Sérfræðingar og greiningaraðilar eru ekki á einu máli um kerfislægt mikilvægi Icelandair og WOW air fyrir íslenskt efnahagslíf. Margir þeirra benda stóra hlutdeild félaganna í farþegaflutningum til landsins, en öðrum finnst langsótt að kalla þau kerfislega mikilvæg í ljósi mikillar samkeppni á þessum markaði. Hins vegar virðist rekstur þeirra ekki enn í hættu, þrátt fyrir mikla lækkun hlutafjár Icelandair.
Ódýrari en Hagar
Kjarninn greindi frá mikilli verðlækkun hlutafjár Icelandair í gær, en markaðsvirði félagsins lækkaði um tæpan fjórðung í kjölfar afkomuviðvörunnar á sunnudaginn. Eftir lokun markaða í gær stóð verðmiðinn á félaginu í 46 milljörðum króna og er því kominn niður fyrir eigið fé sem var 60 milljarðar í lok mars. Þannig er verðmiði félagsins kominn undir Haga, en hann nam tæpum 200 milljörðum króna fyrir fjórum árum. Á þeim tíma var félagið verðmætara en Marel, en í dag er Marel um það bil fimm sinnum verðmætara en Icelandair.
80% hlutdeild
Þrátt fyrir lækkandi hlutabréfaverð og minnkandi hlutdeild á markaðnum viðheldur Icelandair stöðu sína sem langstærsta flugfélagið á Íslandi, en um 45% farþega flugu með þeim frá landi í síðasta mánuði. Í öðru sæti var svo WOW air sem flaug 32% allra farþega úr landi í júní og því var samanlögð hlutdeild flugfélaganna tveggja á farþegum úr landi um 77%.
Landsbankinn fjallaði um miklu markaðshlutdeild íslensku flugfélaganna tveggja á Ferðaþjónusturáðstefnu bankans síðasta haust. Þar sagði Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar bankans, flugframboð hafa verið aðaldrifkraftinn í vexti íslenskrar ferðaþjónustu síðustu ára, ekki gengisbreytingar. Þar sem samanlögð hlutdeild Icelandair og WOW air af farþegum til og frá landinu sé um 80% sé ljóst að Ísland eigi gríðarlega mikið undir traustri stöðu íslensku flugfélaganna tveggja.
„Þetta vekur upp spurningar hvort Icelandair og WOW air séu kerfislega mikilvæg fyrirtæki fyrir efnahagslegan stöðugleika á Íslandi í svipuðum skilningi og stóru viðskiptabankarnir þrír eru skilgreindir kerfislega mikilvægir fyrir fjármálastöðugleika,“ bætir Daníel við.
Erindi Daníels á ráðstefnu Landsbankans síðasta haust. Talið berst að mikilvægi flugsins á tíundu mínútu.
Á ráðstefnunni veltir Daníel upp mögulega aðkomu stjórnvalda að ferðaþjónustunni ef kreppa fer verulega að flugfélögunum tveimur. Þremur mánuðum síðar greindi vefsíðan Túristi frá því að forsætisráðuneytið hafi sett af stað gerð viðbragðsáætlunar sem hægt væri að grípa til ef flugfélögin lenda í vanda.
Í samtali Kjarnans við greiningaraðila í efnahagsmálum voru margir sammála um kerfislægt mikilvægi flugfélaganna. Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs benti á að áhætta sé fólgin í versnandi rekstrarskilyrðum flugfélaganna þar sem svo gott sem öll ferðaþjónustan sé háð flugi til og frá landinu. Elvar Ingi Möller sérfræðingur í greiningardeild Arion banka tekur í sama streng og segir að samdráttur í framboði frá flugfélögunum myndi hafa kerfislæg áhrif. Þó segir Konráð ekkert kalla á sérstök inngrip stjórnvalda, aðalatriðið sé að hagstjórnin bregðist við og taki mið af breyttum veruleika til að lending hagkerfisins verði sem mýkst.
Ekki of mikilvæg
Hins vegar eru skiptar skoðanir um þetta sjónarmið, en Skúli Mogensen forstjóri WOW air taldi flugfélögin tvö ekki of stór til að geta fallið í samtali við vef Túrista í vor. Hann bætti við að „það yrði þó klárlega mikið högg ef annað flugfélagið færi og það tæki nokkur ár að ná einhverju jafnvægi.“ Í samtali við Kjarnann segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka mikilvægi félaganna hafa minnkað þar sem margir séu um hituna hvað varðar flutninga til og frá landinu. Hann minnir á að stjórnvöld hafa áður skilgreint starfsemi Icelandair sem kerfislega mikilvæga þegar þau settu lög á verkfall flugvirkja félagsins fyrir fjórum árum síðan. Slík lög yrðu þó erfiðari að setja fram á þessum dögum með sömu rökum.
Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, finnst það einnig vera ansi langsótt að kalla flugfélögin kerfislega mikilvæg í sama skilningi og íslensku bankarnir. Mikil samkeppni ríki á milli flugfélaganna og líklegt sé að félag komi í stað annars, fari eitt þeirra af markaði.
Lítið vitað um WOW
í tilkynningu sinni um versnandi afkomu nefnir Icelandair marga ytri þætti sem ástæður minni tekna, eins og helmingshækkun olíuverðs síðustu tólf mánaða og slæmt veðurfar. Samkvæmt Konráði hljóta þessir þættir að bitna á WOW air líka, en minna er vitað um fjárhagsupplýsingar þess fyrirtækis þar sem það er ekki skráð á hlutabréfamarkað. Í fréttatilkynningu í gær segir WOW frá góðri sætanýtingu fyrirtækisins, en engar upplýsingar hafa enn fengist um tekjur þess fyrir sama tímabil. Konráð segir þögn WOW air um fjárhagsstöðu sína eina og sér vera umhugsunarverða þar sem fyrirtækið hafi áður sent reglulegar fréttatilkynningar um ársfjórðungsuppgjör.
Raunar er mögulegt að hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu bitni enn frekar á WOW air heldur en Icelandair þar sem eldsneytiskaup fyrrnefnda félagsins er ekki varið verðhækkunum. Rúmur helmingur eldsneytiskaupa Icelandair er hins vegar varinn til tólf mánaða og ættu þeir því að vera betur í stakk búnir til að bregðast við hækkununum.
Frá uppvaxtarárum til fullorðinsára
Þegar spurt var um stöðu ferðaþjónustunnar voru sérfræðingarnir nokkuð jákvæðir. Þótt staða nokkurra fyrirtækja í greininni hefði versnað þá sé hún ekkert endilega slæm enn sem komið er. Jón Bjarki segir þetta ár verða árið sem reynir á hvort við náum jafnvægi í geiranum eða hvort það verði bakslag, en enn séu ágætar líkur á að ferðaþjónustan hverfi frá uppvaxtarárum til fullorðinsára.
Konráð bendir einnig á að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs hefur farið dvínandi og tíðindin um stöðu Icelandair séu bara einn eitt dæmið um það. Það blasi því við að versnandi samkeppnishæfni hafi áhrif t.d. á stöðu Icelandair og hún virðist þröng þótt það sé ekki endilega að sjá að fyrirtækið standi höllum fæti.