Telur að rannsókn á fjárfestingarleið verði að vera „ítarleg og heildstæð“
Skattrannsóknarstjóri gat ekki rannsakað gögn sem embættið fékk fyrir um fjórum árum um þá sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands með tæmandi hætti. Ástæðan var mannekla og annir við önnur verkefni. Alls náði úrtakskönnun embættisins til eitt prósent þeirra sem fóru leiðina. Nauðsynlegt sé sannreyna og rekja til enda uppruna fjármuna í hverju og einu þeirra tilvika sem til rannsóknar verði tekin, ef skipa á rannsóknarnefnd um leiðina.
Embætti skattrannsóknarstjóra hefur ekki haft tök á því að rannsaka að fullu þau gögn sem það hefur fengið afhent um þá aðila sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands vegna manneklu og „annarra aðkallandi verkefna“.
Embættið hefur einungis framkvæmt úrtakskönnun sem náði til ellefu einstaklinga sem búsettir voru hérlendis og úr þeirri könnun tekið eitt mál til frekari rannsóknar, þar sem grunur er um undanskot á fjármagnstekjum er nemur á þriðja hundrað milljóna króna.
Alls nýttu 1.072 einstaklingar og lögaðilar sér fjárfestingarleiðina og því náði úrtakskönnun skattrannsóknarstjóra yfir um eitt prósent þátttakanda sem nýttu sér leiðina.
Þetta kemur fram í umsögn skattrannsóknarstjóra um þingsályktunartillögu um að rannsóknarnefnd verði skipuð til að fara í saumanna á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sem skilað var í síðustu viku. Undir umsögnina skrifar Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Þar segir enn fremur að skattrannsóknarstjóri hafi ekki haft tök á að sinna frekari rannsókn en lýst er hér að ofan. „Er því ekki að svo stöddu hægt að draga neinar almennar ályktanir á grundvelli athugana skattrannsóknarstjóra á þeim gögnum varðandi fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands sem embættið fékk aðgang að og frá var greint í framangetinni umsögn þess frá árinu 2016.“
Embættið telur að ef upplýsa eigi hvort fjárfestingarleið Seðlabanka íslands hafi verðið nýtt til að flytja til Íslands fjármuni sem uppruna eiga í tekjum sem ekki hafa verið taldar réttilega fram til skatts hér á landi og þá eftir atvikum jafnframt hvort peningaþvætti hafi átt sér stað, verði að fara fram ítarleg og heildstæð athugun er bæði taki til einstaklinga og lögaðila.
Auk þess telur skattrannsóknarstjóri að til að upplýsa umrædd efni með viðhlítandi hætti sé nauðsynlegt að sannreyna og rekja til enda uppruna fjármuna í hverju og einu þeirra tilvika sem til rannsóknar eru tekin. „Er ljóst að það kallar í mörgum ef ekki flestum tilvikum á öflun frekari gagna frá umsækjendum sjálfum og eftir atvikum öðrum aðilum til viðbótar þeim gögnum sem fram hafa verið lögð við afgreiðslu umsókna um nýtingu fjárfestingarleiðarinnar.“
Skoðaði nokkra einstaklinga búsetta hérlendis
Skattrannsóknarstjóri fékk gögn um þá einstaklinga, ekki lögaðila á borð við einkahlutafélög, árið 2016, eða fyrir tæpum fjórum árum síðar. Þegar þau voru samkeyrð við gögn sem embætti skattrannsóknarstjóra keypti sumarið 2015 á 37 milljónir króna, og sýndu eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum, kom í ljós að 21 einstaklingar fór fjárfestingaleiðina var einnig í skattaskjólsgögnunum.
Í umsögn skattrannsóknarstjóra um skipun rannsóknarnefndar á fjárfestingarleiðinni, sem skilað var inn í síðustu viku, segir að greining og frekari úrvinnsla ofangreindra gagna hafi þurft að afmarka, sökum „annarra aðkallandi verkefna og takmarkaðs mannafla“.
Í byrjun árs 2018, fyrir tveimur árum síðan, lágu fyrir niðurstöður forskoðunar ellefu tilvika er vörðuðu nýtingu fjárfestingarleiðarinnar og voru þau tilvik „valin úr mengi tilvika þar sem aðilar voru einstaklingar búsettir hér á landi á tíma útboðs auk þess sem um hafði rætt fjárfærslur fyrir ofan ákveðna fjárhæð.“
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Það mengi sem skattrannsóknarstjóri skoðaði sneri þó einungis að einstaklingum, ekki lögaðilum eins og einkahlutafélögum. Til að setja það í samhengi við umfang þeirra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina þá voru alls samþykkar umsóknir frá 754 einstaklingum en 318 lögaðilum um að fara leiðina, eða alls 1.072 aðila. Skattrannsóknarstjóri skoðaði einungis einstaklinga sem búsettir voru á Íslandi, en þeir voru 231. Því innihélt mengið sem skattrannsóknarstjóri valdi 11 tilvik til að skoða úr, tæplega 22 prósent þeirra einstaklinga og lögaðila sem nýttu leiðina. Þau ellefu tilvik sem embættið tók til forskoðunar eru um eitt prósent þeirra sem tóku þátt í útboðum leiðarinnar.
Í umsögn skattrannsóknarstjóra segir að fjárhæð tekinna tilboða frá einstaklingum búsettum á Íslandi hafi verið tæplega sex milljarðar króna. Fjárhæð tekinna tilboða frá einstaklingum alls nam samtals um 24 milljörðum króna en tekin tilboð lögaðila námu samtals um 96 milljörðum króna, þ.e. samtals um 120 milljarðar króna. Því kom mengið sem skattrannsóknarstjóri valdi ellefu tilvik til að forskoða úr einungis með fimm prósent þeirrar upphæðar sem flutt var til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina.
Ofan á þetta komu þeir sem ferjuðu peninga inn eftir leiðinni inn með sömu upphæð til viðbótar og þeir keyptu fyrir inn í landið, en án virðisaukningar. Heildarumfang leiðarinnar var því yfir 200 milljarðar króna.
Undanskot upp á hundruð milljóna króna
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá þá leiddi eitt þessara tilvika til að að skattrannsókn var hafin vegna þeirra fjárfærslna sem um hafði rætt. Í því máli er grunur um undanskot fjármagnstekna er nemur á þriðja hundrað milljóna króna.
Rannsókn þess máls er nýlega lokið og var búist við því að ákvörðun um hvort málinu yrði vísað til refsimeðferðar eða ekki yrði tekin seint á síðasta ári. Sú ákvörðun hefur hins vegar dregist verulega og í umsögn skattrannsóknarstjóra um þingsályktunartillögu um rannsókn á fjárfestingarleiðinni kemur fram að hún hefur enn ekki verið tekin, þrátt fyrir að rannsókn sé lokið. Þar segir orðrétt að í samráði við embætti ríkisskattstjóra hafi verið „tekin ákvörðun um að áframhaldandi skoðun gagnanna yrði í fyrstu á forræði þess embættis sem eftir atvikum myndi vísa aftur málum til skattrannsóknarstjóra í þeim tilvikum er athugun myndi vekja grun um refsiverð brot.“ Eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra á málinu er það nú komið til ríkisskattstjóra sem mun mögulega vísa því aftur til skattrannsóknarstjóra ef athugun ríkisskattstjóra vekur grun um refsiverð brot.
Ríkisskattstjóri hefur hins vegar líka verið með umrædd gögn um þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina árum saman. Til að koma í veg fyrir tvíverknað sammæltust skattembættin tvö, samkvæmt því sem Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði við Kjarnann í fyrra, um að þau yrðu skoðuð frekar undir formerkjum eftirlits á sínum tíma. Ef við þá skoðun myndu vaknar grunur um skattsvik ber að tilkynna skattrannsóknarstjóra þar um sem myndi taka ákvörðun um framhald málsins.
Svo virðist vera sem að breyting hafi orðið á því verklagi á síðustu vikum og ákvörðun um framhald málsins nú komin til ríkisskattstjóra.
Ómögulegt að fá upplýsingar um þá sem nýttu leiðina
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Seðlabanki Íslands leggist ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðar hans telji Alþingi líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á leiðinni.
Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur líka skilað umsögn um tillöguna þar sem fram kemur að hún styðji tillöguna um rannsókn.
Seðlabanki Íslands hefur hingað til ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina, og borið fyrir sig þagnarskylduákvæði laga um bankann. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi í síðasta mánuði og tók sama pól í hæðina og Seðlabankinn. Hann taldi sér ekki heimilt að birta nöfn þeirra sem fluttu fjármagn til Íslands í gegnum fjárfestingarleiðina.
Máli sínu til stuðnings vísar Bjarni í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingarmál vegna kæru Kjarnans á synjun Seðlabanka Íslands um aðgang að upplýsingunum frá því í janúar 2019. Í þeim úrskurði sagði meðal annars að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“
Lestu meira:
-
24. apríl 2021Ásgeir: Fjárfestingaleiðin hefði aldrei gerst á minni vakt
-
5. desember 2020Rannsókn á undanskotum vegna fjárfestingarleiðarinnar stutt á veg komin
-
11. júní 2020Vill láta fjalla um „önnur rannsóknarúrræði“ en rannsóknarnefnd
-
19. maí 2020Hundruð milljóna króna undanskot vegna fjárfestingarleiðar vísað til héraðssaksóknara
-
24. febrúar 2020Telur að rannsókn á fjárfestingarleið verði að vera „ítarleg og heildstæð“
-
24. febrúar 2020Seðlabankinn leggst ekki gegn skipun rannsóknarnefndar um fjárfestingarleiðina
-
23. janúar 2020Enn neitað að opinbera hverjir nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabankans
-
16. nóvember 2019Rannsókn Alþingis á fjárfestingarleiðinni gæti náð yfir Samherja
-
17. ágúst 2019Hneykslið þar sem tilgangur helgar peningaþvætti
-
2. febrúar 2019Úrskurðarnefnd staðfestir neitun Seðlabankans – Áfram mun ríkja leynd um fjárfestingarleiðina