanadísk stjórnvöld borga ekki lausnargjald fyrir þegna sína í slíkum aðstæðum og að fjölskylda hennar væri ekki í aðstöðu til að láta svo háa upphæð af hendi.
Kvölin fólst í því að vita ekki hvenær þessu myndi ljúka
Ingrid tekur í sama streng en segir að það hafi þó tekið hana lengri tíma að gera sér grein fyrir því sem væri að gerast. Hún segir að í raun hafi hún verið í afneitun í heilt ár. „Kvölin fólst í því að vita ekki hvenær þessu myndi ljúka,“ segir hún. Öll tengsl við umheiminn hafi rofnað og hún upplifað það hvernig væri að vera raunverulega ein.
Amanda segir að þegar henni var rænt hafi hún strax hugsað til Ingridar en fréttir af lausn hennar höfðu farið eins og eldur um sinu um heiminn tveimur mánuðum áður. Þannig hafi hennar saga verið fersk í minni og gefið Amöndu styrk á þessum tíma.
Staðráðin í að halda mennskunni
Þessi reynsla var mjög andleg, að sögn Amöndu. „Ein í þessu myrka herbergi, skilin eftir með ekkert nema huga og anda,“ segir hún. Ingrid bætir því við að hún hafi fundið fyrir því að skæruliðana hafi langað að umbreyta henni í einhvers konar dýr. Þá hafi langað að taka af henni mennskuna.
Ég man heiftina. Ég man eftir að hafa hugsað með mér að mig langaði til að drepa þennan mann
„Þetta var í frumskóginum og það var stormur. Það hafði rignt í marga daga. Ég hafi reynt að strjúka nokkrum dögum áður svo ég þurfti að sæta refsingu og hluti af henni var að vera skilin eftir án skýlis. Vörðurinn stóð við hliðina á mér, mjög smásálarlegur lítill maður. Hann hataði mig á mjög sérstakan hátt. Ég man að ég þurfti að fara á klósettið og auðvitað er engin aðstaða til þess í frumskóginum. Venjulega spurði ég um leyfi og þeir myndu losa mig úr keðjunum. Ég gæti þá farið bak við tré eða eitthvað slíkt og ekki vera berskjölduð. En núna höfðu nokkrir klukkutímar liðið og ég þurfti virkilega að fara á klósettið en vörðurinn sagði: „Hvað sem þú gerir þá gerir þú það hér fyrir framan mig“. Ég man heiftina. Ég man eftir að hafa hugsað með mér að mig langaði til að drepa þennan mann,“ lýsir Ingrid.
Hún segir að hún hafi orðið hrædd vegna þessara tilfinninga; að vera tilbúin að drepa aðra manneskju. Hún hafi ekki viljað vera morðingi. Hún hugsaði með sér að þrátt fyrir að það væri búið að taka frelsi hennar, þá væri ekki búið að taka frá henni ákvörðunarvaldið um hvernig manneskja hún væri. Hún hafi því verið harðákveðin í að leyfa þeim ekki að breyta sér í þetta dýr. „Ég gerði mér þá grein fyrir því að það væru til hlutir sem enginn gæti nokkurn tímann tekið frá mér,“ segir Ingrid.
Gátu líka átt góðar stundir
Amöndu var eins og áður segir haldið í dimmu herbergi og hún var beitt ofbeldi daglega og henni nauðgað. Hún segir að oft eftir slíkt ofbeldi hafi hún verið mjög reið og full af heift, hatri og eftirsjá. En til þess að halda geðheilsunni þá hafi hún endurtekið með sjálfri sér að hún veldi frið og fyrirgefningu. Með því að endurtaka þessi orð hafi hún venjulega róast niður. Hún myndi fara í huganum á betri stað, þar sem hún gæti hreyft sig, borðað góðan mat og hitt fjölskyldu sína og vini. Hún segir henni hafi jafnvel tekist að hlæja og eiga góðar stundir í þessum hryllilegu aðstæðum. Þannig náði hún að halda sjálfri sér ef svo mætti að orði komast.
Ég gerði mér þá grein fyrir því að það væru til hlutir sem enginn gæti nokkurn tímann tekið frá mér
Ingrid tekur undir það sem Amanda segir og telur það í raun ótrúlegt að hægt sé að finna þetta innra ljós. Að það sé enn hægt að brosa, hlæja, elska og vera ánægð. Hún segist enn upplifa þessa ánægju þegar hún vaknar á morgnanna; að vera hissa að vera innandyra og þakka Guði fyrir að vera lifandi og örugg. Ingrid notaði svipaðar aðferðir og Amanda til að halda geðheilsunni. Hún rifjaði upp ljóð sem faðir hennar kenndi henni sem barn og þegar hún fór með þau í huganum heyrði hún rödd hans. Hún ímyndaði sér andartakið þegar hún myndi hringja í móðir sína sem myndi ruglast á henni og systur hennar en öskra síðan upp af ánægju þegar hún gerði sér grein fyrir að þetta væri Ingrid. Þessir draumórar voru ekki fjarri lagi því þegar hún heyrði í fyrsta skipti í móðir sinni eftir lausnina þá gerðist þetta svona.
Ingrid reyndi yfir tíu sinnum að flýja skæruliðana. Hún útskýrir þennan vilja til að komast í burtu sem réttlætiskennd og að það hefði beinlínis verið skylda hennar að reyna að komast til baka til barnanna sinna. Þetta hafi orðið að þráhyggju. Amanda reyndi einnig að flýja í eitt skipti en það mistókst eftir að hún og samstarfsmaður hennar Nigel voru handsömuð á ný aðeins 25 mínútum seinna. Hryðjuverkamennirnir þurftu að draga hana út úr moskunni sem þau höfðu falið sig í og inn í bíl úti á götu. Hún segist hafa upplifað ákveðna uppgjöf þrátt fyrir að gera allt til að komast í burtu. Eftir þetta atvik var hún hlekkjuð niður og aðstæður versnuðu til muna.
Niðurlægð fyrir að vera kona
En hvernig er að vera kona í svona aðstæðum? Ingrid segir að allt hafi verið verra af því að hún var kona. Það hafi til dæmis verið mjög erfitt að fá hreinlætisvörur vegna blæðinga. Hún segir að það hafi alltaf verið niðurlægjandi þegar vörður hafi gefið henni dömubindi og sagt henni að það þyrfti að endast í þrjá mánuði. Hún var látin baða sig í lækjum út frá Amasonfljótinu sem voru oft fullir af píranafiskum. Hún segist þó hafa vanist ýmsum hlutum en að erfiðlega hafi gengið að venjast varnarleysinu og þá sérstaklega sem kona. „Annað vandamál er þessi sýn sem sumir karlmenn hafa á konur. Að vegna þess að konur eru konur þá er alveg sama hvað þær segja. Þá er það óheiðarlegt eða af því við erum erfiðar. Eða af því við erum slæmar,“ segir Ingrid. Hún segist hafa uppgötvað hversu langt sé í land fyrir konur eftir að hún losnaði úr prísundinni.
Ég lærði að þessi uppstretta og þessi styrkur er raunverulega alltaf innra með okkur. Og við getum alltaf gengið að þessari uppsprettu
Amanda segir að reynsla hennar og samstarfsmanns hennar hafi verið mjög ólík vegna kynja þeirra. Hún hafi til dæmis verið beitt kynferðislegu ofbeldi daglega. Og þegar kom að blæðingum þá var hún svo vannærð og taugaspennt að hún fór hreinlega ekki á blæðingar á meðan þessu stóð. „Það olli annars konar streitu sem tengdist því að ég var beitt kynferðislegu ofbeldi á hverjum degi og ég velti því fyrir mér hvort ég gæti verið ólétt,“ segir hún. Þetta breytti sýn hennar á hvað það er að vera kona. Hún hafi getað verið móðurleg við sjálfa sig í þessum aðstæðum. Hún segist nota þetta orð því hún hafi talað við sjálfa sig á þann veg sem móðir gerir við barnið sitt og haldið utan um sjálfa sig. Hún segir að hún hafi fengið tækifæri til að finna þessa uppsprettu andans sem allir hafa innra með sér. Að hún hafi náð að lifa af þessar aðstæður þrátt fyrir að hafa ekki alltaf haft trú á því. „Ég lærði að þessi uppstretta og þessi styrkur er raunverulega alltaf innra með okkur. Og við getum alltaf gengið að þessari uppsprettu,“ segir hún. Amanda lítur því á þessa reynslu sem gjöf því nú geti hún lifað lífi sínu öðruvísi en hún gerði áður og vitað að þessi styrkur sem hún hefur sé raunverulegur og innra með henni.
Ingrid telur að stærsti lærdómur hennar reynslu sé sá að hún sér að hún hefur möguleika á að breytast. Hún hélt áður að hún væri mótuð manneskja og að hún gæti ekki breyst eða ummótast á nokkurn hátt. Hún segist hafa uppgötvað að hún gæti breytt öllu. Ekki bara stjórnað tilfinningum sínum, heldur liðið öðruvísi, brugðist öðruvísi við aðstæðum og hugsað með öðrum hætti. „Við höfum getuna til að verða hver sem við viljum,“ segir hún að lokum.