Árið 2018: Vantraust á dómsmálaráðherra og bætur til þeirra sem voru teknir af lista
Í mars var vantrauststillaga á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra lögð fram vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu. Í október unnu tveir umsækjendur um stöðu dómara í Landsrétti sem voru metnir á meðal þeirra hæfustu en ráðherra ákvað að skipa ekki, mál sitt gegn íslenska ríkinu. Kjarninn heldur áfram að gera upp árið 2018.
Um miðnætti 5. mars lögðu tveir stjórnarandstöðuflokkar, Píratar og Samfylking, fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Sú gjörð á rætur sínar að rekja í Landsréttarmálinu svokallaða, sem snýst um að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum. Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn.
Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu.
Í könnun sem Maskína vann fyrir Stundina kom fram að 72,5 prósent landsmanna vildu að Sigríður segi af sér embætti. Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersendómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“
Vöruðu ráðherra ítrekað við
Vantrauststillagan kom í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis sendi bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frumkvæðisrannsókn á málinu í ljósi yfirstandandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um málið. Hann gerði hins vegar nokkrar veigamiklar athugasemdir við málsmeðferðina, meðal annars þá að hann teldi að sá tveggja vikna frestur, sem ráðherra hefur ítrekað borið við að hafi haft áhrif á möguleika hennar til að rannsaka málið, hafi ekki átt við í því tilfelli.
Að auki benti hann sérstaklega á skyldu sérfræðinga ráðuneytisins til að veita ráðherra ráðgjöf, til að tryggja að ákvarðanir hans séu lögum samkvæmt og að öll stjórnsýsla ráðherra og ráðuneytis sé í samræmi við ólögfesta réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ráðherra hafi í þessu tilviki verið veitt sú ráðgjöf, en minnst þrír sérfræðingar ráðuneytisins ráðlögðu Sigríði ítrekað við því að breytingar á lista Landsréttardómara og sá ófullnægjandi rökstuðningur sem þeim breytingum fylgdi gæti verið brot á stjórnsýslulögum, eins og síðar kom á daginn.
Tillagan felld
Tillagan var tekin fyrir á Alþingi 6. mars. Þar var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason Miðflokki.
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Í kjölfarið hefur því verið haldið fram, meðal annars af varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að stjórnarmeirihlutinn telji nú 33 þingmenn en ekki þá 35 sem sitja á þingi fyrir stjórnmálaflokkanna þrjá sem mynda ríkisstjórn.
Fá bætur
Áðurnefndur dómur Hæstaréttar var í málum þar sem Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem urðu báðir af dómarasæti í Landsrétti vegna ákvörðunar Sigríðar, stefndu ríkinu vegna ákvörðunar hennar.
Þeir eru báðir starfandi lögmenn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjárhagstjón vegna ákvörðunar ráðherra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skattframtöl og þar með upplýsingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjártjón vegna þeirra ákvarðana dómsmálaráðherra sem um ræðir í málinu“.
Hvorugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af viðurkenningarkröfu um fjártjón. Íslenska ríkinu var hins vegar gert að greiða þeim miskabætur.
Tveir aðrir menn sem voru á lista dómnefndar yfir þá sem átti að skipa dómara höfðuðu ekki slík mál. Annar þeirra, Jón Höskuldsson héraðsdómari, sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miskabætur vegna skipunar í Landsrétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og í kjölfarið höfðaði Jón mál.
Jón krafðist þess að fá bætt mismun launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Jón krafðist þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Landsréttardómarar fá 1,7 milljónir króna í laun á mánuði en héraðsdómarar 1,3 milljónir króna.
Eiríkur Jónsson ákvað að fylgja í fótspor Jóns snemma á þessu ári og stefndi ríkinu. Hann er fæddur árið 1977 og er því rúmlega fertugur að aldri. Eiríkur átti því um 27 ár eftir á vinnumarkaði þegar skipað var í Landsrétt miðað við hefðbundinn eftirlaunaaldur.
Í október komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að greiða mönnunum tveimur bætur vegna ólögmætra athafna dómsmálaráðherra.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jóni fjórar milljónir króna í skaðabætur, 1,1 milljón króna í miskabætur auk þess sem ríkinu var gert að greiða 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Dómurinn féllst á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki en hann mun þurfa að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Ríkið greiddi 1,2 milljón króna málskostnað hans.
Lestu meira:
-
24. desember 2019Jólasaga: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
4. janúar 2019Af hverju má ekki skipta gæðunum jafnt?
-
2. janúar 2019Þú veist ekki þegar þú sefur hjá í síðasta sinn
-
1. janúar 2019Stöndum vörð um lífskjörin
-
1. janúar 2019Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
-
31. desember 2018Mest lesnu aðsendu greinar ársins 2018
-
30. desember 2018Mest lesnu viðtölin 2018
-
30. desember 2018Ár styttri vinnuviku
-
30. desember 2018Endurnýjun verkalýðsbaráttunnar
-
30. desember 2018Árið sem flugfélögin ógnuðu stöðugleikanum