Þjóðþing Skotlands, Norður-Írlands og Wales hafa ekkert um utanríkismál Bretlands að segja. Þetta er mat hæstaréttar Bretlands sem kemur fram í úrskurði réttarins um að breska þingið þurfi að fjalla um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu áður en stjórnvöld geti óskað eftir Brexit við ráðamenn í Brussel. Við þinglega meðferð mun stjórnarandstaðan fara fram á að ýmsar breytingar verði gerðar við stefnu breskra stjórnvalda í Brexit-málinu.
Stjórnvöld í Bretlandi mega sem sagt ekki hefja formlegt útgönguferli úr Evrópusambandinu án þess að um það séu greidd atkvæði í breska þinginu fyrst. Þetta er niðurstaða hæstaréttar í Bretlandi. Dómurinn var klofinn í málinu.
Málið snýst um grein 50 í Lissabon-sáttmála ESB, en greinin fjallar um útgöngu ríkja úr sambandinu. Átta hæstaréttardómarar voru sammála um að stjórnvöld megi ekki virkja þessa grein án þess að bera það undir þingið fyrst, en þrír voru í minnihluta og töldu samþykki þingsins ekki þurfa.
Ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra mun nú þurfa að leggja fram frumvarp fyrir breska þingið þar sem Brexit-málin munu hljóta þinglega meðferð og þingmenn greiða atkvæði um hvort Bretar eigi að óska eftir útgöngu úr ESB. Þingflokkar á breska þinginu voru klofnir í afstöðu sinni til Brexit í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fyrra og börðust margir flokksfélagar hatramlega fyrir sitt hvorum málstaðnum.
Ríkisstjórn Bretlands er „vonsvikin“ yfir niðurstöðunni, segir ríkissaksóknarinn Jeremy Wright, sem fór með málið fyrir hönd stjórnvalda. Hann sagði að engu að síður þurfi allir að fara eftir lögunum og það muni ríkisstjórnin einnig gera. Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu segir að breska ríkisstjórnin muni framfylgja niðurstöðu almennings úr þjóðaratkvæðagreiðslunni síðasta sumar. Samkvæmt áætlunum breskra stjórnvalda er ráðgert að hefja útgönguferlið með því að virkja 50. greinina í lok marsmánaðar.
Gina Miller, lögmaðurinn sem flutti málið gegn stjórnvöldum, segir að ríkisstjórnin getur þá haldið áfram í vissu eftir að breska þingið hafi kveðið upp sinn dóm. Hún segir að Brexit sé stærsta ákvörðun Breta í margar kynslóðir, en að þetta mál fyrir hæstarétti hafi fjallað um verkferla en ekki stefnumótun.
Gina Miller talar fyrir utan hæstarétt
Þó að megin niðurstaða dómsins sé sú að breksa þingið verði að fá að fjalla um málið áður en stjórnvöld geti aðhafst þá eru fleiri greinar dómsins leiðbeinandi fyrir stjórnvöld í því ferli sem mun þurfa að fara fram þegar kemur að samningaviðræðum við Evrópusambandið og aftengingu breskra laga við Evrópulög.
Eftir að niðurstaða hæstaréttar í Bretlandi varð ljós um næstu skref í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, hafa stjórnmálaleiðtogar og stjórnmálamenn lýst afstöðu sinni.
Þing Skotlands, Norður-Írlands og Wales fá ekki ákvörðunarrétt
Hæstaréttardómararnir í málinu komust enn fremur að þeirri niðurstöðu að ráðherrar Bretlands þurfi ekki að ráðfæra sig við þjóðþing Skota, Íra og Walesverja þegar kemur að útgöngu Bretlands úr ESB. Í niðurstöðunni er það undirstrikað að utanríkismál Bretlands, hvort sem það er gagnvart Evrópusambandinu eða öðrum ríkjum, séu á hendi breska þingsins í London og ríkisstjórnar Bretlands. Enn fremur hafa þessi sérstöku þjóðþing ekki neitunarvald í ákvörðun Bretlands um að ganga úr ESB.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni síðasta sumar greiddu Skotar atkvæði með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, með yfirgnæfandi meirihluta. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur sagt að Skotland muni leita leiða til þess að Skotar hafi áfram aðild að Evrópusambandinu jafnvel þó Bretland gangi út. Þegar hefur undirbúningur fyrir nýja þjóðaatkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands verið hafinn. Í haust var sagt frá því að ríkisstjórn Skotlands ætli að leggja fram nýtt frumvarp um slíka atkvæðagreiðslu.
Fyrstu viðbrögð Þjóðarflokks Skotlands (SNP) komu frá Alex Salmond, fyrrverandi leiðtoga flokksins og núverandi talsmanni flokksins um utanríkismál. Hann segir að flokkurinn, sem á 54 af 59 þingmönnum frá Skotlandi í breska þinginu, muni leggja til ítarlegar breytingar á frumvarpi ríkisstjórnar Theresu May og fara fram á að þjóðþing Skota, Norður-Íra og Walesverja fái einnig að fjalla um málið áður en 50. grein Lisabon-sáttmálans verður virkjuð.
Bretland verði ekki miðstöð skattaskjóla fyrir Evrópu
Viðbrögð Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi, við niðurstöðu hæstaréttar eru að flokkur hans muni virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og mun ekki standa í vegi fyrir útgöngunni og virkjun 50. greinarinnar.
Í yfirlýsingu frá Corbyn segir að Verkamannaflokkurinn muni hins vegar reyna að koma í veg fyrir að íhaldsmenn noti Brexit til að gera „samningamiðstöð fyrir skattaskjól, rétt undan ströndum Evrópu“. Verkamannaflokkurinn muni heldur reyna að byggja á lögmálum tollfrjálsra viðskipta við sameiginlega markaðinn og leggja áherslu á að réttindum verkafólks verði viðhaldið.
Skilyrt afstaða frjálslyndra
Tim Farron, leiðtogi frjálslyndra demókrata, segir þingflokk sinn ætla að greiða atkvæði gegn því að Bretar virki 50. grein Lisabon-sáttmálans. Hann segir Brexit-stjórn íhaldsflokksins beita rökum lýðræðisins þegar það hentar þeim, „en ætlar ekki að gefa þjóðinni tækifæri til þess að hafa nokkuð um lokaniðurstöðuna að segja,“ segir Farron. Án þess að útgöngusamningurinn við Evrópusambandið fari í þjóðaratkvæði munu frjálslyndir demókratar ekki greiða atkvæði með 50. greininni.