Ísland mætir Króatíu í kvöld í þriðju umferð riðlakeppninnar í HM karla í fótbolta. Þetta verður sjöundi A-landsliðsleikur liðanna tveggja, en leikirnir hafa endað í einum sigri, einu jafntefli og fjórum töpum.
Liðin tvö mættust fyrst á Maksimir stadium í Zagreb í mars 2005, en þá lentu liðin saman í riðli í undankeppni HM ári seinna. Leikurinn endaði 4-0 Króötum í vil. Kári Árnason er eini leikmaður núverandi liðsins sem var í hóp gegn Króötum í þessum leik, en var á bekknum allan tímann.
Í september sama ár mættust liðin aftur á Laugardalsvelli. Leikurinn endaði 3-1 Króötum í vil, en Eiður Smári Guðjohnsen kom Íslandi yfir í byrjun leiks áður en mörkum Króata rigndi inn í seinni hálfleik.
Þriðji leikur Íslands og Króatíu var svo átta árum seinna, þann 15. nóvember 2013 , en liðin voru í umspili um sæti á HM 2014. Þar fékk Ólafur Ingi Skúlason rautt spjald, en leikurinn endaði með 0-0 jafntefli. Fjórum dögum síðar mættust liðin aftur í Zagreb, en þar unnu Króatar 2-0.
Í undankeppni HM í ár lentu strákarnir okkar svo aftur með Króatíu í riðli og kepptu við þá aftur í Zagreb í nóvember 2016. Leikurinn endaði líkt og sá síðasti, 2-0 fyrir Króatíu. Þrátt fyrir sömu markaniðurstöðu sagði Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður mikinn mun vera á leikjunum tveimur. Strákarnir væru komnir lengra og búnir að upplifa ótrúlega hluti, en þeir voru þá nýkomnir frá EM-ævintýrinu í Frakklandi fyrr sama ár. Gylfi Þór Sigurðsson bætti í og sagði fólboltastrákana eiga fullt erindi í að vinna Króatana, sérstaklega á heimavelli.
Gylfi virðist hafa haft nokkuð til síns máls, en strákarnir okkar unnu Króatana í sjöttu viðureign liðanna í nóvember í fyrra, 1-0. Þar skoraði Hörður Björgvin Magnússon úr horni á síðustu mínútu leiksins.
Samanlögð markatala Íslands og Króatíu stendur því nú í 2-11, Króötum í vil. Vonandi jafnast hún út að einhverju leyti eftir leik dagsins, en flautað verður til leiks í Rostov Arena klukkan sex í kvöld.