Mynd: 123rf.com

Forstjórar í Kauphöll voru með 4,7 milljónir á mánuði að meðaltali

Í Kauphöll Íslands ráða 20 karlar 20 félögum. Meðallaun þeirra í fyrra voru rúmlega sjö sinnum hærri en miðgildi heildarlauna landsmanna á árinu 2018.

Það voru vend­ingar í Kaup­höll Íslands í fyrra. Alls skiptu átta af þeim 20 félögum sem skráð eru á aðal­l­ista hennar um mann í brúnni á árinu 2019. Í öll skiptin tók karl­maður við starf­inu af karl­manni, enda eru allir for­stjórar skráðra félaga á Íslandi karl­menn. Þannig hefur staðan verið frá því í ágúst 2016.

Síð­asta ár var heilt yfir gott í Kaup­höll­inni. Tvö ný félög, Kvika banki og Iceland Seafood, bætt­ust á aðal­l­ist­ann, heild­ar­við­skipti voru sam­tals 612 millj­arðar króna sem var veltu­aukn­ing upp á 21,3 pró­sent frá árinu 2018. Mark­aðsvirði allra skráðra hluta­bréfa, líka í þeim fjórum félögum sem skráð eru á First North mark­að­inn, var 1.251 millj­arðar króna í árs­lok 2018. Úrvals­vísi­talan, sem er sam­an­sett úr gengi þeirra tíu félaga sem hafa mestan selj­an­leika, hækk­aði um 31,4 pró­sent. 

Bréf alls 13 félaga hækk­­uðu á árinu og bréf í tveimur til við­­bót­ar lækk­­uðu undir eitt pró­­sent. Þau félög sem fóru verst út úr árinu og lækk­­uðu umtals­vert voru Hagar (um 6,0 pró­­sent), Sýn (um 16,3 pró­­sent), Eim­­skip (um 16,9 pró­­sent) og Icelandair Group, sem lækk­­aði mest allra eða um 21,2 pró­­sent. 

Auglýsing

Þessi staða hefur breyst hratt í ár. Ein­ungis tvö félög hækk­uðu í verði á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2020. Annað er smá­söluris­inn Hag­ar. Hitt er leigu­fé­lagið Heima­vell­ir, sem er í yfir­töku­ferli. Öll önnur félög hafa lækkað í verði. Tvö, Arion banki og Eim­skip, hafa misst rúm­lega þriðj­ung af mark­aðsvirði sínu og eitt, Icelanda­ir, hefur rúm­lega helm­ing­ast í verði.

Svipað með­al­tal og í fyrra

Með­al­tal launa for­stjóra í Kaup­höll­inni lækk­uðu lít­il­lega milli áranna 2018 og 2019. Þau voru 4,8 millj­ónir króna árið 2018 en 4,7 millj­ónir króna í fyrra, sam­kvæmt sam­an­tekt Kjarn­ans á upp­lýs­ingum um launa­greiðslur úr árs­reikn­ingum allra félag­anna 20. Árið 2017 voru þau líka 4,7 millj­ónir króna þannig að með­al­launin hafa hald­ist nokkuð jöfn síð­ast­lið­inn þrjú ár. Til sam­an­burðar má nefna að mið­gildi heild­ar­launa á Íslandi var 632 þús­und krónur árið 2018. Það þýðir að helm­ingur þjóð­ar­innar var með laun undir þeirri tölu á mán­uði. Með­al­laun for­stjór­anna eru því næstum 7,5­föld mið­gild­is­laun­in.

Lang­hæstu launin hafði Árni Oddur Þórð­ar­son, for­stjóri Mar­el, en mán­að­ar­laun hans voru 12,3 millj­ónir króna í fyrra. Það er 2,5 millj­ónum krónum meira en hann hafði á mán­uði árið áður. Marel hækk­­aði lang­­mest allra félaga á árinu 2019, eða um 65,9 pró­­sent. Mark­aðsvirði félags­­ins í lok árs var 473,4 millj­­arðar króna. Ekk­ert annað félag í Kaup­höll­inni kemst nálægt því að vera svo verð­­mætt. 

Í öðru sæti eru for­stjórar smá­sölurisanna sem skráð eru á mark­að, Egg­ert Þór Krist­ó­fers­son hjá Festi og Finnur Árna­son hjá Hög­um. Þeim voru báðir með 6,1 milljón krónur á mán­uði í laun. Vert er að taka fram að launa­kjör Finns eru fyrir rekstr­ar­árið 2018/2019, en Hagar eru með ann­ars konar upp­gjörsár en önnur félög. Það hefst 1. mars, ekki 1. febr­ú­ar. Bæði Egg­ert og Finnur voru með 6,1 milljón krónur í mán­að­ar­laun á síð­ustu heilu birtu rekstr­ar­árum félag­anna sem þeir stýra. Festi rekur meðal ann­ars bens­ín­stöðvanet N1 og Krón­una á meðan að Hagar reka meðal ann­ars Olís-­stöðv­arnar og Bón­us-versl­an­irn­ar. 

Heild­ar­laun Egg­erts hækk­uðu um eina milljón króna milli ára og inni­halda reglu­leg laun, hlunn­indi og árang­urstengd laun. Laun og hlunn­indi Egg­erts stóðu nán­ast í stað milli ára en árang­urstengd laun hækk­uðu um tólf millj­ónir króna milli ára. Laun Finns hækk­uðu um 200 þús­und krónur á mán­uði að með­al­tali. 

Hinir sem hækk­uðu

Laun Garðar Hann­esar Frið­jóns­son­ar, for­stjóra Eikar fast­eigna­fé­lags­ins hækk­uðu úr rúm­lega 3,1 millj­ónum króna að með­al­tali á mán­uði 2018 í 3,6 millj­ónir króna í fyrra. Þá hækk­uðu laun Helga Bjarna­son­ar, sem stýrir VÍS, úr 4,4 millj­ónum króna í tæp­lega 5,3 millj­ónir króna milli ára. 

Finnur Odds­son sem stýrir Origo fékk líka væna launa­hækk­un, en með­al­laun hans á mán­uði fóru úr fjórum millj­ónum króna árið 2018 í 5,1 milljón króna í fyrra. Það er launa­hækkun upp á 27,5 pró­sent. 

Auglýsing

Þá er Mar­inó Örn Tryggva­son, sem tók við starfi banka­stjóra Kviku banka í byrjun júní í fyrra, með umtals­vert hærri með­al­laun á mán­uði en fyr­ir­renn­ari hans Ármann Þor­valds­son, sem ákvað að færa sig til innan bank­ans og sinna öðrum störum sem fælu ekki í sér jafn miklar stjórn­un­ar­legar skyldur í fyrra­sum­ar. Ármann hafði verið með 3,5 millj­ónir króna á mán­uði en með­al­laun Mar­inós voru 4,4 millj­ónir króna á mán­uði, eða 26 pró­sent hærri. 

Þrátt fyrir að gengi Sýnar hafi ekki verið sér­stakt um langt skeið, og mark­aðsvirði félags­ins ein­ungis um níu millj­arðar króna, þá eru laun Heið­ars Guð­jóns­son­ar, sem tók við for­stjóra­starf­inu í apríl í fyrra, hærri en fyr­ir­renn­ara hans. Árið 2018 hafði Stefán Sig­urðs­son 3,8 millj­ónir króna að með­al­tali í laun en með­al­laun Heið­ars í fyrra voru 4,4 millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Banka­stjóra­launin lækk­uðu umtals­vert

For­stjóra­launin lækka sums staðar veru­lega milli ára. Þannig var Hösk­uldur Ólafs­son með 6,2 millj­ónir króna í laun á mán­uði fyrir að gegna starfi banka­stjóra ­Arion ­banka árið 2018. Hann lauk störfum fyrir bank­ann snemma árs í fyrra og Bene­dikt Gísla­son tók við starf­inu í byrjun júlí. Mán­að­ar­laun hans voru 4,7 millj­ónir króna á síð­asta ári. eða 76 pró­sent af því sem Hösk­uldur hafð­i. 

Þess má þó geta að Ásgeir H. Reyk­fjörð Gylfa­son, sem var ráð­inn aðstoð­ar­banka­stjóri Arion banka í fyrra og hóf störf  5. sept­em­ber, var að með­al­tali með hærri laun en banka­stjór­inn, en alls fékk hann greiddar 22,5 millj­ónir króna í fyrra fyrir tæp­lega fjög­urra mán­aða störf. Það þýðir að með­al­laun hans á mán­uði voru um 5,6 millj­ónir króna. Vert er að taka fram að Ásgeir starf­aði líka sem fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja- og fjár­fest­inga­banka­sviðs Arion banka frá 26. sept­em­ber sam­hliða aðstoð­ar­banka­stjóra­stöð­unni.

For­stjóra­launin hjá Eim­skip lækk­uðu enn meira á milli ára. Gylfi Sig­fús­son, sem var sagt upp síðla árs 2018, hafði verið með 6,5 millj­ónir krónur á mán­uði í laun. Vil­helm Már Þor­steins­son, sem tók við starfi hans í lok jan­úar 2019, var hins vegar með 3,9 millj­ónir króna á mán­uði, eða 60 pró­sent af því sem Gylfi hafði fengið greitt. 

Auglýsing

Laun for­stjóra Icelandair hafa líka lækkað umtals­vert. Björgólfur Jóhanns­son hafði verið með 5,7 millj­ónir króna á mán­uði, en hann hætti í lok ágúst 2018. Bogi Nils Boga­son, sem var ráð­inn form­lega sem eft­ir­maður hans í des­em­ber 2018, var með 4,6 millj­ónir króna í fyrra. Þann fyr­ir­vara verður þó að setja á laun for­stjóra Icelandair að þau inni­halda líka við­bót­ar­fram­lag í líf­eyr­is­sjóði, en hjá flestum öðrum for­stjórum í Kaup­höll­inni bæt­ast slíkar greiðslur við laun­in. Bogi sam­þykkti auk þess í síð­asta mán­uði að lækka laun sín um 30 pró­sent vegna þess ástands sem nú ríkir vegna útbreiðslu kór­ónu­veirunn­ar. Frá því var greint á sama tíma og Icelandair sagði upp 240 manns og setti 92 pró­sent eft­ir­stand­andi starfs­manna á hluta­bæt­ur. 

Laun for­stjóra Skelj­ungs lækk­uðu líka milli ára. Hend­rik Egholm, sem hætti í júlí 2019, hafði verið með 4,8 millj­ónir króna í mán­að­ar­laun árið 2018 en Árni Pétur Jóns­son, sem tók við for­stjóra­stöð­unni um miðjan ágúst í fyrra, fær 3,8 millj­ónir króna á mán­uð­i. 

Þeir sem stóðu nokkurn veg­inn í stað

Lægstu laun allra for­stjóra í Kaup­höll­inni er hjá Heima­völl­um, sem nú eru í miðju yfir­tökutil­boði. Guð­brandur Sig­urðs­son var með 2,9 millj­ónir króna í mán­að­ar­laun á árinu 2018 en hann hætti störfum 1. apríl í fyrra. Við tók Arnar Gauti Reyn­is­son og var hann með sömu mán­að­ar­laun á síð­asta ári. Hann er eini for­stjór­inn í Kaup­höll Íslands sem var með undir þremur millj­ónum króna á mán­uði í laun. Sá sem er honum næstur er Bjarni Ármanns­son, for­stjóri Iceland Seafood, sem var með 3,2 millj­ónir króna á mán­uði á árinu 2019. 

Her­mann Björns­son, for­stjóri Sjó­vá, fór úr því að vera með um 4,1 milljón króna á mán­uði í að vera með 4,2 millj­ónir króna og Orri Hauks­son, for­stjóri Sím­ans, hækk­aði um sam­tals 200 þús­und krónur á árs­grund­velli í launum og er með 4,6 millj­ónir króna í laun og hlunn­ind­i. 

Guð­mundur Krist­jáns­son var með um 3,8 millj­ónir króna á mán­uði í fyrra fyrir að vera for­stjóri Brim­. Hann er líka stærsti eig­andi og stjórn­ar­maður í félag­in­u. 

Guð­jón Auð­uns­son, for­stjóri Reita, fór úr 3,5 millj­ónum í 3,3 millj­ónir króna milli ára og Helgi S. Gunn­ars­son, for­stjóri Reg­ins, stóð nán­ast í stað með 3,4 millj­ónir króna á mán­uði.

Laun Sig­urðar Við­ars­son­ar, for­stjóra TM, lækk­uðu úr 4,6 millj­ónum króna í 4,3 millj­ónum króna á mán­uði í fyrra.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar