Glundroðinn í íslenskum stjórnmálum
Íslensk stjórnmál eru stödd á breytingaskeiði. Samfélagið hefur breyst hratt á skömmum tíma og hræringar í stjórnmálalandslaginu endurspegla það ástand. Nær árleg hneykslismál hrista svo reglulega upp í öllu saman og breyta stöðunni algjörlega.
Þann 30. nóvember 2017 tók óvenjuleg ríkisstjórn við stjórnartaumunum á Íslandi. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem varð önnur konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Íslandssögunni. Það var þó ekki kyn ráðherrans sem var óvenjulegast við stjórnina heldur hvaða flokkar skipuðu hana. Þar settust saman að völdum sá flokkur í hin pólitíska litrófi Íslands sem skilgreinir sig lengst til vinstri, sá sem skilgreinir sig lengst til hægri og íhaldssamur rúmlega 100 ára gamall miðjuflokkur sem er vanur því að stjórna í þá átt sem vindar blása hverju sinni.
Þessi staða var afleiðing af miklum pólitískum glundroða undanfarinna ára. Sá glundroði hefur ýmsar birtingarmyndir, til dæmis þá að einungis ein ríkisstjórn hefur setið út heilt kjörtímabil frá árinu 2007. Það var fyrsta tveggja flokka vinstristjórn lýðveldissögunnar undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, skipuð Samfylkingu og Vinstri grænum.
Sú stjórn náði þó rétt að haltra yfir marklínuna sem minnihlutastjórn og var síðan refsað grimmilega í kosningum í apríl 2013 þegar fylgi ríkisstjórnarflokkanna fór úr því að vera yfir 51 prósent í að vera 23,8 prósent. Samfylkingin tapaði 16,9 prósentustigum milli kosninga, sem er það mesta sem nokkur flokkur hefur nokkru sinni tapað á einu kjörtímabili.
Þarna var tónn sleginn sem hefur verið nokkuð stöðugur síðan. Tónn mikilla sveiflna og ófyrirsjáanleika. Frá því að Jóhanna hætti hafa fjórir forsætisráðherrar setið á fimm árum. Svo virðist sem stjórnmálaleg festa Íslendinga hafi að mestu horfið með bankahruninu og eftirmálum þess.
Staða turnsins gjörbreytt
Frá því að Íslendingar fóru að ráða sér sjálfir hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur oftast nær stjórnað Íslandi, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi. Nær ómögulegt hefur verið að mynda stjórn án annars þeirra.
Sérstaklega hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið hryggjarstykkið í íslenskum stjórnmálum. Hann hefur haldið um stjórnartaumanna í þrjú af hverjum fjórum árum frá því að Ísland fékk sjálfstæði.
Það á líka við um nýjasta skeiðið í Íslandssögunni, en ef undan er skilið kjörtímabilið 2009-2013 þá hefur hann átt aðild að öllum ríkisstjórnum sem setið hafa frá árinu 1991.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé enn stærsti flokkur landsins samkvæmt niðurstöðum síðustu kosninga, og sá sem ráðið hefur mestu síðastliðna áratugi, þá er staða hans gjörbreytt frá því sem áður var.
Síðasti formaður hans sem myndaði ríkisstjórn sem sat út heilt kjörtímabil var Davíð Oddsson. Hrunstjórn Geirs H. Haarde féll eftir rúmlega eins og hálfs árs setu í byrjun árs 2009. Ríkisstjórn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar féll eftir þrjú ár vorið 2016 vegna Panamaskjalanna og kosið var um haustið, hálfu ári áður en kosningar voru fyrirhugaðar.
Og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem tók við völdum í janúar 2017 eftir nokkurra mánaða stjórnarkreppu, sat í einungis 247 daga þar til að hún sprakk vegna uppreist æru-málsins um miðjan september í fyrra.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem lengi var reglulega með 35-40 prósent fylgi, hefur nú fjórar kosningar í röð fengið undir 30 prósent atkvæða. Í fyrra fékk flokkurinn 25,3 prósent sem er næst versta útkoma hans frá upphafi. Í nýlegum könnunum hefur fylgi hans mælst um og undir 20 prósent. Staða Sjálfstæðisflokksins sem turnsins í íslenskum stjórnmálum virðist því á hröðu undanhaldi.
Fjórflokkurinn sem heild ekki svipur af sjón
Sögulega hafa fjórir flokkar verið undirstaðan í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa stundum skipt um nafn en á hinu pólitíska litrófi hafa þeir raða sér nokkuð skýrt frá vinstri til hægri í áratugi. Samanlagt hafa þessir fjórir flokkar, sem í dag heita Vinstrihreyfingin grænt framboð, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og áðurnefndur Sjálfstæðisflokkur, oftast nær verið með um 90 prósent allra atkvæða. Kerfið sem var við lýði hérlendis frá lýðveldisstofnun og fram á eftirhrunsárin er oft kallað 4+1 kerfið. Það samanstóð af ofangreindum fjórflokki og oft einum tímabundnum til viðbótar, sem endurspeglaði með einhverjum hætti stemmningu hvers tíma. Dæmi um það var til dæmis Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn.
Sveiflast öfga á milli
Það má segja að í kosningunum 2016 hafi konur, fjölbreytni og frjálslyndi verið sigurvegararnir. Viðreisn, Píratar og Björt framtíð, allt nýir eða nýlegir stjórnmálaflokkar með afar frjálslyndar áherslur, fengu samtals 21 þingmann.
Aldrei höfðu fleiri konur verið kjörnar á þing, eða 30. Metið fram að þeim tíma voru 27 þingkonur af þeim 63 þingmönnum sem eru kjörnir. Konur voru því 47,6 prósent þingheims. Þá voru tveir innflytjendur kjörnir á þing.Ári síðar var kosið aftur og þá var niðurstaðan allt önnur. Björt framtíð hvarf og tapaði fjórum þingmönnum, Píratar töpuðu fjórum og Viðreisn þremur. Í stað þessara ellefu komu nákvæmlega ellefu þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins, sem voru að uppistöðu karlaflokkar með róttækar og að einhverju leyti þjóðernislegar einangrunarhyggjuáherslur í stórum málum.
Konum á þingi fækkaði um sex í kosningum í október 2017. Hlutfall kvenna fór niður í 38 prósent og hafði ekki verið lægra eftir hrun. Og enginn innflytjandi var eftir í þingmannahópnum.
Þetta eðli breyttist þó mjög í kosningunum 2013 þegar samanlagt fylgi hefðbundnu flokkanna fjögurra datt niður í 74,9 prósent. Í kosningunum 2016 féll það svo niður í 62 prósent eftir að hafa mælst rétt yfir 50 prósentum í nokkrum skoðanakönnunum. Í þeim kosningum fengu flokkar stofnaðir eftir 2012 38 prósent atkvæða.
Þeir náðu aðeins að klóra sig til baka í síðustu kosningum en sameiginlegt fylgi þeirra var samt einungis 65 prósent. Og þá fjölgaði flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi um einn. Þeir eru nú átta og hafa aldrei verið fleiri. Færa má rök fyrir því að klofningur hafi átt sér stað úr þeim öllum.
Nú hefur Sósíalistaflokkur Íslands, sem náði inn kjörnum fulltrúa í fyrsta sinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum, stillt sér upp til vinstri við Vinstri græn. Frjálslynt og alþjóðasinnað fólk klauf sig úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði Viðreisn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfirgaf Framsóknarflokkinn og stofnaði Miðflokkinn í kringum sjálfan sig. Og töluverð samlegð virðist vera í áherslumálum þeirra sem bjóða sig fram fyrir annars vegar Pírata og hins vegar Samfylkinguna.
Til viðbótar hefur Flokkur fólksins, popúlískur flokkur sem leggur aðaláherslu á að skilgreina sig sem talsmann fátækra landsmanna, nú náð inn fulltrúum í tveimur kosningum í röð, þ.e. þingkosningunum 2017 og í sveitastjórnarkosningunum í vor.
Fylgispekt Íslendinga við stjórnmálaflokka virðist einfaldlega vera á hröðu undanhaldi. Og blæbrigðamunur milli manna virðist vera nóg til að annar stofni nýjan stjórnmálaflokk.
Vegna þessa hefur mikið verið rætt um að auka traust og festu í íslenskum stjórnmálum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til að mynda að „brestir í smáflokkakerfinu“ hefðu orsakað það að slitnað hefði upp úr síðustu ríkisstjórn. „Ég vil sjá að nýju stjórnarsamstarf sem byggir á tveimur sterkum flokkum. Ég held að það kosti minnstar málamiðlanir milli flokka og ef slík stjórn verður í boði eftir kosningar þá verði það lang sterkasti kosturinn,“ sagði Bjarni við fjölmiðla.
Rúmum mánuði síðar var kosið á ný og flokkunum á þingi fjölgaði úr sjö í átta. Mikið vantaði upp á til þess að hægt yrði að mynda tveggja flokka stjórn.
Breið ríkisstjórn gegn kerfisbreytingum
Hin óvenjulega ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð við þessar aðstæður. Hugmyndafræðilega skilgreina flokkarnir sig sem mjög ólíka en þeir eiga þó umtalsverða íhaldssemi sameiginlega. Á þeim grunni byggir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Hún situr á tíma þar sem efnahagslegar aðstæður eru þær bestu sem nokkru sinni hafa verið uppi hérlendis og stjórnin getur þar af leiðandi aukið fjárframlög til helstu málaflokka umtalsvert án þess að ráðast í neinar grundvallarbreytingar á þeim kerfum sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa að mestu byggt upp innan íslenskrar stjórnsýslu.
Þetta stjórnarsamstarf yrði Vinstri grænum alltaf erfitt, enda Sjálfstæðisflokkurinn skilgreindur höfuðandstæðingur margra flokksmanna. Almennt virtist stjórnarsamstarfið þó mælast ansi vel fyrir í byrjun. Í könnun MMR í desember 2017 sögðust 66,7 landsmanna styðja nýju ríkisstjórnina. Það var umtalsvert meiri stuðningur en nokkur ríkisstjórn hefur mælst með eftir hrun.
Það fjaraði þó hratt undan þessum stuðningi. Hraðar en áður hafði hefur mælst og í nóvember, þegar tæpt ár var liðið frá því að ríkisstjórnin settist að völdum, var stuðningurinn kominn undir 40 prósent.
Á einu ári höfðu Vinstri græn tapað um 40 prósent af fylgi sínu samkvæmt könnunum, Sjálfstæðisflokkurinn var að mælast með sínu verstu stöðu nokkru sinni í könnunum og Framsóknarflokkurinn hafði líka tapað fylgi frá kosningunum 2017, sem þó voru þær verstu í rúmlega 100 ára sögu flokksins. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu verið órafjarri því að ná að mynda ríkisstjórn ef kosið hefði verið um miðjan nóvember.
Stjórnarandstöðublokkir styrktust
Stjórnarandstöðuflokkarnir fimm nutu þessa ástands mjög. Þeir skiptu sér upp í tvær blokkir. Önnur skilgreinir sig sem frjálslynda og alþjóðasinnaða með áherslu á róttækar kerfisbreytingar. Flokkarnir sem henni tilheyra eru Samfylking, Viðreisn og Píratar. Samhljómur þessara þriggja flokka, og myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sýnir að íslensk stjórnmál eru farin að hverfast í meiri mæli um íhaldssemi- og frjálsyndisásinn frekar en hinn hefðbundna vinstri-hægri ás.
Þessir þrír flokkar fengu samtals 28 prósent atkvæða í kosningunum 2018. Í nýjustu könnun MMR mældust þeir sameiginlega með 39 prósent fylgi. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja hefur því aukist um 39 prósent á rúmu ári. Miðað við það fylgi myndi blokkin geta orðið valmöguleiki fyrir annað hvort Vinstri græn eða Framsóknarflokkinn að loknum kosningum.
Hin blokkin var skipuð Miðflokknum og Flokki fólksins, tveimur popúlískum flokkum sem hverfast um leiðtoga sína sem náðu manni inn á þing í fyrsta sinn haustið 2017. Þessir tveir flokkar höfðu átt mikla samleið í mörgum málum. Og þeim gekk vel.
Það átti sérstaklega við um Miðflokkinn, sem stofnaður var skömmu fyrir kosningarnar 2017 utan um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Sá flokkur náði besta árangri sem nýr flokkur hefur nokkru sinni náð í kosningum í fyrrahaust, þegar hann fékk 10,9 prósent atkvæða. Það sem af er ári hafði flokknum líka tekist vel upp í að reka sína fleyga-pólitík, þar sem tekið er hörð og einföld afstaða í oft flóknum málum og búinn til ómögulegur andstæðingur úr öllum sem eru á öndverðu máli. Besta dæmið um þetta var í tengslum við þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem virtist ætla að verða stórpólitískt vandræðamál fyrir ríkisstjórnina nánast alveg upp úr þurru.
Eftir því sem fleiri fleygar voru reknir niður því meira varð fylgi Miðflokksins. Í nóvember mældist það 13,1 prósent og hafði aldrei mælst hærra. Samanlagt fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins mældist 20,7 prósent. Þetta voru alvöru leikendur.
En svo fóru sex þingmenn þessara tveggja flokka saman á Klausturbarinn að kvöldi 20. nóvember 2018 og hinn árlegi skandall, sem skók allt stjórnmálalandslagið, varð.
Leitin að festu í glundroðanum
Langtíma afleiðingar Klaustursmálsins eiga eftir að koma í ljós. En skammtímaafleiðingarnar eru augljósar. Sameiginlegt fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins helmingast. Sá fyrrnefndi myndi rétt skríða inn á þing ef kosið yrði í dag en hinn myndi falla út.
Ríkisstjórnarflokkarnir upplifa mestu fylgisaukningu sem þeir hafa fengið á kjörtímabilinu og það er athyglisvert að hún er vegna afleiks annarra flokka, ekki vegna verka ríkisstjórnarinnar. Sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja mældist 8,6 prósentustigum meira þann 15. desember en það gerði þremur vikum áður. Langmesta aukningin var hjá Framsóknarflokknum sem náði til baka þorra þess fylgis sem tálgast hafði af honum vegna tilvistar Miðflokksins.
Ef núverandi fylgi flokka myndi haldast að næstu kosningum væri upp ansi áhugaverð staða. Popúlistaflokkunum myndi fækka um að minnsta kosti einn og ef Miðflokkurinn næði inn yrði fjöldi þingmanna hans í besta falli fjórir.
Ríkisstjórnarflokkarnir, þrátt fyrir Klausturmálsmeðvindinn, næðu ekki meirihluta og það myndi miðjublokk Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ekki heldur gera.
Leitin að festu í glundroðanum myndi því halda áfram.
Traustið sem hvarf
Þessar miklu væringar hafa komið á tímum þar sem traust til stjórnmála, og raunar flestra stofnana samfélagsins, hefur verið í sögulegu lágmarki og pólitísk hneykslismál sem hrista í stoðunum eru að minnst kosti árlegum viðburður.
Þann 1. febrúar 2008 treystu 42 prósent þjóðarinnar Alþingi. Ári síðar, þegar bankahrunið var búið að eiga sér stað, var það traust komið niður í 13 prósent. Árið 2011 var það komið niður í ellefu prósent. Ári síðar í tíu prósent.Traustið fór loks aðeins að rísa árið 2013 en það gerðist hægt. Snemma árs 2016 mældist það 17 prósent. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fjallaði um þetta vandamál við fyrstu þingsetninguna sína í embætti, í desember 2016. Þar sagði hann meðal annars: „Fleira hrundi en bankar haustið 2008. Fólki fannst þingið hafa brugðist. Þótt margt hafi breyst til batnaðar er ljóst að ekki hefur skapast á ný það traust sem þarf að ríkja milli þings og þjóðar. Íslendingar dæma alþingismenn af verkum þeirra, framkomu og starfsháttum.“
Áhrif Klaustursmálsins eftir að koma fram
Síðustu tvö árin hefur traustið tekið töluvert við sér, þrátt fyrir fordæmalaus hneykslismál á borð við Panamaskjölin og uppreist æru-málið, sem bæði sprengdu ríkisstjórnir. Í síðustu traustkönnun Gallup mældist það 29 prósent.
Til að vinna enn frekar að því markmiði að auka traust á stjórnmálin skipaði ríkisstjórnin starfshóp. Hann starfshóp sem skilaði í maí 25 tillögum sem skyldu innleiddar til að ná því markmiði. Á meðal þess sem hann lagði til var að hagsmunavörðum, á ensku „lobbyistar“, sem eiga samskipti við stjórnmálamenn og stjórnsýslu yrði gert að skrá sig sem slíka, hagsmunaskráning ráðherra yrði útvíkkuð til maka og ólögráða barna og reglur yrðu settar um starfsval eftir opinber störf sem koma ættu í veg fyrir að „starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi“.
Það verður athyglisvert að sjá hvaða áhrif Klaustursmálið mun hafa á traust borgaranna gagnvart Alþingi. Sérstaklega í ljósi þess að 74 til 91 prósent landsmanna sögðust hlynnt því í nýlegri könnun að sexmenningarnir sem áttu hin umdeildu samskipti á Klausturbar 20. nóvember myndu segja af sér, en enginn þeirra hefur gefið í skyn að hann ætli sér að gera slíkt. Þá er þingmaður Samfylkingarinnar farinn í leyfi eftir að hafa verið áminntur af trúnaðarnefnd flokksins fyrir að brjóta gegn siðareglum og sniðgengið stefnu flokksins gegn einelti og áreitni með framkomu sinni gagnvart konu síðastliðið sumar.
Íslendingar telja stjórnmál vera spillt
En það var ekki bara traust sem hvarf. Rannsóknir sýndu að Íslendingar töldu að spilling hefði aukist mjög í stjórnmálum. Í grein Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði, sem hún birti á Kjarnanum í október 2017, kom meðal annars fram að árið 2003 hafi 31 prósent landsmanna talið að spilling væri frekar eða mjög útbreidd á meðal íslenska stjórnmálamanna. Eftir hrunið rauk hlutfall þeirra sem voru þeirrar skoðunar upp í 77 prósent. Eftir að Panamaskjölin opinberuðu aflandsfélagaumfang íslenskra ráðamanna var hlutfall þeirra sem töldu að spilling væri mikil í íslenskum stjórnmálum 78 prósent.
Ný mæling var gerð vorið 2017, þegar ný ríkisstjórn var nýtekin við og engin hneykslismál í umræðunni. Þá mældist hlutfall þeirra sem töldu að spilling væri í íslenskum stjórnmálum 68 prósent.
Lestu meira:
-
24. desember 2019Jólasaga: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
4. janúar 2019Af hverju má ekki skipta gæðunum jafnt?
-
2. janúar 2019Þú veist ekki þegar þú sefur hjá í síðasta sinn
-
1. janúar 2019Stöndum vörð um lífskjörin
-
1. janúar 2019Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
-
31. desember 2018Mest lesnu aðsendu greinar ársins 2018
-
30. desember 2018Mest lesnu viðtölin 2018
-
30. desember 2018Ár styttri vinnuviku
-
30. desember 2018Endurnýjun verkalýðsbaráttunnar
-
30. desember 2018Árið sem flugfélögin ógnuðu stöðugleikanum