Ef áfram heldur sem horfir kann plast í heimshöfunum að vega meira en fiskistofnar árið 2050 en á síðustu 25 árum hefur plastframleiðsla í heiminum rúmlega þrefaldast. Plastúrgang er að finna um nær allan sjó og hefur hann borist til fjarlægra staða eins og heimskautanna og djúpsjávar heimshafanna.
Þetta kemur fram á vefsíðu Hafrannsóknarstofnunar en hún hefur á undanförnum árum skráð kerfisbundið magn sjáanlegs plasts sem kemur í veiðarfæri við rannsóknaveiðar stofnunarinnar.
Plast leysist ekki upp heldur brotnar það niður í smærri og smærri agnir. Áhrifin sem plast hefur á umhverfi sjávar eru bæði margbreytileg og afdrifarík.
Getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarlífverur
Plastúrgangur endar að stórum hluta í heimshöfunum og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarlífverur. Þær geta fest sig í gömlum netum, tógum eða plastfilmum, kafnað eða étið ýmis konar plast í misgáningi, samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.
Lítið er enn sem komið vitað um það hvernig örplast berst um flókinn fæðuvef heimshafanna en örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, til að mynda úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði.
Samkvæmt stofnuninni hafa rannsóknir sýnt að plastagnir hafa áhrif á ýmsar sjávarlífverur meðal annars á efnaupptöku á frumustigi, eru bólguvaldar, valda minnkun á fæðunámi og hafa áhrif á innkirtlastarfsemi. Þetta er meðal annars vegna þess að plastagnir geta innihaldið eiturefni sem notuð eru við framleiðsluna til að tryggja sveigju, varanleika eða eldtefjandi efni, eins og áður segir.
Megnið af plastinu tengt sjávarútvegi
Samkvæmt Hafrannsóknarstofnun er mikilvægt að geta greint uppruna plastsins til að hægt sé að beina sjónum í rétta átt þegar kemur að því að fyrirbyggja að plast berist í hafið. Megnið af því plasti sem kemur í veiðarfæri við rannsóknaveiðar stofnunarinnar er tengt sjávarútvegi.
Algengast er að finna spotta af ýmsu tagi og netadræsur en einnig alls kyns brot úr fiskikörum og slíku. Rusl af öðrum uppruna en sjávarútvegi kom í minna mæli í veiðarfæri en var í þó nokkrum þéttleika á sumum stöðum, samkvæmt stofnuninni.
Valkvíði neytandans
Plastnotkun hefur orðið ákveðin táknmynd þeirra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir og ekki er óalgengt að rekast á myndir af urðunarstöðum fullum af plastpokum, maga sjávardýra útbelgda af plastúrgangi og fuglum með kippuplast fast um hálsinn með fréttum eða póstum á samfélagsmiðlum. Raunveruleikinn vekur því ugg og ákveðinnar viðhorfsbreytingar gætir varðandi umhverfisvernd og loftslagsmál á síðustu árum.
Margar spurningar vakna þegar að því kemur að ákveða hvernig best sé að snúa þessari þróun við – er það til að mynda einungis stjórnvalda og fyrirtækja að setja lög og reglur fyrir fólk að fylgja eða getur hver og ein manneskja haft sín áhrif?
Við flóknum vandamálum eru oft flókin svör og er plastvandinn eitt þeirra vandamála. Ein skilaboð sem neytendur hafa fengið er að sleppa því að kaupa plastpoka í verslunum og nota pappírs- eða fjölnota poka í staðinn til að bera vörurnar heim. Þetta virðist þó ekki vera svo einfalt þegar fleiri þættir eru skoðaðir eins og kolefnisspor pokanna og þegar kostir og ókostir þeirra eru bornir saman byrja málin að flækjast.
Ekki er auðvelt að svara því hvort pappírspokar eða plastpokar séu umhverfisvænni, eða þá fjölnota pokar. Bandaríska blaðið The New York Times fjallaði um málið í mars síðastliðnum og þar er bent á að plastpokar, sem grotna margir ekki niður fyrr en að árhundruðum loknum, geti skapað mikið úrgangsvandamál. Hins vegar útheimti framleiðsla pappírspoka meiri orku og útblástur gróðurhúsalofttegunda, sem sé ekki gott út frá loftslagsbreytingum.
Endurnýtanlegir pokar geti þannig verið ágætis málamiðlun ef passað er upp á þá og þeir notaðir mikið. Það sem sett sé í pokann hafi þó á endanum meiri áhrif á umhverfið en hvaða tegund af poka notaður sé.
Vandinn við plastpokana er sá að þeir enda iðulega á ruslahaugunum og aðeins örlítill hluti þeirra er nokkurn tímann endurunninn. Meirihluti þeirra er því urðaður, þar sem það getur tekið þá allt að því þúsund ár að grotna niður. Jafnframt fylgir plastpokanum sá galli að hann er léttur og fýkur auðveldlega út í náttúruna og veldur þar miklum skaða.
Pappírspokinn ekki gallalaus
Pappírspokinn er ekki heldur gallalaus þrátt fyrir að grotna hraðar niður en plastpokinn. Í grein The New York Times er bent á að þegar litið er hlutina út frá útblæstri þá séu pappírspokarnir mun verri en plastpokarnir. Þó svo að pappírspokar séu úr trjám, sem séu tæknilega séð endurnýjanleg auðlind, þá útheimti talsvert meiri orku að búa til kvoðu og framleiða pappírspoka en að búa til einnota plastpoka úr olíu.
Árið 2011 gerði Umhverfisstofnun Bretlands rannsókn á líftíma mismunandi pokategunda þar sem horft var til hvers einasta framleiðsluþáttar. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar þarf að að endurnota pappírspoka að minnsta kosti þrisvar til að umhverfisáhrifin verði jafnmikil og af því að nota plastpoka úr pólýetýleni einu sinni. Og ef plastpokar eru notaðir endurtekið þá koma þeir enn betur út.
Auðveldara er að endurvinna og jarðgera pappírspoka heldur en plastpoka en niðurstaða bresku rannsóknarinnar var sú að jafnvel þessar aðgerðir höfðu lítið að segja í stóra samhenginu. Pappírspokar koma út sem lakari kostur út frá loftslagsbreytingum, nema þeir séu notaðir oft.
Fjölnota pokar sjálfbærir ef notaðir oft
Sama breska rannsóknin skoðaði líka fjölnota poka, sem og þyngri og endingarbetri plastpokar eða bómullarpokar. Niðurstaðan var sú að þessir pokar eru aðeins sjálfbærir ef þeir eru notaðir oft. Framleiðsla bómullarpoka er þannig engan veginn kostnaðarlaus. Bómullarræktun útheimtir mikla orku, landsvæði, áburð og skordýraeitur og getur valdið alls kyns umhverfisáhrifum, allt frá útblæstri gróðurhúsalofttegunda til niturmengunar í rennandi vatni.
Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að neytandi þyrfti að endurnýta bómullarpokann sinn 131 sinni til að hafa minni áhrif á hlýnun jarðar en léttur plastpoki sem er aðeins notaður einu sinni. Svo er það breytilegt eftir framleiðendum hvort nota þyrfti hina endingarbetri plastpoka fjórum eða allt að ellefu sinnum til að bæta fyrir þau loftslagsáhrif sem framleiðsla þeirra kostar umfram hina einnota.