Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti ráðstefnu utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Berlín í dag. Á fundinum ítrekaði Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, það sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt um að önnur aðildarríki verði að leggja meira af mörkum til bandalagsins.
„Markmið okkar ætti að vera að ákveða að í lok árs hafi öll aðildarríkin mætt skuldbindingum sínum varðandi framlög til varnarmála eða útbúið áætlanir sem skýra hvernig skuldbindingunum verði mætt,“ sagði Tillerson sem sat í dag sinn fyrsta NATO-fund eftir að hafa verið gerður að utanríkisráðherra í vetur.
„Bandalagsþjóðir verða að sýna í verki að þær deili hollustu Bandaríkjanna,“ sagði Tillerson enn fremur. Undir þetta tóku bresk stjórnvöld í dag.
Utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, sagði á fundinum að markmiðið um að tvö prósent af ríkisútgjöldum fari til varnarmála væri hvorki nokkuð sem hægt væri að uppfylla né eftirsóknarvert.
„Tvö prósent þýða hernaðarútgjöld sem nema 70 milljörðum evra. Ég þekki engan þýskan stjórnmálamann sem telur það mögulegt eða eftirsóknarvert,“ sagði Gabriel.
Þýskaland hefur staðið í þeirri meiningu að til þessara tveggja prósenta sem aðildarríki NATO hafa skuldbundið sig til að eyða í varnarmál teljist einnig þróunaraðstoð hverskonar í stríðshrjáðum löndum. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lét hins vegar hafa eftir sér í dag að slíkt gæti ekki gengið.
„Ríkiserindrekstur, þróunaraðstoð og efnahagslegur stuðningur geta verið mikilvæg tól til þess að koma jafnvægi á svæði í heiminum,“ sagði Stoltenberg og benti á að til væru viðmið um þróunaraðstoð, sem væru aðskilin skuldbindingum um útgjöld til varnarmála. „Þetta eru tveir ólíkir hlutir, jafnvel þó bæði sé mikilvægt.“
Tvö prósent, takk
Samkvæmt þeim skuldbindingum sem NATO-ríkin 28 hafa öll gengist við þá þurfa bandalagsþjóðir að eyða meira en tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu sinni í varnarmál. Þjóðirnar hafa enn fremur frest til ársins 2024 til að ná þessu markmiði.
Í fréttatilkynningu frá íslenska utanríkisráðuneytinu er haft eftir Guðlaugi Þór að mikill samhljómur hafi verið á fundinum og „ljóst bandalagið er og verður hornsteinn í samstarfi lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins“.
Í tilkynningunni er einnig tæpt á kröfum Bandaríkjanna og Bretlands um aukin framlög til varnarmála. „Nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, var skýr í þessa veru og hvatti jafnframt önnur ríki til að leggja meira að mörkum. Ísland hefur aukið framlög sín til varnarmála og þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins og við munum halda áfram á sömu braut,“ segir Guðlaugur.
Bandaríkin eyða mest, Ísland minnst
Ísland hefur aukið framlög til varnarmála síðan í fyrra því á þessu ári er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði 400 milljónum meira til varnarmála en í fyrra. Kjarninn fjallaði um framlög til NATO 20. mars síðastliðinn.
Samkvæmt nýjasta yfirlitinu yfir útgjöld til bandalagsins sem gefið var út á vef NATO 13. mars síðastliðinn kemur fram að miðgildi hlutfallsins sem aðildarríkin eyða í varnarmál árið 2016 hafi verið 1,21 prósent.
Af ríkjunum 28 þá eyða Bandaríkin lang mestu eða 3,61 prósent af vergri landsframleiðslu. Sé hlutfall þess fés sem eytt er í varnarmál meðal ríkja NATO borið saman þá sést greinilega að Bandaríkin eyða lang mestu.
Þau fimm ríki sem eyða meira en tveimur prósent af heildarútgjöldum eru Bandaríkin, Bretland, Grikkland, Eistland og Pólland. Samanborið við árið 2009 þá hafa þau aðildarríki sem eiga landamæri að Rússlandi aukið varnarmálaútgjöld sín mest. Það eru Pólland, Eistland, Lettland og Litháen.
Ísland er eina aðildarríkið sem ekki er talið með í töflum útgjaldayfirlitsins enda hefur Ísland engan her. Hér á landi fer utanríkisráðuneytið með varnarmál og samskipti við NATO. Á fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir að utanríkisráðuneytið fái fjárheimildir til samstarfs um öryggis- og varnarmál. Heildargjöld ríkisins vegna þeirra eru 1.549,7 milljónir króna. Það er fjármagnað með rekstrartekjum sem munu nema að upphæð 109,4 milljónum króna og restin, 1.440,3 milljónir, koma úr ríkissjóði.
Séu fjárlög ársins í ár borin saman við fjárlög ársins 2016 má sjá að framlög úr ríkissjóði til varnarmála hafa hækkað um rétt tæpar 400 milljónir króna á milli ára. Þrátt fyrir það er hlutfall útgjalda til varnarmála fjarri því að vera fullnægjandi samkvæmt kröfum Bandaríkjanna; var um 0,006 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2016.