Það þarf að hlusta á ákall um breytingar – og ekki „tipla á tánum í kringum þetta gamla“
Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirséð, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða að hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Næstur er formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Ákallið frá samfélaginu fellst í því að breyta raunverulega vinnubrögðunum sem viðhöfð eru á Alþingi. Það er sama hvaðan gott kemur. Ég bind vonir við einmitt þetta; að við skorumst ekki lengur undan því að fylgja því sem þarf að breyta inni á þingi og í þessum stóru mikilvægu kerfum okkur sem hafa áhrif á þjóðarsálina. Því fólkið hefur skoðun á því að það þurfi meira réttlæti, sanngirni og gagnsæi í öll þessi kerfi okkar; landbúnaðinn, sjávarútveginn og menntakerfið.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um þær áherslur sem henni finnst mikilvægt að einblína á á næstu misserum og árum.
Hún segist skynja þetta ákall frá samfélaginu – sem sé hvatning fyrir fólk í stjórnmálum að sýna meira hugrekki gagnvart sérhagsmunum og fleira – að það verði eitthvað til þess að breytast og að það verði breyting á næstunni.
Þorgerður Katrín segir að meginþungi næsta kjörtímabils verði að takast á við efnahagsmálin, samhliða þeim verkefnum sem fylgja COVID-19. Hún segir að margt þurfi að laga þegar þessu kórónuveirutímabili verður lokið. „Við megum ekki skorast undan stórum áskorunum,“ segir hún og bendir á að núna sé meginverkefnið að komast í gegnum veiruna en eftir það verði hægt að ræða almenna hugmyndafræði um uppbyggingu efnahagskerfisins.
Þegar hún er spurð út í aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins segir hún að á heildina litið hafi þær verið skynsamar en að í aðstæðum sem þessum megi þó alltaf gera ráð fyrir mistökum. „Og mistökin geta einkennst af yfirsjón annars vegar og hins vegar að menn eru kannski að láta sína eigin flokksbundnu hugmyndafræði þvælast fyrir. Þannig að þetta er sambland af tvennu; annars vegar mannleg yfirsjón sem í miklu harki og hraða og spennu og álagi og óvissu sem gerist alltaf. Hins vegar hefði verið hægt að koma í veg fyrir slíkt með því að hafa meira samstarf – en það var bara pólitísk ákvörðun,“ segir hún.
Hún gagnrýnir það að ríkisstjórnin hafi ákveðið að hafa ekkert samstarf en víða annars staðar í heiminum hafi þessu verið öðruvísi farið.
„Það sem er svo mikill lykill í svona krísum er að reyna að ná raunverulegu samstarfi, ekki bara yfirborðslegri samstöðu heldur raunverulegri til þess að koma í veg fyrir óþreyju og reiði – því reiðin er þarna handan við hornið ef við gætum ekki ekki að því að þegar atvinnuleysi fer enn meira af stað þá verður óvissan mikil fyrir stóran hóp af fólki sem er ekki að fá nægilega skýr svör.“
Þorgerður Katrín bendir á að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi byrjað samstarf sitt með fögur fyrirheit um það að efla þingið og samstarfið þá hafi ekkert orðið úr því. Hún segist viðurkenna það að hún hafi búist við meiru af ríkisstjórninni er varðar þessi mál. Þorgerður Katrín segist þó alls ekki vilja dvelja við þá gagnrýni eða velta sér of mikið upp úr því.
Einkaframtakið verður að vera hluti af lausninni
Þess vegna skipti það máli að það séu sem flestir á sömu blaðsíðunni – og ekki síst á hinu pólitíska litrófi. „Þess vegna höfum við í Viðreisn lagt mikla áherslu á það að nálgast þetta með því að segja: Ok, gott og blessað. Við ætlum að gera það sem við getum gert og við höfum hugsað það þannig: Hvernig getum við orðið að liði?
Síðan sé það alveg ljóst að hugmyndafræðileg nálgun flokkanna með mismunandi pólitískan bakgrunn á verkefnið hefur líka leitt til mistaka.“
Sem dæmi tekur hún samskipti Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. „Þarna er pólitíkin komin með málið í fangið. Alma, Þórólfur og Víðir kveðja okkur á mánudeginum og tveimur dögum seinna er ríkisstjórnin komin með málið og ætlar að sýna fram á að Íslendingar geti gert þetta sem best – en það bara klikkar. Grundvöllurinn af því er meðal annars andúð Vinstri grænna á öllu því sem heitir einkaframtak og þau vilja helst ekki ræða þau mál. Ég held aftur á móti að einkaframtakið hafi skilað sínu í þessu og gott betur. Einkaframtakið verður að vera hluti af lausninni.“
Hugmyndafræðin má ekki þvælast fyrir
Þorgerður Katrín bendir á að nú séu farnir að myndast langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu og á Landspítalanum. „Það þarf með einhverjum hætti að létta á álaginu og það verður ekki gert nema í samvinnu við einkaaðila. Og til þess að fólk fái líka lausn við sínum þjáningum, hvort sem það er í liðskiptaaðgerðum eða í rannsóknum og eftirliti. Þarna má hugmyndafræðin ekki þvælast fyrir því að fólk fái svör.“
Að hennar mati er þetta eitthvað sem hefði mátt gera ráð fyrir. „En í heildina tel ég að margt hafi verið mjög vel gert. Ég hefði samt viljað sjá meira. Við í Viðreisn vildum fara einfaldari leiðir. Við vildum nýta þau tæki sem voru fyrir eins og til dæmis að lækka skatta tímabundið. Að lækka tryggingargjald tímabundið. Við hefðum farið strax í að stórefla sjóðina og svo viljum við sjá mun meiri framkvæmdir.“
Hún bendir á að niðursveifla hafi þegar verið hafin fyrir COVID-19 faraldurinn og segir hún að ríkissjóður hafi verið orðinn ósjálfbær fyrir veiruna. Hún telur enn fremur að ríkisstjórnin hafi ekki verið reiðubúin þegar áfallið skall á. „Það kom mér á óvart að þau skildu ekki vera tilbúin í ljósi þess að niðursveiflan var hafin. Þau máttu gera sér grein fyrir því.
Við í Viðreisn bentum líka á að ríkisstjórnin væri að eyða um efni fram. Hagvöxturinn var ekki í samræmi við útgjaldaþenslu ríkissjóðs og við erum ekki lengur með þrotabú föllnu bankanna sem borga allt. Það var stóri lottóvinningurinn eftir að við fengum og gátum greitt svona hratt niður ríkisskuldir. Af því að þar komu þessar risagreiðslur inn til okkar, í gegnum þrotabúin.“
Spennandi að vera í pólitík núna
Þorgerður Katrín segir þetta jafnframt vera ótrúlega áhugaverða tíma sem við lifum nú. „Það er spennandi að vera í pólitík núna – og ég spái því ekki síst í haust að þá muni hugmyndafræðilegar pólitískar línur skerpast.
Ég held að þegar fram líður á árið þá munum við sem elskum stjórnmál og höfum áhuga á þeim sjá hversu áhugaverðir tímar séu framundan. Og það er mjög stutt í ákveðna kontrasta í samfélaginu sem við megum ekki hunsa eða líta fram hjá. Því þeir munu líka vera vegvísar inn í framtíðina – það er hvernig framtíð við ætlum að skapa og móta eftir veiruna.“
Þessa kontrasta má meðal annars sjá í sjávarútvegsmálum, að sögn Þorgerðar Katrínar. Hún bendir á að ekki fyrir svo mörgum árum hafi langflestir verið sammála um svokallaða samningsleið en hún byggir á því að ríkið geri samninga við núverandi handhafa fiskveiðiheimilda um veiðiheimildir gegn gjaldi.
„Samningsleiðin er lykilatriði til þess að rétta af þetta óréttlæti sem við höfum nú – það er að við gerum tímabundna samninga.“ Þorgerður Katrín telur að auðlindaatkvæðið sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að setja í stjórnarskrá sé handónýtt vegna þess að ríkisstjórnin sé tvisvar búin að fella á þessu kjörtímabili tilllögur um tímabundna samninga. „Þar er enginn vilji fyrir tímabundna samninga og þess vegna þarf að skrifa þetta beint inn í stjórnarskrána. Sáttin sem forsætisráðherra vill ná um þetta auðlindaákvæði er sátt við Sjálfstæðisflokkinn, er sátt við Framsóknarflokkinn og er sátt við Miðflokkinn – en það er ekki sátt við þjóðina eða þingið.“
Þurfum ekki að kollvarpa samfélaginu – en við þurfum að uppfæra
Þorgerður Katrín telur lausn þessa mál vera eitt skref í áttina að því að fara „sáttari inn í nýtt samfélag sem við þurfum að uppfæra. Við þurfum ekki að kollvarpa því en við þurfum að uppfæra það – og þá þarf pólitískan kjark en ekki stjórnmálafólk sem dansar í kringum gömlu sérhagsmunina og láti þá alltaf lifa af og verða óbreytta frá kynslóð til kynslóðar.“
Að hennar mati þarf næstu misseri og ár fólk í pólitík sem er algjörlega frjálst. „Við þurfum fólk sem raunverulega meinar það þegar það talar um gagnsæi og um að miðla upplýsingum og situr ekki á skýrslum rétt fyrir kosningar. Þess vegna þarf að vera þungi og alvara af okkar hálfu sem erum í stjórnmálum því við getum breytt hlutunum. Það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum þetta gamla. Það gamla varð til út af ákveðinni ástæðu og allt í góðu með það en í dag er annar tími sem gerir kröfur og setur ábyrgð á herðar okkar sem eru í stjórnmálum að breyta – og uppfæra.“
Þarf að gera miklu meira í nýsköpun en nú er gert
Þorgerður Katrín dregur talið að nýsköpuninni en hún hefur verið áberandi í umræðunni í og eftir faraldurinn. „Nýsköpun er algjört lykilatriði til þess að við lendum ekki í djúpri niðursveiflu þegar næst verður kreppa, því hún mun koma. Það þarf að gera miklu meira en nú er gert. Og það þarf að ganga þvert yfir ráðuneytin. Hvað geta ráðuneytin öll gert til að taka þátt svo nýsköpunin geti lifað og dafnað?“ spyr hún.
Hún telur enn fremur að Íslendingar þurfi að efla hugvitið miklu meira og það sé gert til dæmis með því að uppfæra rannsóknar- og menntakerfið og sameina háskóla.
„Af því að við erum ekki eina landið sem dettur það í hug að fara að veðja meira á hugvitið. En það þarf að gera eitthvað meira en eitthvað mélkisulegt og setja milljónir hér og milljónir þar. Það þarf að fara í uppstokkun – og þessa uppfærslu á kerfinu. Vegna þess að grunnstoðirnar eru þarna en það þarf aðeins að ýta við þeim svo aftur komi líf í þetta.“
Eigum ekki að óttast skiptar skoðanir
Þorgerður Katrín segist vera sannfærð um að með enn öflugri háskólum þá nái Ísland, með allt þetta landsvæði og landbúnað – þar sem stórkostleg tækifæri séu – að komast á góðan stað. Þá þurfi að taka út milliliðina og einblína á bændur og neytendur á grunni umhverfis- og nýsköpunarsjónarmiða. Ekki á þeim grunni að milliliðirnir vaxi og dafni.
Þá þurfi enn fremur að tengja nýsköpunina við allt annað og segir hún að það muni kosta pólitíska umræðu og ágreining. „Ég held að við eigum ekki að óttast skiptar skoðanir, alls ekki. Við eigum frekar að hvetja til umræðu og ég fagna því að pólitískar línur fari að skerpast.“
Hún segir að ákveðin öfl á Íslandi vilji nýta tækifærið og loka landinu enn meira – og jafnvel herða „á ákveðinni umgjörð“. Á hinn bóginn kalli allur heimurinn á meira samstarf og samvinnu. „Við verðum þess vegna að þora að vera framsækin og láta í okkur heyra,“ segir hún.
Breytingar til frambúðar
Varðandi ástandið sem nú er uppi vegna COVID-19 faraldursins þá telur Þorgerður Katrín að við munum sjá ákveðnar breytingar til frambúðar.
„Tæknilegar breytingar eru og verða miklar. Við erum að taka risaskref í þróun innan vinnumarkaðarins út frá tækni og ég fagna því sérstaklega,“ segir hún.
Hvað viðkemur mannlegum gildum þá telur hún að samskipti verði dýrmætari og muni fólk kunna að meta þessi samskipti, nánd með öðrum hætti en áður. „Bara það að fá að vera í kringum fólk það gerir okkur að manneskjum. Að geta verið við með fólkinu okkar – og þráin eftir að umgangast fólk gerir mann þakklátan að fá að vera innan um aðra. Að fá að snerta, knúsast og kyssast.“
Þorgerður Katrín sér fyrir sér enn fleiri breytingar á næstu árum og þá sérstaklega í umhverfis- og loftslagsmálum. Þá bendir hún á að fólk almennt sé mikið meira meðvitað um umhverfið og þessi grænu skref sem hægt sé að taka í pólitík.
„Mér finnst við enn hafa allt of metnaðarlaus markmið í loftslagsmálum miðað við til dæmis Evrópusambandið og aðrar þjóðir. Getum við kannski náð þeim markmiðum sem stjórnvöld settu fyrir 2030 fimm árum fyrr? Getum við sameinast um það að ýta okkur enn frekar inn í þær breytingar sem við þurfum á að halda í umhverfismálum?“ spyr hún í framhaldinu.
Það er stjórnmálanna að breyta hlutunum
Þorgerður Katrín hvetur stjórnvöld að taka skref til móts við ákallið úti í samfélaginu varðandi hinar ýmsu breytingar á kerfunum.
„Reynið að sýna einhverja ábyrgð. Við getum tekið pólitískar rökræður og það er mikilvægt að gera það einmitt. Það er stjórnmálanna að breyta hlutunum og leyfa sér að vera laus undan oki hagsmunatengsla. Þess vegna þarf gagnsæi en aðgangur að upplýsingum eykur traust.“
Þorgerður Katrín segir að framtíðarsýn hennar sé einföld og skýr. „Ein mesta áskorunin verður innan stjórnmálanna og við ætlum ekki að skorast undan henni. Þess vegna munum við einblína á þessi mál sem ég hef þegar nefnt og alþjóðasamstarfið sem við munum leggja gríðarlega áherslu á – sem og nýsköpun.“
Hún bendir á að ferðaþjónustan sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og að hún muni koma aftur. „Hún hjálpaði okkur að komast í gegnum síðustu ár en við gleymdum nýsköpuninni. Við klikkuðum á henni síðustu 10 árin.“
Nú vakni ríkisstjórnin upp við vondan draum í COVID-19. „Við munum þurfa á sterkri ferðaþjónustu að halda í framtíðinni, það er ekki spurning og við munum þurfa að efla þjónustugeirann aftur en þá verður alþjóðageirinn líka að fylgja með. Þar munum við líka þurfa að halda áfram að tala um krónuna; stöðugleika og fyrirsjáanleika. Hætta þessari rússíbanareið sem við erum í.“
Þorgerður Katrín segist vera bjartsýn á framhaldið – að það hafi rofað til í stjórnmálunum og ekki síður úti í samfélaginu. Fólk hafi gert sér grein fyrir því að suma hluti sé hægt að gera sem áður þóttu ómögulegir. „Þetta þarf ekki að vera svona flókið, eins og það að leggja áherslu á nýsköpun, menningu og listir. En líka að taka risaskref í umhverfismálum. Þetta er ekkert flókið,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði