Aðfluttir umfram brottfluttra á Íslandi voru 3.400 á öðrum ársfjórðungi í ár, en þeir hafa ekki verið fleiri í sjö ár samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Mest er fjölgunin meðal erlendra ríkisborgara, en einnig virðast fleiri Íslendingar snúa aftur heim eftir að hafa flutt út vegna kreppunnar. Miðað við þróun síðustu ára má búast við tæplega þrefalt fleiri aðfluttum umfram brottfluttra á þessu ári.
Erlendir ríkisborgarar drifkrafturinn
Ef miðað er við annan ársfjórðung 2016 hefur aðfluttum umfram brottfluttra á Íslandi fjölgað um 128%. Aukning aðfluttra er aðallega tilkomin vegna sprengingar í fjölgun erlendra ríkisborgara, en þeim fjölgaði um 3.130 í vor, miðað við 1.330 í fyrravor. Samhliða því jókst fjölgun aðfluttra Íslendinga einnig nokkuð, eða um 270 í vor miðað við 150 í fyrravor. Fjölgunin ár er sú hraðasta sem átt hefur sér stað á síðustu sjö árum, eins og sjá má á mynd hér að neðan.
Breyting á þróuninni
Fólksflutningar á Íslandi eru árstíðabundnir, en iðulega flytjast fleiri hingað að á vorin á meðan fleiri flytja frá landi að hausti til. Tölur frá öðrum ársfjórðungi eru því oft ekki í samræmi við árstölur um fólksflutninga, en gætu hins vegar gefið ágæta mynd af því sem koma skal ef skoðuð er þróun milli ára.
Undanfarin sex ár hefur að meðaltali 41,5% aðfluttra komið til landsins á fyrri hluta ársins á meðan 39,8% brottfluttra hafa farið burt á fyrri hluta ársins. Ef tölur fyrsta og annars ársfjórðungs eru umreiknaðar út frá því meðaltali má búast við að 862 fleiri íslenskir ríkisborgarar muni snúa aftur heim en flytji af landi brott og 10.237 erlendir ríkisborgarar sömuleiðis.
Samtals myndi aðfluttum því fjölga um 11.099, en til samanburðar fjölgaði þeim um 3.910 í fyrra. Gangi því útreikningarnir eftir má því búast við að aðfluttum umfram brottfluttra muni nær þrefaldast á einu ári.
Íslendingar komi aftur heim
Fólksflutningar til og frá Íslandi hafa verið meira og minna í takti við hagsveiflu landsins. Eftir fjármálakreppuna fór fólk að flytja úr landi í meira mæli, en á tímabilinu 2009-2015 var árlegur fjöldi brottfluttra umfram aðfluttra rúmlega 1.200 að meðaltali. Síðustu ár hefur þeim svo fækkað aftur, en í fyrra fluttu tæplega 200 fleiri Íslendingar af landi brott en aftur heim.
Útlit er fyrir að brottfluttum Íslendingum muni fækka enn frekar samhliða fjölgun aðfluttra ef litið er á nýbirtar ársfjórðungstölur Hagstofu. Að því gefnu að árstíðarmynstur fólksflutninga haldist óbreytt milli ára má gera ráð fyrir að aðfluttir Íslendingar verði fleiri en brottfluttir í ár, í fyrsta skiptið síðan árið 2005. Fjölgun aðfluttra Íslendinga umfram brottfluttra má að einhverju leyti skýra með því að margir þeirra séu nú að snúa aftur heim eftir að hafa flutt út í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008.