Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir í Facebook-færslu að aðförin að Steinunni Valdísi Óskarsdóttur sé smánarblettur á stjórnmálasögu Íslendinga og vísar þar í mótmæli sem stóðu fyrir framan heimili hennar í fimm vikur árið 2010.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, sagði af sér þingmennsku árið 2010 eftir að hópur mótmælenda hafði safnast saman fyrir framan heimili hennar á hverju einasta kvöldi og krafist þess að hún segði af sér þingmennsku vegna styrkja fyrir prófkjörsbaráttu. Fleiri stjórnmálamenn á borð við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson urðu einnig fyrir aðkasti mótmælenda af sömu ástæðum.
Steinunn Valdís greindi frá og talaði um hótun þess efnis að beita hana kynferðislegu ofbeldi, vegna starfa hennar í stjórnmálum í Silfrinu á RÚV um helgina. Hún þakkaði þeim konum sem hafa haft hugrekki til að stíga fram og segja sína sögu.
Fengið morðhótanir og talin réttdræp
Birgitta segir jafnframt í færslunni að hún vilji halda því að haga að hún hafi alltaf verið því mótfallinn að fólk mótmæli fyrir utan heimili fólks. „Ég lét þá sem stóðu fyrir því heyra það á sínum tíma. Það er ekkert sem réttlætir slíka aðför að friðhelgi fólks alveg sama hvar í flokki það stendur. Á Íslandi er aðgengi að stjórnmálafólki með því besta sem gerist í heiminum vegna hefða og fámennis,“ segi hún í færslunni. Ætla má að ástæðan fyrir skrifum Birgittu sé gömul frétt mbl.is frá árinu 2013 þar sem Steinunn Valdís sagði að Birgitta hefði hvatt fólk til að fara að heimili hennar vorið 2010 og krefjast afsagnar.
Birgitta segir enn fremur frá því að hún hafi lent í því að hafa fengið yfir sig morðhótanir reglulega og verið talin réttdræp. Hún segir að ráðist hafi verið á hana í matvöruverslun, að eldri kona hafi klesst hressilega á hana viljandi með innkaupakerru og hrópað að henni níð í viðurvist sonar hennar. Það sé þó ekki sambærilegt því sem Steinunn Valdís varð fyrir.
„Ég eins og fleiri skammast mín fyrir að hafa ekki gert meira til að standa með henni á sínum tíma og bið hana afsökunar á því,“ segir Birgitta.
Ég vil halda því til haga að ég hef ALLTAF verið því mótfallinn að fólk mótmæli fyrir utan heimili fólks. Ég lét þá sem...
Posted by Birgitta Jónsdóttir on Monday, December 4, 2017
Hvöttu til nauðgana
Steinunn Valdís sagði í Silfrinu um helgina að þjóðþekktir nafngreindir menn hefðu hvatt aðra menn til að fara heim til hennar og nauðga henni. „Það eru núna tæplega átta ár síðan ég lenti í mínu ofbeldi vil ég segja, og ég hugsa stundum til baka og svona kemst að þeirri niðurstöðu að kannski hafi ég ekki brugðist rétt við á sínum tíma vegna þess að það ofbeldi átti náttúrulega ekkert að líðast.“
„Þeir hvöttu til nauðgana á mér vegna starfa minna í stjórnmálum og vegna þeirra mála sem ég hafði barist fyrir sérstaklega í borgarstjórn og ég hugsa stundum, hvernig samfélagið hefði brugðist við og hvernig lögreglan hefði brugðist við ef að það hefði komið ákall frá þessum mönnum um að fara heim til Dags B. Eggertssonar og nauðga honum,“ sagði Steinunn Valdís. Hún telur jafnframt að öðruvísi hefði verið brugðist við í þeim aðstæðum.
Hvernig hefði flokkurinn getað sýnt henni meiri stuðning?
Steinunn Valdís talaði um málið í fyrsta skiptið opinberlega í Silfrinu. Hún sagðist ekki hafa haft kjark til þess hingað til. „Ég finn það bara þegar ég sit hérna og við erum að tala um þetta, ég hef ekkert talað um þetta opinberlega, að ég fer næstum því bara að gráta. Þið verðið bara að afsaka. Þetta er bara þannig. Ég vil bara þakka öllum þessum konum sem hófu þessa vegferð, því þetta skiptir máli,“ sagði hún.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tekur í sama streng og Birgitta og segir í færslu á Facebook að aðförin að Steinunni Valdísi sé ljótur blettur á íslenskum stjórnmálum eftirhrunsáranna.
Hann segist ætla að beita sér fyrir því að Samfylkingin skoði með hvaða hætti flokkurinn hefði getað sýnt henni meiri stuðning.
„Það má ekki líða ofbeldi af þessum toga og bæði einstaklingar og flokkar þurfa að bregðast við slíku af festu,“ segir hann í færslunni.
Aðförin að Steinunni Valdísi er ljótur blettur á íslenskum stjórnmálum eftirhruns áranna. Ég mun beita mér fyrir því að...
Posted by Logi Einarsson on Sunday, December 3, 2017
„Dugar ekkert annað en tveir harðir“
Töluvert var fjallað um bloggfærslu Egils „Gillzeneggers" Einarssonar frá árinu 2007 þar sem hann hvatti til kynferðisofbeldis á Steinunni Valdísi og fleiri konum.
„Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður. Steinunn er portkonan sem vildi breyta orðinu ráðherra í ráðfrú fyrir konur. Steinunn þarf lim og það strax. Á hana Steinunni Valdísi dugar ekkert annað en lágmark tveir harðir og munu Buka og Yao taka þetta verkefni að sér. Fréttastofan ákvað að gefa Ásgeiri Kolbeinssyni frí í þetta skiptið, en Fréttastofan vill ekki hafa það á samviskunni að Ásgeir finnist hangandi í ljósakrónu í vesturbænum.“
Mikil reiði í samfélaginu á þessum tíma
Mótmælin fyrir framan hús Steinunnar Valdísar stóðu yfir í fimm vikur og sagði hún í fyrrnefndu viðtali á mbl.is að forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson og bræður hans Hlaupagarpar hafi verið fyrir framan gluggana hjá henni í þrjár vikur. „Þar var einnig Björn Þorri Viktorsson lögmaður kvöld eftir kvöld vel klæddur í kraftgalla með marga af sínum skjólstæðingum. Til viðbótar voru margir skjólstæðingar Útvarps Sögu o.fl.,“ sagði hún. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís sagðist sjá mikið eftir þátttöku sinni í mótmælunum á sínum tíma í viðtali við Eyjuna í maí 2014.
Aðspurður um þátttöku sína í mótmælunum sagði Sveinn að skiljanlega hefði mikil reiði ríkt í samfélaginu á þessum tíma. Hann sagði ennfremur að hann hefði ekki átt aðild að máli í öll þau skipti sem mótmæli áttu sér stað á heimilum stjórnmálamanna. Hann bætti því við að í hita leiksins hefði ekki verið ekki verið hugsað út í að verið væri að gera atlögu að einkaheimili fólks. Verst hefði honum þótt sá misskilningur að mótmælin hefðu beinst sérstaklega að konum.
„Ég hef beðið hana afsökunar. Mér finnst leiðinlegt ef fólk heldur eitthvað ranglega um mig en ég ætla ekki að vera í einhverri pólitík með það,“ sagði Sveinn og bætti við að þetta hefði ekki verið það sem hann er mest stoltur af í lífinu.