„Þessi banki á sig sjálfur“
Kaupþing var allra banka stærstur á Íslandi fyrir bankahrun. Og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur hans hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi. Í nýrri bók, Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, er saga hans rakin.
„Ég hef kannað þetta ítarlega og komist að því að þetta tengdist ekkert fjármálakreppu, þetta voru alger Ponzi-svik og útilokað að það hefði haldið velli. Það hefði bara þurft einn mann innan bankans til að taka upp símann og segja „Þessi banki á sig sjálfur“ og þá hefði hann hrunið. Merkilegt að það gerðist ekki.“
Þetta sagði Kevin Stanford, einn stærsti viðskiptavinur Kaupþings banka fyrir hrun í yfirheyrslum hjá embætti sérstaks saksóknara. Þar sagðist hann líka hafa haft einstakan aðgang að stjórnendum Kaupþings. Aðgang sem hann hefði ekki fengið hjá öðrum alþjóðlegum bönkum. „Ég gat hringt í forstjóra bankans. […] Okkur fannst gaman að stunda viðskipti og hafa aðgang að peningum.“ Stanford kallaði enn fremur hin svokölluðu CLN-viðskipti sem hann tók þátt í að undirlagi Kaupþings „kjarnorkusprengju í fjármálum“. Aðspurður af hverju hann hefði verið „valinn“ til að vera eigandi eins félagsins sem notað var í þau viðskipti sagði Kevin að hann héldi að það hefði verið vegna þess að hann „var eini hvíti maðurinn í þorpinu“. Það hafi verið mikilvægt að hann væri útlendingur, ekki Íslendingur, svo að það liti út fyrir að alþjóðlegur fjárfestir væri að kaupa.
Yfirheyrslurnar eru hluti af tugþúsundum skjala sem fjallað er um í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kemur út í dag.
Þú getur það, þú þarft bara að halda að þú getir það
Kaupþing var allra banka stærstur á Íslandi, mennirnir sem stjórnuðu honum voru álitnir nokkurs konar hálfguðir og sjálfsmynd þeirra og margra annarra sem störfuðu fyrir bankann var nátengd árangri hans. Ekkert verkefni var of stórt til að takast á við og engin markmið voru of umfangsmikil. Allt var hægt. Þangað til að bankinn féll með látum haustið 2008 ásamt öllu íslenska bankakerfinu og með tilheyrandi áhrifum á íslenskt samfélag.
Kaupthinking er nefnd eftir hugmyndafræði sem sett var fram í hvatningarmyndbandi fyrir starfsmenn bankans, þar sem dimmraddaður þulur lýsti því yfir hvernig væri hægt að vaxa hratt með því að vera sveigjanlegur, hreyfa sig hraðar og vera snjallari en skrifræðið. Og að það væri hægt að skemmta sér konunglega á meðan. „Ef þú vilt breyta heiminum, þá geturðu það. Þú þarft bara að halda að þú getir það.“
Bókin byggir á tíu ára vinnu höfundar og á miklu magni trúnaðar- og rannsóknargagna, íslenskum og erlendum, sem hann fékk aðgang að fyrr á þessu ári. Á meðal þeirra gagna eru, ógrynni tölvupósta, frumgögn innan úr Kaupþingi, yfirheyrslur yfir sakborningum og vitnum, greinargerðir rannsakenda í risavöxnum málum og hlustanir í síma sem flestar áttu sér annaðhvort stað um það leyti sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis birti skýrslu sína í apríl 2010 eða um mánuði síðar í kjölfar þess að helstu stjórnendur Kaupþings voru hnepptir í gæsluvarðhald vegna gruns um stórfellda brotahegðun. Flestir þeirra hlutu síðar fangelsisdóma fyrir efnahagsbrot sem eiga sér enga hliðstæðu í Íslandssögunni.
Það er eins og þú sért að tala kínversku
Gögnin sýna meðal annars hvernig margir af helstu viðskiptavinum og millistjórnendur Kaupþings upplifðu bankann í baksýnisspeglinum. Á meðal þeirra sem tekin var skýrsla af er Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al Thani, úr konungsfjölskyldunni í Katar. Al-Thani var kynntur sem kaupandi að rúmlega fimm prósent hlut í Kaupþingi í september 2008. Síðar kom í ljós að Kaupþing hafði fjármagnað kaupin sjálft og viðskiptin leiddu til þess að þrír af æðstu stjórnendum bankans, ásamt einum helsta eiganda hans, voru dæmdir til fangelsisvistar í febrúar 2015 fyrir markaðsmisnotkun, umboðssvik eða hlutdeild í þeim brotum. Til viðbótar stóð til að Al Thani myndi taka þátt í svokölluðum CLN-viðskiptum sem höfðu þann tilgang að reyna að ná niður skuldatryggingaálagi bankans.
Þegar Al Thani var spurður út í þau viðskipti af rannsakendum sérstaks saksóknara við skýrslugjöf sagði hann: „„Getur þú útskýrt þetta, ég skil ekki hvað þú ert að segja[...]það er eins og þú sért að tala kínversku.“
Annar stór viðskiptavinur Kaupþings, sem tók þátt í CLN-viðskiptunum án tapáættu og með fjármagn frá bankanum sjálfum, var Tony Yerolemou. Sá sat um tíma í stjórn Kaupþings.
Við yfirheyrslur sagði hann: „Ég hafði sjálfur enga hugmynd um hvað bankinn var að gera, ég hefði ekki getað vitað það. Ég gerði ráð fyrir að stjórnendur hans vissu hvað þeir væru að gera. […] Þeir voru mjög bjartsýnir og alltaf að reyna að kaupa aðra banka og ég held að það hafi verið mistök að menn héldu að með því að kaupa aðra myndu hlutirnir hækka.“
Enn annar viðskiptavinur, Vincent Tchenguiz, sagði að íslensku bankarnir hefðu ekki verið raunverulegir bankar, heldur vogunarsjóðir.
„Ég var að vona að þið mynduð ekki fatta þetta“
Margir háttsettir starfsmenn voru ekki síður skeptískir á það sem átt hafði sé stað innan Kaupþings síðustu misserin í tilveru bankans. Það kom bersýnilega í ljós í símtölum þeirra á milli sem voru hlustuð. Afrit af mörgum þeirra símtala eru birt í bókinni.
Hver á Dekhill Advisors?
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003, sem birt var í fyrra, kom fram að aflandsfélagið Dekhill Advisors Limited, skráð á Tortóla, hafi hagnast um 46,5 milljónir Bandaríkjadala, 2,9 milljarða króna á þávirði, á fléttu sem ofin var í kringum kaupin á bankanum. Á núvirði er upphæðin um 5,8 milljarðar króna.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ítarleg gögn styðji að Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis hafi notað leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu.Engar upplýsingar fengust um hver væri eigandinn hjá helstu stjórnendum Kaupþings. Þeir virtust ekki hafa neina hugmynd um hverjum þeir færðu milljarða króna í fléttu sem þeir hönnuðu og framkvæmdu. Í bréfi Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, til rannsóknarnefndarinnar kvaðst hann aldrei hafa heyrt minnst á þetta félag fyrr en í bréfi frá henni. Svör Bjarka Diego og Magnúsar Guðmundssonar, tveggja lykilstjórnenda hjá bankanum fyrir hrun, í bréfum þeirra voru á sömu leið.
Í svarbréfum Sigurðar Einarssonar, Kristínar Pétursdóttur og Steingríms Kárasonar var spurningum nefndarinnar, sem öll voru einnig um tíma í lykilhlutverkum hjá Kaupþingi áður bankinn fél,l um Dekhill Advisors ekki svarað sérstaklega. Þá svöruðu þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, bræður sem voru stærstu eigendur og á meðal stærstu viðskiptavina Kaupþings, fyrirspurnum nefndarinnar um félagið á þann veg að þá „reki ekki minni til atriða sem því tengjast“.
Í bókinni er greint frá því að fyrir liggi að einhver hafi enn að notast við Dekhill Advisors mörgum árum eftir hrun. Í desember 2009 gerði félagið handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Gögn sýna síðan að Dekhill Advisors var enn til og í virkni í lok september 2016.
Það er því skýrt að einhverjir hafa haft aðgang að og notað fjármunina sem greiddir voru inn í Dekhill Advisors í janúar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starfsemi haustið 2016. Á árinu 2018 fékk embætti skattrannsóknarstjóra þau svör frá svissneskum yfirvöldum að það myndi ekki fá upplýsingum um hver væri eigandi Dekhill Advisors frá þeim. Ástæðan væri sú að eigendur félagsins lögðu fram vottorð þess efnis að þeir væru ekki skattskyldir á Íslandi,og þar af leiðandi töldu yfirvöld í Sviss sig ekki geta veitt embættinu upplýsingarnar. Sá aðili sem veitti staðfestinguna, sem það vottorð byggir á, er Ríkisskattstjórinn á Íslandi.
Í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði:„Skattrannsóknarstjóri telur sig hafa trúverðugar vísbendingar um það hvaða aðili/aðilar þarna er um ræða og hefur upplýst skattyfirvöld viðkomandi ríkis um málið. Eftir atvikum geta þau þá fylgt málinu eftir telja þau ástæðu til.“
Í Kaupthinking er, í fyrsta sinn, opinberað að þeir sem starfsmenn skattrannsóknarstjóra telja að séu endanlegir eigendur Dekhill Advisors eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Í Panamaskjölunum var opinberað að bræðurnir áttu að minnsta kosti sex félög á Tortóla-eyju. Eitt þeirra félaga sem bræðurnir eiga þar heitir Alloa Finance Limited. Það félag á síðan íslenskt félag sem heitir Korkur Invest ehf. og í árslok 2014 hafði Alloa Finance lánað Korki Invest tæplega 4,4 milljarða króna til að kaupa bréf í Bakkavör.
Fjármunirnir voru fluttir til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem tryggði virðisaukningu upp á að minnsta kosti 20 prósent þegar fjármununum var skipt í íslenskar krónur.
Á meðal þeirra sem ræddu saman í síma í apríl 2010, rétt eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og afleiðingar falls bankanna var birt, voru Helgi Sigurðsson, fyrrverandi forstöðumaður lögfræðisviðs Kaupþings, og Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi. Bjarki hlaut síðar tveggja og hálfs árs fangelsisdóm í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Í símtalinu ræða þeir meinta markaðsmisnotkun út frá þeim upplýsingum sem komu fram í rannsóknarskýrslunni, sérstaklega kaup félagsins Desulo Trading, sem var í eigu Egils Ágústssonar, á hlutabréfum í Kaupþingi sem fjármögnuð voru að fullu af sama banka. Þau kaup voru á meðal þeirra sem voru undir í áðurnefndu markaðsmisnotkunarmáli, þar sem níu manns voru dæmdir sekir í Hæstarétti í október 2016.
Í símtalinu sagði Helgi, sem í dag er héraðsdómari, orðrétt: „Þarna er bókstaflega verið að „plassera“ bréfum. Þetta eru svo augljóslega sýndarviðskipti ef það átti ekkert fé að koma til þarna og það var ekki einu sinni rætt.“
Sumir starfsmenn virtust geta séð spaugilegu hliðina á því sem var að gerast á lokametrunum í lífi Kaupþings banka, og var síðar dæmt sem markaðsmisnotkun. Einn viðskiptastjóri á lánasviði hafði verið kallaður til fundar við við ytri endurskoðendur Kaupþings vegna lána til eignarlausra eða eignalítilla félaga til að kaupa bréf í bankanum. Þetta var gert með tölvupósti sem var sendur 19. september 2008. Hann átti meðal annars að svara því hvernig áðurnefnt Desulo Trading ætlaði að greiða upp lán sem var á gjalddaga í desember 2008.
Aftrit af póstinum var meðal annars sent til Bjarka Diego sem svaraði: „Good luck[…], það verður auðvelt fyrir þig að svara þessu!“ Viðskiptastjórinn svaraði að bragði og sagði: „hehe … Það kemur víst alltaf að skuldadögum – ég segi bara líkt og Nick Leeson sagði við endurskoðendur Barings banka: „ég var að vona að þið mynduð ekki fatta þetta …“
Misst algjörlega trú á þessum mönnum sem ráku þennan banka
Halldór Bjarkar Lúðvígsson, fyrrverandi viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings, var ekki síður myrkur í máli við yfirheyrslur. „Ég hef misst algjörlega trú á þessum mönnum sem að ráku þennan banka og áttu þennan banka og hérna[…]og á öllu sem þarna var gert,“ sagði hann við rannsakendur.
Við fyrstu yfirheyrslunum sem fóru fram yfir Halldóri Bjarkar, sem var lykilvitni saksóknara í hluta Kaupþingsmála, sagðist hann hafa ætlað að hætta í bankageiranum við hrunið. Fyrir því hefðu verið tvær ástæður: „Annars vegar það sem ég varð vitni að í bankanum svona vikurnar og mánuðina fyrir fall varð nú eiginlega til þess að ég varð mjög fráhverfur þessu bankaumhverfi og hitt það að þetta var bara hætt að vera gaman.“ Hann hætti þó ekki og var lengi vel lykilstjórnandi innan Arion banka. Halldór Bjarkar starfar nú hjá Valitor, dótturfélagi Arion banka.
Lesa meira:
-
4. ágúst 2020Rannsókn á Lindsor-málinu í Lúxemborg lokið og því vísað til saksóknara
-
15. maí 2020Annað opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
31. janúar 2020Markaðsmisnotkunarmál Landsbankans fyrir Mannréttindadómstólinn
-
4. janúar 2020Stjórnunarhættir ört að nálgast það ástand sem var fyrir bankahrunið
-
29. desember 2019Árið 2019: Neyðarlánið loks útskýrt fyrir almenningi
-
26. desember 2019Bankarnir bentu aldrei á neina alvöru viðskiptavini
-
11. nóvember 2019Opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
10. nóvember 2019Upp skalt á kjöl klífa
-
19. október 2019Norskur fjallamaður skrifar íslensku hrunsöguna
-
15. október 2019Kaupþing felldi niður bótamál gegn fyrrverandi stjórnendum