Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og fyrrum ritari Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti dómsmálaráðherra í vikunni en hún er yngsti kvenráðherra Íslandssögunnar. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður flokksins, var nokkrum mánuðum eldri þegar hún varð fyrst ráðherra í janúar árið 2017 og verður því ekki annað sagt en að ákveðin endurnýjun hafi átt sér stað í flokknum á undanförnum árum.
Ekki eru þó allir á eitt sáttir um ágæti þessara breytinga og má greina af viðbrögðum úr ákveðnum kreðsum innan flokksins að andspyrna sé við að ungar konur taki að sér ábyrgðarmikil hlutverk í flokknum. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, er meðal þeirra sem gagnrýnt hefur forystuna og sagt að reynslulítið fólk raðist þar í áhrifastöður.
Skopmynd Helga Sig sem birtist í Morgunblaðinu vakti athygli í gær og þótti mörgum hún lýsa ákveðinni kvenfyrirlitningu. Á myndinni er Áslaug Arna í gervi fegurðardrottningu og er hún látin segja: „Gamlir íhaldskarlar voru aldrei að fara að vinna þessa fegurðarsamkeppni unga fólksins.“
Flokkurinn óheppinn í kvennamálum
Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, lagði orð í belg í gærkvöldi á Facebook-síðu sinni en hann telur að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að hverfa aftur til þess að pólitík og pólitískur styrkur skipti meira máli en ásýnd og yfirborðsmennska.
Hann segir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, jafnframt vera að gera mistök og að flokkurinn hafi verið óheppinn í kvennamálum. „Öflugasta konan veiktist og féll frá, svo hörmulegt sem það er. Hinar hafa allar fallið vegna mistaka sem reyndir stjórnmálamenn hefðu ekki flaskað á,“ skrifar hann og vísar hann þarna í Ólöfu Nordal, fyrrverandi utanríkisráðherra, en hún lést í febrúar árið 2017.
„Puntudúkkurnar“ Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna
Spyr Ragnar sig hvort þær tvær ungu konur sem formaðurinn hafi fyrir „puntudúkkur” – ásýndarinnar vegna – reynast betur. Þarna á hann væntanlega við ráðherrana, Þórdísi Kolbrúnu og Áslaugu Örnu. Hann spyr jafnframt hvort þær séu haldnar „forréttindablindu“ og hvort geti verið að betra sé að sýna þolinmæði og bíða og afla sér starfs- og lífsreynslu.
Hann útskýrir jafnframt hvað orðið forréttindablinda þýði en hann segir að í því felist að láta hagsmuni sína ráða og þiggja eitthvað sem ekki væri í boði án forréttindanna.
Fyrst tekur hann fyrir Þórdísi Kolbrúnu. Hann segir að hún hafi þáð ráðherraembætti þrátt fyrir að vera númer tvö á framboðslista flokks síns. „Formaðurinn vildi konu af því að hann hélt að ásýnd vægi meira en innihald. Þegar staða varaformanns losnaði stökk hún til og lýsti yfir framboði. Aðrir viku fyrir henni „af því að hún er kona“ og vitað var að ásýndin skiptir formanninn meira máli en innihaldið. Metnaðurinn er svo mikill að litið er fram hjá því að varaformaður sem ekki hefur burði til að vera formaður lendir í pínlegri stöðu þegar gengið verður fram hjá honum í formannskjöri,“ skrifar hann.
Næst tekur hann fyrir Áslaugu Örnu en hann segir hana hafa verið kjörna ritara flokksins til að friða stuttbuxnadeildina, þessa sem vilji áfengi í matvöruverslanir og afnám banns við fjölkvæni/-veri. „Nú hefur formaðurinn gert hana að ráðherra, til að flokkurinn sýnist „frjálslyndur“ (frjálshyggja er nú orðið ljótt orð, sem ekki er lengur flaggað) og höfði til ungs fólks. Hún er „fulltrúi ungu kynslóðarinnar“, sem einu sinni var kosið um í Tónabæ.“
Formaðurinn „með silfurskeið í munni“
Ragnar telur þó að það sé formaðurinn sjálfur sem sé „með silfurskeið í munni“ og haldinn mestri forréttindablindu. „Hann fór fyrst inn á þing án prófkjörs. Þar naut hann ólýðræðislegs ættarveldis. Þátttaka þeirra frænda í hrunsmálum, sem leiddu til stórfelldra áfalla í viðskiptalífinu, hefur skyggt á öll hans störf og sífellt vakið grunsemdir um hagsmunatengsl og forréttindaaðstöðu. Fylgi flokksins hefur nær helmingast í alþingis-kosningum, þó það hafi haldið sér nokkuð vel í sveitarstjórnarkosningum. Það bendir til að margir bíði á hliðarlínunni eftir breytingum.“
,,Forréttindablinda” felst í því að láta hagsmuni sína ráða og þiggja eitthvað sem ekki væri í boði án forréttindanna. ...
Posted by Ragnar Önundarson on Saturday, September 7, 2019
Kallaði Áslaugu Örnu sætan krakka
Þetta er vissulega ekki í fyrsta sinn sem Ragnar hefur eitthvað um Áslaugu Örnu að segja en í maí síðastliðnum sagði hann hana vera sætan krakka. „Miðaldra, hvítur, kristinn karlmaður, helst reffilegur og peningalegur, er formaður. Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari. Þetta er afleiðing af valdatilfærslu prófkjöranna,“ skrifaði Ragnar meðal annars í færslu í Facebook-hópnum Orkan okkar.
Fyrir tæpum tveimur árum setti Ragnar stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann deildi mynd af Áslaugu Örnu og gagnrýndi það myndaval.
Áslaug Arna brást við færslu Ragnars á Orkan okkar á Twitter reikningi sínum en þar sagði hún það vera alveg ljóst að Ragnar hefði einhvern óeðlilegan áhuga á að gramsa í myndum af henni á Facebook. „Í pistli dagsins kallar hann mig „sætasta krakkann“ og birtir með tveggja ára gamla mynd. Síðast var gamla myndin of sexý svo ég mætti tjá mig um #metoo. Hvað næst?“ spurði hún sig enn fremur.
Telur reynslulítið fólk raðast í forystusveit flokksins
Davíð Oddsson hefur einnig gagnrýnt forystu flokksins, eins og áður segir, en í júní síðastliðnum sagði hann að forystusveitinni væri nú nokkuð sama um hvað væri samþykkt á landsfundum, að í þá sveit raðaðist reynslulítið fólk sem hefði fengið pólitískt vægi „langt umfram það sem áður tíðkaðist“ og að laskaður flokkurinn væri að taka á sig enn meira högg með stuðningi sínum við þriðja orkupakkann.
Gagnrýni Davíð beindist bæði gegn því að í forystu flokksins væri ekki að veljast nægilega öflugt fólk, og án þess að það væri sagt berum orðum var þar ugglaust verið að vísa til Þórdísar Kolbrúnar og Áslaugar Örnu sem eru báðar ungar konur sitt hvoru megin við þrítugt. Þær voru báðar í stórum hlutverkum í orkupakkamálinu, Þórdís Kolbrún sem ráðherra orkumála og Áslaug Arna sem formaður utanríkismálanefndar.
Unga fólkið leggur lykkju á leið sína til að vísa þeim eldri út úr umræðunni
Í Reykjavíkurbréfi sagði Davíð að það hefði lengi verið „óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því.“
Nú þætti hins vegar fínt að reynslulítið fólk sem hefði fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, talaði niður til flokkssystkina sinna og legði lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem færi öllum illa.