Facebook. Fyrir tveimur milljörðum einstaklinga er það persónulegur blaðberi sem færir þér allar upplýsingarnar sem þú vilt með einum músarsmelli. Facebook ákveður hvaða upplýsingar þú vilt með því að rýna í like-in.
Við like-um öll eitthvað á Facebook. Við erum kannski búin að átta okkur á að það er hvorki töff né viðurkennt að like-a allt sem við sjáum, sum okkar eru kannski hætt að like-a nokkurn skapaðan hlut og fylgjumst bara með vinum okkar úr stafrænum skugga. Aðrir eru hættir á Facebook, búin að gefast upp á samfélagsnjósnum bandarískra stórfyrirtækja.
En við höfum öll like-að.
Upplýsingar með like-i
Facebook er lang stærsti samfélagsmiðill í heimi með nærri tvo milljarða virkra notenda (miðað við tölur í apríl 2017). Til samanburðar eru virkir notendur á Twitter aðeins 319 milljónir.
Við, virku notendurnir, nálgumst Facebook á allt öðrum forsendum en fyrirtækið nálgast notendur. Það má ætla að flest okkar hafi stofnað reikning á Facebook með það í huga að tengjast vinum og kunningjum, deila hugmyndum og reynslu, birta myndir og sýna öðrum.
Gagnvart Facebook eru allar aðgerðir okkar upplýsingar um okkur sjálf. Hvert like geymir upplýsingar um áhuga þinn, hvað þú vilt sjá og eftir hverju þú berð þig.
Þessar upplýsingar sem Facebook safnar um þig eru eign Facebook, fyrirtækis í Bandaríkjunum sem lýtur bandarískum lögum. Við höfum öll samþykkt skilmála Facebook með því að gerast notendur á samfélagsmiðlinum. Þetta er hins vegar ekki aðeins bundið við notendur á Facebook, heldur einnig við aðra samfélagsmiðla.
Facebook á fleiri verðmætar upplýsingar um okkur. Má þar til dæmis nefna upplýsingar um áhugamálin okkar sem við höfum skráð samviskusamlega í prófílinn okkar, um vinnuna okkar og vinnufélaga, um námið okkar, fjölskylduna okkar, hvert við höfum ferðast í heiminum (nákvæmlega) og hversu hratt við hlaupum fimm kílómetra.
Út frá öllu þessu gagnasafni er hægt draga nákvæmar ályktanir um hver við erum, hvernig okkur líður hverju sinni og hvaða skoðanir við höfum á ólíklegustu hlutum. Í rannsókn sem gerð var við Cambridge-háskóla í Bretlandi og kynnt árið 2015 kemur fram að vitvélar geti dregið nákvæmari ályktanir um þig sem einstakling en nánustu vinir og fjölskylda þín, ef vélarnar eru mataðar með like-unum þínum.
Rannsóknin sýnir fram á að gervigreind geti spáð nákvæmar fyrir um persónuleika einstaklings en vinnufélagi út frá 10 like-um. Með 70 like-um getur tölvan greint persónuleika betur en náin vinur eða meðleigjandi, með 150 like-um tókst tölvunni betur til en foreldrar eða systkin og maki fellur á prófinu ef gervigreindin fær að vinna úr 300 like-um.
Í krafti þessara upplýsinga hefur Facebook sagst ætla að tækla ýmis konar samfélagsmein. Í byrjun árs setti Facebook saman teymi fólks sem setur sig í samband við fólk sem er í áhættuhópi um að fremja sjálfsmorð. Þá hefur Facebook sagst geta útrýmt áróðri hryðjuverkamanna með því að beita gögnunum.
Það var svo fyrir rúmu ári síðan sem Facebook hóf að bjóða upp á fleiri valmöguleika við like-ið. Hægt er að hengja tilfinningar við færslur á samfélagsmiðlinum og greina þannig ítarlegar frá viðbrögðum sínum við yfirlýsingum, hlekkjum eða myndum. Þetta gerir gögn Facebook vitanlega mun verðmætari.
Bergmálið
Þessi gagnasöfn eru notuð til þess að dreifa til okkar efni. Hér fara hlutirnir að verða óljósari því Facebook passar vel upp á algóritman – vélina sem knýr Facebook – og gefur ekkert upp um hvernig og hvaða upplýsingar búa að baki sjálfvirkum stafrænum ákvörðunum um hvað við fáum að sjá í fréttaveitunni (e. Newsfeed).
Í hvert einasta sinn sem þú opnar Facebook fer vélin í gang. Hún skoðar allt efnið sem vinir þínir hafa sett á vefinn undanfarnar vikur, flettir upp öllum sem þú þekkir og í öllum hópum sem þú ert meðlimur í og lítur inn á allar síðurnar sem þú hefur like-að. Til að setja þetta í samhengi; Ef þú átt nokkur hundruð vini þá geta flettingarnar verið allt að 10.000. Vélin velur síðan þær færslur sem þú ert líklegust/astur til þess að bregðast við eftir sérstakri og síbreytilegri formúlu, og raðar þeim í fréttaveituna þannig að færslan sem líklegast er að þér þyki áhugaverð er efst.
Vélin velur síðan þær færslur sem þú ert líklegust/astur til þess að bregðast við eftir sérstakri og síbreytilegri formúlu, og raðar þeim í fréttaveituna þannig að færslan sem líklegast er að þér þyki áhugaverð er efst.Algóritminn hjálpar okkur þess vegna að skima í gegnum samfélagsmiðilinn, reiknar líkur og spáir um hvernig heimsóknin á Facebook geti orðið sem best og árangursríkust. Facebook er þess vegna orðinn að persónulegum blaðbera fyrir hvern og einn, sem flokkar allar tiltækar upplýsingar sem þú hefur beðið um í þá röð sem líklegast er að þér þyki nothæfar hverju sinni.
Í grunninn er þetta það sama og aðrir „snjallir“ miðlar gera. Nýverið gerði undirritaður þau mistök að draga þá ályktun að Kjarninn.is væri „leitarvélavænasti fréttavefur landsins“ því umfjallanir Kjarnans birtust ofar í leitarniðurstöðum Google en niðurstöður sem vísuðu aðra miðla. Skýringin er vitanlega sú að ég er starfsmaður Kjarnans og heimsæki Kjarnann.is oft á dag. Google Chrome-vafrinn skráir það samviskusamlega í gagnagrunn og leitarvélin ýtir þeim niðurstöðum frekar að mér. Google líkar ekkert betur við Kjarnann en Vísi eða Morgunblaðið. Google hefur sérsniðið leitarniðurstöður fyrir einstaka notendur síðan árið 2009.
Þetta er fyrirbæri sem hefur verið kallað „bergmálsherbergið“ (e. echo chamber). Kenningin gengur út á það að ef tölvur velja allar upplýsingarnar sem hafðar eru fyrir fólki eftir því hvað það líkar við, hvaða skoðanir það hefur og hvaða fólk það umgengst munu einstaklingar aðeins heyra bergmál eigin skoðana og sjá spegilmynd eigin tilveru.
Í TED-fyrirlestri varaði Eli Pariser, internetgúrú og höfundur bókarinnar What the Internet is Hiding from You, við þessari síu. Sjálfur segist hann vera vinstri sinnaður en að hann hafi haft gaman af því að sjá skoðanir hægri sinnaðra vina sinna. Einn góðan veðurdag hafi skoðanir þeirra horfið. Skýringuna segir hann vera vegna þess að hann smellti aldrei á hlekki hægri sinnaðra vina sinna, like-aði ekki hugmyndir þeirra og heimsótti aldrei prófílana þeirra.
Virði upplýsinganna
Á upplýsingaöld eru upplýsingar verðmætustu eignir fyrirtækja. Verðmætasta eign Facebook, og það sem hefur gert stofnanda fyrirtækisins Mark Zuckerberg að milljarðamæringi, eru upplýsingarnar sem fyrirtækið hefur safnað og safnar enn um notendur.
Facebook býður þessar upplýsingar til sölu handa auglýsendum sem vilja komast í tengsl við ákveðinn markhóp, eða fyrirtæki eins og Kjarnann sem vill dreifa efni til stærri hóps en þeirra sem hafa þegar „like-að“ Facebook-síðu fjölmiðilsins.
Þeir sem hafa Facebook í símanum og hafa leyft forritinu að sækja staðsetningu notanda geta, til dæmis, átt von á að sjá auglýsingu frá nýja veitingastaðnum sem opnaði í næsta húsi við vinnustaðinn.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru Facebook og aðrir samfélagsmiðlar vefþjónusta sem er orðin miðpunkturinn í allri okkar vefhegðun. Hún er þægileg og hönnuð til þess að gagnrýna ekki lífsskoðanir fólks. Þjónustan er hins vegar ekki frí heldur borgar maður með upplýsingum um sjálfan sig, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.