Fólk af sama kyni mun fá að ganga í hjónaband í Ástralíu nú þegar niðurstöður atkvæðagreiðslu liggja fyrir. 61,6 prósent kjósenda voru fylgjandi lagabreytingu sem leyfir hjónaband samkynhneigðra og hefur forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, lofað því að frumvarpið verði orðið að lögum fyrir næstu jól.
Kjörsókn var 79,5 prósent og voru niðurstöður kunngerðar miðvikudaginn 15. nóvember. 7.817.247 manns kusu með breytingu á lögum og 4.873.987 á móti.
Ljóst þykir að þessar ótvíræðu niðurstöður séu sögulegar í landinu og var kosningabaráttan heldur hrottafengin á köflum. Forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi að fólkið hefði gefið ótvíræð skilaboð og að þingið verði nú að verða við óskum þess og fylgja lögunum eftir.
“Þeir sögðu já við sanngirni, já við skuldbindingu, já við ást. Og nú er komið að okkur á þinginu að halda áfram með starfið sem ástralska fólkið bað okkur um að sinna og ljúka þessu,“ sagði Turnbull og áréttaði að lögin verði komin í gildi fyrir jólin. Þetta segir í frétt The Guardian.
JÁ í öllum fylkjum
Jonathan Duffy, ástralskur grínisti og uppistandari sem venjulega er kallaður Jono, hefur verið búsettur á Íslandi í rúm tvö ár. Hann segir í samtali við Kjarnann að þessar niðurstöður komi honum á óvart en samt ekki. „Það er ekki gott að segja, við erum öll í okkar Facebook-kreðsum. Þegar ég er á netinu þá sé ég að allir styðja breytinguna en það er einmitt það sem gerðist þegar fólk nennti ekki að kjósa í forsetakosningunum í Bandaríkjunum,“ segir hann.
Hann bendir á að auðvelt sé að halda að kosningaúrslit verði þér í hag vegna þess að allir í kringum þig hugsi á svipaðan hátt og þú og algrímið hjá Facebook haldi því þannig. Hann segir að hann hafi ekki verið sérstaklega bjartsýnn vegna þessara ástæðna en jafnframt sé 62 prósent mikill sigur. Ekkert fylki kaus nei, ekki einu sinni Queensland, fylkið sem hann fæddist í, þar sem að hans sögn er mikið um fordóma gagnvart samkynhneigðum.
Fordómar munu líklegast minnka
Niðurstöðurnar skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélag samkynhneigðra í Ástralíu og segir Jono að þær séu skýr skilaboð um óskir fólks varðandi hjónabönd samkynhneigðra. Stjórnmálamenn hafi hér áður fyrr notað vilja almennings sem afsökun fyrir því að gera engar breytingar þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi sagt aðra sögu. Hann bendir á að þó ástralska þjóðin sé ekki trúhneigð þá hafi trú verið dregin inn í umræðuna.
„Það sem er mikilvægt fyrir samkynhneigða í Ástralíu nú um mundir er að fordómar munu líklegast minnka til muna. Þegar ríki mismunar hópi fólks þá er ekki við öðru að búast en að borgarar þess geri það líka,“ segir hann og bætir við að í nánast öllum þeim löndum sem hjónabönd samkynhneigðra hafi verið lögleidd hafi fordómar minnkað.
Áhyggjur hans lýsa sér í því að niðurstöðurnar eru ekki bindandi og þess vegna sé þetta ekki komið algjörlega í gegn. Stjórnvöld gætu farið þá leið að hunsa atkvæðagreiðsluna en þau hafi þó gefið út yfirlýsingu þess efnis að þau muni framfylgja henni fyrir jólin.
Bjóst aldrei við að upplifa þennan dag
Jono hefur ferðast mikið í gegnum tíðina og síðustu tvö ár búið á Íslandi. Hann segir að það sem hafi komið honum mest á óvart á ferðalögum sínum sé munurinn á því annars vegar hvernig fólk heldur að samfélagið í Ástralíu sé og hins vegar hvernig það er í raunveruleikanum.
„Fólk hér á Íslandi er iðulega slegið yfir því að hjónabönd samkynhneigðra séu ekki leyfð og að miklir fordómar grasseri í Ástralíu. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hélt ég þegar ég var að alast upp að ég myndi aldrei sjá hjónaband samkynhneigðra verða að veruleika á minni lífstíð. Samkynhneigð var ennþá ólögleg þá en það eiga samkynhneigðir menn á Íslandi erfitt með að ímynda sér,“ segir hann.
Ógnað í æsku fyrir að vera hommi
„Að alast upp samkynhneigður var ógnvekjandi fyrir mig. Ég var laminn og mér ógnað alla mína æsku og einnig á fullorðinsaldri einungis fyrir það að vera samkynhneigður,“ segir hann. Slíkir atburðir gerist ennþá í heimalandi hans og segir Jono að lítið sé rætt um þetta ofbeldi. Vegna þessa sé tilhneiging hjá samkynhneigðum að hópa sig saman og búa jafnvel í afmörkuðum hverfum. Skjól sé að finna í fjöldanum.
„Raunveruleikinn er sá að landið er mun íhaldsamara en fólk gerir sér grein fyrir. Þetta er einkennilegt í samfélagi þar sem reynslan af fjölmenningu er ein sú besta í heiminum,“ bætir hann við. Til að styðja þessa fullyrðingu bendir hann á að ekkert opinbert tungumál sé í Ástralíu þrátt fyrir að auðvitað tali allir ensku en að almennt sé viðurkennt að flestir komi einhvers staðar að.
Jono telur að viðhorf til samkynhneigðra muni breytast til muna eftir niðurstöður atkvæðagreiðslunnar. „Vegna jafnréttis til hjónabands munu heilu kynslóðirnar vaxa úr grasi vitandi það að samkynhneigðir séu venjulegt fólk. Eftir smá tíma verður þetta ekki einu sinni eitthvað sem fólk pælir í, heldur bara hluti af lífinu,“ segir hann.
Árásir og skemmdarverk áberandi undanfarna mánuði
Hann telur mikilvægt að hampa stjórnvöldum ekki um of. Árið 2010 hafi sama ríkisstjórn gert breytingar á lögum um hjónaband í Ástralíu á tíu dögum án þess að ráðfæra sig við almenning. Í þeim lögum var áframhaldandi óréttlæti gagnvart samkynhneigðum haldið á lofti. Stjórnvöld hafi þá eytt gríðarlegum fjármunum í að gera könnun á viðhorfi almennings þrátt fyrir að vita fyrirfram niðurstöðuna. Á þessum tíma hafi „nei-herferðin“ verið undirlögð af hatri og níði gagnvart samkynhneigðum þar sem ásakanir voru á lofti um að það fólk væri barnaníðingar og fleira í þeim dúr.
„Árásir og skemmdarverk hafa verið áberandi í landinu síðustu mánuði og mér hefur reynst þungbært að fylgjast með því,“ segir Jono. Hann telur að hjá þessu hefði verið hægt að komast með því að gera þessar breytingar á lögunum án atkvæðagreiðslu þar sem breytingarnar varða ekki einu sinni meirihluta kjósenda. Hjónabönd einstaklinga eru jú þeirra eigið mál.