Fráviksárin

Stundum er sagt að ein mynd geti sagt meira en þúsund orð. Þetta myndrit segir mikið um loftslagsbreytingar í heiminum.

Frávik ársmeðalhita á jörðinni 1880-2016

Smelltu á skýringarnar til þess aðgreina gögnin. Færðu músarbendilinn yfir gögnin til að sjá nánar.
Heimild: NASA – GISS yfirborðshitagreining.

Loftslagsmál verða sífellt meira áberandi í daglegri umræðu hér á Íslandi, í nágrannaríkjum okkar og í alþjóðasamskiptum. Ástæða þess að loftslagsbreytingarnar hafa fengið aukinn hljómgrunn á undanförnum árum er meðfylgjandi myndrit.

Stofnað var til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar árið 1992. Á árunum þar á undan hafði farið fram mikil og góð umræða um sjálfbærni, hugtak sem notað er yfir ferla eða ástand sem hægt er að viðhalda í sama fari eins lengi og menn langar.

Ástæða umræðunnar var alþjóðleg skýrsla um sjálfbærni frá 1987, „Okkar sameiginlega framtíð“ (e. Our Common Future), sem vanalega er einfaldlega kölluð Brundtland-skýslan í höfuðið á Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og ritstjóra skýrslunnar. Skýrslan er einn af hornsteinum umræðunnar um umhverfisvernd á hnattvísu.

Auglýsing

Þá þegar höfðu vísbendingar um loftslagsbreytingar komið fram og grunur óx um að breytingar í náttúrunni væru af mannavöldum. Nú þykir það ákaflega líklegt að áhrif athafna mannsins séu yfirgnæfandi ástæða þess að loftslagsbreytingar hafi orðið síðan um miðja síðustu öld.

Í drögum að skýrslu vísindamanna á launaskrá bandaríska ríkisins, sem lekið var til fjölmiðla af ótta við að stjórnvöld vestanhafs myndu eiga við eða grafa skýrsluna, birtist myndritið sem sjá má hér að neðan. Myndritið sýnir frávik meðalhita á ársgrundvelli miðað við meðalhita viðmiðunartímabilsins 1901 til 1960. Sjá má að síðastliðin 40 ár hefur munurinn aðeins verið í eina átt.

Stundum er sagt að ein mynd geti sagt meira en þúsund orð. Hægt er að færa rök fyrir því að myndin hér að neðan komist mjög langt með að segja sögu loftslagsbreytinga á jörðinni.

Hér hefur ekki verið teygt á neinum ásum myndritsins og engum árum er sleppt. Stuðst er við raunveruleg gögn sem aflað hefur verið af vísindamönnum og með vísindalegum aðferðum.

Síðan árið 1977 hefur hitastig á ársmeðalhiti á jörðinni aldrei verið minni en meðalhiti viðmiðunaráranna 1901-1960. Síðastliðin sex ár hefur frávikið frá meðalhita viðmiðsins verið meira með hverju árinu. Í efstu sætum listans yfir hlýjustu ár á skrá raða síðustu 16 ár 21. aldarinnar sér í efstu sætin, ef undan er skilið árið 1998.

Markmiðið er 2°c hlýnun

Í Parísarsamkomulaginu sem nær öll ríki heims hafa skuldbundið sig til að standa við eru markmið alþjóðasamfélagsins tíunduð; Það er að í lok aldarinnar hafi meðalhiti á jörðinni ekki orðið meiri en 2°c yfir meðalhitastigi jarðar fyrir iðnbyltingu.

Nú þegar er meðalhiti á jörðinni orðinn meiri en ein gráða og augljóst að grípa þarf til róttækra aðgerða.

Jafnvel þó hlýnun um fáeinar gráður hljómi eins og smámál þá benda rannsóknir vísindamanna til þess að hlýnun meðalhita um brot úr gráðu geti haft gríðarlegar afleiðingar fyrir náttúru jarðar. Búast má við tíðari ofsaviðrum og breytingum á veðráttu sem mun leiða til gríðarlegs fólksflótta frá viðkvæmustu svæðunum. Jökul- og hafís bráðnar hraðar sem mun leiða til hærra sjávaryfirborðs og í kjölfarið munu stafa hætta að mannabyggðum við sjó.

Svona mætti lengi telja áhrif loftslagsbreytinga á samfélög og menn.

Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar