Mynd: samsett Borgarstjórnar collage

Sósíalistaflokkurinn étur af Vinstri grænum sem stefna í verri útkomu en 2014

Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á síðustu vikum kosningabaráttunnar og er komin í nánast kjörfylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er á hinn bóginn að dala á síðustu metrunum. Átta framboð næðu inn og meirihlutinn heldur örugglega velli. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar.

Meirihlutinn heldur nokkuð örugglega velli í komandi kosningum, sem fram fara næstkomandi laugardag, samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í borginni með 31,4 prósent fylgi, sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með frá því að fyrsta spáin var gerð í byrjun mars. Það fylgi er raunar ekki langt frá kjörfylgi flokksins í kosningunum 2014, þegar hann fékk 31,9 prósent atkvæða. Fylgi Samfylkingarinnar hefur vaxið í hverri spá frá því í byrjun mánaðar.

Samfylkingin myndi fá átta borgarfulltrúa ef kosið yrði í dag og er ansi tæpt á því að ná inn níunda manninum líka.

Niðurstöður kosningaspárinnar 23. maí 2018

Hinn stóri flokkurinn í Reykjavík, Sjálfstæðisflokkur, er að upplifa aðra stöðu. Fylgi hans hefur dalað nær samfellt frá því í lok apríl og mælist nú 25,1 prósent. Ef það yrði niðurstaðan væri um að ræða verstu útkomu Sjálfstæðisflokks í Reykjavík frá upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá sjö borgarfulltrúa ef kosið væri núna en er mjög nálægt því að tapa einum og enda með sex.

Sósíalistar bæta við sig á kostnað Vinstri grænna

Mestu breytingarnar sem orðið hafa á undanförnum vikum eru þær að fylgi Vinstri grænna hefur verið að dala en fylgi Sósíalistaflokks Íslands að aukast. Í ljósi þess að báðir flokkar skilgreina sig langt til vinstri má ætla að það sé skýr fylgni á milli. Vinstri græn mældust með 12,2 prósent fylgi í lok mars en eru nú með 7,8 prósent fylgi. Það er minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2014 undir forystu Sóleyjar Tómasdóttur, þegar 8,3 prósent kjósenda settu x við V. Mikið fylgistap Vinstri grænna er einnig athyglisvert í ljósi þess að flokkurinn leiðir nú ríkisstjórn íhaldsflokka eftir að hafa fengið 18,9 prósent og 21,5 prósent greiddra atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í alþingiskosningunum í lok október síðastliðins, eða fyrir sjö mánuðum síðan. Ljóst er að að algjört hrun hefur orðið í stuðningi við flokkinn síðan þá. Líf Magneudóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir myndu ná inn eins og staðan er nú en Vinstri græn eru ekki langt frá því að tapa öðrum manni sínum og ná einungis einum inn.

Sósíalistaflokkur Íslands er hins vegar á mikilli siglingu og Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti flokksins, er sem stendur á leið inn í borgarstjórn. Töluvert vantar hins vegar upp á að ná inn næsta manni, enda mælist fylgið 3,7 prósent, og mun meiri líkur á því að fyrsti maður á lista detti út en að þriðji nái inn.

Átta framboð næðu inn manni

Píratar virðast vera stöðugastir allra flokka, en þeir mælast nú með níu prósent fylgi og hafa verið á þeim slóðum frá því að gerð kosningaspárinnar hófst fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Það myndi skila tveimur mönnum inn og meiri líkur eru á þriðja manninum en að flokkurinn missi annan þeirra sem mælist nú inni. Það þýðir að þeir þrír flokkar sem eru hluti af núverandi meirihluta og eru í framboði myndu ná tólf borgarfulltrúum inn ef kosið yrði í dag. Þeir gætu því myndað meirihluta að nýju.

Alls myndu átta framboð ná inn manni í borgarstjórn ef kosið yrði nú, en það er sami fjöldi og er nú með fulltrúa á Alþingi. Sósíalistaflokkurinn er þó augljóslega ekki með mann inni þar og oddviti þeirra myndi ná kjöri nú á kostnað Flokks fólksins, sem mælist ekki inni. Viðreisn, Miðflokkur og Framsóknarflokkur mælast öll með nægjanlegt fylgi til að ná inn einum manni hver en þar er Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknar, viðkvæmastur á fleti. Bæði Viðreisn og Miðflokkur eiga ágætislíkur á því að ná inn manni númer tvö ef fylgið fer á hreyfingu.

Sætaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar er framkvæmd þannig að keyrðar eru 100 þúsund sýndarkosningar miðað við fylgi flokka í kosningaspánni sem birt var 23. maí,. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borgarfulltrúum og þar sem sýndarkosningarnar eru allar með innbyggða óvissu þá getur fylgið í hverri einstakri sýndarkosningu stundum hærra og stundum lægra, þótt meðaltal kosninganna allra sé það sama og kom fram í kosningaspánni.

Kosningarnar fara fram næstkomandi laugardag, þann 26. maí.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Samkvæmt henni eru næstu menn inn í borgarstjórn fyrsti maður Flokks fólksins, svo níundi maður Samfylkingar, næst annar maður Miðflokks og svo annar maður Viðreisnar. Sá sem er næstur út er oddviti Framsóknarmanna, svo oddviti Sósíalista, næst sjöundi maður Sjálfstæðisflokks og þar á eftir annar maður Vinstri grænna.

Af þeim framboðum sem hafa ekki verið nefnd hér er Kvennahreyfingin að mælast með mest fylgi. Alls segjast 1,5 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa hana ef kosið yrði í dag.

Eins og staðan er í dag myndu borgarfulltrúarnir skiptast með eftirfarandi hætti: 

 • Samfylking myndi fá átta borgarfulltrúa
 • Sjálfstæðisflokkur myndi fá sjö borgarfulltrúa
 • Píratar myndu fá tvo borgarfulltrúa
 • Vinstri græn myndu fá tvo borgarfulltrúa
 • Miðflokkur myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Viðreisn myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Framsóknarflokkurinn myndi fá einn borgarfulltrúa

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Mikill munur milli háskólamenntaðra og þeirra með minni menntun

Ljóst er að úrslit kosninganna á laugardag munu að stóru leyti ráðast á kjörsókn og því hversu stór hluti atkvæða muni falla niður dauður. Eins og staðan er í dag segjast 11,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokka sem eru ekki að mælast með mann kjörinn í borgarstjórn.

Í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið, sem birt var í morgun og er hluti af kosningaspánni, er hægt að sjá hvernig stuðningur við flokka mælist eftir kyni, aldri og menntun. Þar kemur meðal annars fram að Samfylkingin er með mun meiri stuðning á meðal kvenna en karla og þegar skoðaðar eru konur með háskólamenntun er munurinn sláandi. Þar segjast 42,5 prósent kvenna með háskólamenntun að þær myndu kjósa Samfylkinguna en einungis 14,5 prósent að þær myndu kjósa Sjálfstæðisflokk. Frjálslyndir miðjuflokkar og vinstri flokkar ( Viðreisn, Píratar, Samfylking Vinstri græn og Sósíalistaflokkur Íslands) eru með samanlagt 74,5 prósent fylgi í þessum hópi. Á meðal háskólamenntaðra karla mælist fylgið 64,2 prósent og á meðal allra háskólamenntaðra er fylgi ofangreindra flokka samanlagt 69,3 prósent.

Fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks mælist hins vegar 25,5 prósent á meðal háskólamenntaðra. Þessir flokkar sækja fylgi sitt til kjósenda sem hafa lokið grunnskóla- eða framhaldsskólamenntun. Á meðal þeirra sem hafa lokið grunnskólamenntun segjast 42,8 prósent að þeir myndu kjósa flokkanna þrjá. Hjá þeim sem lokið hafa framhaldsskólamenntun, þ.e. menntaskólaprófi eða sambærilegu, þá er hlutfallið 42,1 prósent. Frjálslyndu miðjuflokkarnir og vinstri flokkarnir myndu fá samanlagt 49,8 prósent hjá þeim sem eru með grunnskólapróf og 52,7 prósent hjá þeim sem eru með framhaldsskólapróf.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, mælist ekki inni sem stendur. Hún er þó nálægt því að ná sæti í borgarstjórn og lítið þarf til.
Mynd: aðsend

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (23. maí) eru eftirfarandi:

 • Skoðanakönnun Fréttablaðsins 7. maí (18,4 prósent)
 • Gallup fyrir Viðskiptablaðið 2. – 14. maí (30,5 prósent)
 • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 17. – 21. maí (51,1 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar