Tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi (FSCS) hefur selt eftirstandandi kröfur sínar á hinn gjaldþrota banka Kaupþing Singer & Friedlander (KFS). Alls fékk sjóðurinn 17,8 milljónir punda fyrir eftirstandandi kröfur sínar þegar þær voru seldar til Tavira Securities Limited. John Glen, einn aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands, tilkynnti breska þinginu um þessa þróun með skriflegri tilkynningu sem var birt á mánudag.
Þar með lýkur beinum afskiptum ríkissjóðs Bretlands af Kaupþingi, tæpum ellefu árum eftir að þau hófust í bankahruninu þegar breska ríkið ákvað að lána tryggingasjóðnum svo hann gæti greitt fyrir flutning á innlánum þeirra 157 þúsund viðskiptavina sem nýtt höfðu sér Edge-netreikninga Kaupþings til að ávaxta innlán sín yfir til hollenska bankans ING.
Alls lánaði ríkissjóður Bretlands tryggingasjóðnum 2,6 milljarða punda til að standa undir þeim greiðslum sem hann þurfti til þessa. Á móti eignaðist hann kröfur á þrotabú KFS.
Tryggingasjóðurinn hefur endurgreitt þessa upphæð til breska ríkissjóðsins auk vaxta upp á 146 milljónir punda. Útgreiðslur úr þrotabúi Kaupþing Singer & Friedlander til ríkissjóðs Bretlands fyrir síðustu greiðsluna námu 421 milljónum punda.
Hinn erlendi netreikningurinn
Icesave-reikninganna þekkja flestir, og þau vandamál sem þeir náðu að baka íslenskri þjóð. Ástæða þess að þeir ollu þeim skaða sem þeir gerðu var að starfsemi Landsbanka Íslands í Bretlandi, sem tók á móti innlánunum sem söfnuðust, var í útibúi frá íslenska móðurbankanum.
Edge-reikningarnir
Kaupþing tók einnig þátt í því að bjóða mjög háa vexti fyrir netinnlán til að verða sér úti um laust fé á síðustu misserum starfsemi sinnar. Það var gert í gegnum Kaupthing Edge netreikninganna. Sá banki gerði það hins vegar í gegnum dóttufélög, meðal annars Kaupþing Singer & Friedlander í Bretlandi. Því voru innlánin ekki á ábyrgð hins íslenska Tryggingasjóðs innstæðueigenda heldur sjóða í þeim löndum þar sem dótturfélögin störfuðu.
Þann 8. október 2008 ákvað breska fjármálaeftirlitið (FSA) að banna Kaupþing Singer & Friedlander að taka við nýjum innlánum og ákvörðunin átti að taka gildi síðar þennan sama dag. Í kjölfarið voru Edge netreikningarnir fluttir til hollenska bankans ING Direct N.V. Þessi ákvörðun var tekin til að vernda almannahagsmuni og tryggja stöðugleika breska fjármálakerfisins, samkvæmt skjölum frá breskum eftirlitsstofnunum, við aðstæður þar sem FSA taldi að Kaupþing Singer & Friedlander uppfyllti ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfi til að taka við innlánum.
Klukkan 14:49 þennan sama dag, 8. október 2008, var Kaupþing Singer & Friedlander settur í greiðslustöðvun. Daginn eftir féll móðurbankinn, Kaupþing á Íslandi.
Þann 20. október 2009 komst breskur dómstóll að þeirri niðurstöðu að flutningur Edge innlánanna frá Kaupþingi Singer & Friedlander hefði verið bæði málefnalegur og löglegur.