Þegar Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór í opinbera heimsókn til Kína í þar síðustu viku fékk hann tíst í veganesti frá forseta sínum, Donald Trump. Aðspurður af eina blaðamanninum sem Tillerson hafði leyft að fylgja sér í ferðinni, frá íhaldssama fréttamiðlinum Independent Journal Review, hvort tístið hefði flækt heimsóknina, tjáði Tillerson að hann hefði ekki vitað að Trump myndi tísta en að það ætti hins vegar ekki að koma kínverskum stjórnvöldum á óvart að skoðun ríkisstjórnar Trump væri að Kína hefði ekki nýtt áhrifavald sitt eins vel og það gæti til að sporna við kjarnorkuvopnaþróun Norður-Kóreu. Eftir því sem aðalmarkmið ferðarinnar var að skipuleggja heimsókn Xi Jinping, forseta Kína, til golfklúbbs Donald Trump í Mar-a-Lago í Flórída var því ljóst að umræðan um Norður-Kóreu gaf ferðinni nýja vídd.
Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, hafnaði gagnrýni bandarískra stjórnvalda og sagði að aðgerðir Kína gagnvart Norður-Kóreu væru mikilvægar og augljósar en að öðru leyti virtist Norður-Kórea ekki koma mikið við sögu á meðan á heimsókn Tillerson stóð. Það vakti athygli að í yfirlýsingu Tillerson að heimsókninni lokinni notaði hann lýsingu Xi Jinping um samband Bandaríkjanna og Kína þegar hann sagði að sambandið ætti að byggja á gagnkvæmri virðingu. Ríkisstjórn Barack Obama hafði ítrekað ekki viljað nota hugtakið eftir því sem það gefur í skyn að löndin tvö ættu að virða kjarnahagsmuni hvors annars sem fyrir Kína einnig felur í sér hagsmuni landsins í Suður-Kínahafi. Það gæti verið að þetta tákni breytingar í stjórnmálasambandi Bandaríkjanna og Kína ef hugtakið er hluti af samningatækni ríkisstjórnar Trump til að hugsanlega gefa eftir í Suður-Kínahafi gegn því að Kína gefi eftir í öðrum málum, mögulega gagnvart Norður-Kóreu.
Kjarnavopn og tilvist einræðis
Samkvæmt suðurkóreskum stjórnvöldum sýndu prufur Norður-Kóreu á eldflaugavélabúnaði fyrir skömmu að landið hefði tekið „þýðingarmiklum framförum“ í þróun öflugra eldflauga. Norður-Kórea hefur framkvæmt fjölmargar eldflaugaprufur undanfarið og tilkynnti leiðtogi landsins, Kim Jong-un, í nýársræðu sinni að landið væri á lokastigi í þróun svokallað ICBM-eldflaug (Inter-Continental Ballistic Missile) sem gætu hæft skotmörk í Bandaríkjunum.
Asíuferð Tillerson samanstóð einnig af heimsóknum til Japans og Suður-Kóreu þar sem hann lagði drög að nýrri stefnu gagnvart Norður-Kóreu þar sem hann tjáði að það væru „engin úrræði sem væru ekki á borðinu“ og að stefna Obama sem einkenndist af „herkænskulegri þolinmæði“ hafði runnið sitt skeið. Með öðrum orðum gaf Tillerson í skyn að hernaðarleg úrræði væru ekki útilokuð. Bandaríkin hefur nú þegar hafist handa með byggingu nýs eldflaugavarnarkerfis í Suður-Kóreu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa tilkynnt að þau séu ekki hrædd við mögulega innrás Bandaríkjanna en ljóst er að hernaðarleg lausn á pólitísku vandamáli myndi vera gífurlega kostnaðarsöm fyrir alla aðila.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru vön því vernda hagsmuni sína með kerfisbundinni notkun á ógnunum í tengslum sínum við Bandaríkin og Suður-Kóreu en hin arfgenga einræðisstjórn sem er við lífi í Norður-Kóreu er til komin vegna Kóreu-stríðsins þar sem um tvær og hálf milljón manns misstu lífið í stríði þar sem Bandaríkin og Kína, og að hluta til Sovétríkin, studdu við bakið á sitt hvorri fylkingunni eftir að Japanir drógu sig til baka frá Kóreu-skaga í kjölfar seinni heimsstyrjaldar og endaði í klofningu sem er enn við lífi í dag. Þróun kjarnavopna er kjarninn í öryggisstefnu norðurkóreskra stjórnvalda sem bæði notfæra sér, og mögulega sækjast eftir, utanaðkomandi ógnir frá Bandaríkjunum sem réttlætingu fyrir tilvist sína. Það sem er hins vegar nýtt í þessari dýnamík er hugsanleg þróun Norður-Kóreu á eldflaugatækni sem gæti gert þeim kleift að byggja kjarnavopn sem geta hæft Bandaríkin. Þó sækjast stjórnvöld í Norður-Kóreu ekki endilega eftir stríði, enda átta þau sig á líkurnar á ósigri eru miklar, en þróun slíkra vopna er mikilvægt skref í að tryggja stöðu hins ríkjandi einræðis.
Áhættustjórnun kínverskra stjórnvalda
Tengsl Kína við Norður-Kóreu í valdatíð Xi Jinping hafa verið tiltölulega stirð og tilkynntu kínversk stjórnvöld í lok febrúar að þau myndu hætta innflutningi á kolum frá Norður-Kóreu í kjölfar eldflaugaprufu og tilræði gegn Kim Jong Nam, bróðir Kim Jong-Un, undir undarlegum kringumstæðum á flugvelli í Malasíu. Kína hefur lengi verið eins konar misviljugur bakhjarl Norður-Kóreu en tengsl landanna tveggja eru náin og flókin, sérstaklega í ljósi hlutverks Kína í Kóreustríðinu. Hluti af þessum stuðningi stafar af því að kínversk stjórnvöld hafa lítinn áhuga á að sjá sameinaða Kóreu undir sterkum áhrifum Bandaríkjanna enda myndi það hugsanlega þýða að bandarískar herstöðvar yrðu staðsettar með fram landamærum Kína.
Mögulega líta kínversk stjórnvöld á viðbrögð bandarískra stjórnvalda sem stærri ógn en hótanir Norður-Kóreu enda er ekki ólíklegt að hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gætu leitt til stríðs sem Kína yrði sogað inn í með einum eða öðrum hætti. Stefna Kína hefur lengi verið að hvetja Bandaríkin til að setjast við samningaborðið en erfitt er að segja hvort sú stefna eigi jafnvel við í ljósi framfara Norður-Kóreu í þróun kjarnavopna og tilkoma ófyrirsjáanlegrar ríkisstjórnar Donald Trump í Bandaríkjunum. Þá er sá skortur á trausti á milli Kína og Bandaríkjanna hvað varðar öryggismál stærsta hindrunin fyrir stjórnvöld landanna tveggja að geta mótað sér nokkurn veginn samstíga stefnu gagnvart Norður-Kóreu.
Óvissan á Kóreuskaga hefur ríkt í tæplega sjötíu ár en það er ekki ólíklegt að afdrifaríkar þróanir munu eiga sér stað í valdatíð Donald Trump og ljóst er að það mun reyna mikið á utanríkisteymi hans á næstu árum.