Frú Guðrún Lárusdóttir er talin ein merkasta kona 20. aldar en hún var ótrúlega fjölhæf og virk í samfélaginu. Hún var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1912 til 1918, 10 barna móðir, þjóðkunn fyrir ýmsa menningarstarfsemi, fjöllesinn og afkastamikill rithöfundur og alþingismaður frá 1930 til dauðadags, auk þess sem hún var virk í félagsstarfi. Þannig er Guðrúnu lýst í kynningu á verkefni Þjóðarbókhlöðunnar sem kallast En tíminn skundaði burt ...
Sýning um Guðrúnu opnaði í dag og munu viðburðir henni tengdir verða í Þjóðarbókhlöðunni. Sýningin mun standa til 10. nóvember næstkomandi. Verkefninu er ætlað að draga fram minningu og arfleifð Guðrúnar Lárusdóttur sem lést í bílslysi í Tungufljóti 1938 þar sem hún drukknaði ásamt tveimur dætrum sínum.
„Með því að heiðra minningu Guðrúnar Lárusdóttur undirstrikum við að bæði ungt fólk og þeir eldri geta lært af konu eins og henni sem talaði fyrir góðum málum og sinnti á sérstakan þátt þeim sem minna máttu sín í þjóðfélaginu,“ segir í kynningunni.
Hneigðist snemma að ritstörfum
Guðrún Lárusdóttir var fædd 8. janúar 1880 á Valþjófsstað í Fljótsdal, dóttir Lárusar Halldórssonar, prófasts og alþingismanns og síðar fríkirkjuprests í Reykjavík, og Kirstínar Katrínar Pétursdóttur organleikara. Guðrún var þriðja í aldursröð sex systkina en tvö elstu börnin létust í bernsku. Árið 1885 flutti fjölskyldan til Reyðarfjarðar þar sem faðir Guðrúnar gerðist prestur fríkirkjusafnaðarins.
Hugur Guðrúnar hneigðist snemma til ritstarfa og um fermingu tók hún að gefa út handskrifað blað sem gekk milli bæjanna í sveitinni. Hún ritaði um bindindismál, kvenfrelsi og réttindamál almennt. Fyrir uppörvun frá föður sínum tók Guðrún að þýða úr erlendum málum og munu fyrstu sögur þýddar af henni hafa birst í blaðinu Framsókn sem mæðgurnar Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaptadóttir gáfu út á Seyðisfirði skömmu fyrir aldamót.
Trúmál urðu Guðrúnu snemma ofarlega í huga. Haft er eftir henni frá unglingsárum að hún vildi hafa fæðst piltur svo hún hefði getað orðið prestur. Lög heimiluðu hins vegar ekki slíka menntun ungra stúlkna. Frá þessu er greint á vef Kvennasögusafnsins.
Fjölskylda Guðrúnar flutti til Reykjavíkur árið 1899 en þá var Guðrún tæplega tvítug. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Sigurbirni Á. Gíslasyni, og gengu þau í hjónaband árið 1902. Bjuggu þau fyrsta misserið í Þingholtsstræti 3 og síðan í húsinu númer 11 við sömu götu en frá árinu 1906 að Ási á Sólvöllum og við það hús voru þau oftast kennd. Þess má geta að húsið stendur enn og er á mótum Sólvallagötu og Hofsvallagötu. Þau eignuðust tíu börn en þrjú þeirra létust á barnsaldri.
Guðrún var mikilsmetinn rithöfundur en frumsamdar bækur hennar voru meðal annars Ljós og skuggar I-III, Sólargeislinn hans, Á heimleið, Sigur, Tvær smásögur, Brúðargjöfin, Fátækt, Þess bera menn sár I-III og Ritsafn I-IV. Þýddar bækur hennar voru Spádómar frelsarans, Tómas frændi eftir H.B. Stowe og Móðir og barn.
Önnur konan kosin til starfa á Alþingi
Guðrún var bæjarfulltrúi í Reykjavík, sem fyrr segir, frá 1912 til 1918 og í skólanefnd jafnlengi. Hún var fátækrafulltrúi 1912 til 1923 og aftur frá 1930 til æviloka 1938. Árið 1930 var Guðrún Lárusdóttir kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kjörtímabil fyrstu konunnar sem kjörin var til Alþingis, Ingibjargar H. Bjarnasonar, var á enda og hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Guðrún var því önnur kona hér á landi sem kosin var til starfa á Alþingi.
Á Alþingi beitti hún sér einkum fyrir brautargengi ýmissa mannúðarmála, svo sem stofnun uppeldisheimilis fyrir vangæf börn og unglinga, stofnun fávitahælis og drykkjumannaheimilis. Þessi mál hlutu ekki framgang á þingi og kom þar margt til: Einkum að þetta voru ekki dæmigerð þingmál á þeim tíma og hún tilheyrði lengst sinnar þingsetu flokki sem ekki átti aðild að stjórnarsamstarfi.
Guðrún var mjög virk í ýmsum félagasamtökum. Hún sat í stjórn KFUK frá 1922 og formaður 1928 til 1938. Þá var hún formaður Kristniboðsfélags kvenna í Reykjavík frá 1926, sömuleiðis til æviloka. Hún var félagi í IOGT frá 1899 og starfaði þar um hríð. Hún stóð að stofnun Húsmæðrafélags Reykjavíkur og var fyrsti formaður þess 1935 til 1938.
Guðrún drukknaði ásamt tveimur dætrum sínum í Tungufljóti þann 20. ágúst 1938. Segir í samantekt á vegum KGRP að um hafi verið að ræða eitt fyrsta mikla bílslys á Íslandi. Það hafi verið áfall fyrir marga og þótti mikið tjón. Sr. Friðrik Hallgrímsson hafi lýst henni svo í líkræðu, að hún „sameinaði á aðdáunarverðan hátt trúaralvöru og bjartsýnt glaðlyndi.“
Heimildir: