Úrskurðarnefnd staðfestir neitun Seðlabankans – Áfram mun ríkja leynd um fjárfestingarleiðina
Kjarninn kærði ákvörðun Seðlabanka Íslands um að neita að upplýsa hann um hvaða aðilar fengu að nýta sér fjárfestingarleið bankans til úrskurðarnefndar um upplýsingamáls. Hún hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þagnarskylduákvæði í lögum um Seðlabankann komi í veg fyrir að upplýsingarnar verði opinberar óháð hagsmunum almennings.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Seðlabanka Íslands um að synja Kjarnanum um aðgang að upplýsingum um það hvaða einstaklingar og lögaðilar nýttu sér fjárfestingarleið bankans og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins eftir þeirri leið. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Úrskurðurinn var kveðinn upp síðastliðinn fimmtudag.
Í kæru sinni vísaði Kjarninn til þess að í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið fjallað um fjárfestingarleiðina og því meðal annars velt upp hvort hún hafi leitt til þess að hluti af fjármagni frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hefði skilað sér til Íslands með gengisafslætti. Auk þess lægi fyrir sú alvarlega staðreynd að ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun á því fé sem var fært til landsins í gegnum leiðina. Rökstuddur grunur liggi fyrir um að af hluta fjárins hafi ekki verið greiddir réttmætir skattar hérlendis. Sá grunur birtist meðal annars í því að aðilar sem nýttu sér leiðina séu til rannsóknar vegna gruns um skattaundanskot.
Þá taldi Kjarninn að færa mætti rök fyrir því að fjárfestingarleiðin brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í ljósi þess að um hafi verið að ræða stjórnvaldsaðgerð sem hafi einungis staðið til boða fólki sem átti fyrst 50 þúsund evrur í lausu fé, og síðar 25 þúsund evrur, og einungis Íslendingum sem áttu fé erlendis. Þeim hafi staðið til boða að fá virðisaukningu á fé sitt í krafti þess að eiga fé erlendis. Þegar allt ofangreint væri dregið saman liggi fyrir að almannahagsmunir leiði til þess að upplýst verði hverjum hafi staðið til boða að færa fé til landsins með þessum hætti.
Upplýsingar sem fjölmiðlar hafi getað miðlað úr brotakenndri og takmarkaðri upplýsingagjöf Seðlabanka sýni að rökstuddur grunur sé á að fé sem ekki hafi verið greiddir réttmætir skattar af hafi verið færðir aftur inn í landið; fé sem mögulega ætti að vera eign kröfuhafa ákveðinna aðila hafi verið færðir inn í íslenskt efnahagslíf og að þröngum hópi landsmanna hafi verið fært tækifæri til að hagnast griðarlega úr hendi stofnunar sem tilheyrir sannarlega stjórnsýslu Íslands.
Almannahagsmunirnir væru enn ríkari í ljósi þess að stjórnsýslan hefði ekki sýnt af sér mikinn vilja og nær enga getu til að sinna eftirliti sem hún ætti að sinna. Þess vegna sé afar mikilvægt að fjölmiðlar fái tækifæri til þess að vinna þá vinnu sem stjórnvöld hafa ekki unnið.
Þagnarskyldan trompar almannahagsmuni
Úrskurðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi þess hversu fortakslaus hin sérstaka þagnarskylda sem getið er um í lögum um Seðlabanka Íslands sé þá komi hún í veg fyrir að „slíkar upplýsingar um viðskiptamenn bankans séu gerðar aðgengilegar samkvæmt upplýsingalögum, óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Úrskurðarnefndin fékk listann yfir nöfn og lögaðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands ásamt fjárhæðum sem hver aðili flutti til landsins. Eftir skoðun á honum var það mat nefndarinnar að það leiki enginn vafi á því að upplýsingarnar varða hagi þeirra sem viðskiptamanna bankans í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, sem fjallar um þaganskyldu bankans gagnvart öllu því „sem varðar hagi viðskiptamanna bankans“.
Seðlabankinn vinnur nú sjálfur að gerð skýrslu um fjárfestingarleiðina sem er innan fárra mánaða. Þar verða birtar upplýsingar um uppruna þeirra þátttakenda sem nýttu sér leiðina eftir því „sem lög leyfa og nauðsynlegt er til að ná markmiðum skýrslunnar“.
Ítrekað óskað eftir upplýsingum
Kjarninn hefur á undanförnum árum ítrekað farið fram á að fá upplýsingar um þá einstaklinga og lögaðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og hversu háar fjárhæðir hver og einn flutti til landsins. Seðlabanki Íslands hefur ætið hafnað þessari beiðni og vísað í þagnarskylduákvæði þeirra laga sem gilda um starfsemi bankans. Kjarninn kærði synjun Seðlabanka Íslands til úrskurðarnefndar um upplýsingamála þar sem málið er enn til meðferðar. Í byrjun nóvember 2018 barst úrskurðarnefndinni umsögn frá Seðlabanka Íslands vegna kærunnar. Þar ítrekuðu lögfræðingar bankans þá skoðun sína að hafna bæri því að veittur yrði aðgangur að umbeðnum gögnum. Nú hefur úrskurðarnefndin fallist á afstöðu Seðlabanka Íslands.
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu aðila sem það gerðu. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Hundruð milljarða flutt til landsins
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Sú skýrsla er gerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Eitt mál til rannsóknar
Ekki virðist hafa átt sér stað nein upprunavottun af hendi opinberra aðila á því fé sem fært var til landsins í gegnum leiðina. Allir viðskiptabankarnir fjórir litu svo á að það hefði verið í þeirra verkahring að staðfesta áreiðanleika viðskiptamanna sinna sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þeir segjast allir hafa kannað þá fjárfesta úr viðskiptamannahópi sínum sem nýttu sér fjárfestingarleiðina með tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þrír bankanna, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, hafa hins vegar ekki viljað svara því hvort þau hafi sent einhverjar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu (Financial Intelligence Unit) vegna gruns um að einhverjir úr viðskiptamannahópi þeirra hafi þvættað peninga með því að nýta sér fjárfestingarleiðina. Einn banki, Kvika banki, segist hins vegar ekki hafa sent neinar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu vegna þessa.
Embætti héraðssaksóknara, en peningaþvættisskrifstofan heyrir undir það, segir að eftir því sem næst verður komist þá hafi ekki borist neinar tilkynningar frá fjármálafyrirtækjum vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingarleiðina.
Kjarninn greindi frá því í október 2018 að embætti skattrannsóknarstjóra rannsaki eitt mál tengt fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Auk þess er embætti að vinna í gögnum sem embættið fékk afhent um þá sem nýttu sér leiðina í samvinnu við embætti ríkisskattstjóra. Meðal annars hafa verið sendar út fyrirspurnir til gjaldenda og framhald þeirra mála mun ráðast af því sem út úr þeim kemur.
Umrædd gögn voru afhent embætti skattrannsóknarstjóra í apríl 2016. Þegar þau voru samkeyrð við gögn sem embætti skattrannsóknarstjóra keypti sumarið 2015 á 37 milljónir króna, og sýndu eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum, kom í ljós að 21 einstaklingar fór fjárfestingaleiðina var einnig í skattaskjólsgögnunum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði