Háskólaprófessorinn og fyrirlesarinn Lawrence Lessig var staddur á Íslandi fyrir skömmu og hélt tölu síðastliðið mánudagskvöld um pólitíska spillingu. Hann er prófessor í stjórnskipunarrétti við Harvard háskóla en hefur verið í rannsóknarleyfi á Íslandi og kynnt sér stjórnarskrárumræðuna meðal annars. Hann er einnig vinsæll fyrirlesari og hefur komið fram í ýmsum pólitískum spjallþáttum vestanhafs. Hann var frambjóðandi í forvali Demókrata fyrir síðustu kosningar en dró framboð sitt til baka í nóvember á síðasta ári. Hann hefur lagt áherslu á spillingu í tali sínu, ekki síst þá sem leynist í pólitískum kerfum og stofnunum.
Beinir athyglinni að löglegri spillingu
Lessig segir að hefðbundið sé að hugsa um spillingu niður á við; glæpsamlega spillingu utan laga og siðferðis. Hann telur mikilvægt að byrja að hugsa öðruvísi um spillingu og að fólk fari að hugsa um hana upp á við. „Spilling þar sem við hugsum ekki um glæpsamleg athæfi eða glæpamenn. Áherslan þar sem ekki er horft á það sem er rangt,“ segir hann. Hann segist vilja beina athyglinni að löglegri spillingu. Þeir sem taka þátt í slíkri spillingu gera ekki neitt ólöglegt en eru samt sem áður hluti af meininu.
Við erum ekki að tala um mútugjöf. Við erum ekki að tala um brot á neinum reglum sem til eru
Þetta hefur áhrif á allar stofnanir í samfélagi okkar og sérstaklega þær lýðræðislegu. Þess vegna kallar Lessig þetta ástand stofnanaspillingu. Til þess að úrskýra mál sitt ber hann lýðræðisstofnanir við áttavita. Segull er í líkingunni eins og stofnanaspilling sem hægt er að nota til að rugla áttirnar. Þessi stofnanaspilling er eins og fyrr segir ekki endilega glæpsamleg. „Við erum ekki að tala um mútugjöf. Við erum ekki að tala um brot á neinum reglum sem til eru,“ segir Lessig. Hann á frekar við sérstök áhrif sem hægt sé að hafa á stofnanir.
Stofnanaspilling veikir kerfið
Hann segir að um stofnanaspillingu sé að ræða ef hún í fyrsta lagi veikir stofnanirnar sjálfar og í öðru lagi dragi úr trausti almennings á þær. Lessig tekur sem dæmi lyfjaiðnaðinn þar sem læknar eru fengnir til að meta lyf. Fólk spyr sig í framhaldinu hvort það breyti hegðun læknanna og vinnubrögðum að fá borgað fyrir að kynna lyf og rýri þar af leiðandi traust til þeirra sem fagmanna. Sama á við um ýmsa fræðimenn og stjórnmálamenn í Bandaríkjunum en margir fá borgað fyrir að halda fyrirlestra og svo framvegis.
Lessig talar einnig um matsfyrirtæki í þessu sambandi. Matsfyrirtæki sjá um að meta stofnanir, fyrirtæki og efnahagskerfi landa og segja til um áhættuna sem felst í fjárfestingum á þeim. Hann segir að oft vanmeti matsfyrirtæki þessa áhættu sem gerðist til dæmis í Bandaríkjunum árið 2008 og átti mikinn hlut í hruninu á þessum tíma. Lessig segir að það skjóti í raun skökku við þar sem þessi matsfyrirtæki voru upprunalega stofnuð til að vera áreiðanlegar heimildir um áhættu í fjárfestingum. Allt í einu hafi þessi matsfyrirtæki ekki verið þessi trausta heimild vegna þess að viðskiptalíkanið var breytt. Núna væru það fyrirtækin sjálf sem réðu matsfyrirtækin til að útbúa áhættumat.
Matsfyrirtæki séu þannig fjárhagslega háð útgefendum skuldabréfa vegna þessara viðskipta sem eiga sér stað. „Þessi breyting hafði augljósar afleiðingar fyrir iðnaðinn af því að útgefendur gátu valið hvaða matsfyrirtæki þeir áttu í viðskiptum við. Og af því að matsfyrirtækin voru upp á þá komin þá fundu þau fyrir þrýstingi að gefa góða einkunn,“ segir hann. Þetta skapi þannig þrýsting á matsfyrirtækin, afbaki samkeppni milli þeirra og skekki niðurstöðurnar. Ef litið er á þetta dæmi út frá stofnanaspillingu telur Lessig að þetta hafi skaðað matsfyrirtækin og traustið dvínað í framhaldinu.
Ekki fólkið sem hefur áhrif
Lessig bendir á að það þurfi ekki endilega vera að einhver sé að gera eitthvað rangt í ofangreindum tilfellum. Enginn hafi endilega verið að brjóta lög eða reglur. En aftur á móti hafi verið að ýta undir hegðun sem býr til ákveðið kerfi sem hættir að þjóna upprunalegum tilgangi sínum.
Um heim allan er skilningurinn sá að svokölluð lýðræðissamfélög séu ekki í rauninni að geta af sér kerfi sem almenningur stjórnar sjálfur
Önnur athugasemd Lessigs varðar lýðræði. Hann segir að eftir seinni heimstyrjöldina hafi háværar raddir kallað á lýðræði og að vandamál heimsins myndu í raun leysast í framhaldinu. Að vissu leyti hafi það gengið eftir en núna standi fólk frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé fólkið sjálft sem ræður. Lessig telur að svo sé ekki. „Um heim allan er skilningurinn sá að svokölluð lýðræðissamfélög séu ekki í rauninni að geta af sér kerfi sem almenningur stjórnar sjálfur,“ segir hann. Þannig verði spilling til vegna þess að lýðræðið sé ekki að þjóna fólkinu.
Lýðræðið þróast í kringum fulltrúana
Lessig segir að í mörgum samfélögum sé sú skoðun að breiðast út á meðal almennings að lýðræðið þjóni yfirstéttinni. Fulltrúar fólksins gangi ekki erinda þess heldur fámenns hóps fjársterkra aðila. Lýðræðið þjóni þessari yfirstétt í gegnum kjörna fulltrúa. Í Bandaríkjunum hafi til að mynda fjöldi atkvæða ekki ráðandi áhrif hvernig kosningar fara. Lessig segir að bandarískt lýðræði hafi þannig fengið að þróast í kringum fulltrúa sem þurfa að fjármagna sína eigin kosningabaráttu.
„Þessi fjármögnun tekur tíma og tekur það 30 til 70 prósent af tíma þingmanna að hringja til að betla þá peninga sem þeir þurfa til að komast aftur á þing,“ segir hann og telur að þetta hafi áhrif á þingmennina beint og óbeint. Þeir lagi skoðanir sínar að því sem hentar. Að búa og starfa í slíku kerfi hlýtur að hafa áhrif, að mati Lessig, á hvernig þingmenn sjá heiminn í kringum sig og haga sér. Hann segir að þetta hafi bein áhrif á lýðræðið.
Gagnsæi dugir ekki til
Lessig telur að spilling nái að grassera inni í stofnunum þar sem kosnir fulltrúar gæta ekki hagsmuna almennings heldur annarra afla. Hann segir að almenningur geri sér grein fyrir þessu og það skapi reiði og vantraust sem leiðir af sér popúlisma. Þetta eigi ekki einungis við í Bandaríkunum heldur um heim allan.
Nokkrar leiðir eru til þess að koma í veg fyrir þessa stofnanaspillingu og hafa sumir nefnt gagnsæi í því sambandi. „Ef við gætum einungis séð meira þá gætum við komið í veg fyrir spillingu,“ segir Lessig en tekur það fram að það sé engan veginn nóg. Það sé mikilvægt að líta á hvernig gagnsæi geti hjálpað. Stundum geti upplýsingar hjálpað til við að fletta ofan af spillingu en aftur á móti séu þær endrum og sinnum of flókar fyrir almenning til að vinna úr og þá dugi gagnsæið ekki til. Fólk innan kerfisins gæti orðið fyrir áhrifum sem ekki er möguleiki að sjá vegna þess að þau eru kerfið.