Félag makrílveiðimanna stefnir íslenska ríkinu
Þær útgerðir sem veiða makríl á krókum segja að kvóti þeirra hafi verið helmingaður þegar makríll var kvótasettur í fyrra. Þær telja minni útgerðir vera látnar bera þunga misgjörða ríkisins eftir að stórútgerðir unnu mál gegn ríkinu í desember 2018. Stórútgerðirnar fóru samt í skaðabótamál.
Félag makrílveiðimanna hefur stefnt íslenska ríkinu til viðurkenningar á því sem þau telja ólögmætar takmarkanir á heimildum félagsmanna þess til veiða á makríl.
Í stefnu félagsins kemur fram að félagið vilji fá viðurkennt með dómi að úthlutun til einstakra skipa aflahlutdeild á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árununum 2008 til 2018, hafi verið óheimil.
Sú ráðstöfun tryggði stórútgerðum sem veiða makríl auknar heimildir en minnkaði það sem var til skiptanna fyrir félagsmenn í Félagi makrílveiðimanna, sem eru þeir sem veiða makríl úr Norðaustur- Atlanthafsmakrílstofninum með krókum, um helming.
Samhliða því að makríllinn var kvótasettur með þessum hætti var sett inn ákvæði sem leyfir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka kvóta frá smærri bátum og færa til stærri skipa án endurgjalds.
Telja ráðherra hafa verið að bregðast við dómi
Félag makrílveiðimanna vill meina að grundvöllur þess frumvarps sem lagt var fram þegar makríl var kvótasettir í fyrravor hafi verið mjög hagstæður fyrir stærstu útgerðir landsins. Hann miðaði við rúmlega þrefalt lengri aflareynslutíma en gildandi lög um veiðar á deilistofnum kveða á um. Þar sem stærstu útgerðirnar höfðu staðið einar að makrílveiðum fyrstu árin sem lögð eru til grundvallar í lögunum þá stórgræða þær á þeirri aðferðarfræði sem ákveðið var að beita.
Í stefnunni kemur fram að Félag makrílveiðimanna telji að það hafi beinlínis verið undirliggjandi markmið lagasetningarinnar að auka hlut stórútgerða í makrílkvóta með því að handvelja viðmiðunarár sem þjónuðu því markmiði.
Í tilkynningu frá félaginu segir að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, virðist annars vegar hafa verið að „bregðast við dómi hæstaréttar um að framkvæmd veiðistjórnunar stjórnvalda hafi ekki staðist lög frá 2011 og hinsvegar að ríkið ætti yfir höfði sér skaðabætur vegna þessara misgjörða. Með nýju lögunum eru minni útgerðir látnar bera þunga þessara misgjörða ríkisins sem er ósanngjarnt og mögulega ekki lögmætt markmið lagasetningar almennt.“
Tugmilljarðar króna undir
Í fyrra var makríll færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Makrílkvótinn er talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði.
Það var gert í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2018 þar sem staðfest var að stórútgerðir hefðu verið misrétti beittar við úthlutun á makrílkvóta.
Margir viðmælendur Kjarnans innan sjávarútvegsins telja að kvótasetningin á makríl hafi verið tilraun til að færa stórútgerðunum friðarfórn. Ríkið myndi taka kvóta af minni útgerðum og færa til þeirra í von um að stórútgerðirnar færu ekki í skaðabótamál við ríkið.
Þrátt fyrir þetta ætla nokkur stór sjávarútvegsfyrirtæki í mál við íslenska ríkið vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna úthlutar á makrílkvóta á árunum 2011 til 2014. Samkvæmt fréttum síðasta sumar munu bótakröfur þeirra nema allt að 35 milljörðum króna. Verði þær samþykktar geta útgerðirnar því náð til baka um 55 prósent af því sem þær hafa greitt í veiðigjöld á undanförnum árum.
Langt ferli
Kjarninn hefur verið að reyna að komast að því hverjar kröfur stórútgerðanna á hendur ríkinu eru. Fyrirspurn var fyrst send til upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar í fyrrasumar. Í henni var óskað eftir því að fá stefnur þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem stefnt hafa íslenskra ríkinu til greiðslu skaðabóta afhentar auk þess sem beðið var um upplýsingar um hversu háar kröfur þeirra væru.
Erindið var sent til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem brást ekki við því í á aðra viku. Þegar viðbrögð komu fólst í þeim að áframsenda erindið á embætti ríkislögmanns.
Hann taldi rétt að bera það undir lögmenn fyrirtækjanna sem um ræddi hvort þeir myndu samþykkja að upplýsingar um málin yrðu veittar og staðfesti í kjölfarið við Kjarnann að fyrirspurnir þess efnis hefðu verið sendar á umrædd fyrirtæki.
Síðan fékkst ekkert viðbótarsvar, þrátt fyrir að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að upphafleg fyrirspurn var send, þangað til 20. desember 2019.
Vilja ekki að að almenningur fái gögnin
Þá sendi ríkislögmaður svar þess efnist að hann teldi ekki heimilt að afhenda stefnurnar. Hann hefði óskað eftir afstöðu umræddra fyrirtækja gagnvart því að fjölmiðlar myndu fá stefnurnar með því að beina spurningum til lögmanna þeirra. „Liggur ekki fyrir samþykki stefnenda um að afhenda stefnurnar og verður að skilja afstöðu þeirra í ljósi seinni málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og telur embættið því gögnin undanþegin upplýsingarétti.“
Auk þess sagði í svarinu að ríkislögmaður mæti það „óraunhæft að rýmri aðgangur sé fyrir hendi þótt kröfu um afhendingu sé beint að stjórnvaldi ef um sömu gögn er að ræða. Gögnin eru því eðli sínu samkvæmt undanþegin upplýsingarétti.“
Kjarninn hefur kært synjun ríkislögmanns á aðgengi að umræddum upplýsingum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í frekari rökstuðningi fyrir synjuninni, sem ríkislögmaður sendi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 15. janúar 2019, kemur fram að synjunin byggi á tvenns konar grunni. Annars vegar þeim að gögnin séu undanþegin upplýsingarétti vegna þess að umrædd sjávarútvegsfyrirtæki hafa ekki veitt heimild fyrir sitt leyti til afhendingar gagnanna. „Í ljósi afstöðu útgerðarfyrirtækjanna og við könnun á nefndum stefnum verður að líta svo á að í þeim séu greindar nákvæmar upplýsingar um fjárhags- og viðskipta- hagsmuni þeirra[...]Gögnin verður að meta án tillits til þess hvernig löggjafinn hefur lýst markmiðum og tilgangi laga um fiskveiðistjórn með því að nytjastofnar sjávar teljist til sameignar þjóðarinnar,“ segir í bréfi ríkislögmanns.
Hins vegar byggði synjun hans á því að gögnin séu hluti af málsskjölum í dómsmáli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkislögmaður telur að sérstakar skorður séu á því samkvæmt lögum að afhenda gagna úr dómsmáli enda eru hugsanlegir hagsmunir af afhendingu þeirra allt aðrir en að varða almenning. Engu breytir þótt málsmeðferð í dómsmálum sé opinber.“
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi