Í fyrravor bjó ég í gamla Vestur-Berlínarhverfinu Schöneberg og hafði gert það í næstum fjögur ár en á vorin byrja farfuglarnir að tylla sér á aðalgötu miðbæjarins: betlarar sem sumir virðast vera svokallað Rómafólk, en reyndar er ólíkt eftir hverfum í Berlín hver uppruni betlara er og hvers eðlis eymdin er. Í einu hverfinu sérðu helst heimilislaus götubörn á táningsaldri, í því næsta dópista á vergangi, í því þriðja tannlausar kerlingar að skrapa saman fyrir bjórflösku.
Á aðalgötunni í hverfinu mínu voru oft aðeins örfá skref á milli betlara en ég átti í eins konar sambandi við tvo þeirra. Annar var erkiþýskur róni með vel upp alinn hund sem átti sérstakan sníkjudall. Hinn var unglingsdrengur gerður út til að svindla með því að bjóða til sölu tímarit sem heimilislausir í borginni gefa út og selja til að þurfa ekki að betla – merkilegt málgagn – en þegar hann var búinn að fá klinkið fékk maður ekki blaðið heldur biðjandi augnaráð.
Ósýnilegir mansalsgreifar
Það var eitthvað við þennan dreng, kannski hversu ungur hann var og ég móðir lítils drengs, sem gerði það að verkum að ég leyfði honum að svindla á mér á hverjum degi.
Hann var grindhoraður með barnslegt bros og augu sem ljómuðu þegar hann sá mig – sem rétti honum oftast tvær evrur og flækti mig um leið í óþægilegum þönkum. Var ég að kaupa mér vændi, vellíðan við að sjá þakklætið í augum hans, hafði ekki einhver sænskur fræðimaður sýnt fram á það? Og ef hann var gerður út var ég þá að styrkja mansalsgreifa í kitsuðum plasthöllum í Rúmeníu?
Ég sagði við sjálfa mig að sennilega yrði drengnum refsað ef hann kæmi ekki færandi hendi eftir daginn og að ef til vill hefði hann verið alinn upp á einu af þessum alræmdu munaðarleysingjahælum þar sem enginn heldur á börnunum. Einn daginn var drengurinn ekki lengur þarna en ég hugsa ennþá til hans.
Félagsleg meðvitund
Í þessu ráðsetta alþýðuhverfi, þó vinsælu meðal góðborgara, getur verið nauðsynlegt að brynja sig á leiðinni heim til sín úr leikskólanum. Á stuttum spotta mætirðu kannski dópuðu barni með betlandi móður sinni, útlimalausum börnum nýkomnum úr stríði, harðsnúnu gömlu fólki sem skammar þig af því að það kann ekki annað, bókstafstrúuðum körlum sem hóta konunni sinni með augnaráðinu ef hún spjallar við þig og grunsamlega vönkuðum foreldrum sem leyfa börnunum sínum að leika sér úti á umferðargötu. Og þú getur ekkert gert. Svona er bara lífið í borg af þessari stærðargráðu með mikla, flókna sögu og þungavigtar stjórnmálalíf.
Reyndu að ræða hugtök á borð við einelti eða alkóhólisma við sundurleitan hóp foreldra í einum af öllum þessum leikskólum sem eru reknir af foreldrum því í Berlín er botnlaus eftirspurn eftir leikskólum.
Í borg sem þessari er algjörlega tilviljunum háð hver hefur heyrt hvaða hugtak. Ég hef sjaldan upplifað mig eins kjánalega og þegar ég mætti með eineltisáætlun Reykjavíkurborgar á foreldrafund í leikskóla þar sem flestir sötruðu bjór og horfðu á mig eins og geimveru meðan ég rembdist við að þýða félagslegt orðfærið – ofan í hóp sem tilheyrði gjörólíkum stéttum samfélagsins.
Þá angrar gjarnan íslenska foreldra að börn eigi oftar en ekki að velja sjálf hverjum þau bjóða í afmælið sitt. Viðkvæði einhverra þýskra kunningja minna er að það að velja og líka það að vera hafnað styrki börnin fyrir lífstíð. Ég skil ekki ennþá hvernig það getur styrkt barn að vera útskúfað þegar flest hin börnin fá skreytt boðskort í hólfið sitt, enda voru barnaafmælin eitt heitasta umræðuefnið meðal íslenskra mæðra í Berlín.
Að herða börnin
Það er mikið lagt upp úr sjálfstæði í borg sem þessari, kannski ekki að ástæðulausu. Strax í leikskóla tíðkast að fara með elstu börnin – og oft líka yngri börn ef foreldrarnir vilja – í fimm daga ferðalag til að njóta náttúrunnar (og líka herða þau), stundum í hundruð kílómetra fjarlægð frá foreldrunum, en ef barn drukknar í stöðuvatni er það lítil baksíðufrétt í gulu pressunni.
Í leikskólunum sem sonur minn sótti lagði starfsfólkið áherslu á að kornung börnin gætu klifrað í svimandi háum leiktækjum og viðkvæðið að það væri betra að brjóta útlim en sjálfstraustið.Í leikskólunum sem sonur minn sótti lagði starfsfólkið áherslu á að kornung börnin gætu klifrað í svimandi háum leiktækjum og viðkvæðið að það væri betra að brjóta útlim en sjálfstraustið. Og þá á alveg eftir að impra á samkeppnismeðvitund foreldranna þegar börnin hefja skólagöngu, vitandi að innan örfárra ára verður skorið úr um hvort það fetar akademíska leið í lífinu.
Þýska stálið er engin ímyndun.
Rómarveldi nútímans
Hvort ýmsir siðir eru betri eða verri en það sem tíðkast í íslensku samfélagi er ekki mitt að dæma. Berlín er dásamleg og frjálslynd borg; eins heillandi og hún er hrikaleg, eins rík og hún er fátæk. Fyrrverandi borgarstjórinn Klaus Wowereit vissi hvað hann söng með hinum fleygu orðum: Berlin ist arm, aber sexy.
Og samt ekki beinlínis fátæk því ég hef hvergi dvalið þar sem ég hef haft eins sterklega á tilfinningunni að ég væri í iðrum Rómaveldis nútímans.
Í matvörumörkuðum flæðir endalaust framboð úr hillunum af glænýjum ávöxtum & grænmeti, ferskri matvöru og áfengi fyrir lægra verð en maður á að venjast. Í Þýskalandi er hefð fyrir að borða meðvitað og árstíðabundið, á vorin er sukkað í aspas og hvítvín fyllir tilboðshillurnar meðan börnin leggjast á beit hjá sérstökum jarðarberjasölum. Í haustuppskerunni fylla fagurlitir jarðávextir hillurnar og gjarnan búið að stilla upp viðeigandi rauðvínsflöskum sem kosta álíka og kakómjólk í 10/11.
Menning smávörukaupmanna fær líka að njóta sín; í miðbæjum hverfanna myndast þorpslegir kjarnar með fallegum sérbúðum og kaffihúsum þar sem hanga hágæðafjölmiðlar á sérstökum prikum sem fólk neytir með árstíðabundnu, lífrænu haustgraskerssúpunni eða léttu freyðivíni og jarðarberjum með kaffisopanum til að fagna vorinu. Líka fólk með lítið á milli handanna því það hefur lengi getað leyft sér meira í Berlín en víða annars staðar, þó að það sé breytingum háð.
Hákapitalískir hipsterar
Í Berlín er hægt að njóta sín fátækur og sexí og fyrir vikið hópast þangað ungmenni, listamenn, eilífðarhipsterar, draumóramanneskjur og fólk í félagslegri neyð; sumt frá öðrum stöðum í Þýskalandi já eða öðrum heimsálfum en fjölmargir koma frá öðrum löndum í Evrópu í leit að betra lífi.
Úr verður erkiberlínsk gróska á mörgum sviðum en ófáir gefast upp eftir eitt eða tvö ár, þó að borgin bjóði upp á mörg tækifæri er töluvert um að fólki bjóðist að vinna spennandi verkefni út á heiðurinn frekar en laun eða að því bjóðist þrælavinna á lúsalaunum. Og ef þú ætlar að ílengjast í borginni þarftu, líkt og Þjóðverjar, að borga upphæð sem marga munar um í svokallaðan sjúkrakassa eftir þann umsamda tíma sem evrópska sjúkratryggingakortið býður upp á.
Berlín er hákapítalísk borg, þrátt fyrir alla hipsterana.
Hlaðborð í hóruhúsum
Fyrir örfáum árum heyrði ég áætlað að það væru fimm hundruð hóruhús í borginni og sum þeirra bjóða upp á hlaðborð, þú getur borgað þig inn fyrir nokkra þúsundkalla, fengið frían drykk og sofið hjá eins mörgum konum og þú hefur lyst á.
Í gamla Vestur-Berlínarhverfinu mínu voru þó nokkur hóruhús, stundum í nágrenni við leikskóla, og maður hafði á tilfinningunni að örþreyttu þjónarnir sem kjöftuðu svo glaðbeittir við mann á hræódýru veitingahúsunum ættu eftir að sofna í fanginu á fyrstu hlaðborðskonunni eftir ómanneskjulega langan vinnudag, sjálfir búnir að daðra úr sér sálina við kúnnann og leika ýkta staðalmynd af ítölsku, indversku eða grísku þjóðerni sínu til að fá lífsnauðsynlegt þjórfé.
Ísland í alþjóðlegu samhengi
Berlín er of flókin og stórbrotin til að það sé hægt að gera henni minnstu skil í pistli. Síðast þegar ég vissi var ekki fréttaskýrandi á vegum Ríkisútvarpsins sérstaklega starfandi í Berlín. Einhvern veginn finnst manni að það væri sniðugt að hafa fréttaskýranda á stað sem hefur jafn mikið vægi í stjórnmálum og viðskiptum og höfuðborg Þýskalands sem er ein af burðarborgum Evrópu og virkur þátttakandi í hádramatískum alþjóðasviptingum. Sem dæmi má nefna tengsl stórra hópa borgarbúa af rússneskum og tyrkneskum ættum og stjórnmálanna í Þýskalandi við bæði Rússland og Tyrkland en fyrir vikið fjalla þýskir fjölmiðlar af djúpri innsýn um mikilvæg átakamál þar, mál sem oft teygja angana inn í pólitíkina í Berlín og skila sér ekki alltaf á sama hátt inn í fjölmiðla á ensku.
Til að geta skilið sem best stjórnmálahræringarnar í Evrópu og heiminum væri ráð að hafa fréttaskýranda starfandi í Berlín, bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Ekki bara til að gera stjórnmálunum skil heldur líka táknrænu evrópsku samfélagi þar sem lífsbaráttan er að ýmsu leyti miklu harðari en við eigum að venjast, þrátt fyrir allt.