Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands vinnur að gerð skýrslu um hina svokölluðu fjárfestingarleið sem bankinn bauð upp á árunum 2012-2015. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að varpa ljósi á markmið leiðarinnar og árangur hennar við að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Upplýsingar um uppruna þeirra þátttakenda sem nýttu sér leiðina verða birtar í skýrslunni eftir því „sem lög leyfa og nauðsynlegt er til að ná markmiðum skýrslunnar“. Þetta kemur fram í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans um málið. Þar segir einni að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvenær skýrslan verði gerð opinber, en að það ætti að vera innan fárra mánaða.
Vorið 2017 var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Sú tillaga gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kallaði eftir umsögnum, en komst ekki lengra í þinglegri meðferð. Einn þeirra aðila sem skilaði þá umsögn var Seðlabanki Íslands. Í henni sagði að bankinn hefði „gert rækilega grein fyrir öllum þáttum áætlunarinnar um losun fjármagnshafta[...]og fjárfestingarleiðinni. Framkvæmdin gekk vel, var skipuleg og gagnsæ og upplýsingar hafa verið veittar um hana, nú síðast í ítarlegu svari við fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra um fjárfestingarleið Seðlabankans sem lagt verður fram á næstu dögum.“
Það svar barst i júní 2017. Um það má lesa hér.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur áður gagnrýnt fjárfestingarleiðina opinberlega, sagt hana hafa verið ósanngjarna og falið í sér aðstöðumun milli innlendra og erlendra aðila. Í ofangreindum umræðum sagði Bjarni að ef einverjar vísbendingar væru um að í fjárfestingarleiðinni hafi menn „verið með illa fengið fé sem ekki hafi verið talið fram á ferðinni, þá tel ég alveg augljóst að slíkt eigi að skoða og ég tel íslenskum stofnunum ekkert að vanbúnaði að fara í þau mál.“
Kært til úrskurðarnefndar
Kjarninn hefur ítrekað farið fram á að fá upplýsingar um þá einstaklinga og lögaðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins. Seðlabanki Íslands hefur ítrekað hafnað þessari beiðni og vísað í þagnarskylduákvæði þeirra laga sem gilda um starfsemi bankans. Kjarninn kærði synjun Seðlabanka Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamála þar sem málið er enn til meðferðar. Í byrjun nóvember 2018 barst úrskurðarnefndinni umsögn frá Seðlabanka Íslands vegna kærunnar. Þar ítrekuðu lögfræðingar bankans þá skoðun sína að hafna bæri því að veittur yrði aðgangur að umbeðnum gögnum.
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu aðila sem það gerðu. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Hundruð milljarða flutt til landsins
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Eitt mál til rannsóknar
Ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun af hendi opinberra aðila á því fé sem fært var til landsins í gegnum leiðina. Allir viðskiptabankarnir fjórir litu svo á að það hefði verið í þeirra verkahring að staðfesta áreiðanleika viðskiptamanna sinna sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þeir segjast allir hafa kannað þá fjárfesta úr viðskiptamannahópi sínum sem nýttu sér fjárfestingarleiðina með tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þrír bankanna, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, hafa hins vegar ekki viljað svara því hvort þau hafi sent einhverjar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu (Financial Intelligence Unit) vegna gruns um að einhverjir úr viðskiptamannahópi þeirra hafi þvættað peninga með því að nýta sér fjárfestingarleiðina. Einn banki, Kvika banki, segist hins vegar ekki hafa sent neinar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu vegna þessa.
Embætti héraðssaksóknara, en peningaþvættisskrifstofan heyrir undir það, segir að eftir því sem næst verður komist þá hafi ekki borist neinar tilkynningar frá fjármálafyrirtækjum vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingarleiðina.
Kjarninn greindi frá því í október 2018 að embætti skattrannsóknarstjóra rannsaki eitt mál tengt fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Auk þess er embætti að vinna í gögnum sem embættið fékk afhent um þá sem nýttu sér leiðina í samvinnu við embætti ríkisskattstjóra. Meðal annars hafa verið sendar út fyrirspurnir til gjaldenda og framhald þeirra mála mun ráðast af því sem út úr þeim kemur.
Umrædd gögn voru afhent embætti skattrannsóknarstjóra í apríl 2016. Þegar þau voru samkeyrð við gögn sem embætti skattrannsóknarstjóra keypti sumarið 2015 á 37 milljónir króna, og sýndu eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum, kom í ljós að 21 einstaklingar fór fjárfestingaleiðina var einnig í skattaskjólsgögnunum.
Ný lög sett um peningaþvætti
Síðastliðið ár hefur Ísland þurft að hafa hraðar hendur til að auka varnir sínar gegn peningaþvætti. Alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) settu landinu úrslitakosti í fyrra. Annað hvort myndu stjórnvöld þar taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista FATF um ósamvinnuþýð ríki.
Vegna þessa var lagt fram frumvarpi í nóvember um ný heildarlög um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það frumvarp var afgreitt hratt í síðasta mánuði og varð að lögum 1. janúar 2019.
Á meðal þeirra breytinga sem nýju lögin hafa í för með sér er að öllum opinberum aðilum er ný skylt að tilkynna henni um grunsamleg viðskipti og sú tilkynningaskylda víkur allri þagnarskyldu stjórnvalda til hliðar. Það mun einnig eiga við um Seðlabanka Íslands.