Hart er í ári á íslenska hlutabréfamarkaðnum, en þrjár afkomuviðvaranir hafa birst á vef Kauphallarinnar frá byrjun vikunnar. Staðan virðist ekki heldur góð þegar til lengri tíma er litið, en meginvísitala OMX á Íslandi hefur lækkað um tæp átta prósent á síðustu tólf mánuðum. Hvers vegna gengur íslenskum skráðum hlutafélögum jafnilla og raun ber vitni á tímum uppgangs í efnahagslífinu?
Ris og fall í hlutabréfum
Árið fór vel af stað í Kauphöllinni með um 7,7 prósenta hækkun OMX vísitölunnar í janúarmánuði í kjölfar nokkurrar lægðar fyrri mánaða. Hækkunin var sú mesta sem Kauphöllin hafði séð í hálft ár, en markaðurinn átti undir högg að sækja á síðari hluta ársins 2017. Samkvæmt grein Eggerts Þórs Aðalsteinssonar í Vísbendingu í fyrra mátti helst rekja minnkandi markaðsverðmæti íslensku fyrirtækjanna til óstöðugleika í gengismálum, breytinga í samkeppnisumhverfi fyrirtækja og pólitíska óvissu.
Í janúar tók svo að birta til á markaðnum, en í samtali Kjarnans við greiningaraðila voru helstu ástæður hækkunar á Kauphallarvísitölunni í janúar gott gengi Marels og dvínandi áhrif innkomu Costco á Haga. Hækkunin hélst út allan fyrsta ársfjórðunginn með heilt yfir jákvæðri niðurstöðu úr uppgjörum félaganna og aukins áhuga erlendra fjárfestingarsjóða á íslenska markaðnum, þá helst í tryggingar-og fjarskiptafélögum.
Annar ársfjórðungur hefur ekki verið eins gæfuríkur, en frá marslokum hefur nær öll hækkun OMX-vísitölunnar á fyrsta ársfjórðungi gengið til baka. Hröðust var lækkunin í nýliðinni viku, en Icelandair sendi frá sér afkomuviðvörun síðastliðinn sunnudag þar sem afkomuspá félagsins fyrir annan ársfjórðung var lækkuð um 30%. Í kjölfarið féll hlutabréfaverð flugfélagsins um fjórðung á einum degi, en tryggingafyrirtækin VÍS og TM minnkuðu svo einnig afkomuspá sína seinna í vikunni vegna slæmrar þróunar á hlutabréfamarkaði.
Fasteignafélög á niðurtúr
Fasteignafélögin fjögur í Kauphöllinni, Reitir, Eik, Reginn og Heimavellir, hafa öll lækkað umtalsvert á síðustu þremur mánuðum eftir ágætan fyrsta ársfjórðung, en samkvæmt greiningaraðilum gæti helsta skýringin á lækkandi gengi þeirra verið sú að væntingar um lækkun vaxta Seðlabankans hafi ekki gengið eftir.
Tryggingafyrirtækin fylgja
Ef litið er á tryggingafélögin þrjú, Sjóvá, VÍS og TM, má sjá svipaða þróun á öðrum ársfjórðungi, þótt lækkunin hafi ekki verið jafnmikil hjá Sjóvá og TM. Hlutabréf í VÍS hafa hins vegar tekið skarpa dýfu á síðustu vikum, eða allt frá því félagið ákvað að minnka hlutafé sitt og greiða fyrir það með bréfum í Kviku. Tryggingafyrirtækin eru einnig viðkvæm fyrir gengi annarra félaga í Kauphöllinni, en í afkomuviðvörunum sínum nefndi bæði VÍS og TM slæma þróun á hlutabréfamarkaði sem eina af meginástæðum verri afkomu á öðrum ársfjórðungi.
Sameining N1 og Festa ókláruð
Gengi olíufélaganna N1 og Shell hækkaði talsvert í byrjun árs, en verð á bréfum fyrirtækjanna hefur fallið nokkuð á síðustu tveimur vikum. Þann 26. Júní kallaði Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum um fyrirhuguð kaup N1 á Festi, en N1 hafði vonast til þess að geta komið þeim í gegn á öðrum ársfjórðungi. Svo varð ekki og enn er óvíst hvort kaupin nái í gegn yfirhöfuð.
Arion stærri úti
Fyrstu dagar Arion banka í Kauphöllinni hafa ekki verið sérlega gjöfulir, en hlutabréfaverð bankans hefur lækkað um tæp átta prósent frá því hann kom á markað fyrir tæpum mánuði síðan. Samkvæmt heimildum Kjarnans ríkti nokkur eftirvænting um að skráning bankans myndi dýpka íslenska hlutabréfamarkaðinn, en hingað til hafa stærstu viðskipti hans átt sér stað í Kauphöllinni í Stokkhólmi.
Hækkandi olíuverð og aukin samkeppni
Stærsta dagsbreyting síðasta ársfjórðungs á einu fyrirtæki í Kauphöllinni átti sér hins vegar stað hjá Icelandair síðasta mánudag, morguninn eftir birtingu afkomuviðvörunar félagsins. Flugfélagið segir meginástæðu lækkunarinnar vera hækkandi olíuverð auk harðari samkeppni sem leiði til þess að flugfargjöld hafi ekki hækkað nógu mikið. Ljóst er að kreppt hafi að hjá flugfélögum síðustu mánuði, en WOW air greindi einnig frá miklum tekjusamdrætti vegna olíuverðhækkunar og aukinnar samkeppni árið 2017 í tilkynningu félagsins síðasta föstudag.
Ekki allt neikvætt
Margir einstakir þættir virðast hafa lagt til mikillar lækkunar á vísitölu Kauphallarinnar undanfarnar vikur og afkomuviðvarana þriggja fyrirtækja á stuttum tíma. En þrátt fyrir slæmt gengi fjölmargra félaga á síðustu vikum er ekki einungis slæmar fréttir af íslensku Kauphöllinni. Til að mynda hefur hlutabréfaverð í Marel ekki enn misst flugið síðan það tók að hækka í byrjun árs og bréf Haga hafa einnig farið stighækkandi frá því í janúar. Að sögn greiningaraðila er ekki ástæða til að örvænta vegna lækkunar á OMX-vísitölunni, þar sem verðlagningin á hlutabréfum sé mjög góð heilt yfir markaðinn og mörg félög enn að skila góðri arðsemi.