Nú er síðasti séns að ákveða hvaða flokk skal kjósa í alþingiskosningum enda kjördagur í dag. Þá er ekki úr vegi að athuga hverjar hugmyndir flokkanna eru, sem bjóða sig fram, um menntun og menningu í landinu.
Kjarninn tók saman helstu áherslumál í málaflokknum en allir flokkarnir nema einn hafa skilað inn stefnumálum á Betra Ísland. Hægt er að taka þátt umræðunni á síðunni sjálfri.
Á vefsíðunni Betra Ísland er hægt að lesa um fleiri stefnumál flokkanna og taka þátt í rökræðum.
Framsóknarflokkurinn
Framsókn vill hækka endurgreiðslu í 25 prósent vegna nýsköpun og rannsókna. Þau benda á að rannsóknir og nýsköpun í dag séu undirstaða kröftugs hagvaxtar og velmegunar í framtíðinni. Framsókn telur skynsamlegt og nauðsynlegt efla stuðning við rannsóknir og nýsköpun.
Skapa þurfi ný tækifæri á umbreytingatímum sem framundan eru. Framsókn vill öflugt menntakerfi og fjárfesta í hugverka- og þekkingariðnaði. Með aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi megi tryggja velferð og hagsæld til framtíðar. Framsókn sé flokkur fjölskyldunnar og vill hann fjárfesta í menntun í framtíðinni.
Skapa þurfi hvata til að laða ungt vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og Norðmenn hafa gert. Framsókn vill að afborganir séu felldar niður af námslánum í fimm ár fyrir þá sem eru búsettir á skilgreindum svæðum á landsbyggðinni.
Sala tónlistar fer í auknum mæli fram á netinu og tónlistarmenn fá sífellt minna í sinn hlut. Framsókn segist vilja styðja við öflugt tónlistarlíf og tónlistariðnað í landinu og leggja niður virðisaukaskatt af sölu tónlistar á netinu, á geisladiskum og hljómplötum.
Bóksala hefur dregist saman um 31 prósent frá árinu 2008 og 11 prósent samdráttur var í bóksölu árið 2016 miðað við fyrra ár. Þau segjast vilja afnema virðisaukaskatt af bókum og rafbókum til að efla lestur og styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu sem á undir högg að sækja.
Vinstri græn
VG telur að grunnskólinn sé eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins. Standa þurfi vörð um fjölbreytta og öfluga opinbera grunnskóla þar sem kennarar, nemendur og fjölskyldur vinna saman að alhliða menntun og þroska barna og ungmenna.
Framhaldsskólum verði tryggt svigrúm til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga. Tryggja þurfi fullnægjandi fjármagn til að framhaldsskólinn geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki. Nauðsynlegt sé að það fjármagn sem sparaðist með styttingu námstíma til stúdentsprófs skili sér inn í rekstur framhaldsskólanna eins og lofað var.
Tryggja þurfi að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs.
VG vill brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þau telja að gera þurfi leikskóla gjaldfrjálsa í áföngum.
Vinstri græn vilja námsstyrktarkerfi að norrænni fyrirmynd.
Samfylkingin
Menntakerfið gegnir mikilvægu hlutverki við að auka jöfnuð í samfélaginu, mæta öllum börnum og ungmennum þar sem þau eru og gefa fólki tækifæri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði jafn sem fyrir frekara nám.
Þau viljum fara í stórsókn í skólamálum og skapandi greinum fyrir samfélag framtíðar. Forgangsverkefni er að efla menntakerfið á öllum skólastigum, bæta starfsaðstæður og kjör kennara og gera skólunum kleift að bregðast við hröðum tækni- og samfélagsbreytingum.
Alþýðufylkingin
Alþýðufylkingin segir að menntun sé mannréttindi, samfélagsleg gæði frekar en markaðsvara. Hver og einn eigi að geta valið sér menntun við hæfi, endurgjaldlaust.
Miðflokkurinn
Þau segjast ætla að styðja sérstaklega við iðn- og tækninám í framhalds- og háskólum með fjármagni og samstarfi því að framtíðin er núna. „Við þurfum að undirbúa samfélagið fyrir breyttan heim og störf framtíðarinnar. Mótaðu framtíðina með okkur!“ segir í áherslum þeirra.
Viðreisn
Listaháskóli Íslands er í dag í nokkrum húsakynnum og eitt þeirra er bókstaflega að molna niður. Viðreisn segir að við þessu verði að bregðast.
Þau segja að efla þurfi menningartengda samkeppnissjóði, þ.e. launa- og verkefnasjóði og úthlutun eigi að vera opin og fagleg. Það þurfi að gera þessa sjóði þannig að þeir stuðli að nýliðun í greininni en jafnframt að þeir sem eru orðnir sjóaðir í greininni geti haldið áfram að sækja um styrk fyrir verkefni.
Píratar
Píratar vilja stefna að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju, jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga.
Þau segja að menntun sé lykillinn að framtíðarsamfélaginu. Jafnt aðgengi allra að námi á öllum stigum sé markmið þeirra. Jafnframt vilja þau vinna markvisst að því innan menntakerfisins að draga úr kynbundnum hindrunum við val á námi og starfssviði.
Þau benda á að lýðræði gerist ekki sjálfkrafa og að samfélagssáttmálinn byggist á samtali, samþykki og samvinnu. Þau vilja því efla kennslu um lýðræði, heimspeki og samfélagsmál sem og þjálfun í gagnrýnni hugsun og lýðræðislegum vinnubrögðum á öllum skólastigum.
Þau segja að það sé dýrt og ósanngjarnt gagnvart nemendum að hafa listaháskólann á fimm mismunandi stöðum. „Sameinum skólann undir eitt þak eins og hefur verið lofað síðan 1999. Hluti núverandi húsnæðis er með slæmt mygluvandamál sem getur valdið heilsutjóni og því þarf að bregðast við strax. Deilið og lækið ef þið eruð sammála um að þetta eigi ekki að bíða lengur.“
Þekking er og verður áfram grunnforsenda hárra launa og öflugs hagvaxtar. Til að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í þessari framtíð þarf menntakerfi sem tryggir öllum aðgang án tillits til efnahags, búsetu eða aldurs - allt frá leikskóla til háskóla og endurmenntunar, að þeirra mati. Þau vilja að í menntakerfinu sé jafnvægi milli bók-, list- og verkgreina, með lítið heimanám, smærri bekki og virðingu fyrir starfi kennara sem sést í háum launum.
Píratar telja að höfundar eigi rétt á að njóta ágóða af verkum sínum. Endurskoða og samræma þurfi löggjöf um höfundarétt innan evrópska efnahagssvæðisins og á alþjóðavísu; svo sem lög um gildistíma höfundaréttar, sæmdarrétt, höfundarétt í almenningsrýmum, undanþágur vegna skopstælinga, notkun hugverka í menntatilgangi, leyfi til gagnaúrvinnslu, stafræna útgáfu verka o.fl.
Þau vilja að Íslendingar taki sér finnska menntakerfið til fyrirmyndar í auknum mæli og stefni að fjölbreyttara námsmati, auknu jafnvægi á milli bóknáms, verknáms, listnáms og annarra greina, minna heimanámi, smærri bekkjum o.fl.
Grunnframfærsla LÍN skuli leiðrétt og miðuð við eðlilegar fjárþarfir fólks í námi. Þau vilja stefna að afnámi tekjuskerðingar námslána og því að LÍN veiti nemendum lán við upphaf náms, svo að þeir þurfi ekki að leita til einkaaðila á þeim tímapunkti.
Aðgangur allra að menntun eru mikilvæg mannréttindi sem stuðla að jafnari tækifærum allra til að nýta hæfileika sína og ná markmiðum sínum, að þeirra mati. „Vel menntaðir borgarar stuðla að upplýstara samfélagi. Tryggjum öllum landsmönnum réttindi til menntunar.“
Sjálfstæðisflokkurinn
Þau ætla að endurskoða kennsluaðferðir og skólastarf í samvinnu við sveitarfélög, kennara, nemendur og foreldra. Íslendingar þurfi að hugsa menntamál upp á nýtt með fagfólki, kennurum, nemendum og foreldrum. Í heimi sem breytist hratt verði menntakerfið að vera sveigjanlegt og framsækið til að halda í við þróun og alþjóðlega samkeppni.
Björt framtíð
Björt framtíð segist vilja öflugt háskólakerfi, fjölbreytt námsframboð og áherslu á rannsóknir og nýsköpun. Fjárframlög á hvern háskólanema á Íslandi eru lægri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndunum.
Þau segja að sá fjölbreytti hópur sem býður sig fram fyrir Bjarta framtíð sé undantekningarlaust áhugafólk um menningarmál og margt af því sé virkt á því sviði á einn eða annan hátt. Áhugi á menningu sé því ekki bara til staðar á tyllidögum hjá frambjóðendum Bjartrar framtíðar heldur sjálfsagður hluti af hversdagslífinu.
Næsti menntamálaráðherra þurfi að leysa húsnæðisvanda LHÍ. „Jafnræði til náms felst líka í að hafa efni á því að sækja það nám sem þú hefur áhuga á, mjög há skólagjöld eru í LHÍ. Mikilvægt er að efla fjármögn til skólans,“ segir í áherslum þeirra.
Björt framtíð vill styrkja rekstur framhaldsskóla landsins sem hafa búið við mjög þröngan kost undanfarin ár og eru raunar komnir að þolmörkum eftir viðvarandi niðurskurð. Þau telja nauðsynlegt að auka fjölbreytni og sveigjanleika í framhaldsskólakerfinu.
Flokkur fólksins hefur ekki skilað inn stefnumálum sínum á síðuna og áherslur Dögunar vantar varðandi mennta- og menningarmál.
Tekið skal fram að þessi listi er ekki tæmandi og einungis er um að ræða áherslur sem birtast á Betra Ísland.