Árið 2019: Þegar Seðlabankinn sagði það ekki sitt að útdeila réttlæti
Seðlabanki Íslands birti skýrslu um umdeilda fjárfestingaleið sína í sumar. Þar vikurkenndi hann margar neikvæðar afleiðingar hennar en sagði tilganginn hafi helgað meðalið. Þingmenn úr fjórum flokkum vilja rannsóknarnefnd um leiðina og að upplýst verði um alla sem nýttu sér hana.
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
794 aðilar
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Dæmt fólk á meðal notenda
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina hingað til þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu aðila sem það gerðu. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Á meðal annarra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina var til að mynda félag í eigu Samherja, sem hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarnar vikur. Um er að ræða félagið Esju Seafood á Kýpur, sem tók við hagnaði af starfsemi Samherja í Namibíu. Esja Seafood lánaði öðru félagið Samherja, Kaldbaki, um tvo milljarða króna árið 2012 í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í Stundinni á þriðjudag var greint frá því að Kaldbakur hafi meðal annars lánað enn öðru félagi Samherja, Kattanefi ehf., 300 milljónir króna til að fjárfesta í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Það félag var svo selt til Ramses II ehf., félags í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017, á 325 milljónir króna. Samherji lánaði Ramses II fyrir kaupunum.
Birti niðurstöðu skoðunar á sjálfum sér
Seðlabanki Íslands birti skýrslu um fjárfestingarleiðina í sumar. Þar sagði að Seðlabankinn teldi að fjárfestingarleiðin og ríkisbréfaleiðin sem hann stóð fyrir á árunum 2011 til 2015 til að vinna á þeim aflandskrónuvandanum og stuðla að afnámi hafta, hafi þjónað tilgangi sínum.
Gjaldeyrisútboðin sem leiðirnar fólu í sér hefðu beinst að vanda sem ekki hafi verið auðveldlega leystur með öðrum hætti nema á mjög löngum tíma. Aðgerðunum hafi vissulega fylgt „ýmis neikvæð hliðaráhrif, eins og algengt er um aðgerðir af þessu tagi en þau jákvæðu áhrif sem að var stefnt með aðgerðunum vega þó þyngra á vogarskálunum.“
Þar sagði enn fremur að rétt sé „að halda því til haga að það voru ekki eingöngu umdeildir auðmenn sem voru í þeirri stöðu að eiga óskilaskyldan gjaldeyri. Töluverður fjöldi Íslendinga sem áttu fasteignir erlendis vegna búsetu seldu fasteignir í tengslum við búferlaflutninga til Íslands og tóku þátt í fjárfestingarleiðinni. “
Viðurkenndi neikvæð áhrif
Í skýrslu Seðlabankans var þó viðurkennt að flestar efnahagslegar ráðstafanir sem gripið sé til hafi einhver óæskileg hliðaráhrif. Líklegt væri að það hafi einnig átt við um fjárfestingarleiðina.
Í skýrslunni er síðan talið upp að í útboðum leiðarinnar hafi falist hvati til þess að flýta ákvörðunum um fjárfestingu í því skyni að nýta rétt til að kaupa krónur með afslætti. „Í einhverjum tilvikum kann það að hafa leitt til þess ákvörðun um fjárfestingu varð ekki eins vönduð og ella hefði orðið og það skapað rekstrarvanda síðar.“
Þá sagði að fjárfestingarleiðin hefði sett aðila sem áttu óskilaskyldan erlendan gjaldeyri í betri stöðu til að kaupa kaupa innlendar eignir á lágu verði og gengi. „Áhrif þess á eignaskiptingu kunna að vera neikvæð. Í kjölfar efnahagskreppu geta aðilar sem eru í sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu jafnan eignast eignir á hagstæðu verði, jafnvel þótt slíkri fjárfestingu sé ekki beint í farveg sem takmarkar seljanleika fjárfestingar, eins og gert var í tilfelli ríkisbréfa- og fjárfestingarleiðar. Þótt deila megi um sanngirni þess var fátt sem Seðlabankinn gat gert til þess að stuðla að sanngjarnari útkomu innan þess lagaramma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því markmiði aðgerðanna að stuðla að stöðugleika. Í stöðugleikanum felast afar brýnir almannahagsmunir sem vega verður á móti óæskilegum tekjuskiptingaráhrifum, enda kemur óstöðugleikinn oft niður á þeim sem síst skyldi og hafa takmörkuð úrræði eða þekkingu til að verja hagsmuni sína.“
Líklega kom stærri hluti úr skattaskjólum
Seðlabankinn viðurkenndi einnig að gagnrýni á heimild félaga með aðsetur á lágskattarsvæðum til þátttöku í fjárfestingarleiðinni hafi verið eðlileg í ljósi sögunnar.
Í skýrslunni sagði að þáttur slíkra aflandsfélaga hafi einungis verið 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum fjárfestingarleiðina og að ítrustu kröfur voru gerðar til þess að peningaþvættisathugunum.
Seðlabankinn taldi þó vandséð hvernig hann hefði átt að koma í veg fyrir fjárfestingu aflandsfélaganna. „Í fyrsta lagi hefði þurft að vera heimild til þess í lögum sbr. það sem áður er rakið varðandi lögbundin valdmörk stjórnvalda. Í öðru lagi er ólíklegt að það hefði þjónað nokkrum tilgangi að hafa slíka heimild í lögum. Möguleikinn á slíku var raunar ræddur í undirbúningsferlinu, en niðurstaðan var að slíkt ákvæði væri tilgangslaust. Hefði félögum frá slíkum svæðum verið meinað að taka þátt í útboðunum hefði þeim verið í lófa lagið að flytja fjármuni sína til OECD-ríkis fyrir útboðið og taka þannig þátt. Við það hefði slóð fjármunanna mögulega rofnað og skattrannsóknarstjóri ekki fengið upplýsingar frá Seðlabankanum um tilvist þessara aflandsfélaga þó vissulega hefðu upplýsingar um endanlega eigendur fjármuna legið fyrir í báðum tilvikum. Þetta kann að skýra þá staðreynd að tiltölulega lágt hlutfall fjárfestingar kom frá skattaskjólum. Flestir þeirra sem höfðu eitthvað að fela í skattaskjólum hafa sennilega ekki viljað sýna á spilin.“
Vilja rannsóknarnefnd
Um miðjan nóvember lögðu allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar sameiginlega fram þingsályktunartillögu um að skipuð yrði þriggja manna rannsóknarnefnd af Alþingi til að rannsaka hina svokölluðu fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
Í tillögunni var farið fram á að nefndin gerði grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Þar vr einnig kallað eftir að upplýsingar verði dregnar fram um hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna leiðarinnar og þá hversu mikið það tap var, hvort að samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilvikum að hafa brotið gegn skilmálum hennar og hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins, til að stunda peningaþvætti eða misnotuð með öðrum hætti.
Nefndin, verði tillagan samþykkt, á að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2020. Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Alls eru 17 þingmenn skrifaðir fyrir henni.
Tillagan komst ekki á dagskrá fyrir þinglok og bíður því enn efnislegrar meðferðar.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019