Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hnífjöfn
Meirihlutinn í Reykjavík myndi fá rétt undir helming atkvæða ef kosið væri í dag. Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur bæta lítillega við sig. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar.
Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru með nánast sama fylgi í Reykjavík samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Fylgi Samfylkingar mælist 28,7 prósent en fylgi Sjálfstæðisflokks 28,3 prósent.
Þeir þrír flokkar sem sitja í meirihluta í borginni og eru í framboði í kosningunum í lok næsta mánaðar mælast samtals með 48,9 prósent fylgi sem myndi duga þeim til að ná meirihluta í borginni.
Sá meirihluti er þó orðinn mjög valtur í sessi.
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi á milli spá án þess að það skili honum fleiri borgarfulltrúum kjörnum. Þeir yrðu líkast til áfram sjö líkt og í síðustu spá. Miðflokkurinn, sem kynnti kosningaáherslur sínar í gær og hefur verið að fiska á svipuðum miðum og Sjálfstæðisflokkurinn, bætir einnig við sig smávægilegu fylgi án þess að það myndi duga til að ná inn fleiri borgarfulltrúum en oddvitanum Vigdísi Hauksdóttur.
Vinstri græn og Samfylkingin tapa bæði smávægilegu fylgi á milli spáa, en það er þó ekki marktæk sveifla. Þriðji maður Vinstri grænna inn í borgarstjórn, Þorsteinn V. Einarsson, er þó orðinn mjög valtur í sessi. Þá er ólíklegt að áttundi maður Samfylkingarinnar, Magnús Már Guðmundsson næði inn við þessar aðstæður. Ef báðir myndu detta út þá myndi staðan í borginni, hvað varðar myndun næsta meirihluta, breytast mjög.
Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 3,3 prósent fylgi ætti að ná inn einum borgarfulltrúa. Ingvari Mar Jónssyni, oddviti sínum á kostnað fulltrúa Flokks fólksins, Kolbrúnar Baldursdóttur, sem mældist inni síðast. Pawel Bartozcek, annar maður á lista Viðreisnar, er áfram í dyragætt borgarstjórnar eins og staðan er í dag.
Píratar virðast sigla mjög lygnan sjó og eru með nokkuð stöðugt tíu prósent fylgi.
Glænýju framboðin ekki að ná miklum árangri
Þrátt fyrir að allt stefni í að vel á annan tug framboða muni vera í framboði í höfuðborginni í lok maí þá virðast fæst þeirra vera að ná eyrum kjósenda, að minnsta kosti enn sem komið er. Þeir þrír flokkar sem hafa komið nýir inn á sjónarsvið landsmála á undanförnum árum: Viðreisn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, eru einu nýju framboðin í Reykjavík sem mælast með mælanlegt fylgi. Oddviti Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, næði þó ekki inn eins og stendur. Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka mælist nú 16,1 prósent.
Þeir sem ætla að kjósa aðra en þá flokka sem þegar hafa verið nefndir hér til leiks eru nú 3,4 prósent kjósenda, en 2,1 prósent þeirra sögðust ætla að gera það í síðustu kosningaspá sem sýndi stöðuna eins og hún var 9. apríl. Taka verður fram að mörg þeirra framboða sem hafa boðað þátttöku í kosningunum í vor eru ekki búin að kynna endanlega lista sína og sum hafa ekki lagt fram helstu kosningamál.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (25. apríl) eru eftirfarandi:
- Þjóðarpúls Gallup 8. mars (vægi 20,7 prósent)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 21 - 27. mars. (vægi 25,4 prósent)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 9. apríl (vægi 21,7 prósent)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins og frettabladid.is 25. apríl (vægi 32,2 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Ath.
Texti skýringarinnar hefur verið uppfærður. Fyrir mistök var stuðst við eldri sætaspá í upprunalega textanum. Honum hefur nú verið breytt. Beðist er afsökunar á þessu.
Fleira tengt komandi borgarstjórnarkosningum
-
19. júní 2018Fyrsti borgarstjórnarfundurinn á nýju kjörtímabili í dag
-
15. júní 2018Athugasemdir í kæru Pírata leiða ekki til ógildingar kosninga
-
5. júní 2018Sósíalistaflokkurinn mun styðja valin mál í borgarstjórn
-
5. júní 2018Meirihlutaviðræður hefjast milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi
-
4. júní 2018Ímynd og ímyndun
-
4. júní 2018Líkur aukast á því að Dagur verði áfram borgarstjóri
-
2. júní 2018Verðandi meirihluti fékk færri atkvæði en verðandi minnihluti
-
30. maí 2018Formlegar viðræður hefjast á morgun milli Viðreisnar og fráfarandi meirihluta
-
30. maí 2018Ég vil ekki verða húsþræll
-
30. maí 2018Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn