Nær enginn munur á fylgi Sósíalistaflokks og Flokks fólksins en bara annar nær inn
Engar breytingar eru á skiptingu borgarfulltrúa á milli kosningaspáa. Samfylkingin heldur áfram að bæta lítillega við sig og Sjálfstæðisflokkurinn þokast upp á við í fyrsta sinn í nokkrar vikur. Vinstri græn stefna í vonda niðurstöðu og handfylli atkvæða gæti skorið úr um hvort oddviti Sósíalistaflokks eða Flokks fólksins nær inn.
Engar breytingar eru á skiptingu borgarfulltrúa milli flokka frá síðustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Átta flokkar mælast enn með mann inni og þeir flokkar sem sitja í meirihluta í dag og eru í framboði mælast enn með tólf borgarfulltrúa. Þar með myndi meirihlutinn halda ef kosið yrði í dag.
Samfylkingin mælist sem fyrr stærsti flokkurinn í höfuðborginni, líkt og hún hefur verið frá því í lok mars, með 31,8 prósent fylgi. Það myndi skila henni átta borgarfulltrúum og sá níundi er ekki langt frá því að ná inn líka.
Fylgi Samfylkingar hefur verið að aukast hægt og rólega á undanförnum vikum. Í byrjun maí var það til að mynda 28,3 prósent en hefur hækkað í hverri spá sem gerð hefur verið síðan þá. Fylgið nú er nánast það sama og það var í kosningunum 2014, þegar Samfylkingin fékk 31,9 prósent atkvæða.
Fylgi Sjálfstæðisflokks tekur stökk upp á við í nýjustu spánni eftir að hafa dalað í hverri einustu spá frá því í lok apríl. Nú mælist það 26 prósent sem myndi skila sjö borgarfulltrúum. Sá síðasti inn er þó valtur í sessi og lítið þyrfti út af að bregða til að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks yrði sex.
Þessir tveir flokkar, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, eru í sérflokki í borginni. Alls 57,6 prósent kjósenda ætla að kjósa þá og miðað við núverandi stöðu myndu þeir fá 65 prósent borgarfulltrúa. Nær öruggt er að annar hvor oddvita flokkanna, Dagur B. Eggertsson eða Eyþór Arnalds, verði borgarstjóri í Reykjavík eftir kosningarnar á morgun.
Framsókn sækir á
Af þeim framboðum sem mælast með minna fylgi hafa Píratar og Framsóknarflokkurinn verið að styrkja stöðu sína mest á síðustu dögum. Píratar mælast nú með 9,7 prósent fylgi og eru mun nær því að ná inn þriðja manni sínum en að tapa öðrum þeirra sem nú mælast inni. Framsóknarflokkurinn er einn þeirra flokka sem hefur verið með í kringum þriggja prósenta fylgi sem mælist stundum inni í spám Kjarnans og stundum ekki. Frá 17. maí hefur flokkurinn hins vegar bætt við sig 0,6 prósentustigum og mælist með 3,5 prósent fylgi. Það ætti að skila Ingvari Mar Jónssyni í borgarstjórn.
Sósíalistaflokkurinn hefur einnig verið að ná eftirtektarverðum árangri og Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti hans, er sem stendur inni. Miðað við nýjustu kosningaspánna er fylgi Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins það sama, eða 3,2 prósent. Það myndi því ekki muna nema handfylli atkvæða á því að Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, myndi fella Sönnu Magdalenu út.
Fjárlægur draumur um fjóra
Vinstri græn halda áfram að falla í fylgi. Það mælist nú 7,3 prósent, sem er heilu prósentustigi minna en flokkurinn fékk 2014. Sem stendur rétt dugar það til að ná inn tveimur mönnum en flokkurinn er mun nær því að tapa öðrum þeirra en að ná inn þriðja manninum. Þessi staða er athyglisverð í ljósi þess að fyrir tveimur mánuðum síðan mældist fylgi Vinstri grænna í kosningaspánni 12,2 prósent.
Viðreisn hefur einnig verið að dala og virðist geta kvatt þann draum að ná öðrum manni síns lista, Pawel Bartoszek, inn í borgarstjórn nema að miklar breytingar eigi sér stað næsta sólarhringinn. Fylgi flokksins, sem er 5,9 prósent, er nú í fyrsta sinn undir sex prósentum frá því í byrjun mars. Hæst mældist það 7,6 prósent þann 10. apríl.
Miðflokkurinn, með Vigdísi Hauksdóttur í víkingaham í fararbroddi, er einnig að missa flugið. Frá 8. maí hefur flokkurinn misst 1,2 prósentustig og mælist nú með 5,5 prósent fylgi. Draumur Vigdísar um að ná fjórum mönnum inn virðist því mjög fjarlægur eins og stendur.
Eins og staðan er í dag myndu borgarfulltrúarnir skiptast með eftirfarandi hætti:
- Samfylking myndi fá átta borgarfulltrúa
- Sjálfstæðisflokkur myndi fá sjö borgarfulltrúa
- Píratar myndu fá tvo borgarfulltrúa
- Vinstri græn myndu fá tvo borgarfulltrúa
- Miðflokkur myndi fá einn borgarfulltrúa
- Viðreisn myndi fá einn borgarfulltrúa
- Framsóknarflokkurinn myndi fá einn borgarfulltrúa
- Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá einn borgarfulltrúa
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni (25. maí) eru eftirfarandi:
- Gallup fyrir Viðskiptablaðið 2. – 14. maí (22,4 prósent)
- Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 17. – 21. maí (37,6 prósent)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. - 24. maí (40,0 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Síðasta kosningaspáin fyrir komandi borgarstjórnarkosningar mun verða birt á morgun.
Fleira tengt komandi borgarstjórnarkosningum
-
19. júní 2018Fyrsti borgarstjórnarfundurinn á nýju kjörtímabili í dag
-
15. júní 2018Athugasemdir í kæru Pírata leiða ekki til ógildingar kosninga
-
5. júní 2018Sósíalistaflokkurinn mun styðja valin mál í borgarstjórn
-
5. júní 2018Meirihlutaviðræður hefjast milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogi
-
4. júní 2018Ímynd og ímyndun
-
4. júní 2018Líkur aukast á því að Dagur verði áfram borgarstjóri
-
2. júní 2018Verðandi meirihluti fékk færri atkvæði en verðandi minnihluti
-
30. maí 2018Formlegar viðræður hefjast á morgun milli Viðreisnar og fráfarandi meirihluta
-
30. maí 2018Ég vil ekki verða húsþræll
-
30. maí 2018Nýr meirihluti veltur á að Dagur gefi eftir stólinn