Skipulags og undirbúningsferli loftslagsaðgerða Reykjavíkurborgar fer senn að ljúka og við tekur framkvæmdaferli í þessum málaflokki þar sem stefnumörkuninni verður hrint í framkvæmd. Sérstakur kynningar- og upplýsingafundur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærmorgun þar sem staðan í loftslagsmálum borgarinnar var útlistuð.
„Við erum að vinna á mjög mörgum sviðum. Nú erum við búin að skilgreina hvaða svið borgarinnar og hvaða samstarfsaðilar bera ábyrgð á hverju verkefni fyrir sig,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í samtali við Kjarnann. Búið sé að leggja innleiðingaráætlun fyrir borgarráð og nú fari ýmis verkefni að rúlla af stað. „Sum þeirra eru með skilafresti í lok þessa árs, til dæmis áætlun um endurheimt votlendis og aðgerðaáætlun varðandi matarsóun. Þessir áfangar eru að nást.“
Borgin leikur stóran þátt í aðgerðum Íslendinga til þess að stemma stigu við hlýnun loftslags á jörðinni. Reykjavík er stærsta sveitarfélagið á landinu og sinnir sorphirðu, rekur stóra vinnustaði og hefur umsjón með stóru gatnakerfi og almenningssamgöngum svo fátt eitt sé nefnt. Allt eru þetta mikilvægar víglínur þegar kemur að loftslagsmálum.
Bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samkomulag í gær sem felur í sér að farið verið í viðræður við innanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Vegagerðina um formlegt samstarf um fjármögnun og lagabreytingar sem þarf til þess að Borgarlína verði að veruleika. Kjarninn fjallaði um undirritun bæjarstjóranna í gær.
„Við erum að leysa stærri hluta samgönguþarfarinnar til framtíðar með öflugri almenningssamgöngum. Til þess erum við bæði að bæta Strætó en við þurfum líka afkastameiri hágæða almenningssamgöngur á stöðum þar sem margir búa,“ segir Dagur.
Skipulagsmál og þétting byggðar er einnig ofarlega í huga Dags þegar hann þylur upp þau verkefni sem skipta hvað mestu máli. Hann segir að þessi málaflokkur sé lykilatriði ef sá árangur á að nást sem sveitarstjórnarmenn vilji. „Þar eru að detta inn deiliskipulagsáætlanir í hverjum mánuði. Við erum síðan að vinna að orkuskiptum í samgöngum. Sumt af því eru skammtímamál, annað eru langtímamál.“
Árlegt stöðumat
Ætlunin er að halda svipaðan fund og í gær að ári og gera þennan viðburð árlegan. Þar á að útlista þann árangur sem náðst hefur í loftslagsmálum í borginni og skapa einskonar mælaborð fyrir árangurinn. „Það sem við vorum að gera hérna í dag er að setja niður árlegan fund þar sem við gerum grein fyrir áföngunum á hverju ári. Því að mér finnst svolítið mikilvægt að þetta séu ekki bara áætlanir og áform heldur raunveruleg verkefni,“ segir Dagur. Mikilvægt sé að geta mælt árangurinn, svo ályktanir verði ekki dregnar af tilfinningu einni.
„Þannig að við teljum þá rafbílana, við teljum hleðslustöðvarnar, við teljum Strætófarþegana, við teljum sérflokkaða plastið, við teljum pappírinn. Við fylgjumst með þessu og búum til mælaborð fyrir árangurinn þannig að það sé ekki bara talað út frá tilfinningu; að við höldum að þetta sé að ganga nokkuð vel.“
Þessi fundur í ráðhúsinu var ekki aðeins haldinn af Reykjavíkurborg heldur einnig Festu, samtaka fyrirtækja í borginni um samfélagsábyrgð. Festa hefur slegist í för með borginni í tengslum við loftslagsmálin og fyrirtækin sem þar starfa saman undirritað viljayfirlýsingu um að taka fullan þátt í loftslagsaðgerðum borgarinnar.
Dagur segir mikilvægt að allir vinni saman í þessum málaflokki því vitað er að ef málunum er ekki fylgt fast eftir þá verði ekki hægt að ná árangri. „Þess vegna erum við að taka þetta svona föstum tökum og fá öll þessi fyrirtæki með okkur og fá önnur sveitarfélög með okkur. Og síðast en ekki síst að fá grasrót fólks með okkur; heimilin í landinu, skólana og fólk sem brennur fyrir því að Reykjavík verði græn,“ segir hann.
„Þess vegna er þessi fundur. Þess vegna er þetta ekki bara ein ákvörðun eða áætlun heldur heljar mikið ferli þar sem við þurfum að veita okkur sjálfum aðhald með að þessir hlutir gerist raunverulega.“