Ríkisstjórn Íslands hefur hrundið af stað gerð aðgerðaáætunar í loftslagsmálum til ársins 2030. Við það tilefni var samstarfsyfirlýsing milli sex ráðherra um aðgerðir í loftslagsmálum undirrituð að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
Það eru nýmæli að svo mörg ráðuneyti standi formlega á bak við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum en hingað til hafa loftslagsmál verið á könnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Umhverfisráðuneytið hefur svo óskað eftir samstarfi við önnur ráðuneyti.
Það voru þau Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra, Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna.
Björt Ólafsdóttir boðaði gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í viðtali við Kjarnann í mars, eftir að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafði skilað skýrslu sinni um stöðu og stefnu Íslands í loftslagsmálum. Staðan er ekki nógu góð og íslensk stjórnvöld þurfa að grípa í taumana til þess að hægt sé að standa við þær skuldbindingar sem þegar hefur verið gengist undir.
Í fyrra samþykkti Ísland Parísarsamninginn og undir honum er Ísland í samfloti með Evrópusambandsríkjum með markmið um að minnka losun um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
Áætlað er að endanlegar skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu verði á bilinu 35-40 prósent minnkun útstreymis. Enn hafa formlegar viðræður ekki hafist milli Íslands og ESB. Yfirvöld í Brussel vilja ekki hefja þær viðræður fyrr en regluverkið í kringum þessi sameiginlegu markmið hefur verið frágengið og samþykkt. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur íslenskum stjórnvöldum verið sagt að sú vinna eigi að klárast fyrir árslok.
Síðast var gerð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum árið 2010 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Sú áætlun er enn í gildi. Í henni er miðað að því að Ísland nái að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart framhaldi Kýótó-bókunarinnar til 2020. Til viðbótar við aðgerðaáætlunina lagði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fram sóknaráætlun í loftslagsmálum í nóvember 2015 þar sem lögð var áhersla á valdar aðgerðir.
Þingsályktunartillaga um orkuskipti í samgöngum vóg þyngst í sóknaráætluninni en hún var aldrei afgreidd af Alþingi. Tillagan var svo lögð aftur fram af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í vetur. Aðrar aðgerðir hafa komist til framkvæmda, eins og til dæmis endurheimt votlendis en vinna við kortlagningu og framkvæmdir hófust síðasta sumar.
Útstreymi frá Íslandi eykst
Þrátt fyrir þær skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi aukist síðan árið 2011.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi jókst um 1,9 prósent á milli ára 2014 og 2015 og hefur útstreymið ekki verið hærra síðan árið 2010.
Útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi jókst um 28 prósent árið 2015 miðað við viðmiðunarárið 1990. Losun frá Íslandi náði hæstu hæðum árið 2008 vegna stóraukinna umsvifa stóriðju hér á landi. Í kjölfar efnahagsþrenginga sama ár og vegna aukinna krafa um föngun kolefnis frá stóriðju dróst losun saman á árunum 2009, 2010 og 2011 en var svo nokkuð svipuð þar eftir.
Sé rýnt í þær breytingar sem orðið hafa síðan 1990 má sjá að iðnaðarframleiðsla ber ábyrgð á rúmlega helmingi aukningarinnar til ársins 2015. Farartæki á landi bera ábyrgð á nærri því fjórðungi aukningarinnar.
Vegna þátttöku Íslands í sameiginlegum markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir fellur um það bil 40 prósent af losun Íslands utan skuldbindinganna. Það þýðir að stjórnvöld hér á landi eru ekki skuldbundin í alþjóðasamningum til þess að draga úr losun frá álframleiðslu, járnblendi, alþjóðaflugi og fleiri geirum samfélagsins.
Breyta þarf eignarhaldi á málaflokkinum
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu Íslands í loftslagsmálum sem kynnt var í febrúar á þessu ári kemur fram að íslensk stjórnvöld þurfa að grípa til róttækra aðgerða ef markmið í loftslagsmálum eiga að nást.
Í viðtali við Kjarnann í mars sagði Björt Ólafsdóttir að henni þætti mikilvægt að fleiri ráðuneyti eignuðu sér málaflokk loftslagsmála.
„Ég hef sagt það, og það er mín staðfasta trú, að ef að við ætlum að ná einhverjum árangri í loftslagsmálum þá verður að vera breytt eignarhald á því stóra verkefni,“ sagði Björt. „Það er ekki þannig að það dugi eitt og sér að hafa umhverfisráðherra sem er öflugur og vill vel. Ég verð að ná áheyrn fleira fólks og auðvitað þeirra sem stjórna en ekki síst: Þetta kemur ekki „top-down“. Það mun ekki virka mjög vel ef við segjum bara „geriði svona og hinsegin“.“
Í samstarfsyfirlýsingu ráðherrana síðan í gær segir að ný aðgerðaáætlun verður unnin undir forystu forsætisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, og að fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgönguráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið muni taka fullan þátt í gerð hennar.
Markmiðið verður að velja þær aðgerðir sem „eru hagkvæmastar og skila fjölþættum ávinningi auk minnkandi losunar, s.s. minni loftmengun, endurheimt jarðvegs og gróðurs, aukinni nýsköpun og jákvæðri ímynd atvinnugreina og Íslands.“
Í yfirlýsingunni segja ráðherrarnir að helstu tækifæri Íslands til þess að draga úr losun liggi í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. „Rafvæðing bílaflotans er til að mynda raunhæf leið til að nýta innlenda græna orku á hagkvæman hátt og sjávarútvegurinn hefur mikla möguleika á að draga frekar úr losun í gegnum til að mynda orkuskipti og tæknilausnir við veiðar.“
Athyglisvert er að í samstarfsyfirlýsingunni er sagt að sérstök áhersla verði lögð á að „skoða hvar hægt er að beita grænum hvötum og umhverfissköttum til að ýta undir þróun íslensks samfélags í átt að lágkolefnishagkerfi“.
Þetta eru kannski ekki nýmæli en viss stefnubreyting frá því að sóknaráætlun síðustu ríkisstjórnar var lögð fram. Í tilefni af sóknaráætluninni sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra í síðustu ríkisstjórn, að ekki stæði til að beita skattalegum hvötum til þess að knýja á um aðgerðir í loftslagsmálum.
Hér á landi gilda þegar reglur um kolefnisskatta, mismunandi verðflokka bifreiðagjalda eftir útblæstri og olíugjald.