Þórunn Ólafsdóttir sinnti hjálparstörfum á Lesbos á árunum 2015 og 2016 þegar flest fólk á flótta kom til eyjunnar. Það var lífsreynsla sem kveikti mikla ábyrgðartilfinningu hjá henni gagnvart þeim aðstæðum sem fólki var boðið upp á við komuna til Evrópu. Í kjölfarið stofnaði hún hjálparsamtökin Akkeri til að halda utan um starfið þar því hún varð vör við áhuga fólks að leggja hönd á plóg og réð ekki ein síns liðs við allar óskir þess um að fá að hjálpa eða senda peninga.
Síðan hefur hún hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars Mannréttindaverðlaun Reykjavíkuborgar og Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar. Að ógleymdu því að vera Austfirðingur ársins 2016. Viðkvæði Þórunnar er: Við getum öll gert eitthvað.
En hvað getum við gert?
Undirrituð settist niður með Þórunni til að grennslast fyrir hvað hinn almenni borgari geti gert til að hjálpa fólki á flótta.
Það hafa aldrei verið jafn margir á flótta í heiminum og nú, segir Þórunn. Og fólki fallast stundum hendur og sér sig ekki sem mikilvægan hlekk í þessum umfangsmikla ástandi. Hvernig getur þitt litla framlag skipt máli fyrir allan þennan fólksfjölda?
Það hugsar fólk oft, held ég. En um leið og þú hefur hjálpað einni manneskju eitthvað smávegis, þá hefurðu lagt eitthvað af mörkum og létt undir. Það eru sextíu og fimm milljónir manns á flótta í heiminum en sjö milljarðar íbúa. Þannig að þeim mun fleiri sem gera eitthvað smávegis, þeim mun líklegra er að ástandið batni.
Fólk finnur gjarnan til vanmáttar og telur sig ekki geta gert neitt. Það er eðlilegt að horfa á þessa ógnarstærð, þennan rosalega mikla fjölda fólks á flótta, og hugsa: Ég get ekki reddað þessu.
Þá er fólk í rauninni að horfa á hvað það getur ekki gert. Og auðvitað ólíklegt að þú sem einstaklingur lagir þetta ástand með framtaki þínu. En það sem þú þó gerir er partur af lausninni. Hvert einasta handtak.
Fólk sér þetta oft sem of stórt verkefni fyrir sig, þó að það geri eitthvað smá upplifir það ekki endilega að neitt hafi lagast.
En hér er eitt dæmi um annað: Sjálfboðaliðar sem unnu með mér á Lesbos héldu áfram að vinna í Líbanon og ég sá að þeir voru að reyna að safna fyrir gervifæti handa munaðarlausum dreng í búðunum. Hann hafði misst foreldra sína í sömu sprengingu og hann missti fótinn.
Ég deildi þessu á samfélagsmiðlum sem varð til þess að aðili á Íslandi ákvað að gefa drengnum gervifót í samráði við fólk og lækna á svæðinu, þetta var þó nokkuð samstarf. Hann fékk fótinn sendan og heilbrigðisstarfsfólk í Líbanon aðstoðaði við þjálfun og aðlögun. Í dag á hann meiri möguleika á að fá vinnu og það bíður hans öðruvísi framtíð heldur en ef hann hefði ekki fengið þennan fót. Auðvitað hafa ekki allir efni á að kaupa gervifót en boðskapurinn er að þetta er líka þeim að þakka sem deildu færslunni og komu upplýsingunum áleiðis – en mjög margir gerðu eitthvað smávegis til að þetta yrði að veruleika. Í dag eru bæði framtíðarhorfur drengsins og yngri systkina hans allt aðrar en ef hann hefði ekki fengið þessa aðstoð.
Viðhorf okkar skiptir öllu máli og það er fyrsta ráðið sem ég myndi gefa fólki sem vill leggja sitt af mörkum.
RÁÐ 1: Viðhorf og viðmót
Fólk tengir framlag sitt til fólks á flótta oft við tíma, fjárhagsaðstöðu sína, vinnu og fjölskylduaðstæður. Það segir við sjálft sig að það sé bundið yfir börnum og heimili og hafi ekki tíma. En það er náttúrlega bara eitt form aðstoðar að fara til útlanda að hjálpa, ekki allir hafa frelsi og tækifæri til þess. Aðstoðin er ekki endilega spurning um vinnuframlag eða peninga. Þú þarft ekki að eiga auka borðstofuborð til að geta gefið eða lagt tugi þúsunda inn á hjálparsamtök, þó það komi sér auðvitað alltaf vel. Það sem er mest þörf á í dag er viðhorfsbreyting. Hún kostar ekkert og allir geta tekið þátt í henni.
Ef fólk hefur tækifæri til að kynnast manneskju sem hefur þurft að flýja heimili sitt, þá er það ótrúlega lærdómsríkt, en alls ekki nauðsynlegt til að geta lagt lóð sitt á vogarskálarnar. Það er nefnilega líka hægt að setja sig í þessi spor, lesa sér til og trúa þeim sem eru að segja frá. Þeim sem eru að deila sögunum sínum. Það er ótrúlega mikilvægt.
Að vera á flótta er harðari raunveruleiki en maður getur ímyndað sér að fyrirfinnist annars staðar en í bíómyndum. Sögurnar eru oft svo ótrúlegar miðað við raunveruleika okkar að fólk dregur þær jafnvel í efa.
Það sem vantar mest upp á – fyrir utan peninga og fleiri hendur – er að við tökum mark á fólki. Alvarleikanum í því að það séu svona margir á flótta. Aðstæðunum sem fólk er að flýja. Að við hlustum og reynum að skilja.
Við þurfum að taka vel á móti fólki sem er að koma inn í alveg nýtt samfélag og ratar ekki um það, veit hvorki hvaða spurninga það á að spyrja né hvaða viðmið við höfum sett. Það er eiginlega dæmt til að líða illa ef það fær ekki góðar móttökur. Fólk á að fá að upplifa sig hluta af heild, ekki einhvers konar aðskotahlut. Fólkið þarf að eiga sér bandamenn og manneskjur sem eru reiðubúnar til að skilja og hlusta.
Ef þú veist til dæmis að barnið þitt er í bekk með flóttabarni, má bjóða því eða jafnvel fjölskyldunni heim? Láta kennara vita að barnið sé velkomið heim að leika eftir skóla? Er vinnufélagi þinn flóttamaður? Eða nágranni? Hefurðu sest niður og fengið þér kaffibolla með honum/henni?
RÁÐ 2: Virða mörk fólks
Allir eiga rétt á aðstoð en það eiga líka allir rétt á að afþakka hana. Það að hjálpa flóttafólki er ekki gert til að okkur sjálfum líði vel heldur til að bæta erfiðar aðstæður. Í þessu sem öðru þarf að beita almennri skynsemi til að bjóða fram aðstoð sína. Oft er mesta hjálpin í því sem maður hugsar ekki út í. Oft þarf fólk bara félagsskap og vináttu, þarfirnar eru ekki allar efnislegar.
Það er heldur ekki sjálfgefið að það myndist órjúfanleg vinátta við fyrstu kynni. Fólk er misjafnt, stundum myndast tengsl og stundum ekki. Sumir vilja bara ró og næði. Það er ekki hægt að þvinga fram vinatengsl af því að fólk er í erfiðum aðstæðum. En um að gera að hafa í huga að almenn velvild eða náungakærleikur á alltaf við.
Fólk hefur rétt á að afþakka aðstoð og hafa skoðanir á lífi sínu, aðstæðum og þeirri aðstoð sem stendur til boða. Það myndum við sjálf gera í þessum aðstæðum.
Ég hef stundum upplifað hugmyndir þeirra sem vilja hjálpa um að geta pakkað fólki inn og borið það á örmum sér, verið hlífiskjöldur gegn mótlæti og erfiðleikum. Það er falleg hugsun og skiljanleg, en má ekki koma niður á sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þeirra sem þurfa stuðning. Svo eru sumir alveg á hinum endanum – finnst þetta ekki koma okkur við. Það skynsamlegasta er að fólk spyrji sig: Hvers myndi ég þarfnast í þessum aðstæðum?
Að það sé svolítið vakandi fyrir því að þarna eru oft einstaklingar sem eiga sér ekkert félagslegt net hér á landi og vita ekki alltaf hvert á að leita og kunna jafnvel ekki við að biðja um aðstoð. Þessi velvild sem ég er að óska eftir er í raun bara óskrifaðar samfélagsreglur sem hafa alltaf verið til og við höfum öll notið góðs af. Mætti jafnvel kalla gamaldags sveitagestrisni.
RÁÐ 3: Tala við viðeigandi félagasamtök og stofnanir
Ef þú vilt hjálpa og veist ekki hvar er best að byrja er ein leið að tala við viðeigandi stofnanir eða samtök eins og Rauða krossinn og bjóða fram aðstoð við ýmis verkefni. Þar má spyrja: Er eitthvað sem ég get gert? Er eitthvað sem vantar? Oft þarf að inna af hendi verk sem fólk hefur ekki endilega hugsað út í. Ég man að sjálfboðaliðar í Grikklandi voru stundum svolítið hissa á því að vera settir í fataflokkun, þegar hugmyndir þeirra um hjálparstarf sneru að því að vefja börn í neyð inn í teppi og hlýja þeim. En ef enginn var í fataflokkun voru heldur engin föt eða teppi til taks handa þessum börnum. Hjálparstarf er keðjuverkun og hver hlekkur skiptir máli, ekki bara þeir sýnilegu.
Í hjálparsamtökum er fólkið sem veit nákvæmlega hvar þörfin er og er í daglegu sambandi við flóttafólkið.
RÁÐ 4: Sýna pólitískt aðhald
Það að fólk sé yfir höfuð á flótta er pólitík, það eru manngerðar hamfarir. Því skiptir máli hvernig fólk og flokka við kjósum. Innsýn okkar í aðstæður flóttafólks getur breytt viðhorfum og haft áhrif á stjórnmálin. Við búum í það litlu samfélagi að við getum lagt okkar af mörkum á þeim vettvangi. Hvort sem það er þá þátttaka í stjórnmálastafi eða aðhald gagnvart stjórnmálafólki.
RÁÐ 5: Eiga samtalið
Við eigum ekki að þagga niður áhyggjur fólks af þessu ástandi. Þekking samfélagsins á málaflokknum er takmörkuð og við eigum langt lærdómsferli fyrir höndum. Það má spyrja spurninga. Eitt er að vera fullur af harðneskju og fordómum en annað að vilja skilja betur þetta flókna ástand, rætur þess og hvaðan fólk er að koma. Við erum auðvitað öll með einhverja fordóma en það er líka á okkar ábyrgð að losa okkur við þá og það er alveg hægt. Þú átt ekki að láta fordómana stjórna þér en það er eðlilegt að þeir veki forvitni og til verði spurningar. Það á að vera rými til að spyrja þessara spurninga.
Það er aldrei hægt að nálgast fordóma fólks nema það hafi rými til að velta upp áhyggjum sínum og fræðast án þess að upplifa sig niðurlægt. Þá er ég auðvitað ekki að hvetja til einhverrar hatursorðræðu heldur að við reynum að horfast í augu við að það gerist aldrei neitt gott nema við tölum saman. Fordómar eru ýmist byggðir á vanþekkingu og/eða raunverulegum áhyggjum og ef ekkert er gert til að vinna á þeim þróast þær oft út í eitthvað alvarlegra en bara vangaveltur og það viljum við alls ekki. Þær áhyggjur sem ég heyri stundum fólk lýsa gagnvart flóttafólki eru yfirleitt óþarfar en í sumum tilfellum skiljanlegar, í ljósi þeirra neikvæðu umræðu og rangfærslna sem dynja á okkur daglega. Eftir því sem við skiljum mannlífið og fjölbreytileikann betur því öruggari hljótum við að upplifa okkur. Þess vegna þurfum við að tala saman, en slíkt samtal krefst auðvitað virðingar og vilja til þess að læra og skilja.
Ég er tilbúin til að setjast niður með fólki sem hefur áhyggjur af þessum málaflokki og ræða málin. Mér finnst það vera partur af því að leysa þessar aðstæður. Ég er viss um að margir einstaklingar sem hafa flúið og verið í þessum sporum myndu gjarnan vilja fá tækifæri til að segja sína hlið. Það er mikið af orðrómi í gangi um flóttafólk og það er mjög ósanngjarnt að alhæfa um það, fólk sem er oft ekki í aðstöðu til að svara því. Við búum við forréttindi, fólk segir sögu sína og við heyrum hana og við getum verið framlenging á rödd þeirra. Það er mikil hjálp í að miðla sögunum áfram og sjá til þess að þær fái pláss og vægi í okkar nánast umhverfi.
RÁÐ 6: Skapa framtíðarsýn
Samfélagið okkar er að breytast. Ekki bara samfélagið okkar heldur heimurinn allur. Við höfum ekkert val um það hvort við tökum þátt í þeim breytingum en höfum einstakt tækifæri til að ákveða hvernig við ætlum að taka á móti þeim. Við erum með frekar óskrifað blað í þessum málaflokki. Við getum byrjað núna að taka vel á móti flóttafólki og reynt þannig að viðhalda þeirri friðsæld og velmegun sem við búum við. Ef við skiptum henni ekki á milli okkar skapast togstreita um hana. Hún á ekki að vera bundin uppruna heldur vera eitthvað sem við eigum og sköpum saman.
Hingað kemur fólk með allskonar hæfileika, þekkingu og áhugamál, margt á börn og annað á eftir að eiga börn – og það er allt viðbót við samfélagið okkar. Ef við spilum rétt úr aðstæðunum getum við orðið það skjól sem fólk þarf til þess að halda áfram með líf sitt. Móttöku flóttafólks á að mínu mati ekki að réttlæta með efnahagslegum rökum, heldur snýst þetta um sammannlega ábyrgð. Það er hins vegar öllum í hag að hingað flytjist fleira fólk, hvort sem talað er út frá menningarlegum sjónarmiðum eða efnahagslegum. Við eigum við eftir að læra helling af því.
Sem dæmi má nefna að áhugi á Mið-Austurlöndum, arabískri matargerð, tungumáli og menningu hefur aukist mjög á undanförnum árum. Ég fagna því mjög og finnst fallegt að eitthvað jafn hrikalegt og stríð geti kveikt áhuga heils samfélags á því sammannlega – menningunni. Flóttafólk kemur kannski hingað tómhent, en menningin, sagan og þekkingin sem það kemur með í farteskinu getur hvorki stríð né fátækt tekið frá því. Það megum við heldur ekki gera.