Á laugardaginn síðastliðinn tilkynntu yfirvöld í Norður-Kóreu að ríkið myndi mögulega hætta kjarnorkutilraunum. Á mánudaginn tilkynntu svo suður-kóresk yfirvöld að þau myndu slökkva á hátölurum sínum á landamærunum. Í árafjölda hafa suður-kóresk yfirvöld spilað popptónlist og áróður í stórum hátölurum á landamærum ríkjanna á Kóreuskaga. Norður-Kórea hefur einnig spilað áróður í hátölurum sínum á landamærunum en ekki liggur fyrir hvort slökkt hefur verið á þeim. Aðgerðirnar og yfirlýsingarnar eru undirbúningur fyrir fund milli leiðtoga ríkjanna tveggja sem verður haldinn á morgun.
Leiðtogafundur morgundagsins
Á morgun munu leiðtogar ríkjanna tveggja, Norður- og Suður-Kóreu hittast í fyrsta skipti. Fundurinn verður að teljast tímamótaskref í samskiptum ríkjanna en leiðtogarnir Kim Jong-un og Moon Jae-in munu funda í syðri hluta þorpsins Panmunjeom. Þorpið liggur á hlutlausabeltinu í kringum landamærin en þar sem fundurinn verður í Friðarhúsinu í suðurhlutanum þá verður þetta í fyrsta skipti sem leiðtogi Norður-Kóreu stígur á suður-kóreska grundu.
Þetta mun vera í þriðja skipti sem leiðtogar þessara ríkja funda og í fyrsta skipti í tíu ár. Faðir Kim Jong Un, KimJong-il, hitti í sinni valdatíð tvo af forsetum Suður-Kóreu en báðir fundirnir voru innan landamæra Norður-Kóreu.
Yfirmaður skrifstofu forsetaembættisins í Suður-Kóreu gaf út síðastliðna nótt hvernig fundinum muni verða háttað. Heiðursverðir munu taka á móti Kim Jong-un og svo munu leiðtogarnir ganga saman að Friðarhúsinu. Þar mun Kim Jong-Un rita nafn sitt í gestabókina og síðan verður fundur settur. Sendinefndir leiðtoganna munu ekki snæða hádegisverð saman en að loknum hádegisverði munu leiðtogarnir gróðursetja tré saman á landamærunum.
Forseti Suður-Kóreu býst við að rætt verði um að ná fram friðarsamningum sem munu binda enda á Kóreustríðið. Kim hefur gefið út að hann sé tilbúinn til að ræða afkjarnavopnavæðingu Norður-Kóreu gegn því að honum verði ekki steypt af stóli og að öryggi hans persónulega verði tryggt.
Íbúar ríkjanna hafa mismiklar væntingar til fundarins. Í Suður-Kóreu eru lífsgæði fólks nokkuð mikil, sérstaklega ef miðað er við lífsgæði Norður-Kóreubúa. Ef sameining ríkjanna kæmi til greina, sem flestir telja að verði ekki, hefur Suður-Kórea miklu að tapa. Efnahagur Suður-Kóreu er í blóma og stendur ríkið framarlega í þróun vísinda. Búist er við því að fundur Kim og Moon muni leggja grunninn að næsta fundi Kim, sem er við forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.
Litli eldflaugakarlinn verður opinn og heiðvirtur
Fundur Kim og Trump mun líklegast eiga sér stað í júní og jafnvel fyrr, að sögn Trump. Á þriðjudaginn sagði Trump að Kim væri mjög opinn og heiðvirtur maður sem verður að teljast mikil breyting á orðræðu Trumps gagnvart leiðtoganum. Trump hefur meðal annars áður kallað hann „litla eldflaugakarlinn“ og skiptust leiðtogarnir á að státa sig af stóru rauðu hnöppunum sínum í fyrra. Búist er við að þeir muni einnig ræða afkjarnavopnavæðingu Norður-Kóreu.
Mörg þúsund ára menningarsaga
Kóreuskagi hefur verið vettvangur átaka í mörg hundruð ár. Elstu minjar á Kóreuskaga eru frá fornsteinöld en saga Kóreu er talin hefjast árið 2333 fyrir Krist en þá var Gojoseon-keisaradæmið stofnað. Kóreuskaginn var tengiliður milli Japans og Kína en skaginn liggur á milli landanna.
Keisaradæmið féll og frá 304 fyrir Krist var Kóreuskaginn, og stórt hérað í Kína, undir konungsríkinu Tjósen. Árið 108 fyrir Krist féll konungsríkið fyrir Han-keisaradæminu í Kína og þá var Kóreu skipt upp í þrjú leppríki Kína; Silla, Gogopyeo og Baekje. Landið losnaði ekki undan kínverskum yfirráðum fyrr en árið 313.
Ríkin þrjú sameinuðust undir Silla ríkinu árið 660. Mikill uppgangstími var fyrir kóreska menningu og samfélag eftir sameiningu ríkjanna þriggja. Kóreska ríkið var þó ekki endurreist fyrr en árið 1392 þegar Joseon-ættin tók við völdum. Joseon-ættin gerði konfúsíanisma að ríkistrúarbrögðum. Konfúsíanismi er upprunnin í kínverskri menningu en þrátt fyrir það hefur hann haft mótandi áhrif á kóreskamenningu og grunngildi Kóreubúa.
Næstu aldir voru gullaldarár í sögu Kóreu og blómstraði kóresk menning og vísindi. Þá var konungur Kóreu formlega undir konungi Kína. Gullöld Kóreu lauk svo með ítrekuðum innrásum Japana á árunum 1592 til 98. Kóreumenn máttu þola fleiri innrásir næstu árin en eftir 1637 reyndu kóreskir konungar að loka landinu fyrir öllum nema Kínverjum.
Rúmum tveimur öldum síðar, þvinguðu Japanar Kóreumenn til að opna landið aftur fyrir umheiminum. Mikill uppgangur hafði verið í Japan og herir þeirra styrkst til muna.
Undir hæl Japans
Eftir að Japanar náðu völdum yfir Quing-keisaradæminu í Kína í styrjöldunum 1894 til 95 voru formleg yfirráð Kínakeisara yfir Kóreu afnumin. Við tóku raunveruleg yfirráð Japana, sem gerðu Kóreu að japönsku verndarsvæði árið 1905 og að japanskri nýlendu fimm árum síðar. Japanar höfðu lagt undir sig mörg landsvæði á meginlandi Asíu, líkt og nasistar í Þýskalandi gerðu seinna í Evrópu.
Japönsk yfirvöld þjörmuðu mikið að íbúum Kóreu og reyndu að útrýma kóreskri menningu með því að þvinga japönskum siðum upp á íbúa landsins. Margir íbúar voru neyddir til að taka upp japönsk nöfn og börðust margir Kóreumenn með her Japana í síðari heimsstyrjöldinni. Kóreskar konur voru enn fremur neyddar til samneytis með japönskum hermönnum til að létta geð hermannanna sem börðust fyrir land og þjóð. Tölur eru á reiki um hversu margar konur voru í
kynlífsánauð japanska hersins en allt frá 20 þúsund konum upp í 410 þúsund kvenna voru neyddar til þess.
Grunnurinn að Kóreu eins og við þekkjum hana í dag var lagður í síðari heimsstyrjöldinni en landið kom heldur illa út úr henni. Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Kína ákváðu á fundi í Kaíró árið 1943 að Kórea skyldi verða sjálfstætt ríki, þegar Japanar yrðu sigraðir. Japanar gáfust upp fyrir Bandaríkjamönnum 1945 og þar með lauk síðari heimsstyrjöldinni.
Kóreuskaganum skipt upp
Stuttu eftir fall Japans hófu Sovétríkin, undir stjórn Jóseps Stalíns, innrásir í Kóreu og hertóku hvern bæinn á fætur öðrum. Bandaríkjamenn voru ekki par sáttir við það og voru hræddir um að Sovétmenn myndu hertaka allan skagann. Því var brugðið á það ráð að skipta Kóreuskaganum upp í tvö ríki og lágu landamærin um 38 breiddargráðu.
Bandaríkjamenn tóku að sér suðurhlutann og Sovétríkin norðurhlutann. Engar sérstakar ástæður lágu að baki ákvörðuninni, hvorki menningarlegar, sögulegar eða efnahagslegar. Sovétríkin féllust á skiptinguna, þrátt fyrir að betri ræktarlönd væru í syðri hlutanum og að fleira fólk byggi þar. Upphaflega átti skiptingin að vera tímabundin en strax í upphafi fóru ríkin að þróast á mjög misjafnan hátt.
Bandaríkjamenn höfðu mikla viðveru í Suður-Kóreu árin eftir síðari heimsstyrjöldina og Sovétríkin aðstoðuðu Norður-Kóreu við að byggja upp ríki sitt. Um leið og heimsstyrjöldinni lauk hófst kalda stríðið og því minnkuðu líkurnar allverulega á að ríkin tvö á Kóreuskaga myndu sameinast.
Þann 9. september árið 1945 lýsti Lýðræðislega alþýðulýðveldið Kórea, eða Norður-Kórea, yfir sjálfstæði. Kim Il-sung, afi Kim Jong Un, var gerður að leiðtoga landsins en hann hafði áður barist með Rauða hernum, her Sovétmanna. Í desember var hann orðinn formaður norður-kóreska kommúnistaflokksins og síðar formaður bráðabirgðastjórnar. Síðar voru Kim Il-sung og flokki hans veitt öll völd í landinu og hann varð einræðisherra yfir landinu.
Sonur Kim Il-sung, Kim Jong-il, tók við embættinu þegar faðir hans lést og Kim Jong-un, sonur hans, tók svo við embættinu í lok árs 2011. Ríkið var byggt upp að hætti kommúnista í Sovétríkjunum með samyrkjubúum og miðlæga dreifingu matar og gæða.
Þann 15. ágúst 1945 lýsti Lýðveldið Kórea eða Suður-Kórea eins og við þekkjum það í dag yfir sjálfstæði. Bandaríkjastjórn mótaði stjórnarfar Suður-Kóreu eftir sínu eigin stjórnarfari og hefur valdamikill forseti verið við völd þar frá sjálfstæði ríkisins.
Nágrannaerjur
Syngman Rhee var fyrsti forseti lýðveldisins árið 1948 en ólíkt nágrönnunum hafa fleiri en þrír verið við völd þar í landi frá sjálfstæði. Núverandi forseti, Moon Jae-in, tók við embætti í maí í fyrra og er sá tólfti í röðinni. Lengd kjörtímabils og lög um endurkjör voru nokkuð á reiki fyrstu áratugina. Síðan árið 1988 hefur kjörtímabil forseta verið 5 ár og mega þeir ekki bjóða sig fram aftur.Í upphafi var litið á skiptinguna sem tímabundna og vildu leiðtogar beggja ríkja sameinast. Ekki var hægt að komast að samkomulagi þar sem báðar stjórnirnar vildu fara með völd.
Leiðtogar Norður-Kóreu hafa lengi haft horn í síðu nágranna sinna í suðrinu og þrábað Kim Il-sung, Jósep Stalín, um leyfi og aðstoð til að ráðast inn í landið. Það hafðist á endanum í júní 1950 og réðust herir Norður-Kóreu inn í Suður-Kóreu. Nokkuð hafði þá breyst en kommúnistar höfðu náð völdum í Kína, án afskipta Bandaríkjanna og lið Bandaríkjanna var á bak og burt í Suður-Kóreu. Norður-Kórea naut stuðnings skoðanabræðra sinna í Kína og Sovétríkjunum en Bandaríkjamenn studdu við Suður-Kóreu.
Sest var að samningsborðinu árið 1951 en samningar um vopnahlé náðust í lok júlí 1953. Í vopnahléssamningunum náðist samkomulag um hlutlausa svæðið í kringum landamærin. Friðarsamningar hafa ekki verið samþykktir milli ríkjanna og telja margir að tæknilega séð séu ríkin enn í stríði. Stríðið skilaði nánast engum árangri og eru landamærin enn þá þar sem þau voru áður en stríðið hófst.
Ástandið var slæmt eftir stríðið, beggja megin landamæranna. Uppbygging innan Norður-Kóreu var hraðari en í suðrinu fyrst um sinn og hreykti Kim Il-sung sig stoltur af því. Sunnanmenn byggðu hins vegar upp kapítalískt markaðsdrifið samfélag og hafa náð nokkuð góðum árangri, en hagkerfi Suður-Kóreu er það fjórða stærsta í Asíu.
Eftir fall Sovétríkjanna í lok árs 1991 missti Norður-Kórea mikinn stuðning og í kjölfarið geisaði hungursneyð í landinu árinn 1994 til 1998. Tölur eru á reiki um hversu margir létust úr hungri eða lélegri heilsu vegna næringarsnauðs mataræðis. Norður-kóresk yfirvöld neita að gefa upplýsingar um hversu margir dóu en sjálfstæðir greiningaraðilar telja að á bilinu 800 þúsund til 1,5 milljónir manna hafi látist. Norður-kóreska ríkið sér um alla ræktun og dreifingu á mat en ríkið hefur þurft á aðstoð að halda frá öðrum ríkjum allt frá því að hungursneyðin geisaði.
Kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu
Norður-Kóreumenn hafa farið nokkuð leynt með kjarnorkutilraunir sínar, þrátt fyrir að hafa státað sig reglulega af árangri sínum síðustu ár. Norður-Kóreumenn hafa gert tilraunir með kjarnorku síðan á sjötta áratugnum. Sovétmenn aðstoðuðu Norður-Kóreu við að koma sér upp kjarnorkutilraunastofum.
Tilgangur tilrauna þeirra hefur aldrei verið ljós og fyrst um sinn spiluðu þeir eftir reglunum og árið 1985 skrifaði Norður-Kórea undir alþjóðlega samninginn um að dreifa ekki kjarnavopnum. Ýmsir samningar hafa verið gerðir í gegnum tíðina og hefur Norður-Kórea skrifað undir þá nokkra.
Þegar George W. Bush tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum árið 2001 breyttust samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Til að forðast örlög Íraks í Íraksstríðinu 2004 hófu Norður-Kóreumenn að þróa kjarnorkuvopn. Árið 2006 tilkynntu yfirvöld að þeir hafi verið að prófa fyrstu kjarnorkusprengjuna sína.
Síðan þá hafa nokkrar tilraunir og sprengingar verið gerðar af hálfu Norður-Kóreumanna og talið er fyrir víst að Norður-Kórea búi yfir kjarnorkuvopnum.
Nú segja yfirvöld í Pyongang, höfuðborg Norður-Kóreu, að þau hafi náð markmiðum sínum í þróun kjarnorkuvopna. Í haust sprengdu Norður-Kóreumenn nýlegustu kjarnorkusprengjurnar en þær ollu síðar jarðskjálftum á svæðinu. Kínversk yfirvöld munu á dögunum gefa út skýrslu um kjarnorkutilraunasvæði Norður-Kóreu. Kínverskir vísindamenn telja að tilraunastofur Norður-Kóreumanna hafi hrunið í síðustu sprengingu, sem olli jarðskjálftunum.