Viðbrögðin við kjarnorkuvopnavæðingu Norður-Kóreu hafa öll verið misheppnuð síðustu tvo áratugina. „Við erum að sjá afleiðingarnar af því núna,“ segir Sheena Greitens, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu við Missouri-háskóla í Bandaríkjunum.
Á undanförnum árum hefur norðurkóreski herinn gert tilraunir með kjarnorkuvopn og hefur tekist svo vel til að nú er talið að Norður-Kórea búi yfir langdrægum skotflaugum sem geta borið kjarnaodda alla leið yfir Kyrrahafið og til Bandaríkjanna. Tilraunin sem gerð var 4. júlí síðastliðinn, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, sannfærði umheiminn endanlega um þetta.
Valdajafnvægið í heiminum vó salt um leið.
Í þrískiptri umfjöllun Kjarnans um Norður-Kóreu verður reynt að svara eftirfarandi spurningum: Hvað er til ráða? Hvað hefur verið reynt? Og hvers vegna er ástandið svona? Í gær var fjallað um hvernig Norður-Kórea og vandamálið varð til.
Í neyð
Eftir að Sovétríkin féllu í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar varð Norður-Kórea einangrað á alþjóðavettvangi. Þeirra helsti bakhjarl í Moskvu var flúinn úr Kreml og pólitískt kaos þýddi að efnahagsleg aðstoð mundi ekki koma aftur í nánustu framtíð.
Eini vinveitti nágranni Norður-Kóreu sem eftir stóð var Kína. Það er enn þann dag í dag stærsta viðskiptaland hins einangraða ríkis. Kína hefur hins vegar sagst vera ósátt við kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu.
Eins og rakið var í fyrsta hluta þessara umfjöllunar um norðurkóresku kjarnorkuvána var það ekki fyrr en árið 2006 sem Norður-Kórea gerði fyrstu tilraunir sínar með kjarnorkuvopn. Þá voru tólf ár liðin síðan að Kim il-Sung, fyrsti leiðtogi ríkisins, hafði látist og sonur hans Kim Jong-il hafði tekið við skelfilegu búi.
Örbirgð þjóðarinnar var mikil, jafnvel þó fyrirmenni í Pjongjang hefðu það ágætt. Hungursneyð þjóðarinnar stóð í fjögur ár og hefur það tímabil verið kallað „Þrautagangan“. Í reynd stafaði hungursneyðin af mörgum þáttum, títtnefnd aðstoð Sovétríkjanna barst ekki lengur sem varð til þess að fæðuframleiðsla og -innflutningur minnkaði hratt. Náttúruhamfarir á borð við flóð og þurrka gerðu neyðina enn meiri.
Miðstýrt stjórnkerfi Norður-Kóreu gerði stjórnvöldum það svo erfiðara um vik að binda endi á neyð þjóðarinnar. Óvíst er hversu margir létust vegna hungurs eða kvilla tengdum hamförunum. Talið er að allt að 3,5 milljón manns hafi farist, flestir árið 1997. Til samanburðar þá er talið að íbúar Norður-Kóreu hafi verið um það bil 22 milljónir.
Á sama tíma og hungursneyð reið yfir Norður-Kóreu var Kim Jong-il að taka við stjórnartaumunum í ríkinu. Faðir hans hafði verið dáður leiðtogi og skildi eftir sig risa stórt skarð í stjórnkerfinu sem þurfti að fylla. Til þess að treysta völd sín á fyrstu árum sínum sem leiðtogi ákvað Jong-il – sem fyllti ekki alveg út í rammann sem faðir hans hafði mótað – að færa herinn ofar í stjórnskipaninni.
Magn mataraðstoðar til Norður-Kóreu
Tölurnar eru í þúsundum tonna
Songun-stefnan var innleidd í landinu í lok tíunda áratugs síðustu aldar. Þannig náði Kim Jong-il að fylla í skarð hins dáða leiðtoga föður síns. Herinn hafði nú mun meiri völd en áður og fór með framkvæmd innanríkismála og alþjóðasamskipta. Um leið fékk herinn forgang að öllum efnahagsmætti og auðlindum þjóðarinnar hvort sem þær eru efnislegar eða félagslegar.
Viðskiptaþvinganir alþjóðasamfélagsins hamla allri efnahagsþróun í Norður-Kóreu. Það sést glöggt ef skoðuð er gervitunglamynd af jörðinni, sveipuð náttmyrkri. Ljós frá mannvirkjum lýsa upp þéttbýlustu svæði veraldar, nema í Norður-Kóreu þar sem myrkrið umlykur að því er virðist allt.
Sex ríkja viðræður
Í kjölfar þess að herinn var færður ofar í valdaskipanina í Norður-Kóreu hefur kjarnorkuáætlun landsins farið hratt fram. Yfirvöld í Pjongjang líta á kjarnorkuáætlunina sem öflugt verkfæri í samningaviðræðum á alþjóðavettvangi og hafa litið svo á að með áframhaldandi þróun öflugra vopna sem heimurinn er andvígur megi knýja á um betri kjör landsins. Það þarf svo ekki að vera endapunktur þessarar stefnu að eiga tilbúin vopn, þvert á móti getur það eflt samningstöðuna enn frekar.
Talið er að kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu hafi hafist á fyrri hluta tíunda áratugarins. Ríkið er ekki hluti af samningum alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og hefur ekki innleitt reglur samningsins um kjarnavopn. Þvert á móti hefur Norður-Kórea í tvígang sagt sig frá samþykktunum.
Nokkur óvissa ríkti um stöðu kjarnorkuvopnaáætlunar Norður-Kóreu þar til vísbendingar bárust um að vísindamenn úr Norður-Kóreu hafi aflað sér kjarnorkuþekkingar í Pakistan og Líbýu árið 2002. Yfirvöld í Norður-Kóreu viðurkenndu svo að þau réðu yfir kjarnavopnum árið 2005.
Alþjóðasamfélagið hefur beitt Norður-Kóreu viðskiptaþvingunum vegna hinna ýmsu mála, en þar ber kjarnorkuáætlunin auðvitað hæst.
Vegna þess að Norður-Kórea dró sig úr samningum um að ríki heims myndu ekki framleiða fleiri kjarnavopn árið 2003 hófust svokallaðar sex ríkja viðræður um stöðu Norður-Kóreu og kjarnorkuáætlunina. Þar komu saman, auk Norður-Kóreu, Suður-Kórea, Japan, Kína, Rússland og Bandaríkin.
Þessi sex ríki funduðu í fimm lotum með litlum árangri á árunum 2003 til 2007. Fimmta lotan árið 2007 reyndist skila mestum árangri en þar samþykkti Norður-Kórea að hætta þróun kjarnorkuvopna gegn því að alþjóðasamfélagið veitti þeim eldsneytisaðstoð og að Bandaríkin og Japan myndu beita sér fyrir uppbyggilegum samskiptum við Norður-Kóreu.
Norður-Kórea rifti þessum sex ríkja viðræðum og öllum samþykktum þess í apríl árið 2009 eftir að hafa gert misheppnaða tilraun með eldflaug. Eldflaugin var, að sögn yfirvalda í Pjongjang, ætluð til þess að koma gervihnetti á braut um jörðu en Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taldi víst að hér væri verið að gera tilraunir með langdrægar eldflaugar. Harðorð yfirlýsing öryggisráðsins varð til þess að reita Norður-Kóreumenn til reiði og hefja kjarnorkuáætlun sína á nýjan leik. Um leið var öllum eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar kastað út úr Norður-Kóreu.
Allt mistekst
Sé litið á viðbrögð alþjóðasamfélagsins með gleraugum Bandaríkjamanna er stefnumótuninni oftar en ekki skipt í tímabil eftir því hver gegndi embætti forseta Bandaríkjanna.
Síðan Sovétríkin féllu hafa þrír menn gengt embætti forseta í Bandaríkjunum í meira en eitt kjörtímabil; Þeir Bill Clinton, George W. Bush og Barack Obama. Allir nálguðust vandamálið á Kóreuskaga með mismunandi hætti.
Bill Clinton ákvað að fara hina diplómatísku leið og senda neyðaraðstoð til Norður-Kóreu, fullur vonar um að greiðinn yrði launaður síðar og að hægt væri að eiga eðlileg milliríkjasamskipti við Norður-Kóreu í kjölfar falls kommúnísku blokkarinnar.
George W. Bush hélt þessari stefnu þar til hann ákvað að fara í stríð við hryðjuverkamenn. Norður-Kórea var þá stimplað sem ríki sem studdi hryðjuverkamenn og fljótlega hvarf nær öll neyðaraðstoð frá Bandaríkjunum og viðskiptaþvinganir voru hertar. Fyrsta kjarnorkutilraunin var gerð á meðan Bush var forseti í Bandaríkjunum og sex ríkja viðræðurnar voru allar haldnar í tíð hans. Aðferðir hans um að hafa bein afskipti af nýju kjarnorkuríki höfðu þess vegna misjafnar afleiðingar.
Barack Obama tók við embætti forseta í janúar 2009. Aðeins þremur mánuðum seinna gerðu Norður-Kóreumenn tilraun með langdrægu eldflaugina og sá árangur sem náðst hafði í sex ríkja viðræðunum hvarf á skotstundu.
Í stað þess að grípa til sértækra ráða ákvað Obama að halda viðskiptaþvingunum til streitu og aðhafast ekkert frekar, vongóður um að vandamálið mundi leysast af sjálfu sér með hruni stjórnarinnar í Norður-Kóreu. Stjórn Obama hefur eflaust haft veður af slæmri heilsu Kim Jong-il og talið líklegt að valdabarátta eftir yfirvofandi fráfall hans ætti eftir að verða alræðisstjórninni í Pjongjang að falli.
Kim Jong-un
Kim Jong-il lést árið 2011 og lítið þekktur sonur hans Kim Jong-un tók við valdataumunum. Jong-un hafði gengið í skóla í Sviss og bundnar voru vonir við að hann yrði mildari leiðtogi en faðir hans.
Þær vonir urðu svo að engu þegar fregnir bárust af því að Kim Jong-un hefði fyrirskipað aftöku frænda síns Jang Song-thaek sem átti að hafa framið föðurlandssvik. Í febrúar árið 2017, eftir að Jong-un hafði tryggt völd sín, er því haldið fram að hinn ungi leiðtogi hafi fyrirskipað morðið á bróður sínum, Kim Jong-nam, á flugvelli í Malasíu.
Þessi þriðji leiðtogi Norður-Kóreu hefur hraðað kjarnorkuvopnaþróun ríkisins. Í stuttri valdatíð hans hefur meira en helmingur flugskeytatilrauna og kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu farið fram. Nú er svo komið að flugskeytin eru talin geta náð ströndum Bandaríkjanna, handan Kyrrahafsins.
Erkióvinurinn er kominn í skotfæri.
Á morgun verður fjallað um þá stöðu sem nú er komin upp og þau úrræði sem alþjóðasamfélagið hefur til þess að stemma stigu við ógninni frá Norður-Kóreu. Nú þegar hefur verið fjallað um stofnun Norður-Kóreu og uppruna haturs norðanmanna á alþjóðasamfélaginu.