Mynd: samsett Borgarstjórnar collage
Mynd: samsett

Sósíalistaflokkurinn étur af Vinstri grænum sem stefna í verri útkomu en 2014

Samfylkingin er að bæta við sig fylgi á síðustu vikum kosningabaráttunnar og er komin í nánast kjörfylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er á hinn bóginn að dala á síðustu metrunum. Átta framboð næðu inn og meirihlutinn heldur örugglega velli. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar.

Meiri­hlut­inn heldur nokkuð örugg­lega velli í kom­andi kosn­ing­um, sem fram fara næst­kom­andi laug­ar­dag, sam­kvæmt nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans og Dr. Bald­urs Héð­ins­son­ar. Sam­fylk­ingin mælist stærsti flokk­ur­inn í borg­inni með 31,4 pró­sent fylgi, sem er það mesta sem flokk­ur­inn hefur mælst með frá því að fyrsta spáin var gerð í byrjun mars. Það fylgi er raunar ekki langt frá kjör­fylgi flokks­ins í kosn­ing­unum 2014, þegar hann fékk 31,9 pró­sent atkvæða. Fylgi Sam­fylk­ing­ar­innar hefur vaxið í hverri spá frá því í byrjun mán­að­ar.

Sam­fylk­ingin myndi fá átta borg­ar­full­trúa ef kosið yrði í dag og er ansi tæpt á því að ná inn níunda mann­inum líka.

Niðurstöður kosningaspárinnar 23. maí 2018

Hinn stóri flokk­ur­inn í Reykja­vík, Sjálf­stæð­is­flokk­ur, er að upp­lifa aðra stöðu. Fylgi hans hefur dalað nær sam­fellt frá því í lok apríl og mælist nú 25,1 pró­sent. Ef það yrði nið­ur­staðan væri um að ræða verstu útkomu Sjálf­stæð­is­flokks í Reykja­vík frá upp­hafi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn myndi fá sjö borg­ar­full­trúa ef kosið væri núna en er mjög nálægt því að tapa einum og enda með sex.

Sós­í­alistar bæta við sig á kostnað Vinstri grænna

Mestu breyt­ing­arnar sem orðið hafa á und­an­förnum vikum eru þær að fylgi Vinstri grænna hefur verið að dala en fylgi Sós­í­alista­flokks Íslands að aukast. Í ljósi þess að báðir flokkar skil­greina sig langt til vinstri má ætla að það sé skýr fylgni á milli. Vinstri græn mæld­ust með 12,2 pró­sent fylgi í lok mars en eru nú með 7,8 pró­sent fylgi. Það er minna en flokk­ur­inn fékk í kosn­ing­unum 2014 undir for­ystu Sól­eyjar Tóm­as­dótt­ur, þegar 8,3 pró­sent kjós­enda settu x við V. Mikið fylgis­tap Vinstri grænna er einnig athygl­is­vert í ljósi þess að flokk­ur­inn leiðir nú rík­is­stjórn íhalds­flokka eftir að hafa fengið 18,9 pró­sent og 21,5 pró­sent greiddra atkvæða í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum tveimur í alþing­is­kosn­ing­unum í lok októ­ber síð­ast­lið­ins, eða fyrir sjö mán­uðum síð­an. Ljóst er að að algjört hrun hefur orðið í stuðn­ingi við flokk­inn síðan þá. Líf Magneu­dóttir og Elín Oddný Sig­urð­ar­dóttir myndu ná inn eins og staðan er nú en Vinstri græn eru ekki langt frá því að tapa öðrum manni sínum og ná ein­ungis einum inn.

Sós­í­alista­flokkur Íslands er hins vegar á mik­illi sigl­ingu og Sanna Magda­lena Mörtu­dótt­ir, odd­viti flokks­ins, er sem stendur á leið inn í borg­ar­stjórn. Tölu­vert vantar hins vegar upp á að ná inn næsta manni, enda mælist fylgið 3,7 pró­sent, og mun meiri líkur á því að fyrsti maður á lista detti út en að þriðji nái inn.

Átta fram­boð næðu inn manni

Píratar virð­ast vera stöðug­astir allra flokka, en þeir mæl­ast nú með níu pró­sent fylgi og hafa verið á þeim slóðum frá því að gerð kosn­inga­spár­innar hófst fyrir kom­andi borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar. Það myndi skila tveimur mönnum inn og meiri líkur eru á þriðja mann­inum en að flokk­ur­inn missi annan þeirra sem mælist nú inni. Það þýðir að þeir þrír flokkar sem eru hluti af núver­andi meiri­hluta og eru í fram­boði myndu ná tólf borg­ar­full­trúum inn ef kosið yrði í dag. Þeir gætu því myndað meiri­hluta að nýju.

Alls myndu átta fram­boð ná inn manni í borg­ar­stjórn ef kosið yrði nú, en það er sami fjöldi og er nú með full­trúa á Alþingi. Sós­í­alista­flokk­ur­inn er þó aug­ljós­lega ekki með mann inni þar og odd­viti þeirra myndi ná kjöri nú á kostnað Flokks fólks­ins, sem mælist ekki inni. Við­reisn, Mið­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur mæl­ast öll með nægj­an­legt fylgi til að ná inn einum manni hver en þar er Ingvar Mar Jóns­son, odd­viti Fram­sókn­ar, við­kvæm­astur á fleti. Bæði Við­reisn og Mið­flokkur eiga ágæt­is­líkur á því að ná inn manni númer tvö ef fylgið fer á hreyf­ingu.

Sæta­spá Kjarn­ans og Dr. Bald­urs Héð­ins­sonar er fram­kvæmd þannig að keyrðar eru 100 þús­und sýnd­ar­kosn­ingar miðað við fylgi flokka í kosn­inga­spánni sem birt var 23. maí,. Í hverri þeirra er úthlutað 23 borg­ar­full­trúum og þar sem sýnd­ar­kosn­ing­arnar eru allar með inn­byggða óvissu þá getur fylgið í hverri ein­stakri sýnd­ar­kosn­ingu stundum hærra og stundum lægra, þótt með­al­tal kosn­ing­anna allra sé það sama og kom fram í kosn­inga­spánni.

Kosningarnar fara fram næstkomandi laugardag, þann 26. maí.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sam­kvæmt henni eru næstu menn inn í borg­ar­stjórn fyrsti maður Flokks fólks­ins, svo níundi maður Sam­fylk­ing­ar, næst annar maður Mið­flokks og svo annar maður Við­reisn­ar. Sá sem er næstur út er odd­viti Fram­sókn­ar­manna, svo odd­viti Sós­í­alista, næst sjö­undi maður Sjálf­stæð­is­flokks og þar á eftir annar maður Vinstri grænna.

Af þeim fram­boðum sem hafa ekki verið nefnd hér er Kvenna­hreyf­ingin að mæl­ast með mest fylgi. Alls segj­ast 1,5 pró­sent kjós­enda að þeir myndu kjósa hana ef kosið yrði í dag.

Eins og staðan er í dag myndu borg­ar­full­trú­arnir skipt­ast með eft­ir­far­andi hætt­i: 

 • Sam­fylk­ing myndi fá átta borg­ar­full­trúa

 • Sjálf­stæð­is­flokkur myndi fá sjö borg­ar­full­trúa

 • Píratar myndu fá tvo borg­ar­full­trúa

 • Vinstri græn myndu fá tvo borg­ar­full­trúa

 • Mið­flokkur myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Við­reisn myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Sós­í­alista­flokkur Íslands myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn myndi fá einn borg­ar­full­trúa

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Mik­ill munur milli háskóla­mennt­aðra og þeirra með minni menntun

Ljóst er að úrslit kosn­ing­anna á laug­ar­dag munu að stóru leyti ráð­ast á kjör­sókn og því hversu stór hluti atkvæða muni falla niður dauð­ur. Eins og staðan er í dag segj­ast 11,4 pró­sent kjós­enda ætla að kjósa flokka sem eru ekki að mæl­ast með mann kjör­inn í borg­ar­stjórn.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar fyrir Morg­un­blað­ið, sem birt var í morgun og er hluti af kosn­inga­spánni, er hægt að sjá hvernig stuðn­ingur við flokka mælist eftir kyni, aldri og mennt­un. Þar kemur meðal ann­ars fram að Sam­fylk­ingin er með mun meiri stuðn­ing á meðal kvenna en karla og þegar skoð­aðar eru konur með háskóla­menntun er mun­ur­inn slá­andi. Þar segj­ast 42,5 pró­sent kvenna með háskóla­menntun að þær myndu kjósa Sam­fylk­ing­una en ein­ungis 14,5 pró­sent að þær myndu kjósa Sjálf­stæð­is­flokk. Frjáls­lyndir miðju­flokkar og vinstri flokkar ( Við­reisn, Pírat­ar, Sam­fylk­ing Vinstri græn og Sós­í­alista­flokkur Íslands) eru með sam­an­lagt 74,5 pró­sent fylgi í þessum hópi. Á meðal háskóla­mennt­aðra karla mælist fylgið 64,2 pró­sent og á meðal allra háskóla­mennt­aðra er fylgi ofan­greindra flokka sam­an­lagt 69,3 pró­sent.

Fylgi Sjálf­stæð­is­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Mið­flokks mælist hins vegar 25,5 pró­sent á meðal háskóla­mennt­aðra. Þessir flokkar sækja fylgi sitt til kjós­enda sem hafa lokið grunn­skóla- eða fram­halds­skóla­mennt­un. Á meðal þeirra sem hafa lokið grunn­skóla­menntun segj­ast 42,8 pró­sent að þeir myndu kjósa flokk­anna þrjá. Hjá þeim sem lokið hafa fram­halds­skóla­mennt­un, þ.e. mennta­skóla­prófi eða sam­bæri­legu, þá er hlut­fallið 42,1 pró­sent. Frjáls­lyndu miðju­flokk­arnir og vinstri flokk­arnir myndu fá sam­an­lagt 49,8 pró­sent hjá þeim sem eru með grunn­skóla­próf og 52,7 pró­sent hjá þeim sem eru með fram­halds­skóla­próf.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, mælist ekki inni sem stendur. Hún er þó nálægt því að ná sæti í borgarstjórn og lítið þarf til.
Mynd: aðsend

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni (23. maí) eru eft­ir­far­andi:

 • Skoð­ana­könnun Frétta­blaðs­ins 7. maí (18,4 pró­sent)

 • Gallup fyrir Við­skipta­blaðið 2. – 14. maí (30,5 pró­sent)
 • Þjóð­mála­könnun Félags­vís­inda­stofn­unar HÍ fyrir Morg­un­blaðið 17. – 21. maí (51,1 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar