Félagskapur áhrifamanna í Danmörku er kominn með vilyrði stjórnvalda og forsvarsmanna Formúlu 1 um danskan Formúlu 1 kappakstur árið 2020. Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa nú til athugunar tillögur um legu kappakstursbrautar í miðborg Kaupmannahafnar.
Danska dagblaðið Jyllands-Posten greindi fyrst frá því í sumar að dönsk stjórnvöld hefðu tekið hugsanlegan kappakstur á danskri grund til faglegrar skoðunar. Forsvarsmenn verkefnisins eru Helge Sander, fyrrverandi ráðherra vísinda, tækni og þróunar í Danmörku, og Lars Seier Christensen, fyrrum eigandi Saxo-bankans.
Kappaksturstímaritið Autosport greindi svo frá því á dögunum að áformin hefðu fallið vel að eyrum Formula One Management, fyrirtækinu sem rekur og stýrir Formúlu 1 um allan heim. Um leið höfðu tveir stærstu múrarnir verið felldir áður en hægt er að ræða um kappaksturinn. Enn eru þó ljón í veginum.
Götukappakstur í Köben
Brautin sem lagt er til að lögð verði um miðborg Kaupmannahafnar mun liggja um Kristjánshöfn, yfir Knippelsbro á Hallarhólmann, yfir Langebro á Íslandsbryggju, eftir Amager Boulevard að Amagerbrogade og þaðan aftur í Kristjánshöfn.
Brautin var hönnuð af Þjóðverjanum Herman Tilke en sá hefur hannað margar af þeim kappakstursbrautum sem Formúla 1 keppir á í dag. Þeirra á meðal er brautin í miðborg Baku í Azerbaídjan sem fyrst var keppt á sumarið 2016. Tillögur Tilke þykja svipa nokkuð til brautarinnar í Azerbaídjan – brautin verður hröð, með hægum, þröngum beygjum og þar af leiðandi nokkur áskorun fyrir ökumenn – ef af áformunum verður.
Danski kappakstursökuþórinn Jan Magnussen sem keppti í Formúlu 1 á árunum 1995 til 1998 fyrir McLaren- og Stewart-liðin, hefur verið þeim Sander og Christensen til ráðgjafar í þessu verkefni. Sonur Magnusen, Kevin Magnusen, hefur keppt í Formúlu 1 síðan árið 2014 og ekur nú fyrir hið bandaríska HAAS-lið.
Hér að neðan er myndband frá hring Lewis Hamilton í tímatökum fyrir kappaksturinn í Baku í sumar.
„Við höfum rætt þetta við einkafjárfestana um nokkurt skeið og erum nú reiðubúin að fjalla um þetta á opinberum vettvangi,“ er haft eftir Brian Mikkelsen, iðnaðarráðherra Danmerkur, í Autosport. „Þetta lítur allt út fyrir að vera mun rauverulegra með tímanum. Formúla 1 mundi verða góð auglýsing fyrir Kaupmannahöfn.“
Framtíðarformúlan meira í borgum
Nýju eigendur Formúlu 1, bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Liberty Media með Chase Carey og Ross Brawn fremsta í flokki, hafa sagst sjá Formúlu 1 keppa í mun meiri mæli í borgum en nú er gert.
Sex borgarbrautir eru nú á dagskrá Formúlu 1, þeirra þekktust er eflaust brautin í smáríkinu Mónakó við Miðjarðarhafið. Aðrar eru í Melbourne í Ástralíu, Sochi í Rússlandi, Montréal í Kanada, Baku í Azerbaídjan og sú síðasta í Singapúr. Á undanförnum árum hafa sprottið upp hugmyndir um brautir í London, New York, Bangkok, Cape Town, Los Angeles og víðar. Slík áform hafa eðli málsins samkvæmt komist mislangt.
Ástæða þess að stjórnendur Formúlu 1 vilja keppa í borgum frekar en á sérbyggðum kappakstursbrautum er að lang mestu leyti viðskiptalegs eðlis. Með því að keppa í borgum er kappaksturinn færður til áhorfenda, miklu frekar en að áhorfendur þurfi að ferðast lengri vegalengdir til þess að komast á kappakstur.
Kappakstri í borgum fylgir hins vegar gríðarlega mikið rask á hinu daglega borgarlífi almennings, sem þurfa margir að ferðast öðruvísi um borgina en venjulega í hálfan mánuð á meðan götum er breytt í kappakstursbraut og aftur til baka. Það eru jafnframt ekki allir aðdáendur kappakstursins sem þurfa að umbera hávaða og læti og aukinn straum ferðamanna í næsta nágrenni vegna kappakstursins.
Í Mónakó er kappaksturinn löngu orðinn að hefð. Kappaksturinn þar hefur verið haldinn nær óslitið síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Andstæðingar kappakstursins eru þess vegna ýmist löngu fluttir á brott, látnir eða láta ekki sjá sig í borginni á meðan kappaksturinn fer fram.
Umhverfisvernd helsta hindrunin
Í Kaupmannahöfn hafa áform um kappaktur þegar fengið mótbyr frá dönskum umhverfisverndarsinnum. Á undanförnum árum hefur ný kappakstursmótaröð, Formúla E, rutt sér til rúms. Þar er aðeins keppt á rafknúnum kappakstursbílum og öll mótin fara fram í borgum.
Sú mótaröð fellur mun betur að umhverfissjónarmiðum enda er þróunin í bílaiðnaði sífellt að færast í átt að hagkvæmari og umhverfisvænari orkulausnum. Formúlu E-mótin hafa farið fram í Berlín, London, Mexíkóborg, París, Róm, New York, Hong Kong svo einhverjar borgir séu taldar til.
Jafnvel þó Formúla 1 hafi tekið stór skref í átt að umhverfisvænni kostum til að knýja vélar kappakstursbílanna þá ganga þeir enn fyrir jarðefnaeldsneyti. Ströngustu aðdáendur Formúlu 1 telja meira að segja að of langt hafi verið gengið í þessum efnum á kostnað hávaða og dekkjabrunalyktar.
Vegna þessa, í takt við það hlutverk sem Formúla E hefur eignað sér, hafa tillögur um að snúa framþróuninni í Formúlu 1 við og knýja kappakstursbílana áfram með mun kraftmeiri og óskilvirkari hætti – það mun friða aðdáendur sem vilja heyra ærandi vélahljóð og finna lykt af gúmmí brenna.
Grand Prix-kappakstur á Norðurlöndum
Á Norðurlöndum er ekki eins mikil menning fyrir mótorsporti og sunnar í Evrópu og á Bretlandi þar sem helstu og þekktustu bifvélaframleiðendur heims starfa. Það er ekki þar með sagt að Norðurlandabúar hafi ekki tekið þátt.
Þeir feðgar Kevin og Jan Magnusen eru þeir ökumenn frá Danmörku sem náð hafa bestum árangri. Svíar hafa átt fleiri ökumenn og náð mun betri árangri. Markus Ericson er eini Svíinn sem keppir í dag. Annars var Ronnie Peterson sá sænski ökuþór sem náði bestum árangri. Hann lést í Formúlu 1-kappakstri árið 1978.
Finnar eru hins vegar ótvírætt farsælasta norðurlandaþjóðin þegar kemur að Formúlu 1. Í dag keppa tveir Finnar í Formúlu 1, þeir Kimi Räikkönen og Valtteri Bottas. Räikkönen er einn þriggja finnskra heimsmeistara í Formúlu 1. Hinir eru Keke Rosberg og Mika Häkkinen.
Svíþjóð er þó eina landið sem haldið hefur Formúlu 1-kappakstur sem talið hefur til stiga í heimsmeistarabaráttu. Brautin í Anderstorp var áfangastaður Formúlu 1 í sex skipti á áttunda áratugnum. Svíar höfðu mikinn áhuga á kappakstrinum en þegar helstu kappaksturshetur þeirra létust árið 1978 (Peterson í kappakstri og Gunnar Nilson úr krabbameini) fjaraði áhuginn út.
Formúlu 1-kappakstur hefur raunar líka verið haldinn í Danmörku, á Roskilde Ring í Hróarskeldu, árin 1961 og 1962. Mótin voru þó ekki talin til stiga í heimsmeistarakeppninni og þess vegna voru þau ekki eiginleg Formúlu 1-mót.
Þurfa að tryggja fjármagn
Það kostar mikinn pening að halda Formúlu 1-kappakstur í nútímanum, ekki síst í borgum þar sem engin kappakstursbraut er tilbúin. Helge Sander, einn forsvarsmanna kappakstursáformanna í Kaupmannahöfn, segir næstu mánuði fara í að tryggja fjármagn fyrir mótshaldinu.
„Við þurfum að skilgreina fjárhagsáætlanirnar okkar svo við getum tryggt það fjármagn sem þarf til þess að halda Formúlu 1-kappakstur. Við munum vinna ársvinnu á næstu sex mánuðum þar sem margt þarf að ganga upp, sérstaklega eftir að þessi formsatriði eru í höfn,“ sagði Sander um framhaldið eftir að stjórnvöld í Danmörku og Formúla 1 hafa samþykkt að veita þessu verkefni athygli.
„Við þurfum að hefja samningaviðræður við danska ríkið, sem þegar hefur gefið vilyrði fyrir fjárstuðningi við mótshaldið,“ segir hann ennfremur.
Kappakstur víða um heim er oftar en ekki studdur af stjórnvöldum af einhverju eða öllu leyti. Einkafjárfesting er yfirleitt lítill hluti þess fjármagns sem sett er í keppnishaldið. Þar sem ríkisstjórnir hafa komið að fjármögnun móta hefur það verið til þess að kynna land og þjóð fyrir alheiminum. Formúlu 1 er sjónvarpað til nær allra landa í heiminum, og er ítrekað meðal stærstu sjónvarpsviðburða á ársgrundvelli.