Forstjórar í Kauphöll voru með 4,7 milljónir á mánuði að meðaltali
Í Kauphöll Íslands ráða 20 karlar 20 félögum. Meðallaun þeirra í fyrra voru rúmlega sjö sinnum hærri en miðgildi heildarlauna landsmanna á árinu 2018.
Það voru vendingar í Kauphöll Íslands í fyrra. Alls skiptu átta af þeim 20 félögum sem skráð eru á aðallista hennar um mann í brúnni á árinu 2019. Í öll skiptin tók karlmaður við starfinu af karlmanni, enda eru allir forstjórar skráðra félaga á Íslandi karlmenn. Þannig hefur staðan verið frá því í ágúst 2016.
Síðasta ár var heilt yfir gott í Kauphöllinni. Tvö ný félög, Kvika banki og Iceland Seafood, bættust á aðallistann, heildarviðskipti voru samtals 612 milljarðar króna sem var veltuaukning upp á 21,3 prósent frá árinu 2018. Markaðsvirði allra skráðra hlutabréfa, líka í þeim fjórum félögum sem skráð eru á First North markaðinn, var 1.251 milljarðar króna í árslok 2018. Úrvalsvísitalan, sem er samansett úr gengi þeirra tíu félaga sem hafa mestan seljanleika, hækkaði um 31,4 prósent.
Bréf alls 13 félaga hækkuðu á árinu og bréf í tveimur til viðbótar lækkuðu undir eitt prósent. Þau félög sem fóru verst út úr árinu og lækkuðu umtalsvert voru Hagar (um 6,0 prósent), Sýn (um 16,3 prósent), Eimskip (um 16,9 prósent) og Icelandair Group, sem lækkaði mest allra eða um 21,2 prósent.
Þessi staða hefur breyst hratt í ár. Einungis tvö félög hækkuðu í verði á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020. Annað er smásölurisinn Hagar. Hitt er leigufélagið Heimavellir, sem er í yfirtökuferli. Öll önnur félög hafa lækkað í verði. Tvö, Arion banki og Eimskip, hafa misst rúmlega þriðjung af markaðsvirði sínu og eitt, Icelandair, hefur rúmlega helmingast í verði.
Svipað meðaltal og í fyrra
Meðaltal launa forstjóra í Kauphöllinni lækkuðu lítillega milli áranna 2018 og 2019. Þau voru 4,8 milljónir króna árið 2018 en 4,7 milljónir króna í fyrra, samkvæmt samantekt Kjarnans á upplýsingum um launagreiðslur úr ársreikningum allra félaganna 20. Árið 2017 voru þau líka 4,7 milljónir króna þannig að meðallaunin hafa haldist nokkuð jöfn síðastliðinn þrjú ár. Til samanburðar má nefna að miðgildi heildarlauna á Íslandi var 632 þúsund krónur árið 2018. Það þýðir að helmingur þjóðarinnar var með laun undir þeirri tölu á mánuði. Meðallaun forstjóranna eru því næstum 7,5föld miðgildislaunin.
Langhæstu launin hafði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, en mánaðarlaun hans voru 12,3 milljónir króna í fyrra. Það er 2,5 milljónum krónum meira en hann hafði á mánuði árið áður. Marel hækkaði langmest allra félaga á árinu 2019, eða um 65,9 prósent. Markaðsvirði félagsins í lok árs var 473,4 milljarðar króna. Ekkert annað félag í Kauphöllinni kemst nálægt því að vera svo verðmætt.
Í öðru sæti eru forstjórar smásölurisanna sem skráð eru á markað, Eggert Þór Kristófersson hjá Festi og Finnur Árnason hjá Högum. Þeim voru báðir með 6,1 milljón krónur á mánuði í laun. Vert er að taka fram að launakjör Finns eru fyrir rekstrarárið 2018/2019, en Hagar eru með annars konar uppgjörsár en önnur félög. Það hefst 1. mars, ekki 1. febrúar. Bæði Eggert og Finnur voru með 6,1 milljón krónur í mánaðarlaun á síðustu heilu birtu rekstrarárum félaganna sem þeir stýra. Festi rekur meðal annars bensínstöðvanet N1 og Krónuna á meðan að Hagar reka meðal annars Olís-stöðvarnar og Bónus-verslanirnar.
Heildarlaun Eggerts hækkuðu um eina milljón króna milli ára og innihalda regluleg laun, hlunnindi og árangurstengd laun. Laun og hlunnindi Eggerts stóðu nánast í stað milli ára en árangurstengd laun hækkuðu um tólf milljónir króna milli ára. Laun Finns hækkuðu um 200 þúsund krónur á mánuði að meðaltali.
Hinir sem hækkuðu
Laun Garðar Hannesar Friðjónssonar, forstjóra Eikar fasteignafélagsins hækkuðu úr rúmlega 3,1 milljónum króna að meðaltali á mánuði 2018 í 3,6 milljónir króna í fyrra. Þá hækkuðu laun Helga Bjarnasonar, sem stýrir VÍS, úr 4,4 milljónum króna í tæplega 5,3 milljónir króna milli ára.
Finnur Oddsson sem stýrir Origo fékk líka væna launahækkun, en meðallaun hans á mánuði fóru úr fjórum milljónum króna árið 2018 í 5,1 milljón króna í fyrra. Það er launahækkun upp á 27,5 prósent.
Þá er Marinó Örn Tryggvason, sem tók við starfi bankastjóra Kviku banka í byrjun júní í fyrra, með umtalsvert hærri meðallaun á mánuði en fyrirrennari hans Ármann Þorvaldsson, sem ákvað að færa sig til innan bankans og sinna öðrum störum sem fælu ekki í sér jafn miklar stjórnunarlegar skyldur í fyrrasumar. Ármann hafði verið með 3,5 milljónir króna á mánuði en meðallaun Marinós voru 4,4 milljónir króna á mánuði, eða 26 prósent hærri.
Þrátt fyrir að gengi Sýnar hafi ekki verið sérstakt um langt skeið, og markaðsvirði félagsins einungis um níu milljarðar króna, þá eru laun Heiðars Guðjónssonar, sem tók við forstjórastarfinu í apríl í fyrra, hærri en fyrirrennara hans. Árið 2018 hafði Stefán Sigurðsson 3,8 milljónir króna að meðaltali í laun en meðallaun Heiðars í fyrra voru 4,4 milljónir króna á mánuði.
Bankastjóralaunin lækkuðu umtalsvert
Forstjóralaunin lækka sums staðar verulega milli ára. Þannig var Höskuldur Ólafsson með 6,2 milljónir króna í laun á mánuði fyrir að gegna starfi bankastjóra Arion banka árið 2018. Hann lauk störfum fyrir bankann snemma árs í fyrra og Benedikt Gíslason tók við starfinu í byrjun júlí. Mánaðarlaun hans voru 4,7 milljónir króna á síðasta ári. eða 76 prósent af því sem Höskuldur hafði.
Þess má þó geta að Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, sem var ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion banka í fyrra og hóf störf 5. september, var að meðaltali með hærri laun en bankastjórinn, en alls fékk hann greiddar 22,5 milljónir króna í fyrra fyrir tæplega fjögurra mánaða störf. Það þýðir að meðallaun hans á mánuði voru um 5,6 milljónir króna. Vert er að taka fram að Ásgeir starfaði líka sem framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs Arion banka frá 26. september samhliða aðstoðarbankastjórastöðunni.
Forstjóralaunin hjá Eimskip lækkuðu enn meira á milli ára. Gylfi Sigfússon, sem var sagt upp síðla árs 2018, hafði verið með 6,5 milljónir krónur á mánuði í laun. Vilhelm Már Þorsteinsson, sem tók við starfi hans í lok janúar 2019, var hins vegar með 3,9 milljónir króna á mánuði, eða 60 prósent af því sem Gylfi hafði fengið greitt.
Laun forstjóra Icelandair hafa líka lækkað umtalsvert. Björgólfur Jóhannsson hafði verið með 5,7 milljónir króna á mánuði, en hann hætti í lok ágúst 2018. Bogi Nils Bogason, sem var ráðinn formlega sem eftirmaður hans í desember 2018, var með 4,6 milljónir króna í fyrra. Þann fyrirvara verður þó að setja á laun forstjóra Icelandair að þau innihalda líka viðbótarframlag í lífeyrissjóði, en hjá flestum öðrum forstjórum í Kauphöllinni bætast slíkar greiðslur við launin. Bogi samþykkti auk þess í síðasta mánuði að lækka laun sín um 30 prósent vegna þess ástands sem nú ríkir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Frá því var greint á sama tíma og Icelandair sagði upp 240 manns og setti 92 prósent eftirstandandi starfsmanna á hlutabætur.
Laun forstjóra Skeljungs lækkuðu líka milli ára. Hendrik Egholm, sem hætti í júlí 2019, hafði verið með 4,8 milljónir króna í mánaðarlaun árið 2018 en Árni Pétur Jónsson, sem tók við forstjórastöðunni um miðjan ágúst í fyrra, fær 3,8 milljónir króna á mánuði.
Þeir sem stóðu nokkurn veginn í stað
Lægstu laun allra forstjóra í Kauphöllinni er hjá Heimavöllum, sem nú eru í miðju yfirtökutilboði. Guðbrandur Sigurðsson var með 2,9 milljónir króna í mánaðarlaun á árinu 2018 en hann hætti störfum 1. apríl í fyrra. Við tók Arnar Gauti Reynisson og var hann með sömu mánaðarlaun á síðasta ári. Hann er eini forstjórinn í Kauphöll Íslands sem var með undir þremur milljónum króna á mánuði í laun. Sá sem er honum næstur er Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, sem var með 3,2 milljónir króna á mánuði á árinu 2019.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, fór úr því að vera með um 4,1 milljón króna á mánuði í að vera með 4,2 milljónir króna og Orri Hauksson, forstjóri Símans, hækkaði um samtals 200 þúsund krónur á ársgrundvelli í launum og er með 4,6 milljónir króna í laun og hlunnindi.
Guðmundur Kristjánsson var með um 3,8 milljónir króna á mánuði í fyrra fyrir að vera forstjóri Brim. Hann er líka stærsti eigandi og stjórnarmaður í félaginu.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, fór úr 3,5 milljónum í 3,3 milljónir króna milli ára og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, stóð nánast í stað með 3,4 milljónir króna á mánuði.
Laun Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, lækkuðu úr 4,6 milljónum króna í 4,3 milljónum króna á mánuði í fyrra.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi