Í byrjun október kom út ný skýrsla loftlagssérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem skýrt var frá óhugnanlegri stöðu er varðar hlýnun jarðar. Niðurstöður skýrslunnar sýna að hitastig á jörðunni muni hækka um 1,5 gráðu fyrir 2030 ef ekki er brugðist hratt við. Sú hækkun myndi hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar, eyðingu kóralrifa, mikla þurrka, flóð og matarskort fyrir hundruð milljónir manna.
Í skýrslunni er kallað eftir að ríki heims grípi til stórtækra aðgerða en aðeins eru tólf ár til stefnu ef koma á í veg fyrir óafturkræf áhrif á lífríki jarðarinnar. Ef framheldur sem horfir gætu stór svæði í heiminum orðið ólífvænleg. Þetta mun ekki gerast hægt og bítandi, heldur hratt og óumflýjanlega samkvæmt skýrslunni ef stjórnvöld bregðast ekki við.
Nefnd eru fjögur meginsvið sem þarf að gjörbreyta, orkunotkun, landnotkun, borgarskipulag og iðnaður. Talið er að það þurfi byltingarkenndar breytingar á öllum kerfum. Breyting á því hvernig lönd eru nýtt, hvernig fólk borðar, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Í skýrslunni sem mætti segja vera einskonar lokaútkall segir að mögulegt er að bregðast við og ná verulegum árangri fyrir 2030. En ljóst er að til þess þarf vilja almennings til breytinga sem og pólitískan vilja stjórnvalda.
Breyttar matarvenjur
Síðustu ár hefur fjöldi rannsókna verið birtur sem sýnir fram á ef jarðarbúar breyta því hvernig þeir borða þá gætu þeir haft gríðarleg áhrif á loftlagsvanda jarðar. Nýlega hefur einnig verið birt yfirgripsmikil rannsókn á áhrifum matvælaframleiðslu í vísindaritinu Nature. Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi að gífurlegur samdráttur í kjötneyslu gæti haft úrslitaáhrif á að halda hættulegum veðurfarsbreytingum í skefjum.
Samkvæmt rannsókninni þarf neysla á Vesturlöndum á nautakjöti að dragast saman um 90 prósent og auka þarf neyslu á baunum og belgjurtum fimmfalt. Í rannsóknin er sýnt fram á landbúnaður og framleiðsla dýraafurða veldur ekki aðeins losun gróðurhúsalofttegunda frá búpeningi, heldur einnig eyðing skóga, gríðarmikilli vatnsnotkun og súrnun sjávar.
Í skýrslunni er bent á að í raun getur fólk haft mun meiri áhrif á kolefnisfótsporið sitt með því að minnka kjötneyslu heldur en að skera niður flugferðir eða kaupa rafbíl, vegna þess að þær aðgerðir hafa aðeins áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.
Ábyrgð stjórnvalda
Þessar rannsóknir sýna að hinn almenni borgari geti með breytingum á matarvenjum sínum haft áhrif á kolefnislosun. Í skýrslunni Sameinuðu þjóðanna kemur einnig skýrt fram að breyttir lifnaðarhættir fólks eru forsenda þess að eitthvað muni breytist. Rannsóknir sýna hins vegar að erfitt getur verið að fá fólk til að breyta matarvenjur eða ferðamátum með það að markmiði að hafa áhrif á umhverfismál. Því hefur verið bent á ábyrgð stjórnvalda í þessum málum, þar sem tíminn er skammur.
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, ræddi ábyrgð stjórnvalda í viðtali við Rúv fyrr í þessum mánuði. „Þetta eru byltingarkenndar breytingar á öllum kerfum, því hvernig menn nýta land, því hvað menn borða, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Þetta er hægt, það er bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega hægt að bregðast nógu fljótt við til að við verðum búin að ná verulegum árangri fyrir 2030, eina spurningin um það hvort það sé hægt er hin pólitíska spurning, það er, er pólitískur vilji til að gera það eða ekki, þar liggur efinn og boltinn er hjá stjórnvöldum, þau verða að draga vagninn, við getum ekki beðið eftir því að frjáls félagasamtök eða almenningur eða hver sem er breyti viðhorfi fólks þannig að það fari að hegða sér öðruvísi, fólk fer ekki að hegða sér öðruvísi nema það sé neitt til þess og það er bara komið að því að það verður því miður að taka þannig á málum að fólk neyðist til að hegða sér öðruvísi, hætta að borða kjöt, ferðast minna, hvað sem það er,“ sagði Stefán.
Aðgerðaáætlun í loftlagsstefnan
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið birti í september nýja aðgerðaáætlun í loftlagsmálum. Samkvæmt heimasíðu umhverfisráðuneytisins á áætlunin að vera hornsteinn og leiðarljós um útfærslu á stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Verkefnastjórn með fulltrúum sjö ráðherra hefur unnið að aðgerðaáætluninni, í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.
Í heild eru settar fram 34 aðgerðir skipt í fjóra flokka. Fyrstu tveir flokkarnir geyma tillögur að aðgerðum sem eiga að stuðla að orkuskiptum, annars vegar í samgöngum og hins vegar á öðrum sviðum. Þriðji flokkurinn fjallar um aðgerðir til að efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Fjórði flokkurinn fjallar um margvíslegar aðgerðir á öðrum sviðum, s.s. varðandi minni sóun og bætta meðferð úrgangs, aukna fræðslu, stuðning við nýsköpun og loftslagsvæna tækni, loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og aðgerðir í landbúnaði og iðnaði.
Breyttar matarvenjur koma ekki fram í aðgerðaáætluninni
Í skýrslu aðgerðaáætlunarinnar er hvergi minnst á að breyttar matarvenjur fólks gæti haft áhrif á kolefnislosun Íslands. Kjarninn sendi því Huga Ólafssyni, formanni verkefnisstjórnar aðgerðaaáætlunarinnar, fyrirspurn um hvort að stæði til á einhvern hátt að skoða aðgerðir sem myndu stuðli að breyttum matarvenjum fólks.
Í svari Huga segir að aðgerðirnar koma á einhvern hátt við allar helstu uppsprettur losunar á Íslandi. Aðgerðir til að draga úr losun í landbúnaði og sjávarútvegi miða að því að minnka loftslagsáhrif matvælaframleiðslu á Íslandi; ýmsar aðgerðir í landnotkun geta líka stuðlað að því. Sömuleiðis segir hann að gert sé ráð fyrir áframhaldandi starfi sem miðar að minni matarsóun.
Í aðgerðaáætluninni er fjallað um fræðslu um loftlagsmál í skólum og fræðslu um loftlagsmál fyrir almenning. Ekki fengust þó svör frá Huga hvort stefnt sé að fræða almenning og nemendur um áhrif landbúnaðar á umhverfið og hvernig hægt sé að breyta ýmsu með neysluvenjum.
Hugi segist ekki geta sagt nákvæmlega til um hvað verður rætt í áframhaldandi starfi verkefnisstjórnarinnar, það ræðst af þeim athugasemdum sem koma fram og afstöðu viðkomandi ráðuneyta, sem skipa stjórnina. Aðgerðaáætlunin er nú í samráðsgátt og öllum heimilt að gera athugasemdir við þær tillögur sem þar eru lagðar fram og leggja til nýjar. Samkvæmt Huga verður nýja útgáfa skýrslunnar á næsta ári unnið á grunni athugasemda og samráðs.
Í aðsendum hugmyndum fyrir drög að aðgerðaáætluninni má sjá að sex hugmyndir komu að einhverju leyti að minnkun kjötneyslu á Íslandi. Hugi svaraði þó ekki þegar spurt var hvort tekið hefði verið tillit til þeirra hugmynda við undirbúning áætlunarinnar.
„Matvælaframleiðsla einn af stóru áhrifaþáttunum þegar það kemur að loftslagsbreytingum“
Í ávarpi sínu á Matvæladegi, Matvæla og næringarfræðifélag Íslands, fjallaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um að matvælaframleiðsla sé eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna á þessari öld.
„Það er sýn ríkisstjórnarinnar að við eigum að móta okkur framtíðarsýn um matvælalandið Ísland. Þar þurfa nánast öll ráðuneyti að taka þátt. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er þungamiðja í slíku starfi, en þar þurfa líka að taka þátt heilbrigðisráðuneyti, enda er matur og matvælaöryggi stórt heilbrigðismál; umhverfis- og auðlindaráðuneyti, enda er matvælaframleiðsla einn af stóru áhrifaþáttunum þegar kemur að loftslagsbreytingum.“ sagði Katrín.
„Þarna þurfum við að vinna þvert á ráðuneyti og stofnanir og setja okkur stefnu þannig að við byggjum hér upp matvælaframleiðslu, tryggjum matvæla- og fæðuöryggi, drögum úr matarsóun, berjumst gegn loftslagsbreytingum, eflum lýðheilsu og aukum nýsköpun og þróun á sviði matvælaframleiðslu.“ sagði Katrín enn fremur í ávarpi sínu
Neysla dýraafurða tekin fyrir
Ein af þeim þremur nefndum sem eru starfandi um loftlagsmál innan Umhverfisráðuneytisins er loftlagsráðið. Loftlagsráðinu er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, þ.m.t. aðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim.
Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs og fyrrverandi forstöðumaður loftslagsamning Sameinuðu þjóðanna, segir loftlagsráðið vera um þessar mundir að móta hvernig ráðið getur best stuðlað að bættu upplýsingaflæði og fræðslu svo einstaklingar, heimili, fyrirtæki og stofnanir geti tekið upplýstar ákvarðanir. Aðspurður segist hann ekki hjá því komist að taka á kolefnisspori matvæla í okkar staðbundna samhengi allt frá framleiðslu til neyslu þar með talið dýraafurða.
Halldór segir að allar líkur sé á því að neysla dýraafurða verði tekin fyrir í greinargerð sem Loftlagsráð skilar Umhverfisráðherra fyrir 1. mars 2019 um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysið 2040. „Kolefnishlutleysi felur í sér að jafnvægi þarf að nást milli losunar og bindingar kolefnis og við Íslendingar stefnum að því að ná slíku jafnvægi árið 2040. Við jarðarbúar þurfum að ná slíku jafnvægi um miðja öldina. Við Íslendingar og jarðarbúar allir þurfum því að lágmarka kolefnisspor okkar þ.m.t. kolefnisspor framleiðslu og neyslu dýraafurða.“ segir Halldór við fyrirspurn Kjarnans.
Stór hluti losun gróðurhúsategunda kemur frá landbúnaði
Ræktun á nautgripum til kjöt- og mjólkurframleiðslu á langstærstan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Áætluð losun nautgripa er ríflega 5 milljarðar tonna í koltvísýringsígildum, eða rúm 65 prósent af árlegri losun allra gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt í heiminum.
Í skýrslunni er greint frá því hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda í búfjárrækt með því að draga úr framleiðslu og neyslu búfjárafurða eða með því að draga úr losun við framleiðsluna. Talið er að með því að breyta framleiðsluferli búfjárræktar megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í greininni um allt að 30 prósent eða um 1,8 milljarða tonna koltvísýringsígilda.
Í aðgerðaráætlun stjórnvalda kemur fram að 21 prósent allra þeirra losunar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á, samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, kemur frá landbúnaði. Í nýjustu tölum Hagstofunnar má sjá að á Íslandi losaði landbúnaður 4,7 kílótonn af koltvísýring og 14.466 tonn af metan út í umhverfi árið 2016.
Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er gert ráð fyrir því að losun frá landbúnaði dragist saman um fimmtung á næstu 12 árum án þess að skepnum verði fækkað. Hugi Ólafsson sagði í samtali við Spegilinn að ekki standi til að setja bindandi samdráttarmarkmið fyrir ákveðna geira, þau viðmið sem sett séu fram í áætluninni séu í takt við það sem stjórnvöld telji raunhæft að hver geiri geri til að hægt sé að ná heildarmarkmiði stjórnvalda um samdrátt í losun en það mat byggi ekki á miklum greiningum, það skorti meiri þekkingu.
Í títtnefndri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kom fram að landbúnaður er eitt fjögurra sviða þar sem vísindamennirnir telja sérstaka þörf á uppstokkun. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og meðlimur í Loftslagsráði stjórnvalda, sagði í samtali við fréttastofu Rúv að hann sæi ekki fyrir byltingu í landbúnaði á Íslandi. „Nei, ég get nú ekki sagt það, þetta er grein sem stendur á gömlum merg, framleiðsluferlar eru langir og við erum ekki gjörn á að taka ákvarðanir um að breyta um stefnu í hvelli.“ Þetta snúist meira um að innlima loftslagshugsun í allan búrekstur. Hann sér fyrir sér að í framtíðinni verði í auknum mæli horft til loftslagsmála þegar gerðir verða búvörusamningar og sett stefna í landbúnaðarmálum.
Leiðir sem stjórnvöld geta farið
Stjórnvöld um allan heim nota jákvæða og neikvæða hvata til að reyna hafa áhrif á hegðun íbúa sinna, sem dæmi má nefna skattaafslætti, hleðslustæði fyrir rafbíla, sykurskatt og fleira. Hingað til hafa stjórnvöld hér á landi þó ekki í neinum mæli verið með hvata fyrir almenning er varðar minnkun neyslu dýraafurða.
Áður en aðgerðaáætlun stjórnvalda var birt þá stóðst til boða fyrir fólk að senda inn hugmyndir um aðgerðir sem stjórnvöld gætu lagst í til að hafa áhrif á kolefnisfótspor Íslands. Innsendar hugmyndir fyrir aðgerðaáætlun voru 87 talsins og snerust flestar um orkuskipti í vegasamgöngum eða notkun plasts. Sex hugmyndir sneru að samdrætti í kjötneyslu á Íslandi. Meðal þeirra var hugmynd um að stjórnvöld myndu hækka skatta á mjólkur og kjötvörur. Önnur var að styrkja grænmetisbændur í þeirra von að hvetja almenning að neyta meira grænmetis og minnka innflutning grænmetis frá útlöndum.
Ein hugmyndanna snerist að því að merkja mat og tilgreina hvað sótspor viðkomandi vöru eða þjónustu væri. En mikið hefur verið fjallað um sótspor að undanförnu, sótspor er mæling á því magni koltvísýrings (CO2) sem fer út í andrúmsloftið við notkun á vöru eða þjónustu. Sótspor viðkomandi vöru er þá mælt frá upphafi til enda og neytandinn getur þá tekið upplýsta ákvörðun um vörurnar eða þjónustu sem hann verslar.
Ein hugmyndin benti á ábyrgð stjórnvalda við að fræða fólk um hvað felst í að breyta matarvenjum sínum og hver afleiðingar þess yrðu á umhverfið. Erfitt gæti þó verið fyrir ofangreindar hugmyndir að hljóta framgöngu þar sem neysla dýraafurða varða mörg og ólík hagsmunasamtök, sem dæmu um þau er Samtök atvinnulífsins, Bændasamtökin, Neytendasamtökin og umhverfisverndarsamtök. Öll þess samtök ásamt fleirum fengu til dæmis að tilnefna eina manneskju hver til að sitja í loftlagsráðið. En forvitnilegt verður að sjá hvort að breyttar matarvenjur Íslendinga verði á dagskrá í nýrri útgáfu aðgerðaáætlunarinnar eða í greinargerð loftlagsráðs á næsta ári.