Bretar ættu að íhuga samstarfsaðild við EFTA í stað þess að ganga í samtökin, en þannig gætu þeir viðhaldið sjálfstæða innflytjendastefnu ásamt því að þurfa ekki að semja fríverslunarsamninga við mörg lönd upp á nýtt. Þetta eru niðurstöður úr skýrslu á vegum svissnesku hugveitunnar Foraus. Fari bresk stjórnvöld eftir ráðleggingum skýrsluhöfunda er líklegt að Íslendingar sleppi við kostnaðarsamt samningaferli.
Hugveitan Foraus, sem sérhæfir sig í utanríkismálum Svisslendinga, gaf út skýrsluna The Option of Association í júní síðastliðnum. Í skýrslunni eru lagðar fram ástæður hvers vegna Bretland ætti að sækja um sérstaka samstarfsaðild (Associate membership) að EFTA í stað þess að ganga í samtökin, en Sviss og Noregur hafa lagst gegn fullri aðild Bretlands að þeim. Skýrsluhöfundar eru David Phinnemore, prófessor við Belfast-háskóla, og Cenni Najy, stjórnmálafræðingur og stefnumótunarráðgjafi Foraus.
EFTA-samstarf myndi eyða óvissu
Í skýrslunni segir að mikil óvissa hafi komið upp í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu. Að öllu öðru óbreytu mun úrsögnin leiða til þess að Bretar missa fríverslunarsamninga við 45 lönd utan ESB.
Með samstarfi við EFTA gæti Bretland hins vegar náð að tryggja fríverslunarsamninga milli fjölda landa utan Evrópu, en meðal þeirra 37 landa sem EFTA hefur gert samning við eru mikilvæg viðskiptalönd Bretlands, eins og Singapúr og Suður-Kórea.
Enn fremur, ef Bretland vill fá aðgang að innri markað Evrópusambandsins, þá er EFTA-samstarf nauðsynlegur undanfari. Í skýrslunni eru einnig færð rök fyrir því að samstarfið hún myndi efla þátttöku Bretlands í alþjóðasamfélaginu.
Helsti kostur EFTA-aðildar er þó að mati skýrsluhöfunda að þeirri óvissu sem ríkt hefur í Englandi vegna fyrirhugaðrar útgöngu úr Evrópusambandinu verði eytt.
Byrjum á samstarfsaðild
Þrátt fyrir áðurnefnda kosti við EFTA-aðild mæla höfundar skýrslunnar ekki með fullri inngöngu inn í EFTA-sambandið. Hins vegar telja þeir svokallaða samstarfsaðild við EFTA, líkri þeirri sem Finnland hafði á árunum 1961-1986, vera heppilegri.
Einn af kostum samstarfsaðildar er sá að með henni gætu Bretar stjórnað eigin landamærum og þyrftu ekki að standa við skuldbindingar EFTA-ríkjanna um frjálst flæði vinnuafls. Samstarfsaðildin er einnig sveigjanlegri, en þannig hefðu Bretar frelsi til þess að velja fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við þriðja aðila.
Án fullrar aðildar hefðu Bretar þó ekki atkvæðarétt í samtökum, en myndu hins vegar öðlast þátttökurétt í stofnanir þeirra. Að mati skýrsluhöfunda er samstarfsaðild ákjósanlegt byrjunarstig, en sveigjanleiki fyrirkomulagsins býður upp á möguleika á fullri aðild að EFTA eða inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið seinna. Með samstarfsaðild gæti dregið úr núverandi andstöðu EFTA-aðildar, en norsk og svissnesk yfirvöld hafa bæði lýst yfir áhyggjum þess efnis að Bretland verði fullgildur meðlimur samtakanna.
Meiri hagsmunir en í Icesave
Kjarninn greindi frá ummælum Heiðrúnar Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, á dögunum þar sem hún sagði hagsmuni Íslands í Brexit vera meiri en í Icesave. Hagsmunirnir eru fólgnir í sterku viðskiptasambandi landanna tveggja, en 11% af öllum vöru- og þjónustuviðskiptum Íslands er við Bretland. Verði Bretland ekki partur af Evrópska efnahagssvæðinu, EFTA eða ESB mun núverandi fríverslunarsamningur falla úr gildi. Fari ríkisstjórn Bretlands hins vegar að tillögum skýrsluhöfunda er möguleiki á að hann haldi og að engin þörf verði á nýjum samningi með hugsanlega kostnaðarsömu samningaferli.