Tæknin gefi fólki falska nánd
Nýlega kom út pólsk/íslensk heimildarmynd þar sem sviðsljósinu er beint að pólskum innflytjendum á Íslandi og ættmennum og vinum þeirra í heimalandinu. Kjarninn spjallaði við leikstjórann um hugmyndina á bakvið myndina, samskipti milli fólks á tímum gríðarlegra tæknibreytinga og hvernig það er að aðlagast íslensku samfélagi.
Ástæður þess að fólk pakkar saman hafurtaski sínu og flytur til annars lands eru eins margar og fólkið er margt. Það getur verið að leita að nýjum ævintýrum, annars konar reynslu eða farsæld – til lengri eða styttri tíma. Á bak við hverja einustu manneskju er annar heimur og tekur hver og einn með sér ákveðinn menningararf frá staðnum þaðan sem það kom. Þar er jafnframt fólk sem tengist þeim fjölskyldu- og vinaböndum sem það reynir að halda í.
Stundum á þetta til að gleymast í umræðu um innflytjendur og er rétt hægt að ímynda sér áhrifin á þá sem komið hafa hingað til lands og þá sem eftir verða heima. Í sumar varð sá merki áfangi að Pólverjar náðu 20 þúsunda íbúa markinu á Íslandi og kemur því ný pólsk/íslensk heimildarmynd, In Touch, eftir Pawel Ziemilski með áhugaverða vinkla inn í innflytjendaumræðuna en myndin var frumsýnd í lok október í Bíó Paradís.
Verða að láta rafræn samskipti nægja
Myndin hefur verið einstaklega vinsæl á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal dómnefndarverðlaun á IDFA, einni virtustu heimildarmyndarhátíð í heimi og aðalverðlaunin á Skjaldborg, þar sem dómnefndin sagði hana „hrífandi, úthugsað, djarft og frumlegt verk.”
In Touch fjallar um fólk frá smábænum Stary Juchy í Póllandi og tengingu þeirra við fjölskyldumeðlimi sína á Íslandi. Þriðjungur íbúa hvarf til starfa á Íslandi og þeir sem eftir eru, flestir af eldri kynslóðinni, halda í vonina um að börn þeirra og barnabörn snúi einn daginn til baka.
Í millitíðinni, verða þau að láta rafræn samskipti hlýja sér um hjartarætur þar sem mörg þúsund kílómetrar skilja þau að.
Forvitinn að vita meira
Pawel Ziemilski, leikstjóri myndarinnar, segir í samtali við Kjarnann að hugmyndin að henni hafi komið fyrir algjöra tilviljun. „Ég vann í litlu þorpi í Norðaustur-Póllandi þar sem 100 manns búa og stundum heyrði ég fólk tala um að það ætti skyldmenni á Íslandi. Mér þótti það mjög einkennilegt – ég þekkti engan Pólverja sem bjó á Íslandi á þessum tíma. Ég varð mjög forvitinn að vita meira og eftir smá rannsóknarvinnu fann ég stærra þorp þar sem ég heyrði sögu af íslenskum manni sem árið 1979 hitti pólska stelpu og giftist henni tveimur árum seinna. Þá fóru hjólin að snúast í þessu litla þorpi, en margir þaðan fóru í framhaldinu að flytja til Íslands.“
Hann segir að honum hafi þótt þetta mjög áhugavert en til að byrja með hafi honum ekki dottið í hug að gera kvikmynd um þetta málefni.
Allt gott orðið til vegna tilviljana
Seinna eftir örlagaríkan fund með vini sínum Hauki Hrafnssyni, sem var í raun eini Íslendingurinn sem hann þekkti, fóru hjólin að snúast. Haukur hringdi í hann nokkrum mánuðum seinna og stakk upp á því að gera kvikmynd um málefnið. Svo varð úr en Haukur er einmitt einn af framleiðendum In Touch.
Ziemilski segir að honum líki það þegar tilviljanir ráði för. „Ég hafði til að mynda enga reynslu varðandi innflytjendamál í Pollandi svo það var ekki endilega áhugi fyrir því sem rak mig út í þessa sérstöku kvikmyndagerð. Allt gott sem komið hefur fyrir mig í lífinu hefur orðið til vegna tilviljana.“
Það tók Ziemilski aftur á móti langan tíma að finna sína eigin rödd. „Í langan tíma vissi ég ekki um hvað myndin ætti að fjalla. Af hverju ætti ég að gera þessa mynd? Það er mjög mikilvægt í kvikmyndagerð að gera sér grein fyrir því. Í byrjun þegar ég var einungis að fjalla um innflytjendamálin þá fann ég mig ekki en þegar verkefnið fór að snúast um samskipti þá varð það að mínu,“ segir hann.
Ef fólk lærir ekki tungumálið verður það jaðarsett
Frá árinu 1996 hafa flestir erlendir ríkisborgara sem búsettir hafa verið hér á landi verið frá Póllandi. Þann 1. janúar 1996 bjuggu 1.038 einstaklingar sem annað hvort fæddust í Póllandi eða voru með pólskt ríkisfang hér á landi en í ágúst 2019 voru þeir orðnir 20.146. Fjöldi Pólverja hér á landi hefur því rúmlega tuttugufaldast á 20 árum.
Ziemilski segir að Ísland sé stórfenglegt land fyrir marga Pólverja. „Ég tel að það sé vegna þess hve Ísland er frjálslynt land og að Íslendingar gefa Pólverjum tíma til að aðlagast. Aftur á móti held ég að það komi alltaf að þeim tímapunkti þar sem því ljúki. Það er ef fólk lærir ekki tungumálið þá verði það jaðarsett,“ segir hann.
Rekast á ákveðið glerþak
„Fyrir flest pólskt fólk er það frábært hversu mikil virðing er borin fyrir einföldum störfum en hér í Póllandi er oft litið niður á þau störf. Launin eru mikið betri á Íslandi en það er erfitt að lifa á launum fyrir sömu störf hér. En þetta snýst ekki einungis um peninga, heldur einnig um þessa virðingu.
Ég hef aftur á móti heyrt frá pólsku fólki að það hafi síðar meir – eftir að hafa verið um tíma á Íslandi – rekist upp í ákveðið glerþak,“ segir hann.
Þegar Pólverjar hafi unnið sig upp í fyrirtækjum þá hafi þeir ekki fengið sömu tækifæri og Íslendingar. Þá hafi mátt greina ákveðna gremju hjá sumum.
Í raun að auka fjarlægðina
Aðaláhersla heimildarmyndarinnar eru samskipti milli fólks, hvernig fólk tekst á við sambönd milli fjarlægra landa og hvernig það reynir að nota tæknina, Skype, Facebook eða síma, til að brúa þetta bil.
„Sú hugmynd að tæknin færi fólk saman – geri það nánara – er slagorð sem við notum öll. Á vissan hátt kom mér á óvart eftir að hafa gert kvikmyndina að hún gerir það aftur á móti ekki,“ segir Ziemilski.
Honum finnst eins og tæknin gefi fólki falska nánd, plati fólk til að halda að það sé að verða nánara með því að nota hana. „Að í raun erum við að auka fjarlægðina á milli okkar. Þetta er svo skrítið að á vissan hátt má líta á það þannig að tækniframfarir þýði ekki framfarir í samskiptum. Þvert á móti geti það snúist upp í andhverfu sína.“
Falskt frelsi
Ziemilski talar um þetta sem ákveðna þversögn og segist í raun ekki vita hvort þessi þversögn sé svona í rauninni, þar sem tæknin er enn ný.
Hugsanlega taki tíma að aðlagast tækninni og að einhverjum tíma liðnum muni samskiptin öðlast meiri dýpt í framhaldinu. Hann spyr sig í því samhengi hvort samskipti verði alltaf eins grunn og raun ber vitni í gegnum tæknina og hvort ekki verði hægt að nota hana til að skyrkja sambönd í staðinn.
„Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort við teljum okkur trú um að tæknin lagi samskiptin eða hvort tæknin hreinlega geri það.“ Hann bendir á að ákveðinn áróður sé rekinn fyrir því að „við séum frjálsari“ með tilkomu nýrrar tækni, til að mynda með samfélagsmiðlanotkun. Hann telur að notkun samfélagsmiðla sé í raun ekki til þess fallin að frelsa fólk.
Deila í raun ekki reynslu
„Fyrst þegar ég hugsaði um litla þorpið sem „Skype“-þorp þá hlaut svo að vera að samskiptin væru áhugaverð. Hugmyndin um að þau byggðu samskipti sín upp í gegnum fjarbúnað á netinu var spennandi en svo kom í ljós að þau deildu í raun ekki sameiginlegra reynslu. Jú, þau deildu mikið af upplýsingum hvert með öðru en það fór ekki saman við tilfinningalega hugsun. Það fer heldur ekki saman við að deila reynslu. Að upplifa hluti saman. Við segjum að þessi samskipti hjálpi okkur að deila reynslu en af einhverjum ástæðum þá fer þetta ekki saman,“ segir hann.
Hann telur að það að vera saman á staðnum, bara að líkamarnir séu á sama stað, leiði af sér allt önnur samskipti. Við notum önnur tákn til að koma hugsunum frá okkur þegar líkaminn er til staðar. „Þetta kom mér verulega á óvart, þetta með sameiginlega reynslu og samskipti í gegnum hana.“
Sem dæmi tekur Ziemilski samtalið sem hann á við blaðamann Kjarnans en það fór fram í gegnum síma. Ef blaðamaður og viðmælandi eru í sama rými skapist önnur dýnamík og viðtalið verði öðruvísi en í gegnum síma.
Jú, blaðamaður tekur undir það, enda er alltaf betra að hitta manneskjuna í eigin persónu. Annað andrúmsloft skapast og annars konar nánd ... það verður annar konar reynsla.
Hvað framtíðin ber í skauti sér getur Ziemilski lítið um það sagt. „Ég geri mér enga grein fyrir því hvað mun gerast varðandi samskipti í framtíðinni með nýrri tækni. Ég kann líka við að vita ekki,“ segir hann að lokum. Forvitnin reki hann áfram.
Lesa
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi