Með staðfestingu Hæstaréttar á dómi Landsréttar í dag í máli þar sem tekist var á um hæfi dómara við Landsrétt er mikilli óvissu í íslensku réttarkerfi eytt - í það minnsta tímabundið.
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður gerði fyrir hönd skjólstæðings síns, í máli sem snerist aðallega um umferðarlagabrot, þá kröfu að viðkomandi yrði sýknaður á þeim grundvelli að einn dómara í Landsrétti, Arnfríður Einarsdóttir, hafi ekki verið rétt skipuð sem dómari við réttinn.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skipaði Arnfríði og þrjá aðra meðal alls fimmtán dómara við nýjan Landsrétt, þrátt fyrir að þau hefðu ekki verið meðal þeirra sem dómnefnd um hæfi umsækjenda hafi talið hæfasta.
Ætlar fyrir Mannréttindadómstólinn
Vilhjálmur segir í samtali við Kjarnann að umbjóðandi hans hafi falið sér að skjóta málinu áfram til Mannréttindadómstóls Evrópu. „Miðað við dómaframkvæmd hans þá tel ég að það sé áframhaldandi stórkostleg réttaróvissa á Íslandi eftir þennan dóm Hæstaréttar,“ segir Vilhjálmur.
Hæstiréttur gerir í rökstuðningi sínum skýringar dómsmálaráðherra að umtalsefni.
Rétturinn segir meðal annars að þegar metið sé hvort ákærði hafi vegna setu Arnfríðar í dómnum ekki notið réttlátrar meðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, verði að gæta að tveimur dómum Hæstaréttar frá því í fyrra. Þar var tekist á um skaðabótaskyldu ríkisins til handa einstaklinga sem ekki voru skipaðir dómarar þrátt fyrir að hafa verið metnir meðal hæfustu umsækjenda. Þar var því slegið föstu að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Sigríðar í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna fimmtán að skaðabótaskyldu hafi varðar úr hendi íslenska ríkisins. Þeir dómar hafa sönnunargildi í þessu máli.
Áréttar að dómareynslurökin geta ekki staðist
Þá segir Hæstiréttur: „Um þetta verður jafnframt sérstaklega að árétta að ekki gat það staðist, sem byggt var á í fyrrnefndu minnisblaði dómsmálaráðherra 30. maí 2017, að með því einu að auka vægi dómarareynslu frá því, sem dómnefnd hafði lagt til grundvallar í stigatöflu að baki umsögn sinni 19. sama mánaðar, en byggja að öðru leyti á „fullnægjandi rannsókn“ nefndarinnar á einstökum matsþáttum, gæti fengist sú niðurstaða að fjórir tilteknir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt féllu allir, en aðrir ekki, brott úr hópi þeirra fimmtán hæfustu og í stað þeirra færðust upp í þann hóp fjórir tilteknir umsækjendur öll með tölu öðrum fremur.“
Þarna ítrekar Hæstiréttur sjónarmið sín frá skaðabótamálum dómaranna sem ekki voru skipaðir með því að segja að sú röksemdafærsla ráðherra að færa þessa fjóra dómara upp á hæfnislistanum með því að auka vægi dómarareynslu haldi ekki vatni.
Hins vegar segir dómurinn að líta verði til þess að skipunin hefur ekki verið ógilt með dómi og varð að veruleika með undirritun forseta Íslands á skipunarbréf þeirra. Dómararnir fjórir hafi öll fullnægt skilyrðum laga um skipun í þessi embætti, þar á meðal hæfisskilyrðum.
„Er að þessu öllu virtu ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Verður því aðalkröfu ákærða og varakröfu hafnað.“
Allur sakarkostnaður er í dómnum felldur á ríkið, þar á meðal málsvarnarlaun Vilhjálms, 1,2 milljónir króna. Það er gert í ljósi þess að dómurinn veitti leyfi í málinu til áfrýjunar vegna þess að nauðsyn bar til að eyða óvissu um þau atriði sem málið snerist um.
Nokkur ár í niðurstöðu
Vilhjálmur hyggst eins og áður segir skjóta málinu fyrir hönd skjólstæðings síns til mannréttindadómstólsins í Strassborg. Gera má ráð fyrir að ákveði sá dómstóll að taka málið fyrir má þó ekki vænta niðurstöðu fyrir en eftir einhver ár.
Vilhjálmur nefndi í málflutningi sínum töluvert af erlendum dómafordæmum máli sínu til stuðnings. Bæði frá EFTA-dómstólnum sem og mannréttindadómstól Evrópu.
Athygli vekur að í niðurstöðu Hæstaréttar er hvergi á þau minnst. Þannig virðist dómaframkvæmd til dæmis mannréttindadómstólsins, sem fyrirséð er að muni fá það hlutverk að skoða málið, ekki hafa komið til skoðunar réttarins, eða að minnsta kosti ekki með þeim hætti að hann telji þörf á því að taka það fram í forsendum fyrir niðustöðu sinni.