Reykjavíkurstjórn líklegasti valkosturinn við sitjandi ríkisstjórn
Stjórnmálaflokkarnir vega nú og meta hvenær þeir eru líklegir til að hámarka árangur sinn í kosningum. Og eru fyrir nokkuð löngu síðan farnir að máta sig í næstu ríkisstjórn. Þar virðast aðallega vera tveir skýrir valkostir á borðinu eins og er, þótt pólitíkin sé ólíkindatól og geti breyst hratt. Kjarninn skoðaði stöðuna eins og hún lítur út í dag og birtir niðurstöðuna í tveimur fréttaskýringum. Þessi er sú síðari.
Alþingiskosningar frá bankahruni hafa allar verið haldnar í kjölfar mikilla pólitískra tíðinda. Í febrúar 2020 stefndi í að þær næstu myndu verða undantekningin frá þeirri reglu. Kórónuveiran og efnahagslegar afleiðingar hennar breyttu þeirri stöðu snögglega. Og nú skyndilega komin, enn og aftur, fordæmalaus staða sem kallar á nýjar hugmyndir og nýja nálgun. Það ástand mun móta þingkosningarnar á næsta ári.
Þeir sem hafa horft með söknuði til þess 4+1 kerfis sem var við lýði hérlendis áratugum saman í íslenskum stjórnmálum hljóta eru flestir búnir að kveðja þann draum, og farnir að aðlaga sig að veruleika þar sem að minnsta kosti níu flokkar keppa um að komast að á Alþingi. Og að minnsta kosti sjö eru líklegir til að tryggja sig þangað inn. Í dag eru flokkarnir á þingi átta og hafa verið frá 2017. Í borgarstjórn Reykjavíkur, sem í var kosið 2018, eru þeir jafnmargir en ekki alveg þeir sömu.
Samfylkingin hafnar Sjálfstæðisflokknum
Ómögulegt er að mynda sterka tveggja flokka ríkisstjórn. Miðað við kannanir nú um stundir yrði líklega ómögulegt að mynda þriggja flokka stjórn, þar sem slíkt þyrfti að innihalda bæði Sjálfstæðisflokk og Samfylkinguna. Miðað við orð Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi flokksins í nóvember í fyrra, eru líkurnar á slíku samstarfi engar. Þar sagði hann í ræðu að Sjálfstæðisflokkurinn tróni ekki lengur yfir öllum hinum flokkunum. Sú staða kalli á að aðrir flokkar þurfi að bregðast við þessum nýja veruleika sem blasi nú við í íslenskum stjórnmálum. Logi sagði þetta vera sögulegt tækifæri fyrir Samfylkinguna til að fylkja saman því sem hann kallaði „umbótaöflunum í landinu“ og sýna að það væri til betri valkostur fyrir íslenskan almenning en núverandi ríkisstjórn.
Í umræðum á Alþingi um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan, sem fór fram í janúar síðastliðnum, sló hann svipaðan streng.
Þar sagði hann að tími væri kominn til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar og stjórna eftir eigin geðþótta. „Nú er kominn tími samstilltrar, djarfrar og víðsýnnar stjórnar, án Sjálfstæðisflokksins - fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.“
Þrír flokkar mynda kjarna „umbótaaflanna“
Þau „umbótaöfl“ sem Logi, formaður næststærsta stjórnmálaflokks landsins, er að biðla til eru auk Samfylkingarinnar flokkur Pírata og Viðreisn. Þessir þrír flokkar vinna mikið saman í stjórnarandstöðu, áherslur þeirra skarast umtalsvert, allir flokkarnir eru með alþjóðasinnaðir og þeir deila því að vilja ráðast í kerfisbreytingar sem þeir sjá ekki að verði að veruleika með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Þar er sérstaklega horft til breytinga á stjórnsýslunni og í auðlindamálum. Miðað við þau samtöl sem Kjarninn hefur átt við lykilfólk úr öllum þessum flokkum þá er þetta hugmynd sem öllum hugnast ágætlega, þótt Viðreisn sérstaklega vilji ekki binda sig neinum flokkum fyrir kosningar sem stendur, heldur hafa alla möguleika opna ef miklar breytingar verða á fylgi flokka þegar talið verður upp úr kjörkössunum.
Í nýjustu könnun MMR var sameiginlegt fylgi þessara þriggja flokka 39,5 prósent. Í könnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið nokkrum dögum áður mældist fylgi þeirra 39,7 prósent. Í nýjustu könnun Gallup er það 36,1 prósent. Samfylkingin, Píratar og Viðreisn fengu samtals 28 prósent atkvæða í kosningunum 2017. Flokkarnir þrír hafa allir bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu og sú fylgisaukning hefur haldist nokkuð stöðug í kringum tíu prósentustig. Miðað við þann fjölda atkvæða sem samkvæmt könnunum fara til flokka sem mælast rétt svo eða vart inni á þingi þá gætu allt að tíu prósent atkvæða fallið niður dauð. Flokkarnir þrír geta átt von á því að fá 25 til 28 þingmenn. Þá þyrftu þeir einungis fjóra til sjö til viðbótar til að fá meirihluta.
Hefur fest sig í sessi sem næst stærsti flokkurinn
Eftir að hafa nánast þurrkast út í kosningunum 2016, þegar flokkurinn fékk einungis 5,7 prósent atkvæða, hefur Samfylkingin hægt og rólega náð vopnum sínum, þótt hún sé enn langt frá því að vera sá mótvægisturn við Sjálfstæðisflokkinn sem til stóð þegar hún var stofnuð, og hún var um tíma snemma á öldinni.
Haustkosningarnar 2017 reyndust mikil gjöf fyrir flokkinn, sem var kominn í mikinn fjárhagsvanda vegna þess að fjárframlög til hans skruppu gríðarlega saman í samræmi við hrun í fylgi, en í þeim fjölgaði þingmönnum hans úr einungis þremur í sjö og hann fór frá því að vera minnsti flokkurinn á þingi í að vera sá þriðji stærsti.
Samfylkingin mælist nokkuð stöðugt næst stærsti flokkur landsins í könnunum. Í síðustu könnun Zenter mældist fylgi flokksins 16,1 prósent, hjá MMR mælist það 16,3 prósent og hjá Gallup er það 14,9 prósent. Ef það yrði niðurstaða kosninga er ljóst að flokkurinn mun leika lykilhlutverk í því að reyna að mynda næstu „Reykjavíkurstjórn“. Viðmælendur Kjarnans innan flokksins eru allir á saman máli um að þangað stefni hugur hans, og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki verið feiminn við að segja það opinberlega. Í viðtali við Mannlíf í byrjun síðasta árs sagði hann til að mynda: „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“
Forystumál Samfylkingarinnar virðast vera nokkuð borðleggjandi eins og stendur. Logi, sem varð óvart formaður flokksins eftir afhroðið 2016, mun leiða flokkinn inn í næstu kosningar taki Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, ekki stökkið yfir í landsmálin. Dagur er umdeildur stjórnmálamaður, enda hefur honum tekist að koma sínum áherslum á þróun borgarmála frá því að hann kom inn í borgarstjórn árið 2002. Sú þróun hugnast pólitískum andstæðingum hans illa og mjög skýrar átakalínur hafa verið í borgarstjórn nánast allt frá því að R-listinn náði völdum þar 1994. Síðan þá hafa félagshyggjuflokkar farið með stjórn borgarinnar ef undanskilið er hluti kjörtímabilsins 2006 til 2010, þegar alls fjórir meirihlutar voru myndaðir.
Dagur er sterkasti stjórnmálamaður sem Samfylkingin á, og sá eini á meðal forvígismanna flokksins með sterka sigurhefð í reynslubankanum. Hann hefur hins vegar ítrekað sagt það á síðustu árum að hann hafi hvorki metnað til að verða formaður Samfylkingarinnar né í landsmálin. Í viðtali við Kjarnann 2014 sagðist hann til að mynda ekki sjá það gerast á næstu tíu árum hið minnsta.
Fyrir og eftir Birgittu
Píratar hafa markað sér sérstöðu í íslenskum stjórnmálum frá því að flokkurinn var stofnaður síðla árs 2012 utan um aukið gagnsæi í stjórnsýslu og verndun og eflingu borgaralegra réttinda. Pólitísk tilvera flokksins hefur verið rússíbanareið. Hann náði mönnum á þing 2013, komst í meirihlutastjórn í Reykjavík 2014 og mældist um tíma með um og yfir 40 prósent fylgi í könnunum árið 2016, í kjölfar þess að Panamaskjölin svokölluðu voru opinberuð.
Innan Pírata er svokallaður flatur strúktúr sem felur meðal annars í sér að enginn formaður er í flokknum, heldur framkvæmdaráð. Á þingi skiptast þingmenn flokksins á að veita honum forystu þar sem kallað er á slíkt í gangvirki þingsins.
Vaxtarverkir hafa fylgt þessum uppgangi. Um tíma fjölgaði flokksfélögum gríðarlega á skömmum tíma og virtist sem margir þeirra væru ekki sammála um mikið annað en að vera Píratar. Fyrir vettvang sem byggir á mikilli þátttöku grasrótar í öllum helstu ákvörðunum þá skapaði þetta ýmsar áskoranir. Þá er ótalin persóna Birgittu Jónsdóttur, sem var andlit flokksins árum saman og helsti talsmaður hans. Í raun óformlegur leiðtogi. Birgitta bauð sig ekki fram í síðustu þingkosningum en ljóst hafði verið lengi í aðdraganda þess að henni lynti ekki við flesta aðra kjörna fulltrúa Pírata.
Sá ágreiningur opinberaðist nokkuð skýrt fyrir um ári síðan þegar Birgitta ætlaði sér endurkomu í starfið með því að sækjast eftir sæti í trúnaðarráði Pírata. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins, hélt þá þrumuræðu þar sem hann sagðist hafa áralanga reynslu af því að kynnast því frá Birgittu, að henni væri ekki treystandi. „Hún grefur undan samherjum sínum ef hún sér af þeim ógn. Hún hótar samherjum sínum þegar hún fær ekki það sem hún vill. „Ég vona innilega að þessari tilnefningu verði hafnað.“ Birgitta hlaut ekki brautargengi, með afgerandi hætti, í kosningu sem fram fór í kjölfarið.
Meiri festa og stöðugleiki í fylgi
Undanfarin ár hefur tekist að mynda festu í tilveru Pírata. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson hafa skapað sér nafn með framgöngu sinni á þingi sem ofbýður pólitískum andstæðingum þeirra en hugnast mjög þeim sem styðja pólitíska vegferð Pírata.
Þetta endurspeglast í fylgi flokksins. Þegar gagnrýni á hann er mikil, til dæmis nýverið vegna formennsku Þórhildar Sunnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þá hefur fylgið tilhneigingu til að taka við sér. Eins og stendur mælist fylgi Pírata á bilinu 10,7 til 13,6 prósent í þremur síðustu könnunum. Minnst mælist það hjá Gallup en mest hjá Zenter, þótt að MMR sé ekki langt þar undan. Efri mörk þessara mælinga myndu þýða að Píratar myndu auka fylgi sitt um tæplega 50 prósent milli kosninga.
Viðmælendur Kjarnans innan raða Pírata segja markmiðið fyrir næsta kjörtímabil ljóst: Þeir ætla sér í ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn, eigi hún að verða að veruleika, getur ekki innihaldið Sjálfstæðisflokkinn vegna gagnkvæms óþols flokkanna tveggja á hvorum öðrum.
Búast má við því að flestir þingmenn Pírata bjóði sig áfram fram og að Þórhildur Sunna verði áfram helsti talsmaður þeirra. Flokkurinn er hluti af meirihlutasamstarfi í Reykjavík annað kjörtímabilið í röð sem gengur vel og ánægja er með á meðal allra flokka sem það mynda. Hann hefur því sýnt það á þeim vettvangi að Píratar eru stjórntækir, þótt ýmsir pólitískir andstæðingar haldi öðru fram.
Klofningsframboðið sem reis upp frá dauðum
Viðreisn var lengi í undirbúningi. Flokkurinn spratt upp úr óánægju hjá áhrifamiklum sjálfstæðismönnum með ákvörðun flokksins um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu yrði ekki dregin til baka nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú ákvörðun var kynnt í febrúar 2014. Fyrsti formlegi stefnumótunarfundur hins nýja stjórnmálaafls var haldinn 11. júní sama ár þótt Viðreisn hafi ekki verið formlega stofnuð sem stjórnmálaflokkur fyrr en í maí 2016, þegar ljóst var að kosningar færu fram þá um haustið vegna Panamaskjalana.
Benedikt Jóhannesson var kjörinn formaður flokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var í framvarðarsveit hans. Viðreisn fékk 10,5 prósent atkvæða í október 2016 og endaði á því að mynda skammlífustu meirihlutastjórn lýðveldistímann með gamla móðurflokknum og Bjartri framtíð, sem sprakk eftir tæpa átta mánuði.
Í aðdraganda kosninganna 2017 stefndi í að Viðreisn myndi mögulega deyja út. Þegar Benedikt hætti sem formaður í október 2017, og Þorgerður Katrín tók við, mældist fylgi flokksins 3,3 prósent. Viðreisn náði að halda sér inni á þingi í síðustu kosningum, fékk 6,7 prósent atkvæða og fjóra þingmenn, en tapaði rúmlega þriðjungi atkvæða sinna milli ára.
Ekkert einfalt svar
Viðreisn hefur mælst með nokkuð stöðugt fylgi í könnunum það sem af er kjörtímabilinu. Í síðustu könnunum Zenter og MMR mældist það slétt tíu prósent en aðeins meira hjá Gallup, eða 10,5 prósent. Því stefnir allt að óbreyttu í að Viðreisn nái þeim þingstyrk sem flokkurinn hafði eftir kosningarnar 2016 þegar þingmennirnir voru sjö.
Opinberlega þá hefur flokksforystan lítið gefið upp hvert hugur hennar stefnir hvað varðar stjórnarmyndun. Af samtölum við áhrifafólk innan flokksins á síðustu árum er þó ljóst að reynslan af stjórnarsamstarfinu 2017 situr í fólki. Ýmislegt má ráða í það að eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018 ákvað Viðreisn að mynda meirihluta í Reykjavík með Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum.
Fyrrverandi formaður flokksins, Benedikt Jóhannesson, er talinn mjög líklegur til að fara fram á ný í næstu kosningum. í apríl skrifaði hann stöðuuppfærslu á Facebook sem vakti mikla athygli þar sem hann sagði að þær stjórnarmyndunarviðræður sem hefðu gengið best eftir kosningarnar 2016 hafi verið þegar flokkur hans ræddu við Bjarta framtíð, Samfylkingu og Pírata. „Þar hefðum við náð fram flestum af okkar málum til umbóta í landbúnaði, sjávarútvegi og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópuumsóknina.“
Í umræðu um stöðuuppfærsluna sagði hann að það væri ekkert einfalt svar við því hvað hefði valdið því að Viðreisn hefði þrátt fyrir þetta myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. „Það var því augljóst að framsóknarflokkarnir þrír hefðu meirihluta og höfðu örugglega mikla löngun til þess að mynda stjórn saman þá þegar um óbreytt ástand eins og þau gerðu ári síðar. Þegar þannig háttar er stærðfræðilega ómögulegt að mynda meirihlutastjórn án eins þessara stöðnunarflokka.“
Eftirsjá af Þorsteini
Þorgerður Katrín mun að öllum líkindum verða áfram formaður flokksins. Af orðum hennar í nýlegu viðtali við Kjarnann liggur fyrir hvert hugur hennar stefnir eftir næstu kosningar. „Við þurfum fólk sem raunverulega meinar það þegar það talar um gagnsæi og um að miðla upplýsingum og situr ekki á skýrslum rétt fyrir kosningar. Þess vegna þarf að vera þungi og alvara af okkar hálfu sem erum í stjórnmálum því við getum breytt hlutunum. Það þýðir ekki að tipla á tánum í kringum þetta gamla. Það gamla varð til út af ákveðinni ástæðu og allt í góðu með það en í dag er annar tími sem gerir kröfur og setur ábyrgð á herðar okkar sem eru í stjórnmálum að breyta – og uppfæra.“
Viðreisn varð fyrir mikilli blóðtöku þegar Þorsteinn Víglundsson, varaformaður flokksins, ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum fyrr á þessu ári og hverfa aftur til starfa í atvinnulífinu. Þorsteinn var virtur þvert á pólitískar línur og þótti afar hæfur stjórnmálamaður með mikla þekkingu á efnahagsmálum. Daði Már Kristófersson, fráfarandi forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í hagfræði, hefur þegar ákveðið að gefa kost á sér í varaformannsembættið í stað Þorsteins á aðalfundi Viðreisnar sem fram fer í haust. Ekki er ósennilegt að einhver af núverandi þingmönnum flokksins muni sækjast eftir því embætti þegar nær dregur.
Reykjavíkurstjórn fyrsti valkostur
Samandregið þá sýna fjölmörg samtöl Kjarnans við áhrifafólk innan þessarra þriggja flokka fram á að þar sé fyrsti kostur í stjórnarmyndun eftir komandi kosningar ríkisstjórn sem geti ráðist í kerfisbreytingar, t.d. í sjávarútvegi og stjórnsýslunni. Þar er horft til þess að Samfylking, Píratar og Viðreisn myndi undirstöðuna í slíkri ríkisstjórn með fjórða flokki ef með þarf. Þar eru Vinstri græn efst á blaði, að minnsta kosti hjá Samfylkingu og Pírötum, og þá með Katrínu Jakobsdóttur áfram sem forsætisráðherra.
Samstarf þessarra fjögurra flokka í meirihlutastjórninni í Reykjavíkurborg hefur gengið vel og því er talað um að „Reykjavíkurstjórn“ sé raunhæfur möguleiki eftir næstu kosningar. Slík gæti, að mati viðmælenda Kjarnans, orðið upphaf að svipuðum breytingum og urðu í Reykjavíkurborg 1994 þegar R-listinn komst að völdum sem flokkarnir sem stóðu að honum hafa að mestu haldið alla tíð síðan.
Það er þó nægur tími í kosningar og ýmislegt sem getur breyst þangað til að atkvæðin verða talin upp úr kössunum. Ofangreindum flokkum hefur gengið frekar illa í að halda í fylgi sitt í aðdraganda síðustu kosninga á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru þekktar kosningavélar.
Þeir rótgrónu flokkar kunna íslenskar kosningar betur en nokkur annar og geta leitað til fjölmargra reyndra einstaklinga til að hjálpa til við að næla í lykilatkvæði sem tryggja aðgang að áframhaldandi völdum á lokaspretti kosningabaráttu.
Þá eru ótaldir hinir flokkarnir sem mælast með umtalsvert fylgi, en stærri flokkarnir vilja helst ekki þurfa að starfa með í ríkisstjórn. Þar ber fyrst að nefna Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann sýndi það í kosningunum 2017 að þar fer afl sem veit vel hvert það getur sótt atkvæði, í endurreisn sinni eftir Klaustursmálið að þar fer hópur stjórnmálamanna með að minnsta kosti níu líf og í orkupakkamálinu að hann býr yfir leikjafræðigetu til að blása upp eitthvað sem höfðar til kjarnakjósenda hans upp í risamál. Flokkurinn var kominn á gott flug fyrir COVID-19 faraldurinn og fékk sína bestu fylgismælingu hjá Gallup frá upphafi í könnun sem birt var í byrjun mars. Síðan hefur fylgið hins vegar dalað hratt og tilraunir til að gera andstöðu gegn borgarlínu og samgönguúrbótum á höfuðborgarsvæðinu, með tilheyrandi málþófi og pólitískum látbragðsleik, gekk illa upp. Fylgi hans mælist nú frá átta prósentum og upp í 10,2 prósent, eða að jafnaði vel undir kjörfylgi.
Vandamál Miðflokksins er einnig að það vill enginn annar flokkur vinna með honum nema hluti íhaldssamasta arms Sjálfstæðisflokksins. Það gæti þó breyst ef flokkurinn finnur nýtt orkupakkamál til að blása upp á réttum tíma í aðdraganda kosninga þar sem Miðflokkurinn getur stillt sér upp sem varðmanni íslensks sjálfstæðis gegn ásælni óbilgjarna útlendinga líkt og Sigmundi Davíð hefur tekist svo vel að gera nokkrum sinnum á sínum stjórnmálaferli, t.d. í Icesave, átökum við erlenda kröfuhafa og síðast í áðurnefndu orkupakkamáli. Þá gæti fylgið rokið hratt upp á ný, og mögulega búið til nýja ríkisstjórnarmöguleika. Kannanir á þessu kjörtímabili hafa þó sýnt að þegar Miðflokkurinn bætir við sig, þá er það helst á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Slík staða vinnur því helst með þeim flokkum stjórnarandstöðunnar sem horfa til myndunar á Reykjavíkurstjórn, enda dregur fylgistap Sjálfstæðisflokks verulega úr líkunum á því að núverandi ríkisstjórn eigi einhverja möguleika á að sitja áfram að loknum kosningum.
Ekki hægt að vanmeta Sósíalistaflokkinn eða Flokk fólksins
Sósíalistaflokkur Íslands sýndi það í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2018 að þar fer afl sem ætlar sér mikið í íslenskum stjórnmálum. Með því að vera staðsett til vinstri við Vinstri græn þá mun Sósíalistaflokkurinn höfða vel til vinstra fólks sem telur Vinstri græn hafa svikið vinstrimálstaðinn með stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Árangur Sósíalistaflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, þegar hann fékk 6,4 prósent atkvæða og Sanna Magdalena Mörtudóttir var kjörin í borgarstjórn, sýndi umtalsverða pólitíska getu. Í þeim kosningum fékk flokkurinn næstum 40 prósent fleiri atkvæði en hinn vinstri flokkurinn, Vinstri græn.
Sósíalistaflokkurinn mældist með 3,5 til 3,8 prósent fylgi í nýjustu könnunum Zenter, MMR og Gallup og næðu líkast til ekki inn manni á því fylgi. Vert er þó að taka fram að kosningabarátta flokksins í sveitarstjórnarkosningunum þótti einkar vel heppnuð og áhrifarík og skilaði umtalsverðri fylgisaukningu. Í ljósi þess að ekkert liggur enn fyrir um t.d. hverjir muni manna lista Sósíalistaflokksins í þingkosningunum á næsta ári þá má ekki útiloka að flokkurinn eigi nóg inni.
Flokkur fólksins hefur átt erfitt fyrsta kjörtímabil á þingi eftir að hafa átt ótrúlegan lokasprett í síðustu kosningum sem skiluðu honum fjórum þingmönnum. Tveir þeirra voru reknir úr flokknum eftir Klausturmálið og eftir sitja Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson. Lítið skipulagt flokksstarf virðist vera í gangi sem hægt yrði að byggja á í næstu kosningum. Það má hins vegar ekki vanmeta Flokk fólksins. Honum tókst að ná inn manni í borgarstjórn 2018 og Inga Sæland hefur gott lag á því að tala til efnaminni kjósenda, oft með popúlískum áherslum.
Ef einhver þessara þriggja flokka: Miðflokksins, Sósíalistaflokksins eða Flokks fólksins tekst að taka sér mikið pláss í næstu Alþingiskosningum, þá gæti það leitt til þess að áætlanir sitjandi stjórnarflokka, eða þeirra sem skilgreina sig sem frjálslynd umbótaöfl, um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út, fari út um þúfur. Og að gripa verði til málamiðlana sem áður hefði þótt óhugsandi til að mynda starfhæfa ríkisstjórn.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars