„Á hvaða plánetu eru þeir?“ – Boris Johnson í vanda vegna ráðgjafa sem braut útgöngubann
Dominic Cummings, hinn umdeildi en óumdeilanlega áhrifaríki, ráðgjafi Boris Johnson virðist hafa brotið gegn útgöngubanni á sama tíma og bresk stjórnvöld sögðu öllum þegnum: „Þið verðið að vera heima.“ Gríðarlegur þrýstingur er á Johnson að reka Cummings.
Þann 23. mars ávarpaði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bresku þjóðina. Tilgangurinn var að tilkynna um að nær algjört útgöngubann tæki gildi í landinu þá þegar. Fólk í Bretlandi átti vera heima, með örfáum undantekningum. Einungis tveir mega koma saman á almannafæri, nema þeir búi á sama heimili. „Þið verðið að vera heima,“ sagði forsætisráðherrann.
Íbúar í Bretlandi áttu einungis fara út til þess að versla helstu nauðsynjavörur, eins sjaldan og unnt er. Einnig mátti fólk fara út að hreyfa sig einu sinni á dag, en þá einsamalt eða með öðrum sem búa á sama heimili.
„Þú átt ekki að hitta vini. Ef vinir þínir biðja þig um að hitta sig, þá ættir þú að segja nei,“ sagði Johnson og bætti við að ef fólk færi ekki að reglum hefði lögregla heimild til þess að beita sektum eða til þess að leysa upp samkomur.
Flest dauðsföll í Evrópu
Þetta var fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan og frá þeim tíma hefur COVID-19 faraldurinn farið illa með breskt samfélag. Staðfest greind smit þar hafa verið um 260 þúsund og tæplega 37 þúsund manns hafa látist í ástandinu. Það er hæsta dánartala í Evrópu og sú næst hæsta í heiminum, á eftir Bandaríkjunum.
Bretar hafa fært miklar fórnir til að reyna að ná tökum á faraldrinum. Flestir hafa hlýtt skilaboðum stjórnvalda og haldið sig heima. Sleppt því að hitta vini og ættingja. Farið að öllu með gát þangað til að stjórnvöld hafa gefið meldingar um annað.
Þess vegna er mjög útbreidd og almenn bræði í bresku samfélagi yfir framferði Dominic Cummings, helsta pólitíska ráðgjafa Boris Johnson forsætisráðherra.
Umdeildur maður fer í heimsókn til foreldra sinna í útgöngubanni
Cummings er afar umdeildur í Bretlandi. Hann stýrði baráttu útgöngusinna í Brexit-deilunni með þeim árangri að þeir sigruðu hana. Undanfarin misseri hefur hann svo verið helsti pólitíski ráðgjafi Boris Johnson sem hefur unnið hvern pólitískan sigurinn á fætur öðrum fram að COVID-faraldrinum. Fyrst varð hann forsætisráðherra og nýr formaður Íhaldsflokksins í fyrrasumar og svo vann hann stórsigur í þingkosningum sem fram fóru í desember síðastliðnum. Helsta baráttumál Johnson og Cummings var sem fyrr að klára útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem hefur ekki gengið snuðrulaust fyrir sig frá því að hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016.
Annað hvort 27. eða 28. mars, skömmu eftir að Johnson, sem sjálfur var um tíma í bráðri lífshættu eftir að hafa smitast af COVID-19, flutti ávarpið þar sem hann sagði Bretum að vera heima þá ákvað Cummings að ferðast rúmlega 400 kílómetra, frá London til Durham þar sem foreldrar hans búa, með eiginkonu sinni og ungu barni. Þetta gerði hann þrátt fyrir að hjónin væru bæði með einkenni sem svipaði til COVID-19 sjúkdómsins. Bresku dagblöðin The Guardian og Daily Mirror opinberuðu ferðalagið nýverið.
Cummings hefur gefið þær skýringar að hann hafi farið í ferðalagið með hagsmuni barnsins í huga. Tilgangurinn hafi verið sá að ef hann eða eiginkona hans myndu veikjast alvarlega þá gætu foreldrar hans séð um það. Þegar blaðamenn sátu fyrir Cummings fyrir utan heimili hans á laugardag þá sagðist hann hafa hagað sér bæði „skynsamlega og löglega.“
Þau ummæli hafa fallið í grýttan jarðveg víða, enda fjölmargir Bretar sem voru í þeirri stöðu að hafa getað þegið hjálp nánustu ættingja við umönnun barna sinna á meðan að þeir tókust á við veikindi í faraldrinum, en sóttu hana ekki vegna þess að stjórnvöld höfðu sagt þeim að halda sig heima.
Það var svo ekki til að bæta úr skák þegar vitni gáfu sig fram og sögðust hafa séð Cummings og eiginkonu hans tvívegis utan heimilis foreldra hans í apríl. Í fyrra skiptið í Durham snemma í mánuðinum og í hið síðara við Barnard Castle, sem er vinsæll ferðamannastaður í útjaðri Durham þann 12. apríl.
Tveimur dögum síðar, 14. apríl,var Cummings kominn aftur til London og var myndaður þar. Vitni hefur síðan sagt að það hafi séð hann á almannafæri í nálægð við Durham fimm dögum síðar, eða 19. apríl. Cummings virðist því hafa ferðast fram og til baka milli London og Durham á tímum þar sem hið mjög stranga útgöngubann var í gildi.
Forsætisráðherra lýsir yfir stuðningi
Gríðarlegur þrýstingur hefur skapast á að Cummings verði rekinn. Það megi ekki vera þannig að stjórnvöld láti eina tegund reglna gilda um alla þjóðina, en aðrar um helsta ráðgjafa forsætisráðherra. Sérstaklega þegar um er að ræða jafn víðtæka frelsissviptingu og rót á daglegu lífi íbúanna og raun ber vitni vegna COVID-aðgerða.
Johnson ræddi við Cummings í eigin persónu um helgina og ákvað svo, á stöðufundi stjórnvalda vegna COVID-faraldursins í gær, að lýsa yfir stuðningi við hann. Forsætisráðherrann taldi ráðgjafa sinn hafa fylgt innsæi sínu sem faðir og hegðað sér í samræmi við settar reglur. Sumt sem sagt hefði verið í fréttum væri ekki satt, en Johnson tiltók þó ekki hvað það væri.
Þegar The Guardian og Daily Mail eru sammála
Janine Gibson, aðstoðarritstjóri Finacial Times, tísti í gær að einhver mjög háttsettur í ríkisstjórn Tony Blair á sínum tíma hefði sagt henni að ef Daily Mail og The Guardian séu sammála um eitthvað, þá ætti viðfangið að gefast samstundis upp. Daily Mail þykir enda mjög hallt undir stefnu Íhaldsflokksins og The Guardian draga taum Verkamannaflokksins.
Á forsíðu the Daily Mail í dag segir einfaldlega: „Á hvaða plánetu eru þeir?“ Þar er átt við Johnson og Cummings. Í tilvísun í leiðaraskrif blaðsins á forsíðunni segir að Cummings hafi á mjög skýran hátt brotið gegn útgöngubanninu. „Með því að gera það þá hefur hann gefið hverri einustu sjálfselsku manneskju leyfi til að leika sér að heilsu almennings.“ Í kjölfarið er farið fram á afsögn Cummings. Fáist hún ekki þurfi Johnson að reka hann og svo er vitnað í fræg ummæli forsætisráðherrans um Brexit, þar sem hann sagði ítrekað „no ifs or buts“, það þyrfti að klára þá útgöngu.
Þegar við bætist að fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan, sem hefur þótt afar hliðhollur Íhaldsflokknum undanfarin misseri og stýrir vinsælum sjónvarpsþætti þar í landi, lýsti því yfir að hann teldi það „helvítis svívirðu“ (e. fucking disgrace) að Johnson hefði ekki rekið Cummings. Morgan hefur einnig sagt að hann muni brjóta gegn útgöngubannsreglum til að heimsækja aldraða foreldra sína ef forsætisráðherrann endurskoðar ekki ákvörðun sína.
I'd have made this headline plural. pic.twitter.com/deLkhFF9AE
— Piers Morgan (@piersmorgan) May 25, 2020
Keir Starmer, sem nýverið tók við sem leiðtogi Verkamannaflokksins, tísti að Johnson hefði fallið á prófinu með því að lýsa yfir stuðningi við Cummings. „Það er móðgun við þá fórn sem breskur almenningur hefur fært að Boris Johnson skuli ekki ætla að gera neitt í máli Cummings,“ skrifaði Starmer.
This was a test of the Prime Minister and he has failed it.
— Keir Starmer (@Keir_Starmer) May 24, 2020
It is an insult to sacrifices made by the British people that Boris Johnson has chosen to take no action against Dominic Cummings.
Verkamannaflokkurinn hefur auk þess látið útbúa auglýsingar sem fara nú sem eldur um sinu um samfélagsmiðla þar sem að athæfi Cummings er sett í samhengi við orð helstu stjórnarherra undanfarið.
There cannot be one rule for Dominic Cummings and another for the British people. pic.twitter.com/ji9m9vg3WS
— The Labour Party (@UKLabour) May 24, 2020
Ríkisstjórn Johnson hittist síðar í dag til að ræða frekari tilslakanir á útgöngubanninu sem verið hefur við lýði í Bretlandi. Þar verður staða Cummings án efa rædd á ný og hvort þessi umdeildi áhrifamaður sitji áfram í hirð forsætisráðherrans mun að öllum líkindum ráðast þar.
Lestu meira:
-
6. janúar 2023Mögulega mest smitandi afbrigðið hingað til
-
3. janúar 2023Segja skimun kínverskra ferðamanna ekki byggða „á neinum vísindalegum rökum“
-
15. desember 2022Segir aðstoðarmann Ásmundar Einars hafa „staðfest“ að ÍBV ætti að fá 100 milljóna styrk
-
5. nóvember 2022Bóluefnakapphlaupið kostaði 1,3 milljónir manna lífið
-
19. júlí 2022Takmarkanir myndu þjóna takmörkuðum tilgangi
-
12. júlí 2022Skjátími barna rauk upp í faraldrinum
-
2. júlí 2022Alls fóru 0,0002% af fjármagni í COVID-viðbragðsáætlunum í að uppræta kynbundið ofbeldi
-
29. júní 2022Staðfest: Köttur smitaði manneskju af COVID-19
-
3. júní 2022Ferðaskrifstofur fá áratug til þess að greiða lánin frá Ferðaábyrgðarsjóði til baka
-
12. maí 2022„Þarf að huga betur að mér sjálfum og minni fjölskyldu“